Endað á himnum

Endað á himnum

Andspænis stærstu spurningunum, viðfangsefnum tilvistar okkar og mestu umhyggju stöndum við öll í sporum heiðingjans, höfðingjans sem guðspjallið segir frá. Á sumum sviðum þurfum við að játa takmörk okkar og leggja vanda okkar og vonir í hendur Guðs sem gefur okkur lífið og tekur það aftur.
Mynd
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
26. janúar 2022

Í inngangi að tímamótaverki sínu, Saga tímans, minnist eðlisfræðingurinn Stephen Hawking á þá óvísindalegu tilgátu kollega sinna að með hverri stærðfræðijöfnu sem þeir birta í ritum sínum, reikni þeir með að lesendahópurinn skreppi saman um helming. 

 

Gilda sömu lögmál þegar minnst er á faraldurinn sem nú geysar? Er fólk ekki margbólusett gegn þeirri umræðu allri, jafn mótsagnarkennd og undarleg sem hún er? Þó verður ekki hjá því komist að setja hana í samband við guðspjallatextann sem lagt skyldi út af í kirkjum landsins á morgun.

 

Þar er sagt frá lækningum en innihaldið leynir á sér. Á síðum Biblíunnar eru ekki stærðfræðiformúlur eins og hjá eðlisfræðingunum en þar er þó sitthvað, margslungið og margrætt. Þar eru engar tilviljanir. Hvert orð er valið af kostgæfni, hver frásögn er úthugsuð svo lesandinn verður aldrei svikinn af því að kafa þar undir yfirborðið. Ritningin sem slík hefur staðist orrahríð samfélagsbreytinga og -byltinga í aldanna rás. Heimsveldi rísa og hrynja en orð Guðs stendur áfram og talar til okkar á hverjum tíma. Enn í dag megum við hugleiða boðskapinn. Og já, hann á erindi í orðræðu dagsins. 

 

Í knappri frásögn segir frá því þar sem reynir í tvígang á lækningarmátt Jesú. Meginatriðið er þó ekki lækningarmátturinn heldur þau sem öðluðust bót meina sinna. Hvað fólk var það?

 

Hinn líkþrái og hundraðshöfðinginn

 

Sá fyrri var líkþrár sem merkir að hann var með sýnileg kaun eða útbrot á líkama sínum. Lögmál gyðinga bauð að slíkum einstaklingum væri haldið utan við samfélagið. Ekki bara í sóttkví, heldur var þeim útskúfað. Jesús bauð manninum til samfélags, læknaði og til að undirstrika að hann hefði endurheimt stöðu sína og réttindi sagði hann honum að fara og sýna sig prestunum. Þeir skyldu votta hann hreinan.

 

Sá síðari var rómverskur hundraðshöfðingi. Hann sem tróndi ofar stigveldis hins gyðinglega samfélags kom til Jesú máttvana með von sína. Sonur hans var lamaður og faðirinn átti engin ráð sem duga. Þegar Jesús bregst vel við, býðst til að koma og lækna þá svarar sá rómverski:

 

„Drottinn, ég er ekki verður þess að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð og mun sveinn minn heill verða. Því að sjálfur er ég maður sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum og ég segi við einn: Far þú, og hann fer, og við annan: Kom þú, og hann kemur, og við þjón minn: Ger þetta, og hann gerir það.“ (Mt.8:5)

 

Jesús lofaði trú valdsmannsins sem var vitaskuld talinn vera heiðinn í þessu samfélagi og bar hana saman við þá tortryggni sem boðskapur hans mætti meðal sinna eigin trúbræðra. Og hann leiðir okkur með mætti orðs og hugsunar áfram úr aðstæðunum þannig að lækningafrásögnin felur einnig í sér útleggingu á því að sönn trú sé ekki í einkaeign þjóðar, ríkis eða trúfélags þegar allt kemur til alls. Hún er von í ráðþrota aðstæðum.

 

Vírus sem er kominn til að vera?

 

Við ættum að geta sett okkur í spor þeirra sem eiga engin svör við líkamlegum meinum. Pestin sem nú herjar minnir okkur á þau takmörk sem við þurfum að lúta, bæði sem samfélag og einstaklingar. Mörg búa við þau kjör að mega ekki fara út úr húsi dögum og jafnvel vikum saman og hagkerfin stynja undan samdrættinum. Þetta er vanmáttartíð. Og vanmátturinn þreytir okkur, enda höfum við vanist því að hvívetna fáist svör við öllum spurningum, lausnir við hverjum vanda. Við viljum vita en ekki bara vona.

 

Við stöndum í miðjum átökum vísinda og náttúru sem ekki sér fyrir endann á. Við fylgjumst með glímu skipulagðrar hugsunar hæfustu vísindamanna við tilviljanakenndur stökkbreytingar fyrirbæris sem er á mörkum þess að vera lífvera. Rimman er langvinnari en við höfðum áður talið. Mögulega mun þessi vírus móta líf okkar og umhverfi um ókomna tíð.

 

Æðruleysi og hlustun

 

Hvað felst í orðum hundraðshöfðingjans: „Seg það aðeins með orði og mun sonur minn heill verða“? Og af hverju leiðir svar Jesú okkur upp til himnanna?

 

Er það að endingu það sem heimsfræðingar á borð við téðan Hawking glíma við í rannsóknum sínum og gátum? Er ekki lykill allrar farsældar fólginn í því að játa takmörk okkar og sýna auðmýkt gagnvart því sem er stærra og meira en við sjálf?

 

Andspænis stærstu spurningunum, viðfangsefnum tilvistar okkar og mestu umhyggju stöndum við öll í sporum heiðingjans, höfðingjans sem guðspjallið segir frá. Á sumum sviðum þurfum við að játa takmörk okkar og leggja vanda okkar og vonir í hendur Guðs sem gefur okkur lífið og tekur það aftur. Játning hinnar trúuðu manneskju grundvallast á þeirri auðmýkt sem þar birtist. Þegar við öðlumst hana getum við jafnvel borið  betra skynbragð á þau viðfangsefni sem við megnum að vinna á með skynsemi okkar og dómgreind. En gagnvart hinu þá eru völd okkar engin og okkar eigin máttur lítils megnugur.

 

Hin trúaða manneskja flytur játningu sína inn í þær aðstæður og segir: Mæl þú aðeins eitt orð og allt mun verða heilt í lífi mínu. Og hlustar svo. 

(Mt. 8.1-13)


Hugvekja þessi birtist í Morgunblaðinu 23. janúar 2022