Orð sem skapa

Orð sem skapa

Eitt af áhrifamestu verkum Jónu Hlífar geymir einmitt mikla sögu. Það sem virðist vera saklaus veðurfarslýsing reynist vera harmleikur, sjálfsvíg verkalýðsleiðtoga norður á Siglufirði eftir hatrömm átök við útgerðarmenn á tíma kreppunnar. Sagan ætti að standa þarna í framhaldinu en listamaðurinn lætur nægja þessi inngangsorð. Þau marka endi á lífssögu og upphaf mikilla þrenginga, fyrir aðstandendur og samfélagið allt. Já, dauðinn á sér margar birtingarmyndir.

Vorið 1997 var ég vígður prestur á Ísafirði. Kirkjan var nýreist og þótt miklar deilur hefðu á sínum tíma staðið um útlit byggingarinnar höfðu heimamenn flestir jafnað sig og segja má að nú hafi tekið við nýr áfangi í umræðum um hönnun þessa helgidóms.


Fuglar himins

 

Altarisveggurinn var mikil víðátta, enn stærri en þessi hér, og nú skyldi fenginn listamaður til að mála á hann altaristöflu. Menn sáu fyrir sér að mynd sem sýndi Skutulsfjörðinn, Eyrarfjallið, Kubbann og Kirkjubólshlíðina og að Frelsarann væri þar einhvers staðar líka, á gangi úti á hafinu eða að miðla ráðum til sjómanna.

 

Svo var fenginn til ráðgjafar dr. Gunnar Kristjánsson en hann er sá kirkjunnar maður sem hvað mest hefur lagt sig fram um að efna til samtals við framsækna listamenn. Gunnar flutti okkur fyrirlestur um trúarlega myndlist og kynnti þar fyrir fundarmönnum helstu fulltrúa nútímamyndlistar, Andy Warhol, Jackson Pollack og fleiri, auk fulltrúa íslenskra módernista. Þetta hafði þau áhrif að sóknarnefndin tók nýja stefnu og var framsæknum listamönnum boðið að gera tillögu að altarisverki í Ísafjarðarkirkju.

 

Hlutskörpust varð Ólöf Nordal með verkið Fuglar himins, sem er í raun sveimur af leirspörfuglum sem eins og, fljúga til móts við kirkjugesti. Þar vísar hún í helgisagnir bæði úr kristni og íslam. Hún opnaði leirvinnustofu í bænum þar sem sóknarfólki gafst kostur á að vinna hvert sinn leirfugl og svo voru þeir hengdir upp á altarisvegginn.

 

Löngu síðar þegar ég var farinn að þjóna við Keflavíkurkirkju buðum við Ólöfu að tala á málþingi um kirkjulist og fjallaði hún um verk þetta og tilurð þess. Mér er í fersku minni erindi hennar. Hún hágrét meðan hún varpaði upp myndum af ungum og öldnum Ísfirðingum sem mótuðu fuglana úr leir. Já, ég get ekki orðað það betur. Tárin hrundu niður hvarma hennar þegar hann sagði frá þessum gjörningi.

 

Af hverju, veit ég ekki alveg. Eða hvernig getum við túlkað þessar tilfinningar? Leiddi listamaðurinn hugann að því að sjálft samfélag þetta var á þeim tíma í bráðri hættu? Náttúruhamfarir höfðu höggvið djúp skörð í hópinn, atvinnuvegir voru í uppnámi, ungt fólk flutti í burtu. Blikur voru á lofti og margt benti til þess á þeim tíma að byggðin ætti sér ekki lang framtíð. Þetta gaf verkinu enn dýpri merkingu. Leirinn er varanlegt efni en mannlífið er síbreytilegt.


Myndirnar eru orð

 

Þessi minning kom upp í huga minn nú þegar ég hugleiddi verk Jónu Hlífar Halldórsdóttur sem við ræðum svo um hér á Torginu. Ef verk Ólafar er óður til samfélags sem á undir högg að sækja getum við dregið svipaðar ályktanir um óð Jónu Hlífar til orðanna. Hún varpar hér upp textum, íslenskum setningum og textabrotum sem hún hefur sótt í annála. Og hún sýnir okkur svipmyndir af hinum mörgu blæbrigðum tungunnar, ekki síst í þeim verkum sem endurspegla orðin sem við eigum um lífið og dauðann.

 

Myndir hennar eru orð, og þar ræður ekki tilviljun för. Nei, hún sækir í sjóði textasmiða sem skráðu vandlega niður atburði og tíðir, stórbrotna en einnig hversdagslega. Skrásetjarar hafa verið börn síns tíma, kjörin voru knöpp, aðbúnaður lakur á okkar mælikvarða, þröngt í búi og já, íslenskan er ekki örlát á samheiti við sögnina að lifa. Það dregur Jóna Hrönn fram í eftirminnilegu verki – að tóra, þreyja af... Dauðinn á sér fleiri hliðstæður í málinu okkar.

 

„Því rýrari verður í aski / því dýrari háttur á tungu.“ Svo orðar Jóhannes úr Kötlum þá sístæðu hvernig skorturinn getur leitt af sér auðlegð. Fátækt samfélag var ríkt að orðum og andagift. Og á móti geta tímalaus verðmæti horfið, drukknað í klið velsældar. Gróið samfélag á landsbyggðinni stendur höllum fæti. Og íslenskan má sín lítils á ört stækkandi markaðstorginu þar sem önnur tungumál hafa miklu meira vægi.

 

Verk Jónu Hlífar um það hversu tungumálið er samofið tilvistinni. Hver erum við ef við glötum móðurmálinu? Hvar erum við ef komandi kynslóðir eru ólæsar á sögurnar, ljóðin, frásagnirnar?

 

Slíkt leiðir ekki eingöngu af sér fátækt þegar kemur að því að tjá hugsanir og tilfinningar. Það er að sama skapi ógn við frelsið. Orwell lýsti því vel í sinni dystópísku framtíðarsýn hvernig einræðið fækkaði skipulega orðunum sem fólkið kunni og notaði. Það reyndist gagnleg leið til að traðka niður alla frjálsa hugsun. Því orða-forði er eins og nafnið gefur til kynna, ríkidæmi sem leiðir af sér sjálfstæði og nýsköpun.


Orð sem skapa

 

Undirtitill sýningarinnar ber þetta með sér, því orðin eru ekki aðeins lýsing á veruleikanum, þau móta hann og skapa. Þannig getur „Orðið“ einnig verið háttur af sögninni „að vera“ og hugurinn leitar óðara á síður Biblíunnar. „Í upphafi varð Orðið“ segir þar í ávarpi guðspjallamannsins Jóhannesar. Og sjálf sköpunin kallast á við þá hugsun að með hugtökunum verði til hinn skiljanlegi heimur. Þannig hefst aðgreiningin mikla í sköpunarsögunni með því að Guð mælir fyrir um tilvist þeirra fyrirbæra sem þar eru mótuð.

 

Hvítasunnuna er hátíð orðanna. Þá minnumst við þess þegar postularnir gátu talað og skilið aðrar þjóðir. Við getum í samhengi hinna tveggja stórhátíðanna, kallað hana sumarhátíð kristninnar. Jú, við höldum páska að vori og jólin eru vetrargleðin. Og nú er sumarið gengið í garð.

 

Frásögnin er eins og stefnuyfirlýsing á þessum upphafsreit kirkjunnar. Það er ekki að undra að hún fjallar um tungumálið, orðin sjálf sem kristindómurinn hampar svo mjög. Og þó ekki í ugg yfir því hvernig komið er fyrir tungumálinu, heldur hefst starf kirkjunnar á því að liðsmenn hennar geta skilið það sem framandi þjóðir hafa að segja. Í tungumálinu felst jú viðleitnin til að setja sig í spor og umfaðma fjölbreytnina sem er svo ríkur hluti af sköpuninni.

 

Það er í þessum anda þegar Biblían flytur okkur sögur sem ögra okkur og veita innblástur. Þær tengja okkur við heiminn á alveg sérstakan hátt. Við mennirnir erum gagnteknir af sögum. Við verjum stórum hluta tíma okkar í þær, eyðum miklu í að láta þær leiða okkur eftir einhverjum stígum inn á nýjar brautir. Ef sögumönnum tekst að birta eitthvað sem ekki er til staðar, teygja veruleikann og beygja eftir kúnstarinnar reglum, þá vekur það síður en svo reiði okkar og vandlætingu. Nei, við hömpum slíkri iðju, hvort heldur þar eru haganlega saminn texti eða tæknibrellur á skjá.


Sögur

 

Eitt af áhrifamestu verkum Jónu Hlífar geymir einmitt mikla sögu. Það sem virðist vera saklaus veðurfarslýsing reynist vera harmleikur, sjálfsvíg verkalýðsleiðtoga norður á Siglufirði eftir hatrömm átök við útgerðarmenn á tíma kreppunnar. Sagan ætti að standa þarna í framhaldinu en listamaðurinn lætur nægja þessi inngangsorð. Þau marka endi á lífssögu og upphaf mikilla þrenginga, fyrir aðstandendur og samfélagið allt. Já, dauðinn á sér margar birtingarmyndir.

 

Leirinn vestur á Ísafirði mætir messugestum í kirkjunni og blessunarlega rættust ekki hrakspár um yfirvofandi endalok þess samfélags. Allt tekur þó enda um síðir. Horfnir menningarheimar skilja stundum lítið eftir fyrir fræðimenn að greina og túlka. Stundum eru leirtöflur með orðum það eina sem hönd er festandi á.

 

Hvað verður um orðin okkar? Svona spyrjum við okkur gjarnan þegar við skiltin í kringum okkur eru á ensku, afgreiðslufólkið talar ekki íslensku, orðaforði barnanna skreppur saman. Hvað köllum við þá þróun? Við getum í það minnsta ekki afmarkað hana við okkur sjálf sem þjóð, nei hún er miklu víðtækari. Í hvert skipti sem tungumál glatast, verður heimurinn fábrotnari, lífið snauðara og tilvistin rýrnar sem því nemur.

 

Sumarhátíð kirkjunnar, hátíð heilags anda er litrík og auðug að fjölbreytni. Sá heimur sem Jesús talar fyrir er aldingarður hins margbreytilega þar sem allir fá að njóta sín, hver á sínum forsendum og fylgjendur hans ættu að temja sér viðlíka afstöðu.

 

Þetta túlkar höfundur Postulasögunnar með því að lærisveinarnir öðlast skilning á framandi tungumálum. Og þeir fóru í framhaldinu tómhentir um byggðir hins þekkta heims, fátækir í hinum efnislega skilningi en ríkir að því sem þeir gátu tjáð með öðrum. Þeir áttu sögurnar og orðin sem fólu í sér sköpunarkraft til að breyta heiminum.