Niður úr trénu

Niður úr trénu

Hvað er kristin trú og til hvers leiðir hún? Trúin vekur með okkur vonir og hún styrkir siðferði okkar og eykur kærleika okkar til systra okkar og bræða, til samferðafólksins. Eitt megineinkenni kristinnar trúar er að hún sameinar fólk. Sá eða sú, sem frelsast og tekur kristna trú, hverfur ekki inn í sjálfa sig heldur frelsast á vit annarra. Kristin trú er samfélag, hún er samfélag okkar við Guð og við hvert annað.
Mynd

2.sd.e.þrett. - B röð 2023 – Predikun á Hlíf

Niður úr trénu

Lexía: 1Sam 3.1-10

Sveinninn Samúel gegndi nú þjónustu við Drottin undir handleiðslu Elí. Á þessum tíma var orð Drottins sjaldgæft og sýnir fátíðar.

Einhverju sinni bar svo við að Elí lá og svaf þar sem hann var vanur. Hann var hættur að sjá því að augu hans höfðu daprast. Lampi Guðs hafði enn ekki slokknað og Samúel svaf í musteri Drottins þar sem örk Guðs stóð.

Þá kallaði Drottinn til Samúels og hann svaraði: „Já, hér er ég.“ Hann hljóp síðan til Elí og sagði: „Hér er ég, þú kallaðir á mig.“ En hann svaraði: „Ég kallaði ekki, farðu aftur að sofa,“ og Samúel fór að sofa. Drottinn kallaði þá aftur: „Samúel!“ og Samúel reis upp, gekk til Elí og sagði: „Hér er ég, þú kallaðir á mig.“ En hann svaraði: „Ég kallaði ekki, sonur minn, farðu aftur að sofa.“

En Samúel þekkti Drottin ekki enn þá og orð Drottins hafði ekki enn opinberast honum. Þá kallaði Drottinn til Samúels í þriðja sinn og hann reis upp, gekk til Elí og sagði: „Hér er ég, þú kallaðir á mig.“ Nú skildi Elí að það var Drottinn sem var að kalla til drengsins. Elí sagði því við Samúel: „Farðu að sofa. En kalli hann aftur til þín skaltu svara: Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir.“ Samúel fór og lagðist fyrir á sínum stað.

Þá kom Drottinn, nam staðar andspænis honum og hrópaði eins og í fyrri skiptin: „Samúel, Samúel!“ Samúel svaraði: „Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir.“

Pistill: Róm 1.16-17

Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs sem frelsar hvern þann mann sem trúir, Gyðinginn fyrst og aðra síðan. Réttlæti Guðs opinberast í því fyrir trú til trúar eins og ritað er: Hinn réttláti mun lifa fyrir trú.

Guðspjall: Lúk 19.1-10

Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. En þar var maður er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. Langaði hann að sjá hver Jesús væri en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum því að hann var lítill vexti. Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. Og er Jesús kom þar að leit hann upp og sagði við hann: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“

Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. Þeir er sáu þetta létu allir illa við og sögðu: „Hann þiggur boð hjá bersyndugum manni.“

En Sakkeus sneri sér til Drottins og sagði við hann: „Drottinn, helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.“

Jesús sagði þá við hann: „Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu enda ert þú líka niðji Abrahams. Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.“

I.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.

Tollheimtumenn voru víst fremur illa þokkaðir á dögum Jesú.  Fólk leit þá hornauga af því þeir innheimtu skatta fyrir Rómarveldi, sem hafði hernumið land Gyðinganna, Ísrael.  Svo fór það orð einnig af tollheimtumönnum að þeir væru ranglátir því þeir innheimtu hærri tolla en þeim bæri, til að stinga einhverju í eigin vasa.  Sakkeus virðist hafa verið þannig maður.  Hann var aurasál.  En Jesús sá eitthvað við manninn og kallaði hann niður úr trénu.  Og eftir samskipti þeirra á milli þá tók Sakkeus sinnaskiptum og ákvað að gefa fátækum helming eigna sinna.  Kynni Sakkeusar af Jesú og boðskap hans umbrreyttu lífssýn hans svo mjög að hann gaf helming auðæva sinna.

Fólk, sem kemst aftur til trúar síðar á ævinni, fólk, sem snýr aftur til sinnar gömlu barnatrúar, upplyfir oft gjörbyltingu á lífi sínu.  Það fær nýja sýn á tilveruna.  Kristin trú og íhugun getur haft slík róttæk áhrif á fólk.  Og er þá talað um að fólk taki afturhvarfi eða taki trú á ný.

Sagan af Sakkesusi er svolítið merkileg.  Hún dregur upp mynd af manni, sem klifrar upp í tré til að sjá Jesú.  Það er greinilegt að Sakkeus er forvitin um Jesú.  Kannski fann hann fyrir einhverjum tómleika í tilveru sinni.  Kannski fannst honum vanta eitthvað í líf sitt þrátt fyrir öll auðævin.

Annað, sem er athyglisvert við söguna er að Sakkeus er illa þokkaður.  Í augum almennings er hann bersyndugur.  Hann er einangraður maður, sem fáir vilja heimsækja eða hafa nokkuð saman við að sælda.  Þess vegna verður mannfjöldinn svo undrandi á því að Jesús skuli virkilega vilja heimsækja þennan vesæla mann og aurapúka.  En Guð elskar allar manneskjur.  Það sýnir þessi saga.

Greinilegt er að sinnaskipti Sakkeusar hafa þau áhrif að hann vill hjálpa samborgurum sínum, aðstoða þá, sem minna mega mín.  Eftir samtal sitt við Jesú þá snýr Sakkeus aftur út í samfélagið gjörbreyttur maður.  Hann vill nú eiga frið við aðra menn, vera einn af fólkinu í Jeríkó, eiga samfélag við aðra.

II.

Það eru meira en þúsund ár síðan að Þorgeir Ljósvetningagoð skreið undir feldinn, hugsaði málið og kvað svo upp úr að á Íslandi skyldu vera ein lög og einn siður svo að friður ríkti í samfélaginu.  Þessi niðurstaða Þorgeirs er svolítið merkileg því hann var heiðinn goði.  Hún er þó ekki einsdæmi.

Hjá munkinum Bede, sem skrifaði um kristnitöku Bretlands árið 731, er að finna athyglisverða frásögn.  Hann ritaði þar um atburði, sem urðu einni öld áður þegar Edwin konungur í Northumbria kallaði saman ráðgjafa sína til að svara því hvort þeir ættu að meðtaka Krist sem sinn guð og frelsara.  Og þá gerðist það merkilega að foringi hinna heiðnu hofgoða mælti með siðaskiptum líkt og Þorgeir gerði síðar á Alþingi.  Rök hins keltneska goða fyrir siðaskiptum voru athyglisverð.  Hann hvatti samlanda sína til að taka við kristni því hún veitti upplýsingar um það, sem á undan færi og einnig það, sem mundi koma á eftir.  Í mjög ljóðrænum texta Bedes líkir goðinn lífi mannsins við það þegar setið er í stórum sal í veislu um vetur og fugl flýgur inn í salnum og svo út hinum megin.  Fuglinn kemur inn úr myrkinu og kuldanum og flýgur augnabliki síðar út í myrkrið aftur.  Þannig sé mannlífið eins og andrá eða blik.  Og ef þessi nýi siður, kristni, geti veitt mönnum svör við því, sem gerist á undan og eftir, þá sé rétt að hyggja betur að hinum nýja sið, sagði goðinn.

Í raun koma fram í máli goðans hinar mjög svo tilvistarlegu spurningar um hvaðan kem ég, hver er ég og hvert fer ég að loknu þessu lífi.  Og keltneski goðinn taldi að kristnin hefði svör við þessu.

Ég held að ástæða þess að kristnitakan á Íslandi hafi gengið svona greiðlega fyrir sig sé sú að Íslendingar hafi viljað tengjast umheiminum.  Þeir hafi viljað eiga samleið með Noregi og öðrum kristnum þjóðum Evrópu.  Í stað þess að velja staðbundin átrúnað sinna ættmenna þá hafi Íslendingar ákveðið að taka hinu nýju trú og verða hluti af heild.  Þetta er reyndar oft sagt um fermingarbörn; að þau fylgi bara fjöldanum.

En stundum getur verið gott að vera í mannfjöldanum.  Jesús var í mannfjöldanum í Jeríkó og hann kallaði á Sakkeus:  Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.

III.

Sakkeus var vinafár og einmana.  Og hann húkti uppi í tré.  Hann var ekki velkominn inn í mannfjöldann.  Enginn vék úr vegi fyrir honum eða vildi færa sig til hliðar svo hann, litli maðurinn gæti séð Jesú.

Ætli það séu einhverjir Sakkeusar, sem húki einmana uppi í tré í nútímanum?  Þegar maður klifrar upp í tré þá má oft sjá víða yfir  hús og umhverfi.  Við nútíma Íslendingar erum svo heppin að eiga flest slíkt tré, sem veitir okkur yfirsýn um allan heim.  Ég held á einu slíku tré.  Þetta er snjallsíminn minn.  Með honum get ég talað og horft framan í dóttur mína í Hollandi.  Ég get fylgst með því, sem er að gerast í Indlandi.  Og líka séð hvernig færðin er á veginum á Steingrímsfjarðarheiði.  Ég get meira að segja sett bílinn minn í gang og hitað hann upp meðan ég drekk morgunkaffið.  Og ég er viss um að innan skamms muni koma app í símann þannig að ég geti ýtt á það og þá fari kaffikannan í eldhúsinu af stað.  Með svona tré í hendinni þá getur maður allt.  Einn sími getur veitt manni meiri tónlist, meiri myndlist, meiri afþreyingu en hinn auðugi Sakkeus gat keypt fyrir alla sína peninga.  Meira að segja Loðvík 14., Le Roi Soleil, Sólkonungurinn sjálfur átti ekki svona galdratæki eins og ég hef í höndunum.

En margur verður af aurum api.

Ég ætla að segja ykkur brandara:  Tveir mávar horðu á fuglahræðu.  Þá sagði annar þeirra:  Hvernig veistu að þetta er fuglahræða en ekki maður?  Þá sagði hinn mávurinn:  Það er augljóst, hann heldur ekki á síma!

Alltaf þegar ég sé fólk í dag þá heldur það á síma.  Á veitingastaðnum situr par og gónir á símana sína í stað þess að tala saman.  Heima liggur unglingurinn uppi í rúmi og strýkur símanum sínum.  Síminn er mórberjatréð, sem Sakkeus klifraði upp í.

III.

Hvað er kristin trú og til hvers leiðir hún?  Trúin vekur með okkur vonir og hún styrkir siðferði okkar og eykur kærleika okkar til systra okkar og bræða, til samferðafólksins.  Eitt megineinkenni kristinnar trúar er að hún sameinar fólk.   Sá eða sú, sem frelsast og tekur kristna trú, hverfur ekki inn í sjálfa sig heldur frelsast á vit annarra.  Kristin trú er samfélag, hún er samfélag okkar við Guð og við hvert annað.

Sjáið hvað gerðist með hann Sakkeus þegar hann kom niður úr trénu og hafði verið með Jesú.  Hann vildi strax sættast við samfeðamenn sína og rétta náunganum hjálparhönd.

Í þriðju grein trúarjátningarinnar þá er fjallað um þetta.  Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf.  Kristin trú er samfélagsafl.  Hún breytir þeim samfélögum, þar sem hún festir rætur, af því að boðskapur hennar breytir þeim, sem honum kynnast.

Við trúum því í alvöru að það að koma saman til guðsþjónustu og syngja saman gömlu góðu sálmana, biðja saman og hlýða á guðs orð muni á einhvern hátt gera okkur að heilsteyptari og betri manneskjum.  Við trúum á samfélag heilagra, samfélag okkar við Guð og aðrar manneskjur.

Spurningin er hvort nútíma manneskjan vilji koma niður úr sínu tré og verða hluti af hinni heilögu almennu kirkju.

Kirkjan, líkt og Jesús, lítur upp og kallar upp í tréð:  Komdu!  Hið íslenska Biblíufélag hefur látið útbúa sérstakt app, sem hægt er að setja í símann sinn og þannig hefur fólk aðgang að Biblíunni og getur lesið eða hlustað á hana.  Stundum gerist það að kirkjan fer upp í tréð til að ná í fólkið.

Það er svo mikilvægt í nútímanum að ná til fólks.  Kirkjan hefur góðan boðskap fram að færa.  Vonandi blómgast kristin kirkja og kristin menning á komandi tíð.  Ég trúi því og ég vona það því ég held að kirkjan sé í almáttugri hendi Guðs.  Við njótum öll handleiðslu heilags anda.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda.  Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.  Amen.

Auglýsa:

Kaffiveitingar á eftir.  Við röðum upp borðum og hjálpumst að.

Postulleg blessun:

Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú, Drottni vorum og frelsara.  Amen.

Bænir

Drottinn Guð, blessaðu okkur með þínu eilífa ljósi.  Ljós föðursins gefi okkur visku.  Ljós Krists miskunni okkur.  Ljós heilags anda ummyndi okkur í ljós.  Kæri Guð gefðu það að við verðum öðrum manneskjum þitt ljós hér í heimi.  Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.

Lífsins faðir, eins og englarnir þjóna þér á himni, lát kirkju þína þjóna þér á jörðu.  Við minnumst sérstaklega íslensku kirkjunnar, blessa alla þjónustu á hennar vettvangi, ver með biskupum hennar, prestum og öðru starfsfólki.  Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.

Eilífi Guð, þú ert hinn sami þótt árin líði, ver hjá þeim, sem ellin bugar.  Þótt líkamar þeirra hrörni lát þá anda þeirra vera styrka í þér, að þau megni að bera með þolgæði þreytu og sorg, söknuð og vonbirðgi og að síðustu mæta efstu stundu æðrulaus í friði.  Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.

Almáttugi Guð, við biðjum fyrir Íslandi og íslensku þjóðinni.  Hjálpaðu okkur til að byggja hér upp réttlátt samfélag þar sem staðinn er vörður um hag lítilmagnans, þar sem fólk elskar náunga sinn og talar fallega til hans, þar sem umhyggja og heiðarleiki ríkja í samskiptum fólk.  Bænheyr það, fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.