Hvernig lest þú lífið?

Hvernig lest þú lífið?

Máttur dægurmenningar virtist þarna órafjarri, því ég sá á mjög mörgum blöðum hugtök eins og hvíld, kyrrð, frið, ró, næði, góðar tilfinningar, félagsskap.
fullname - andlitsmynd Bolli Pétur Bollason
05. apríl 2015
Flokkar

Gleðilega páskahátíð!

Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn!!

Ég lagði könnun fyrir fermingarbörn í síðustu fermingarsamveru vetrarins. Könnunina hef ég ekki lagt fyrir áður, datt það sisona í hug að þessu sinni. Þarna voru 4 spurningar á blaði. Sú hin fyrsta fjallaði um það hvað kæmi upp í huga þeirra þegar Jesús Kristur væri nefndur á nafn. Þar sá ég hugtök eins og Guð, sonur Guðs, Biblía, kirkja, góður maður.

Næst innti ég þau eftir því hvað þeim hafi þótt áhugaverðast í fermingarfræðslunni í vetur. Þar kom ég auga á atriði eins og litir kirkjuársins, sagan um Móse, trú í kvikmyndum, og heimsókn Agnesar biskups. Þriðja spurningin var til þess gerð að kanna athygli þeirra, hverju þau hefðu tekið eftir í messum vetrarins. Þar varð ég var við hugtök eins og prédikun, kór, altarisganga. Síðasta spurningin, en alls ekki sú sísta, fjallaði um það hvað fengi þau til að mæta áfram til kirkjunnar.

Við hana vil ég aðeins staldra hér, því viðbrögð unga fólksins vöktu þar eftirtekt mína. Einhver hefði kannski haldið að þar yrðu nefndar pizzur, sem óhjákvæmilega gera gott, eða meiri popptónlist í messum, meira fjör, Justin Timberlake og Bieber, og hvað þetta nú allt heitir, eða fleiri brandarar í prédikunum. Slíkar óskir var þó hvergi að finna.

Máttur dægurmenningar virtist þarna órafjarri, því ég sá á mjög mörgum blöðum hugtök eins og hvíld, kyrrð, frið, ró, næði, góðar tilfinningar, félagsskap. Nú þykist ég vita að fermingarhópurinn hér í prestakallinu búi einkum við þær aðstæður sem bjóða síst upp á mikinn ófrið eða æsing. Við erum að tala um tiltölulega rólegt sveitaprestakall með fámennum og kyrrlátum þéttbýliskjörnum.

En það er kannski einmitt það sem mótar viðbrögð þeirra við könnuninni, þau þekkja þá sælu og það öryggi sem fylgir kyrrðinni, og friðnum og vilja eiga það líka í kirkjunni sinni.

Það eru víst ekki bara græn tún, kindur á beit, heiðskír himinn, sem skapar kyrrðina, þó slíkt skemmi alls ekki fyrir. Það gera sömuleiðis góð og mikilvæg orð, góðar tilfinningar, hugsanir og félagsskapur, og trú. Ég er ekki að segja að kirkjan sé ein um að bjóða upp slíkt í samfélaginu, en þar ætti hún alls ekki að skemma fyrir svo við brúkum kristilega hógværð.

Kirkjan getur hæglega skapað stemmingu með fögrum altarismyndum, kirkjugripum, kertaljósum og tónum, en hún er umfram allt tilfinningalegt athvarf þar sem við heyrum þessa hvatningu hins upprisna Jesú Krists: ,,Óttast ekki, trú þú aðeins.”

Óttinn. Mönnum verður tíðrætt um hann og oft kemur hann fyrir í Biblíunni. Þar er hann þó jafnan lesinn sem virðing, það að óttast Guð er að virða Guð. En óttinn er merkilegt og vandmeðfarið afl.

Í dag setjum við þetta orð einkum í það samhengi að hræðast eitthvað. Í því sambandi segir Kristur að trúin yfirvinni óttann. Engillinn sem færði fólki gleðitíðindi hjálpræðissögunnar bað það fyrst af öllu að óttast ekki, heldur treysta og þjóna. Það virtist ljóslega vera lykillinn að farsæld, kyrrð og stuðningi við mikilvæg verkefni enda vitum við að til þess að geta stutt og notið stuðnings verðum við að treysta, traust er lífæð, það bindur saman fólk og skapar heilbrigð samfélög.

Það er svo undarlegt að þrátt fyrir að þú búir við kyrrlátar aðstæður, við frið og ró og næði að þá getur óttinn hæglega náð tökum á þér og stýrt hugsunum þínum og verkum. Það er t.d. ótti við eitthvað sem þú getur ekki almennilega hent reiður á, ótti við það sem þú telur að gæti mögulega gerst. Ótti við eitthvað sem gæti komið fyrir þig sem hefur komið fyrir aðra, ótti við að þú missir frá þér það eða þau sem þú elskar eða það sem þjónar hagsmunum þínum. Ótti við að þú bregðist á einhvern hátt t.a.m. skyldum þínum, ótti við að eitthvað sé ekki satt sem þú telur að sé satt og þú trúir staðfastlega á.

Ótti eftir hörmungaratburði eins og þann í frönsku ölpunum um daginn þar sem andlega veikum flugmanni tókst að stýra flugvél á 800km hraða á fjall með þeim afleiðingum að 150 manns fórst. Það er sannarlega vatn á myllu þeirra sem hræðast það að fljúga, þau sem hafa margsinnis vakið þann ótta í huga sér hvort maðurinn í flugstjórnarklefanum gæti hreinlega tjúllast við stýrið eða gert afdrifarík mistök, hann sem er með líf okkar í hendi sér, get ég treyst þessum manni fyrir lífi mínu.

Páskastefið í þeirra hörmulegu atburðarás er flugstjórinn í næsta flugi á eftir hjá flugfélaginu German Wings. Hann talaði ekki við farþega á ópersónulegum nótum í gegnum hátalara, hann gekk fram fyrir farþega, talaði við þá augliti til auglitis, eins og nakinn maður á krossi og byrjaði á því að ávarpa óttann, tjáði vanlíðan allra í vélinni og sagðist í auðmýkt sinni gera allt sem í hans valdi stæði til að koma öllum heilum heim.

Þá hefur maður ósjaldan heyrt um þann ótta sem herjar á suma verðandi foreldra sem kunna ekki að njóta þess sem í vændum er, því þeir vantreysta sér að takast á við foreldrahlutverkið, þar hefur sá ótti fengið að grassera að foreldrarnir komi ekki til með að valda hlutverki sínu, og sumir hverjir hræðast það meira að segja að greiða götu barns inn í þessa veröld sem þykir köld. Páskastefið er það að svo birtist barnið og óttinn hverfur fyrir fögnuði yfir tilkomu nýs lífs.

Blaðamaður fór ekki lengra en að þjáningunni um daginn þegar hann í stundarbrjálaðri grein óttaðist það verulega og bókstaflega að kristnir væru að tilbiðja barnamorðingja og vísaði þar í 3500 ára gamlar sögur Mósebóka. Þungamiðja þeirra sagna er þó einkum sú að Guð vill leysa þjóð sína Hebrea úr þrælaánauð í Egyptalandi. Eftir lestur slíkra skrifa þurfum við að velta því fyrir okkur hvort beri að trúa því að Guð hafi fært hjálpræði með því drepa fyrstu syni hverrar fjölskyldu eða þá að það hafi gerst á einhvern annan hátt, túlkunaratriði. Það er mismunandi eftir því hver les, gyðingur eða kristinn. Hvernig lest þú?

Það er vitað að grimmd og fólskuverk hafa verið og verða órjúfanlegur hluti af hjálpræðissögum, bæði gyðinga og kristinna sem og annarra trúarbragða heims, annars væri í raun ekki hægt að tala um neitt hjálpræði í raun. En við hömpum ekki grimmdinni í þeim, við beinum sjónum að hjálpræðinu. Sjáum t.d. páskafrásögn kristinna, já hvernig horfum við til hennar, hvar viljum við staðsetja okkur þar?

Viljum við nema staðar við krossinn á Golgata þar sem Jesús kallar í angist sinni ,,Guð minn, Guð minn hví hefur þú yfirgefið mig” og blóðið flæðir yfir hausaskeljar, eða viljum við halda áfram för okkar að tómri gröfinni, þangað sem Kristur kallar á okkur og ávarpar óttann okkar?

Hvernig lest þú lífið? Sérðu t.d. einhverja fegurð í ljótleikanum, horfir þú í fegurð björgunaraðgerða eftir hræðileg slys eða glæpi, eða sérðu bara slysin og glæpina? Sérð þú leið út úr ótta þínum, og hvernig talar þú við hann, talar þú hann niður eða upp? Það er víst til eitthvað í sálarfræðum sem heitir hugræn atferlismeðferð, þar er ég nú alls enginn sérfræðingur, en tel að hluti af slíkri meðferð sé að læra að ávarpa og tala við ótta sinn og kvíða, lifa þannig með honum, jafnvel yfirvinna hann.

Ég hef frekar litið á upprisuatburðinn á páskadagsmorgni sem hluta af því að tala við óttann minn og kvíða, og sem hluta af þessu tilfinningalega athvarfi kirkjunnar, þessu sem færir okkur kyrrð og frið, ró og næði. Fyrsta heilsa Krists til óttasleginna lærisveina sinna, eftir að hann var risinn upp til lífs, var þessi: ,,Friður sé með yður!” Nei, Kristur skilur okkur ekki eftir í ótta, hann skilur okkur ekki eftir munaðarlaus við krossinn á Golgata, hann segir okkur að halda áfram ferð okkar.

Hann biður þig að hætta ekki ferðalögum þrátt fyrir hörmungaratburð í hlíðum franskra fjalla. Hann hvetur þig t.d. með upprisu sinni að hlúa vel að heimili þínu og uppeldi barnanna þinna, en sinna því ekki í ótta við það sem mögulega gæti hent, heldur í þakklætinu og trúnni. Hann hvetur þig ekki til að nema staðar við barnamorðssögur, ellegar afneitun Péturs eða svik Júdasar, hvað þá við krossdauðann sjálfan, allt er það þó til að læra af, heldur skaltu halda áfram með honum að tómri gröf páskadagsmorguns, hann leiðir þig til engilsins er segir: ,,Þið skuluð eigi óttast.”

Gleymum því jafnframt ekki að við erum haldin vissum ótta þegar við erum, hvort í senn vitandi vits eða óafvitandi, farinn að sá ótta, grafa undan hinu og þessu, tortryggja jafnvel eitthvað sem er öðru fólki kært. Þá þurfum við að huga að eigin garði, eigin hugsunum og tilfinningum.

Ávörpum óttann okkar, segjum honum til syndanna, látum ekki ógnaratburði í veröldinni næra hann, látum ekki það sem mögulega gæti gerst næra hann, látum heldur sigurboðskap lífsins ýta honum til hliðar þannig að við getum fagnað lífinu, notið þess, því hér á jörðinni verðum við alltént ekki eilíf, nýtum tímann eins vel og við getum, tíminn er dýrmætur.

Fögnum litbrigðum jarðar, litbrigðum mannlífsins, horfum t.a.m. ekki á önnur trúarbrögð sem ógn við sérkenni eigin trúar, sjáum þau frekar auðga og bæta, horfum ekki á trúleysi sem ógn við trú eða trú sem ógn við trúleysi. Þannig nærum við óttann í garð hvor annars og getum þess vegna aldrei átt heilbrigt samtal, aðeins ,,samtal” í ótta sem er í raun marklaust. Iðkum samtal í ljósi þess sem göfgar okkur og hvetur áfram!

Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisnn!!