Ljós mitt og líf

Ljós mitt og líf

„Hananú! Látum oss fagna.“ Það er inntak páskadagsmorguns. Jafnvel sjálf sólin er sögð dansa af gleði. Ég er ekki frá því að ég hafi sjálf séð slíkt undur eitt sinn fyrir mörgum árum er ég gekk til móts við birtu nýs dags á páskadagsmorgunn árla upp með Köldukvísl í Mosfellsdal.

Ó, Drottinn, ljós og lífið mitt, ég lofa´ og mikla nafnið þitt, þig lofi allt, sem anda hrærir, og allt, sem blessar þú og nærir. Nú ljómar dýrðardagur nýr, en dimman nætur burtu flýr.
Með undri páskanna, upprisu Jesú Krists frá dauðum, hefjast gleðidagar samkvæmt fornum sið. Páskavikan, sem nú fer í hönd, er líka kölluð hvítavika og hvítur er litur gleðinnar. Alla þá viku, allt fram á fyrsta sunnudag eftir páska, halda kaþólsk systkini okkar páskana hátíðlega. Það dugar ekkert minna en vika fyrir páskahátíðina!

Þegar boðunardag Maríu ber upp á föstudaginn langa eins og nú var, frestast sú hátíð, þó mikilvæg sé, fram yfir páskavikuna. Boðunardagurinn er þá haldinn á mánudegi í annarri viku eftir páska hjá kaþólsku kirkjunni. Þá fyrst verður rými fyrir að fagna því að Jesús varð til í lífi konunnar ungu í Nasaret. Ekki einu sinni sú staðreynd trúarinnar að Guð varð maður er talin mikilvægari páskaundrinu sem fagna ber af öllu hjarta.

Gleðidagur lífs og ljóss Já, nú er gleðidagurinn stærsti. Sigur lífsins yfir dauðanum, hvorki meira né minna! Ekkert getur verið meira, því hvað er meira virði en lífið sjálft? Fyrir kristna manneskju er lífið Guðs gjöf. Við þiggjum lífið frá uppsprettu lífsins, honum sem hefur „líf í sjálfum sér“ (Jóh 5.26): „Í honum var líf og lífið var ljós mannanna“ segir í jólaguðspjalli Jóhannesar (Jóh 1.4); í honum sem er „upprisan og lífið“ (Jóh 11.25), „vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jóh 14.6), stígum við yfir frá dauðanum til lífsins (Jóh 5.24), öðlumst lífið (Jóh 5.40). Þessi „hann“ er Jesús Kristur, „sigrarinn dauðans sanni“ eins og sr. Hallgrímur orti.

Í fyrsta Jóhannesarbréfi er ljósið og lífið áberandi stef, líkt og í Jóhannesarguðspjalli. Þar talar bréfritari út frá eigin reynslu um hvernig lífið var opinberað „og við höfum séð það og vottum um það.“ Þetta líf sem um ræðir er „lífið eilífa sem var hjá föðurnum og var opinberað okkur“ (1Jóh 1.2.). Þarna er augljóslega verið að tala um Jesú Krist. Jóhannes hafði sjálfur hitt Jesú og sá í honum Lífið sjálft, Guð kominn til jarðarinnar: „Við vitum að sonur Guðs er kominn og hefur gefið okkur skilning til þess að við þekkjum sannan Guð. Við lifum í hinum sanna Guði, í syni hans Jesú Krist. Hann er hinn sanni Guð og eilífa lífið.“ Og málið er einfalt, að mati Jóhannesar: „Sá sem hefur soninn á lífið, sá sem ekki á son Guðs á ekki lífið“ (1Jóh 5.12). Þessi hugsun endurspeglast í þriðja erindi af Lofsöng sr. Matthíasar Jochumssonar: Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf, sem að lyftir oss duftinu frá.

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð! Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá., Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf, sem að lyftir oss duftinu frá. Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf, vor leiðtogi í daganna þraut og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf og vor hertogi á þjóðlífsins braut. :; Íslands þúsund ár, ;: verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár, sem þroskast á guðsríkis braut.
„Hann andar og allt!“ Matthías Jochumsson nefndi ljóðið sem hann orti í tilefni af 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar Lofsöng og byggði það á Sálm 90 í safninu sem kennt er við Davíð konung, en sá sálmur ber reyndar yfirskriftina Bæn guðsmannsins Móse. Gagnvart því undri ljóss og lífs sem guðstrúin gefur okkur eru eðlileg viðbrögð að lofa Guð, gleðjast og fagna yfir lífgjöf, hvort sem það er lífi þjóðar í þúsund ár eða hreinlega yfir því að vakna hvern morgun og vita sig á lífi hér á jörð og um eilífð með Guði.

Mér kemur í hug skondin frásaga konu á mínum aldri sem sat með fólki við kaffiborð fyrir nokkru og lýsti því svo skemmtilega hvað mamma hennar hefði haft mikið dálæti á syni sínum, yngri bróður konunnar. Sjálf hefði hún þurft að hafa öllu meira fyrir velþóknun móður sinnar en drengurinn, bróðirinn, hann þurfti ekki annað en að vakna á morgnanna og draga andann til að vekja aðdáun: „Hugsið ykkur drenginn, hann andar og allt!“

Auðvitað er það ekkert sjálfgefið að vakna á morgnana og vera á lífi. Fyrir það skyldum við þakka. Og þá erum við öll hér hreinustu hetjur, að vera komin fram úr og til kirkju svona fyrir allar aldir, andandi og allt!

Í því sambandi má minna á þetta fallega vers Matthíasar þjóð-söngs-skálds:

Ó, ljóssins faðir, lof sé þér, að líf og heilsu gafstu mér og föður minn og móður. Nú sest ég upp, því sólin skín, þú sendir ljós þitt inn til mín. :,: Ó, hvað þú, Guð, ert góður! :,:

Hananú! og sólin dansar Við heyrðum áðan flutt með tónlagi sr. Bjarna Þorsteinssonar og lesið úr Sálm 118: „Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði, fögnum og verum glöð á honum.“ Í Sálm 95 er svipuð hvatning um að lofa Guð:

Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors. Göngum fyrir auglit hans með þakkargjörð, syngjum gleðiljóð fyrir honum.

Í bókinni Áhrifasaga Saltarans (2014) bendir dr. Gunnlaugur A. Jónsson á að í tveimur eldri þýðingum (1841 og 1859) hafi hvatningin „Komið“ verið þýdd með upphrópuninni „Hananú!“ eða „Hana nú!“

„Hananú! Látum oss fagna.“ Það er inntak páskadagsmorguns. Jafnvel sjálf sólin er sögð dansa af gleði. Ég er ekki frá því að ég hafi sjálf séð slíkt undur eitt sinn fyrir mörgum árum er ég gekk til móts við birtu nýs dags á páskadagsmorgunn árla upp með Köldukvísl í Mosfellsdal. Guðrún Ásmundsdóttir úr Hreppum lýsir því næsta vel í Íslenskum þjóðháttum hvernig sólin dansar á páskadagsmorgni. Hún hafi séð sólina stiga upp og fram og tilbaka og fara í nokkrar sveiflur í hring. Ljóminn sem stafaði af þessum hreyfingum hafi verið undurskær og fagur. Á öðrum stað er vitnað í gamlan bónda sem sagði að sólardansinn hefði verið hin dýrðlegasta sýn sem hann hefði nokkru sinni litið.

Við tölum stundum um að „sjá eitthvað í hillingum“ og er þá vísað í þá sýn sem blasir við þyrstum ferðalang í eyðimörk. Kannski það hafi verið hillingar sem erlendi leiðsögumaðurinn sem ég heyrði af í gær sá þegar hann stóð við Höfða hér aðeins vestar og benti löndum sínum á ey þar úti fyrir: „Hér sjáum við svo Vestmannaeyjar!“ Við erum reyndar vön að tala um Viðey í þessu tilfelli en hvað er smá ruglingur á íslenskum eyjum á milli vina?

Það má vera að sólardansinn sé einhvers konar tíbrá eða annað náttúrulegt fyrirbæri, en hann er samt tákn um það ljós og líf sem hjartað þráir heitt. Til er fólk sem líkir trú okkar á upprisukraft Guðs við hillingar. En mig varðar eiginlega ekkert um það. Því þar sem er von, þar er líf. Og vonin bregst okkur ekki (Róm 5.5). Og er það nokkur furða að náttúran taki undir fögnuðinn yfir Lífinu sjálfu, ljósinu sem sigrar myrkrið? Allt sem lifir

Það allt, sem lifir, lífgar þú með ljósi þínu, faðir, nú, og endurnærður elsku þinni ég ennþá rís úr hvílu minni og minnist þess, að miskunn þín í morgunsólar geislum skín.

Þitt blessað ljós nú minnir mig á mína skyldu' að elska þig, sem það af náð mér lýsa lætur, svo leggi' á flótta dimman nætur. Þín dýrleg sól því segir mér: Æ, sjá, hve góður Drottinn er.

Þitt blessað ljós, sem lýsir mér, til ljóssins iðju kallar hér. Æ, lát mig allt í ljósi vinna, í ljósi sannleiks orða þinna, í ljósi þínu ljósið sjá og ljóssins barna hnossi ná.

Þannig orti sr. Páll Jónsson (sálmabók þjóðkirkjunnar 455). Og í fyrstu Kroníkubók (16.31-34) er talað um hvernig trén skógarins hrópi af gleði, foldin fagni og allt sem á henni er. Verum með í þeim lofsöng til frelsarans góða sem er „ljós mitt og líf“ (Bjarni Jónsson):
Himinninn gleðjist og jörðin fagni. Kunngjörið þjóðunum: „Drottinn er konungur.“ Hafið drynji og allt sem í því er, foldin fagni og allt sem á henni er, tré skógarins hrópi af gleði frammi fyrir augliti Drottins því að hann kemur til að ríkja á jörðu. Þakkið Drottni því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Kristur er upprisinn. Hann er sannarlega upprisinn. Gleðilega gleðidaga.