Dáið er allt án drauma

Dáið er allt án drauma

„Dáið er allt án drauma“ orti efnispilturinn Laxness. Hann þekkti töfra skáldskaparins, átti eftir að deila hugsjónum sínum með þjóðinni, talaði eins og spámaður inn í sjálfhverfu, heimóttarskap og þjóðrembu. Þetta er hlutverk listamannsins. Og hér á eftir ætlar Erla að deila með okkur hugsunum sínum og hugsjónum úr sínum tæra töfraheimi.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
22. júní 2024
Flokkar

Síðustu helgi ókum við hjónin norður á Siglufjörð. Á leiðinni hlustuðum við á eina af bókum Arnaldar Indriðasonar. Hún fór rólega af stað og á köflum fannst okkur frásögnin langdregin. Við vorum nálægt því að slökkva og taka upp léttara hjal.


Ímyndunarafl

En sagnameistarar kunna á lesendur – eða í þessu tilviki áheyrendur. Smám saman náði fléttan tökum á okkur. Við horfðum á veginn en í huganum birtust myndir af fólkinu sem sagan fjallaði um, þolendum og meintum gerendum. Örlög fólks, sem voru ekki annað hugarburður snjalls rithöfundar, snertu okkur svo sterkt, að við mæltum ekki orð af vörum í klukkustundum saman!

 

Íslenskan lætur ekki að sér hæða. Við eigum þetta gagnsæja og raunar stórbrotna orð, „ímyndunar-afl“ sem lýsir því sem átti sér stað í þessari ökuferð okkar. Ímyndunaraflið er, eins og orðið gefur til kynna: eins konar orkustöð.

 

Sögur eru rosalegar. Fyrir daga deyfilyfja sagði fólk börnum sínum ævintýri til að fá þau til að gleyma kvölum og hungri. Meðan læknar eða bartskerar framkvæmdu sársaukafullar aðgerðir mátti dreifa athyglinni með með grípandi frásögn. Annar Grimm bræðra, sem ævintýrin eru kennd við, kynntist víst slíkri deyfingaraðferð í barnæsku. Það mun síðar hafa opnað augu hans fyrir áhrifamætti sögunnar.


Hugsjónamenn

 

Textum Jónsmessunnar sem hér voru lesnir, hefur verið ætlað að gefa vængjum hugarflugsins byr: „Sérhver dalur skal hækka, hvert fjall og háls lækka. Hólar verði að jafnsléttu og hamrar að dalagrundum.“

 

Sagnamaðurinn vill milda sárar raunir. Herleiddur hópur, sigruð þjóð hafði verið flutt í fjötrum til lands sigurvegaranna eftir ósigur í hernaði. Þeim hefur enn verið í fersku minni, förin þegar þau voru teymd í böndum frá heimaslóð sinni.

 

Hér sjáum við eina hlið þessa afls sem býr í ímyndun okkar. Það er að vera aflvaki breytinga. Aftur má leita í smiðju tungumálsins, „hugsjónamaður“ er sá sem er drifinn áfram á vængjum ímyndunaraflsins, sér fyrir sér eitthvað sem ekki er orðið, er ennþá bara hugsjón. Þetta var hlutverk spámannsins Jesaja sem flutti þessi huggunarorð. Hugsjónamaðurinn eða spámaðurinn blæs fólki kjark í brjóst, sækir í sjóði þrautseigju og úthalds þegar öll sund virðast lokuð.

 

„Dáið er allt án drauma“ orti 18 ára gamall Halldór Laxness „og dapur heimurinn.“ Þau sannindi kristallast í þeirri hugsun sem texti þessi miðlar okkur. Ekkert blasti við augunum nema akrarnir og smiðjurnar þar sem hin ánauðugu unnu í sveita síns andlits. Háðsyrði sigurvegaranna og skipanir varðmanna glumdu í eyrum þeirra. Því er svo lýst í Davíðssálmum:

 

„Við Babýlonsfljót sátum vér og grétum

er vér minntumst Síonar.

Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar

því að þar heimtuðu verðir vorir söngljóð

og kúgarar vorir kæti:

„Syngið oss Síonarljóð.““

 

Þessi textir úr lýsir hlutskipti hinna kúguðu og raunir þeirra urðu öðrum þrælum hugstæðar. Þannig fékk áin Mississippy þar sem ánauðugt fólk af afrískum uppruna stritaði, þennan biblíulega bakgrunn: „By the Rivers of Babylon“ sungu þau og settu sig í spor hinnar útvöldu þjóðar.


Tæri

 

Kirkjur flytja á sinn hátt óð til þessa mikla máttar sem ímyndunin er. Þar segjum við sögur, bæði í máli og myndum. Neskirkja býr vissulega ekki að mikilli skreytilist ólíkt mörgum öðrum helgidómum. Hér ræður einfaldleikinn ríkjum en þó má greina tilvísun í fornar frásagnir. Þannig sjáum við hvernig rými þessu er skipt upp í ákveðnar einingar, forkirkjan mætir okkur við innganginn, kirkjubekkir taka við fyrir gesti og heimilisfólk. Altarið er borð þar sem okkur er boðið til máltíðar. Hér fléttast inn ólík minni og sagnahefðir sem minna okkur á það hvaðan við komum og hvert erindi okkar er.

 

Þegar komið er fram í safnaðarheimilið má segja að myndmálið taki völdin. Og nú þegar Jónsmessa er að ganga í garð, bjartasta nótt ársins hér á norðurhveli fáum við hana Erlu til okkar alla leið frá Suður Afríku. Ég líkti henni við langförula kríuna þegar við hittumst en hún benti á nöfnu sína, Maríuerluna sem ferðast sömu vegalengd ár hvert eins og við þekkjum.

 

Yfirskriftin er, Tæri – það er orð sem við þekkjum best út frá orðasambandinu „að komast í tæri við“ einhvern eða eitthvað. Hún vísar í orðabókarskýringu þar sem tæri merkir ,,tengsl“ eða ,,félagsskapur“ og er hugsanlega dregið af lýsingarorðinu ,,tær“.

 

Hver eru þessi kynni sem eru Erlu innblástur í verkum sínum? Hvað er það sem hún hefur komist í tæri við? Hér mætast ólíkir heimar – íslensk þjóðtrú sem fléttast í kringum draum formóður listakonunnar. Hún segir svo frá að hún hafi hitt huldukonu í draumi og Erla vinnur út frá þeirri frásögn. Hún tengir hana við önnur minni, eins og verk Gabriels Rosetti af boðun Maríu. Þarna birtist okkur vísan í listsköpun Khoisan fólksins í S-Afríku með marglitum mynstrum sem hafa mótast þegar þau einangruðu kofa sína með kúadellu. Þegar þeim bárust litarefni með evrópskum nýbúum þá tóku þeir að móta þessi form.

 

Þarna sjáum við líka dýr sem draumsnillingar höfðu sérstakar mætur á, ref og antílópu. Afrískir sjamanar hlupu um handanheima í gervi slíkra dýra. Íslenska völvan gerði hið sama eins og sagt er frá í Grænlendingasögu. Hin háttprúða bænabeiða prýðir sýningarskrána. Ímyndunaraflið hefur gefið henni verðugan sess í heim andanna og ekki að undra enda minnir hún helst á trúarleiðtoga í helgihaldi!

 

Og þessi veröld hug-sjónar opnast okkur nú þegar jónsmessan er að ganga í garð. Það er nóttin sem við helgum Jóhannesi skírara þegar sól er hæst á lofti á norðurhveli. Þar mætast nú heldur betur heimarnir, kristni og heiðni, saga og náttúra, mannlíf og fána. Dýrin fengu mál og vættir fóru á stjá. Það þótti vita á gott að velta sér upp úr dögginni.


Sjálfur sigldi ég eitt sinn í Ísafjarðardjúpi á jónsmessunótt og virti sólina fyrir mér þar sem hún eins og tyllti sér á sjónardeildarhringinn sunnan við Grænuhlíð í minni Djúpsins. Hversdagsamstrið verður léttvægt í því stóra samhengi.

 

Já, nóttin sem bíður okkar er helguð Jóhannesi og svo eigum við Kristsmessu að hálfu ári liðnu. Jóhannes á björtu nóttina en Kristur þá dimmu, sem eru auðvitað jólin. Skýringuna finnum við í orðum Jóhannesar sjálfs sem hér voru lesin: „Hann á að vaxa en ég að minnka”.

 

Þessi orð eru yfirlýsing hugsjónarmanns sem á sér köllun og sannfæringu. Það er vitundin að vera hluti af einhverju því sem er æðra, dýpra og meira en við sjálf. Leggja því lið sem mun lifa okkur og vara lengur en dagarnir sem okkur eru úthlutaðir.


Með heim í hönd

 

Erla birtir okkur myndir af tengslum sem fléttast í gegnum sögu, menningarheima og náttúru. Þarna leynast líka símar, bæði einn frá miðri síðustu öld og svo er það snjallsíminn – þessi gripur sem fylgir okkur allar stundir, kveður okkur áður en svefninn sígur á, heilsar okkur að morgni, hlerar samtöl okkar, deilir myndskeiðum út um allan heim. Og rýfur einbeitingu, hrifsar okkur til sín úr flæðinu. Hér forðum sungum við um Guð almáttugan: „He‘s got the whole world in his hands.“ Nú erum við í þeirri stöðu. Við höfum heiminn í hendi okkar en við erum ekki almáttug. Skjárinn hefur seyðandi afl, krefst hollustu, hlýðni, forgangs. Erla setur geislabauginn yfir gripinn og við hljótum að skilja hvað átt er við.

 

Þessi lýður sem Jesaja spámaður ávarpaði, þjóðin sem var í útlegð, vissi upp á sig sökina.

 

„og boðið henni

að áþján hennar sé á enda,

að sekt hennar sé goldin,

að hún hafi fengið tvöfalt af hendi Drottins

fyrir allar syndir sínar.“

 

Hver var sú sekt? Jú, sinntu ekki skyldum sínum, rufu þennan sáttmála sem stendur og fellur með því að maðurinn geri ekki neitt annað að guði sínum en skapara sinn.

 

„Dáið er allt án drauma“ orti efnispilturinn Laxness. Hann þekkti töfra skáldskaparins, átti eftir að deila hugsjónum sínum með þjóðinni, talaði eins og spámaður inn í sjálfhverfu, heimóttarskap og þjóðrembu. Þetta er hlutverk listamannsins. Og hér á eftir ætlar Erla að deila með okkur hugsunum sínum og hugsjónum úr sínum tæra töfraheimi.