Myndir á aðventu

Myndir á aðventu

Fyrst orð um hryllinginn og svo orð um hvað er til lausnar. Það eru engin billeg svör í alþjóðamálum og lífið er flókið og stundum sorglegt. Aðventa er vonartíð og þá er okkur sagt að þvert á vonsku vilji Guð hið góða.

Tveir kórar í kirkju í dag. Félagar úr Kór Neskirkju syngja og svo er hér Kór Orkuveitunnar sem syngur líka í dag. Þessi kóraglans minnir mig á sögu af kórsöng norður á Akureyri. Það var árið 1915 og skáldpresturinn Matthías Jochumsson var áttræður. Gríðarstór kór var kominn upp á svið, allir afmælisgestir voru komnir til sæta og allt var til reiðu. Stjórnandinn var tilbúinn en vandinn var öllum augljós, heiðursgesturinn, skáldið, var ekki komið og kannski hafði hann bara gleymt sér. Ætlaði hann kannski að skrópa? En um síðir gekk Matthías þó í salinn, kinkaði kolli, ræskti sig, snýtti sér svo og arkaði til sætis síns og kom sér þar fyrir. Þá var hann loks tilbúinn að hlusta. Og fyrst á dagskrá var hið mikla ljóð Hafísinn, sem er íhugun um skelfilegt hafísfár vorið 1888. Og tónsprotinn hófst á loft í upptaktinum. Allur skarinn beljaði fram fyrsta vísuorðið: “Ertu kominn landsins forni fjandi?” Matthías horfði í kringum sig, áttaði sig á hinu kátlega og hinum samkomugestum fannst þetta fyndið. Ertu kominn landsins forni fjandi. Á þeim tíma var hafísinn sá skelfir sem allt lamaði, olli kvíða og óró og drap í dróma. En hvað er það, sem veldur vanda nú?

Unaður aðventu Jólalögin hljóma orðið í útvarpinu á öllum rásum. Búðargluggarnir eru fullir af fallegu góssi. Í auglýsingatímunum erum við hvött til dáða í kaupslagnum. Svo eru landsmenn duglegir að sækja skröll og vinnustaðapartí. Kirkjurnar eru samfelld viðburðaveröld þessa dagana. Leikskólabörnin sækja í kirkjurnar, heilu skólarnir koma og njóta eða halda sínar samkomur. Litlir drengir leika engla, hirða og Jósep og litlar stúlkur leika Maríur og engla. Svo eru auðvitað hlutverk Heródesa og húsdýra, sem eru skipuð alla vega. Jólasagan er sögð og það skaddast enginn af henni hvað svo sem menn með kirkjuóþol halda. Svo eru samkomur, messur, bænastundir, já allir tónleikarnir eins og glæsilega tónleika Kórs Neskirkju síðastliðinn fimmtudag.

Þetta er auðvitað stórkostlegur tími fyrir barnið í okkur. Við megum hrífast með kórunum, rifja upp æskuminningar, raula eitthvert lagið sem við sungum í kór eða við jólatré í bernsku. Hvergi er betra að vera á þessum tíma en í messu eða á einhverjum kirkjutónleikum. Eitthvað af undraefni jólanna sáldrast inn í sálina og himininn opnast. Orð, litir og hljómar eilífðar líða inn í huga og sál. Svo læðist að mörgum líka söknuður – við höfum öll séð á bak fólki, sem hefur verið okkur mikils virði, fólki sem gaf okkur margt af því besta sem við eigum, öryggi, visku, gildi og lífsfærni. Þegar sálin er kvika kemur söknuðurinn fram. 

Rosamyndir En í bland við aðventustemmingarnar eru svo krassandi myndir úr Biblíunni. Mikið af stórkostlegum Messíasarspádómum Hebrea og Gyðinga eru lesnir á aðventutímanum, t.d. um friðarhöfðingjann, sem stofnar ríki undranna þar sem ungbarnið, nývanið af brjósti, getur óhrætt og fullt af trausti stungið hendi í greni nöðrunnar. Og ljónið er þarna við hlið búfjárins og skv. nýju Biblíuþýðingunni er það ekki lengur að éta hey heldur gras. Þetta eru textar um frið og jafnvægi í mannfélagi og náttúru, þar sem allir eru vinir og allt er gott.

En svo eru líka rosalegir textar, sem eru andstæða friðarins. Í guðspjalli dagsins segir: "Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna munu riðlast.” 

Í vikunni fór messuhópur þessa sunnudags yfir guðspjallið. Við ræddum um þennan einkennilega dómsdagstexta. Hvað þýða svona stórkostlegar lýsingar um að kraftar himnanna riðlist, angist þjóða, og menn falli í öngvit af ótta og kvíða? Droplaug Guðnadóttir rifjaði upp líðan sína 11. september 2001 þegar seinni flugvélin flaug á tvíburaturninn í New York. Þá helltist yfir hana styrjaldarlíðan, einhvers konar heimsendatilfinning. Hvað upplifðir þú á þeim degi? Ég man vel hvernig mér leið, ég þarf ekki annað en kalla fram í hugann þessa skelfilegu mynd þegar flugvél flaug á turninn og reykur og eldkúlurnar sprengdu sér leið út úr byggingunni. Við horfðum á þessar ótrúlegu myndir af brjálæðinu, þegar kraftar menningarinnar, kraftar skynseminnar, kraftar kærleikans riðluðust og turnarnir féllu en líka öryggiskennd okkar. Þessar flugvélar flugu ekki aðeins með eyðileggingarmátt sinn inn í turnana heldur líka í okkur. Þess vegna getum við með okkar hætti skilið þessa gífurlegu endatexta Biblíunnar.

Váleg tíðindi Hvað um þessa dómstexta? Hvað þýða þeir? spurði Ingibjörg R. Guðmundsdóttir okkur. Það er nú alveg ljóst, að Jesús bjóst við að endirinn yrði fljótt en ekki löngu síðar. En messuhópurinn var alveg sammála um að þessi texti hafi mörg lög og ýmsa túlkunarmöguleika. Við upplifum hræðileg tíðindi sem n.k. heimsenda. Þegar við fáum slæmar fréttir af heilsufari okkar sjálfra eða fólksins okkar lifum við endaótta. Þegar mikilvæg gildi eru fótum troðin í pólitík, menningu eða stríðum erum við lostin þungum höggum hið innra og í djúpum sálar. Þegar við lendum í persónulegum áföllum verðum við fyrir því að himnarnir riðlast, ótti, kvíði setjast að okkur. Í sorglegum áföllum gildir hið sama. Hvar er haldreipið þá?

Er ekki svolítið bratt að vera dengja á okkur þessum átakanlegu textum svona rétt fyrir jólin og blanda út i allar annirnar. Hver er tilgangurinn? Kristnin er ekki vella eða froðusnakk á skjön við lífið, ekki falskt öryggisnet. Á undan jólaboðskap hljóma orð um raunveruleika heimsins, um krísur, en svo líka um hvað verður til lausnar. Það eru engin billeg svör í alþjóðamálum og lífið er ótrúlega flókið og stundum stórkostlega sorglegt. Á vonartíð aðventunnar eru okkur tjáð að þvert á vonsku vill Guð hið góða, þvert á illsku í samskiptum einstaklinga og þjóða vill Guð koma á friði og að menn rækti friðarvilja og stæli friðarsókn.

Hið teygða líf Rosatextarnir eru litríkir, en getur verið að þeir rími við sumt af því sem er á reiki og sækir að okkur á aðventutímanum. Á aðventu tökum við prestar oft á móti fólki, sem er með ýmislegt og jafnvel flest í rúst. Lífið margra er marið af óreglu, fjárleysi, angist og úrræðaleysi. Það eru svo sannarlega tákn á sálarhimni þess fólks. Fjármálastofnanir bjóða fé til neyslunnar, menn verða nánast að vera andleg stórmenni til að geta staðist boðin. Peningar eru alls staðar til láns. En neyslan leiðir ekki til hamingju og getur orðið til mikils skaða. Allt of mörg heimili eru óhugnanlega skuldsett og fátt sem getur bjargað.

Jólafastan er undursamlegur tími. Barnið í okkur fær að ljóma um stund, hrífast með kórunum, stranda í bernskuminningu við eitthvert lagið, sem við fórum sjálf með eða sungum við hrifnæmar aðstæður. En svo er landsins, já fólksins forni fjandi mættur – allir þeir sem vilja nota þig, allir sem vilja trylla þig, hafa af þér lífsmátt þinn, vilja brengla siðvit þitt og rósemi. Þeir eru í ýmsum myndum og þú verður sem fullveðja manneskja að þora að horfast í augu við það sem eru veilur þínar og brestir og hverjir sækja í að hagnýta sér snöggu blettina þína. Þess vegna er svo mikilvægt að koma í messu á þessum tíma, kyrrðarstund, tónleika eða setjast niður með börnunum og ræða um stóru málin og leggja línur um hvernig unnið skuli að hamingjunni.

Vorið og vonarefnin Þegar við vorum að lesa guðspjallstextann í vikunni voru allir sammála um að við lentum öll í einhverjum vondum málum. Sesselja Thorberg dró athygli okkar að því að í guðspjallinu væri vor og von um sumar. Það er rétt. Þegar mikið gengur á þurfum við að eiga í okkur vorið, vonirnar og trúna. Þegar allt er komið í strand í einkalífi, þjóðlífi eða heimspólitíkinni getur vonin og vorið orðið lífsbjörg. Þegar fólki farnast illa er stórkostlegt að eiga vin sem heldur í hendi manns, heldur utan um mann þegar maður bifast og sleppir ekki á hverju sem gengur. Slíkur vinur er Guð. Þar eiga vonin og vorið uppsprettu sína. “Við þurfum huggun” sagði Magnús Magnússon okkur, “hvatningu í lífinu.”

Staldraðu því við, taktu ákvörðun um að láta ekki annarleg völd stjórna aðventu þinni. Taktu ákvörðun um að setja hið mikilvæga í forgang. Hvað viltu, hver viltu að hjálpi þér? Skáldpresturinn fyrir norðan horfði á hafísinn koma, varna vorinu, varna nýgræðingi, varna sumarkomu og blessun. Og hann segir:

Veikur maður, hræðstu eigi, hlýddu, hreyk þér eigi, þoldu stríddu. Þú ert strá, en stórt er Drottins vald. Hel og fár þér finnst á þínum vegi, Fávís maður, vittu, svo er eigi, Haltu fast í Herrans klæðafald! Lát svo geisa lögmál fjörs og nauða. Lífið hvorki skilur þú né hel: Trú þú – upp úr djúpi dauða Drottins rennur fagrahvel.
Myndir aðventunnar eru margvíslegar og myndirnar verða ekki allar séðar fyrr en litadýrð og myndrík jól ganga í garð. Það vantar tvær myndir örugglega á þessa sýningu aðventunnar og þær eiga að vera á besta stað. Önnur er myndin af Jesú – þetta er jú tími til-komu hans, aðventu hans, vonaskeið. En hitt er ótrúlegt og stórkostlegt að við hliðina á mynd Jesú mátt þú ráða hvaða mynd þú hengir þar upp. Í messunum og á aðventusamkomunum er ljómandi efni til myndagerðar og sálarföndurs. En besta myndefnið er fólgið í þér, sálarlífi þínu, vonum þínum og þrám. Þar vill Jesús koma að og föndra með þér. Láttu ekki klakann ná til þín, verndaðu þig fyrir aðsóknunum og þeim krumlum sem vilja fjötra þig og góma. Guð gefi þér að þínar myndir verði uppsettar á góðum tíma og fyrir jól, þegar klukkurnar hringja hátíðina inn og aðventa breytist í jól. Amen

Í messuhóp Neskirkju 9. desember 2007 voru Elín Sóley Kristinsdóttir, Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, Droplaug Guðnadóttir, Magnús Magnússon, Sesselja Sigurðardóttir Thorberg. Nafna þeirra er getið hér vegna þess, að til þeirra og messuhópsins er vitnað í prédikuninni. 

Lestrar 9. desember 2007, 2. sd. í aðventu A-röð.

Lexía Jes 11.1-9 Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og sproti vaxa af rótum hans. Andi Drottins mun hvíla yfir honum: andi speki og skilnings, andi visku og máttar, andi þekkingar og guðsótta. Guðsóttinn verður styrkur hans. Hann mun ekki dæma eftir því sem augu hans sjá og ekki skera úr málum eftir því sem eyru hans heyra. Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu og skera með réttlæti úr málum hinna fátæku í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns, deyða hinn guðlausa með anda vara sinna. Réttlæti verður belti um lendar hans, trúfesti lindinn um mjaðmir hans. Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum. Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna verða saman á beit, ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru, og ljónið mun bíta gras eins og nautið. Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holu nöðrunnar og barn, nývanið af brjósti, stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn mun gera illt, enginn valda skaða á mínu heilaga fjalli því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið.

Pistill Rm 15.4-7, 13 Allt það sem áður er ritað er ritað okkur til fræðslu til þess að við héldum von okkar vegna þess þolgæðis og uppörvunar sem ritningarnar gefa. En Guð, sem veitir þolgæðið og hugrekkið, gefi ykkur að vera samhuga að vilja Krists Jesú til þess að þið einum huga og einum munni vegsamið Guð, föður Drottins vors Jesú Krists. Takið því hvert annað að ykkur eins og Kristur tók ykkur að sér Guði til dýrðar. Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda.

Guðspjall Lk 21.25-33 Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna munu riðlast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.“

Jesús sagði þeim og líkingu: „Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður að sumarið er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd. Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.