Að fagna í þrengingum?

Að fagna í þrengingum?

Það breytir engu hvort þú ert fjarlæg eða nálæg Guði í hjarta þínu. Jesús Kristur yfirvinnur alla slíka veggi. Frelsarinn kemur með friðinn sinn sem gefur okkur þá hugarró sem ekkert og enginn getur frá okkur tekið. Við lifum því ekki lengur í eigin mætti heldur upprisumætti Jesú Krists.
Mynd

Ritningarlestur: Róm 5.1-5

Réttlætt af trú höfum við því frið við Guð sakir Drottins vors Jesú Krists. Hann hefur veitt okkur aðgang að þeirri náð sem við lifum í og við fögnum í voninni um dýrð Guðs. En ekki aðeins það: Við fögnum líka í þrengingum þar eð við vitum að þrengingin veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan og fullreyndur á vonina. Og vonin bregst okkur ekki. Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.

Hugleiðing

Biðjum:
Hjálpaðu okkur, Guð, að lifa í náðinni og fagna í voninni. Leyfðu okkur að finna kærleika þinn streyma inn í hjörtu okkar svo að við getum mætt hvert öðru í kærleika. Þess biðjum við í nafni Jesú Krists. Amen.

Orðin úr Rómverjabréfinu sem við heyrðum lesin hér áðan eru sterk og skýr. Þau tala beint inn í aðstæður okkar á þessum sérkennilegu tímum þegar fólk heldur sig heima fyrir utan brýnustu erindi, sum í sóttkví eða einangrun, vinnustöðum er skipt upp í einingar og ferðalög í lágmarki, faðmlög engin. Sum hafa veikst af Covid-19 og önnur eru hrædd við að veikjast. Við finnum öll fyrir þessu ástandi sem vel mætti kalla þrengingar í þjóðfélaginu. Það er eins og allt standi í stað nema tala þeirra sem veikjast. Fögnuður er okkur varla ofarlega í huga. 

En svo heyrum við talað um fögnuð í þrengingum. Er það hægt? Við eigum líklega nóg með að halda ró okkar og varðveita æðruleysið gagnvart veiruvánni. Er hægt að fagna í þessum aðstæðum? Má yfirleitt leyfa sér að fagna og finna gleði þegar mannleg samskipti eru takmörkuð við símann og tölvuna?

Ritningin segir já. Já, við megum fagna, jafnvel á þrengingatímum. Og það er hægt. Tökum eftir því að Páll postuli byrjar kaflann sem við lesum í dag, fimmta kafla Rómverjabréfsins, með því að tala um réttlætingu af trú sem gefur okkur frið við Guð í Jesú Kristi. Friður. Grundvöllur gleði okkar er þessi friður trúarinnar sem byggist á trausti til lífgjafa okkar, Guðs, á trausti til Jesú Krists sem er friður okkar (Ef 2.14), eins og segir í Efesusbréfinu. „Og hann kom og boðaði ykkur frið sem fjarlæg voruð, og frið hinum sem nálæg voru,“ (Ef 2.17) segir ennfremur. 

Það breytir engu hvort þú ert fjarlæg eða nálæg Guði í hjarta þínu. Jesús Kristur yfirvinnur alla slíka veggi. Frelsarinn kemur með friðinn sinn sem gefur okkur þá hugarró sem ekkert og enginn getur frá okkur tekið. Við lifum því ekki lengur í eigin mætti heldur upprisumætti Jesú Krists. Sá kraftur kostaði heldur betur þrengingar, píslargönguna sem leiddi að dauða Jesú á krossi. Það eru einmitt þær þrengingar sem færa okkur náðina og vonina, vonina um dýrð Guðs, um þátttöku í lífi Guðs sem engum takmörkunum er háð. Krossinn á ekki síðasta orðið. Hann átti það ekki þá og á það heldur ekki núna. Lífið hefur sigrar, lífið sigrar og mun sigra. 

Því fögnum við líka í þrengingunum og tökum á móti þeim sem lexíu í þolgæði. Sú lexía kann að verða dýrkeypt, það vitum við vel, því kórónaveiran getur kostað mannslíf. Því tölum við ekki af neinni léttúð hér í dag. Við finnum sannarlega til vanmáttar okkar gagnvart því sem við megnum ekki að afstýra en gerum okkar besta til að verja okkur og aðra gegn smiti. Það er alvörumál eins og Margrét Danadrottning benti á í ávarpi til þjóðar sinnar á þriðjudaginn var. 

Þrengingin veitir þolgæði, segir Páll postuli. Nú er það ekki alveg öruggt að við lærum af þessari reynslu frekar en annarri og okkur brestur áreiðanlega þolgæði á köflum. Því mikilvægara er að fara í gegn um þessa tíma með vakandi vitund og hjarta sem hvílir í friði Guðs. Í þolgæðinu vaxa viðkvæmustu blóm hugarfars okkar og reynslan leiðir okkur til lífs í von sem ekki bregst: „Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.“ Streym þú, líknarlind, með fögnuð þinn og frið.

Dýrð sé Guði sem lífið gefur. Amen.


Sjá þessa hugvekju og fleiri á: 

https://www.facebook.com/Fossvogsprestakall