Víst er ég veikur að trúa, veistu það Jesú best, frá syndum seinn að snúa, svoddan mig angrar mest. Þó framast það ég megna, þínum orðum vil ég treysta og gjarnan gegna, gef þú mér náð þar til. Amen
Þetta er 15. passíusálmur Hallgríms Péturssonar, sem ég notaði sem bænarorð hér í upphafi. Einhvern veginn er erfitt að trúa því að Hallgrímur hafi verið veikur að trúa. Það hlýtur að búa rík trú í brjósti manns, sem hefur látið slíkan kveðskap eftir sig liggja. Klerkurinn, sem leggur út í það stóra verkefni að yrkja magnaða sálma um píslargöngu Krists eins og hún kemur fyrir.
Þessi kveðskapur er svo sterk arfleifð að enn í dag er hann fluttur og hefð er fyrir því að hann sé lesin í mörgum kirkjum landsins, en ekki bara í kirkjum, heimilum, hverskonar stofnunum, allsstaðar, einkum og sér í lagi á föstutímanum. Í aldir hafa sálmar Hallgríms hljómað í orði og söng og í jafnlangan tíma hefur kveðskapur þessi uppfrætt alþýðu manna um grundvallaratriði kristindómsins, það að Jesús Kristur þjáðist og dó eins og sannur maður og reis upp sem almáttugur Guðssonur og gaf líf, eilíft líf, sem hvert og eitt okkar horfir fram til í trú og von.
17. aldar klerkurinn Hallgrímur hóf sálmarununa, sem telur rúma 5 tugi sálma, á því að hefja upp hina ódauðlegu sál: “Upp upp mín sál” og það er löngu orðið ljóst að það að leggja við hlustir og leyfa sálmunum að hrærast í huga okkar og smjúga inn að merg og beini, lifnar sálin öll við og allt dægurþras verður hjóm eitt, sannindi lífsins koma í ljós, hið stóra og mikilvæga, gjöf Guðs, sem krefst einlægrar trúar.
Þess vegna kann sérhver að spyrja sig, hvernig maður eins og Hallgrímur geti verið veikur í trúnni? Þarf ekki ansi sterka trú til þess að skilja eftir sig jafn magnþrungna sálma og Hallgrímur Pétursson gerði?
Er til eitthvað sem heitir sterk trú eða það að trúa nóg? Er hin veika trú sr. Hallgríms jafnvel ekki bara sönnun þess að það sé máttugasta trú mannsins. Það að geta viðurkennt smæð sína frammi fyrir Guði almáttugum, það að byggja, í því skyni, allt sitt traust á Honum, bjarginu stóra, og treysta orðum Hans, en ekki sínum eigin orðum, birtir okkur einlæga trú, sem er hin máttugasta trú.
Og Guð einn veit það best hvað er mikil trú og hvað er lítil trú, það getur mannkyn ekki lagt mat sitt á og það kemur alltaf út sem hroki og hræsni að fara að meta það hversu mikil trúin er hjá þessum og hinum, mér og þér. Þá lendum við alltaf í sporum Faríseans, sem bað til Guðs inn í helgidómnum við hlið Tollheimtumannsins og sagði:
“Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.”
Vera má að gjörðir faríseans hafi verið allra gjalda verð, en hins vegar verður það að viðurkennast að hugarfarið, sjálfsréttlætingin og náungafjandskapurinn í hæsta máta ókristilegt og tæpast Guði þóknanlegt. Það vitum við líka að samanburður við náungann í hvaða mynd sem það nú er, er varasamur, vekur upp syndsamlegar tilfinningar, sem fá okkur til þess að gleyma Guði stund og stund.
Við missum marks eins og það er kallað og er reyndar frummerking hugtaksins synd, sem er stórt og víðtækt. Við verðum blind á Guð og vilja hans eins og Faríseinn og það vekur upp öfund, fordóma, fyrirlitningu í garð náungans, sem er jú kunnuglegt samfélagsmein.
Slíkt verður ekki upprætt nema með gagngerri sjálfskoðun einstaklinganna og ávallt erum við minnt á það er við minnumst píslargöngu Krists, þar sem hann ber syndir okkar á baki. Sú mynd fyrirgefningar, okkur til handa, gefur okkur tækifæri til þess að sjá hlutina í öðru ljósi, breyta viðhorfum okkar, breyta rétt í lífinu og átta okkur á því hver eru hin raunverulegu verðmæti lífsins.
Gömul kona var á gangi í stórborg með barnabarni sínu og á göngunni mætti hún mörgum þurfandi og í hvert skipti lét hún eitthvað af hendi rakna. Barnabarnið hennar, lítil stúlka, gat ekki orða bundist og sagði:
“Amma, ég held að þú tapir miklu á því að vera kristin.”
“Já, barnið mitt, svaraði sú gamla, hugaræsingurinn er farinn, einnig dómssýkin og eftirsóknin í einskisverðar skemmtanir. Ég er líka laus við öfund og eigingirni, sem oft eitruðu líf mitt.”
Gamla konan var virkilega sátt við þessi skipti í lífinu. Hún hafði eignast sálarfrið, rósemi og öryggi í stað alls þess, sem olli óró, áhyggjum og kvíða.
Um þetta var sr. Hallgrímur líka meðvitaður sú meðvitund opinberast ekki síst í orðum hans:
“Víst er ég veikur að trúa, veistu það, Jesú best, frá syndum seinn að snúa, svoddan mig angrar mest.”
Sr. Hallgrímur hafði líka ríka þörf fyrir gott samband við Guð og menn, sálarfrið og rósemi, þar sem hann tókst á við harðskeyttan sjúkdóm, leið þjáningar rétt eins og meistarinn og oft er það nú í þrengingunum, sem hin mesta trúareinlægni opinberast og eftir liggur trúarvitnisburður, sem á sér enga hliðstæðu, eins og líf Sr. Hallgríms ber vitni um.
Og annað stórt og mikilfenglegt sálmaskáld, sjálfur Davíð konungur, þekkti þetta líka, í sálmum hans hlýðum við á stórbrotna trúarbarráttu manns við Guð, ákall í bæn, sem í fleiri þúsund ár hefur lifað. Þar fara engar sjálfsréttlætingar fram, þar er beðið um miskunn, þar birtist smæð manns frammi fyrir Guði á skýran hátt og er þó alveg ljóst að Davíð var sannarlega innblásinn. Í sálmum hans kemur þetta m.a. fram:
“Margvíslegar misgjörðir urðu mér yfirsterkari, en þú fyrirgafst afbrot vor.
Guð vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.
Ég ákalla Drottinn í nauðum mínum, og hann bænheyrir mig.”
Það er vandasamt að trúa, og það þarf að hafa mikið fyrir því, það lærum við af sálmum þeirra Davíðs og sr. Hallgríms. Þeir kenna okkur það að trúin er nokkuð sem við þurfum stöðugt að leggja rækt við og tjá, ekki síst tjá og það er deginum ljósara að trúarbarrátta Davíðs og Hallgríms hefur skilað sér til kynslóðanna í umræddri sálmalind.
Þessi umræða um mælikvarða á styrkleika trúarinnar, um mikla og litla trú, sem er augljóslega ekki í mannanna valdi að dæma um, heldur í höndum hins almáttka, varð mér að umhugsunarefni við að lesa sálm sr. Hallgríms og ekki síst við að lesa um kanversku konuna. Þar setti Jesús sig í sæti þess sem valdið hefur á himni og á jörðu og áleit trú þessarar örvæntingarfullu konu mikla, er hann sagði:
“Mikil er trú þín, kona.”
Í því ljósi getum við nokkurn veginn gert okkur grein fyrir hvað er mikil trú í augum Guðssonarins þegar við förum aðeins betur yfir söguna.
Jesús var búin að eiga fjörlegar umræður við lærisveina sína áður en hann hittir þessa kanversku konu í byggðum Týrusar og Sídonar, sem voru mikilvægar hafnarborgir og verslunarborgir við Miðjarðarhafið og fólkið þar þurfti að lúta stjórn ýmissa og misjafnra ráðamanna vegna legu borganna við hafið. Þetta fólk kom til Jesú til þess að hljóta hjálp frá honum og þar á meðal þessi kona, sem ekki er nafngreind.
Umræðurnar sem Jesús hafði átt í fjölluðu um saurgun, hvað er það sem saurgar manninn. Farísear höfðu hneykslast á því að lærisveinar Jesú þvoðu sér ekki áður en þeir tóku til matar síns og áttu þá við trúarlegan þvott, helgiathöfn fyrir máltíð. Þess vegna álitu þeir sem svo að allt sem ofan í þá færi væri óhreint. Þeir voru alltaf að dæma fólk rétt eins og Faríseinn í helgidómnum. Jesús svaraði þessu að bragði og sagði:
“Ekki saurgar það manninn, sem inn fer í munninn, hitt saurgar manninnn, sem út fer af munni.”
Maturinn sem lærisveinarnir innbyrgðu fer í gegn og endar í safnþrónni, en dómur Fariseana, sem út fer af munni og á rætur sínar í hjarta þeirra saurgar, því það særir og Jesús telur upp afleiðingar þess sé hjarta mannsins ekki hreint, það drepur, það stelur, það lýgur og það lastar.
Með þessar umræður í huga hittir Jesús kanversku konuna, sem leitar ásjár hjá syni Davíðs, en þannig ávarpaði hún Jesús og í því ávarp felst messísaradómur Jesú, hann er sá sem koma skal, hann er af kyni Davíðs. Kona þessi hafði augljóslega mætur á Jesú og bar fullt traust til hans. Þarna var sönn trú á ferðinni, fullkomið traust.
Ástæða komu hennar til Jesú var þjáning. Hún kom til þess að biðja til Jesú, biðja hann um hjálp vegna þess að dóttir hennar var kvalin af illum anda. Illur andi gat táknað margt á þessum tíma. Sá sem var kvalinn eða haldinn illum anda gat verið fáviti, geðsjúkur, mállaus, lamaður, blindur eða með ýmis önnur sjúkdómseinkenni. Þetta fólk var dæmt af samfélaginu, sett út í horn. Konan trúði því án þess að hika að Jesús hefði mátt og vald yfir illum öndum. Konan lagði allt sitt í hendur Jesú, hún laut honum og sagði:
“Herra, hjálpa þú mér!”
Kona þessi lagði allt í sölurnar, hún lagði líf sitt og þeirra sem henni voru kærir í hendur Guðssonar. Hún sem og aðrir á þessum tíma gátu ekki ímyndað sér að trú hennar væri mikil, hún var í veikri stöðu og væntanlega þá trú hennar í samræmi við það. Lærisveinarnir sýndu ekki meiri skilning en það að þeir báðu meistara sinn í Guðs bænum um að koma henni í burtu, þeir áttu margt eftir ólært:
“Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum.”
Þegar konan hafði lotið Jesú, ákvað Jesú að kanna hjarta hennar. Hann sagði:
“Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.”
Með öðrum orðum: Af hverju á ég að hjálpa þér, ég var ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.
Augljóst að Jesús var að ögra með því að kasta fram staðhæfingu sem þessari.
En konan svaraði þessu og sagði:
“Satt er það herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra.”
Með öðrum orðum: Leyfðu mér að eiga hlutdeild í blessun þinni, leyfðu mér að njóta þess sem afgangs verður af blessun þinni.
Hún lét ekki slá sig út af laginu, því trúin hennar var mikil enda varð það úr að Jesús sagði það við hana: “Kona, mikil er trú þín.”
Og dóttir hennar varð heil, ekki bara líkamlega og andlega heldur líka félagslega og það skipti ekki síst máli, því félagsleg einangrun er mein og allt sem ýtir undir hana.
“Kona, mikil er trú þín.” Jesús dáist þarna að trú heiðingja og það gerðist ekki oft. Jesús tók einnig alveg fyrir þann misskilning að veik staða þýði veik trú, þjáning kann að leiða til mikillar trúar, það þekkjum við og vitum og það vissi sálmaskáldið mikla Hallgrímur Pétursson og fleiri andans menn:
“Víst er ég veikur að trúa, veistu það, Jesú, best, frá syndum seinn að snúa, svoddan mig angrar mest. Þó framast það ég megna þínum orðum ég vil treysta og gjarnan gegna, gef þú mér náð þar til.”