Er hin kristna fyrirgefning óraunhæf í mannlegu samfélagi?

Er hin kristna fyrirgefning óraunhæf í mannlegu samfélagi?

Hin kristna fyrirgefning virðist því koma á undan því skrefi að misgjörðarmennirnir taki ábyrgð á gjörðum sínum. Þ.e. Jesús biður Guð að fyrirgefa þeim, þótt þeir viti ekki hvað þeir hafi gert rangt. Skömmin þarf vitanlega að búa á réttum stað og ljóst hver er gerandinn og hver er þolandinn.

Amos 8:11-12, Hebr 13:1-6, Mt. 16:5-12 


Biðjum: 

 

Heyr þú bænir barna þinna, 

blessun lát þau ætíð finna, 

yfir þeim um aldir vak. 

Þú sem ríkir öllu ofar, 

eilífð himna nafn þitt lofar 

:,: eins og minnsta andartak. :,: Amen. (Sálmur 294:5) 

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. 

 

Tíminn og eilífðin 

 

Textarnir sem lesnir eru í helgihaldi kirkjunnar voru ritaðir í sínu félagslega samhengi. (Það er stundum sagt að þeir hafi verið ritaðir á 1500 ára tímabili, í þremur heimsálfum, af yfir 40 höfundum.) Þrátt fyrir það, eiga þeir við á öllum tímum, því þeir innihalda tímalaus skilaboð sem varða manninn og samfélagið, lífið frá vöggu til grafar. 

 

Þeir miðla þeim ótrúlega boðskap að Guð sé til, og ekki nóg með að Guð sé til, heldur lætur Guð sig varða um heiminn og sérhvern mann og líf.  

 

Rauði þráðurinn sem Biblían miðlar hefur verið rammaður inn í eitt vers, sem kallað hefur verið Litla Biblían, því stundum er sagt að þetta vers sé eins og kjarni allra bóka Biblíunnar. Og versið er í Jóhannesarguðspjalli, 3. kafla, vers 16 og hljóðar svona:  

 

Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki heldur hafi eilíft líf. 

 

Elskan er kjarni þessara orða og í þeim mætast einnig tíminn og eilífðin.  

 

Tíminn sem við manneskjurnar erum svo háðar, því tíminn er takmörkuð gæði í okkar lífi. Og svo eilífðin, sem virðist vera það samhengi sem á við Guð, því Guð er ekki háður tímanum. Guð er eilífur, kannski eilífðin sjálf 

 

Eilífðin, hvernig eigum við manneskjurnar að ná utan um þá hugmynd? Eilífðin er utan okkar færis, eða hvað? 

 

Faðir vorið 

 

Í bæninni sem Jesús kenndi lærisveinum sínum er ekki aðeins fjallað um tímann og eilífðina, heldur einnig tímann í samhengi, nútíðar, fortíðar og framtíðar.  

 

Það er athyglisvert að skoða ögn fortíð, nútíð og framtíð í orðalagi bænarinnar.  

 

Hefur þú gefið þessu gaum? Ég ætla að lyfta hér upp nokkrum atriðum úr Faðir vorinu, sem snerta þennan tímafaktor   

 

Fyrst er Guð ávarpaður á mjög persónulegan máta, í nútíð:  

 

Faðir vor. Þú sem ert, á himnum.  

 

Þessi orð eru í nútíð. Hvenær sem þau eru sögð og bænarinnar beðið, þá felst í henni játning um að einmitt á þeirri stundu sé Guð nálægur okkur sem faðir og sé á himnum. Himininn er hugtak yfir það sem er utan seilingar mannsins, en samt yfir og allt um kring.  

 

Helgist þitt nafn. Til komi þitt ríki. Verði þinn vilji, svo á jörðu, sem á himni. 

 

Þessi orð vísa til framtíðar, þess sem koma skal. Að helga eitthvað þýðir að taka það frá, setja það í öndvegi, hafa það í forgrunni í lífinu. Nafni Guðs fylgir sköpun, frelsun og helgun, réttlæti, friður og kærleikur. Og vilji Guðs fjallar einmitt um það líka. Megi það ríki koma í lífi okkar hér og nú, á þeirri stundu sem bænarinnar er beðið, bæði í okkar lífi og allt um kring, það ríki Guðs, sem sú blessun fylgir. 

 

Gef oss í dag, vort daglegt brauð. 

 

Öll þekkjum við brauðstritið, þar sem samhengi er oftast á milli framlags okkar og vinnu, og þeirra möguleika sem við eigum á framfærslu, sjálfstæði og því að geta séð okkur farborða. Bænin talar beint inn í þá stöðu mannsins, því vitanlega er það svo að öll fæða er gjöf frá Guði, allt sem lifir og vex, á sér uppsprettu hjá skaparanum. Því biðjum við Guð að gefa okkur öllum fæðu til að geta lifað, fæðan er líkamanum nauðsynleg uppspretta orku inn í daginn.  

 

En daglegt brauð fjallar ekki aðeins um hina líkamlegu orku inn í daginn.  

 

Í guðspjalli dagsins er skemmtileg sena af Jesú með lærisveinum sínum þar sem þeir eru einmitt að fjalla um brauð og fæðu.  

 

Jesús talar þar við þá um brauðdeig, þ.e. að þeir skuli vara sig á súrdeigi farísea og saddúkea. Brauðið var bakað úr súrdeigi. Farísear og saddúkear voru þær stéttir sem útskýrðu fyrir almenningi lögmálið, þ.e.a.s. þeir höfðu með það að gera hvernig fólk skyldi kenninguna og hvernig fólk ætti að lifa lífinu.  

 

Í guðspjalli dagsins biður Jesús lærisveina sína í raun að beita gagnrýnni hugsun. Hugsið þið sjálfir, ekki láta faríseanna og saddúkeanna rugla í ykkur.  

 

Lærsveinarnir misskildu hins vegar Jesú og héldu að hann væri að tala um brauð með smjöri, því þeir höfðu gleymt að taka með sér nesti. Það getur jú verið áhyggjuefni að hafa ekki fyrirhyggju varðandi slíkt, og einmitt þegar maður er á ferðalagi.   

 

En Jesús hughreysti þá með því að minna þá á kraftaverkið, þar sem fimm brauð og tveir fiskar urðu uppspretta þess að þúsundir urðu mettir. Þeir ættu því ekki að hafa áhyggjur af fæðunni, hinni líkamlegu fæðu, þær gjafir Guðs eru jú allt um kring 

 

Hins vegar var það kenningin sem yfirvöld þess tíma voru að miðla, kenningin og boðskapurinn, sem Jesús sagði þeim að vara sig á. Við getum kallað það hugmyndafræði, túlkun, trú, heimssýn, viðhorf, eða hvaða hugtak sem við notum.  

 

Hugur mannsins er máttugur og hjartað einnig. Að biðja Guð um að veita okkur daglegt brauð, felur því einnig í sér að Guð veiti okkur þannig sýn á heiminn, viðhorf og trú, sem gerir okkur kleift að lifa lífinu í fullri gnægð, að lifa lífinu á farsælan máta.  

 

Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum 

 

Já, hér er talað um fyrirgefninguna. Hún er miðlæg í boðskap kristninnar. Við biðjum Guð að fyrirgefa okkur misgjörðir okkar á þeirri stundu sem bænarinnar er beðið. Fyrirgefa á líkan máta og við fyrirgefum náunga okkar.  

 

Gagnvart áskorunum lífsins og misgjörðum náungans, áföllum, sjúkdómum og öðru, höfum við um tvær leiðir að velja. Við getum reynt að flýja þá reynslu, tilfinningar og ábyrgð, eða við göngum í gegnum eldraunirnar. Að taka á þann máta ábyrgð á lífsgöngu sinni, þ.e. að flýja þær ekki, líkt og Jesús gerði og sýndi með allri lífsgöngu sinni, felur í sér að við segjum líkt og Jesús á krossinum, fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra.  

 

Hin kristna fyrirgefning virðist því koma á undan því skrefi að misgjörðarmennirnir taki ábyrgð á gjörðum sínum. Þ.e. Jesús biður Guð að fyrirgefa þeim, þótt þeir viti ekki hvað þeir hafi gert rangt. Við erum vanari því, að ábyrgðin sé forsenda fyrirgefningarinnar. Skömmin þarf vitanlega að búa á réttum stað og ljóst hver er gerandinn og hver er þolandinn. Þannig haldast í hendur réttlæti og sanngirni. Á slíku grundvallast til dæmis réttarkerfi okkar, þar sem hinum seku er refsað og þeim sem brotið er á, dæmdar bætur, svo eitthvað sé nefnt.  

 

Hin kristna fyrirgefning virðist hins vegar ganga lengra. Það má kannski segja að hin kristna fyrirgefning sé óraunhæf í mannlegu samfélagi, því hún fórnar of miklu, fórnar í raun öllu. Hún sækist ekki eftir játningu, því að hinn seki játi sekt sína. Jesús biður Guð að fyrirgefa hinum seku, þrátt fyrir að þeir viti ekki hvað þeir hafi gert. Fyrirgefningin virðist því koma á undan játningu sektar þegar um hina kristnu fyrirgefningu er að ræða 

 

Eigi leið þú oss í freisti, heldur frelsa oss frá illu.  

 

Þessi setning er svolítið glúrin, hún vísar til framtíðar, þess sem mun verða 

 

Er það Guð sem leiðir okkur í freistni?  

 

Kannski hafa hugmyndir okkar um það breyst á undanförnum árum og öldum, hvað finnst þér? 

 

Með það í huga að Guð eilífur, allt um kring, upphaf og endir alls, með allt í sinni hendi, þá er ekkert skrýtið að maðurinn skuli biðja með þessum orðum, því freistingar hljóta þá einnig að vera í höndum Guðs 

 

En svo er það frelsunin. Það er jú það sem Guð gerir. Hann frelsar manninn frá illu. Þegar við erum í samfélagi við Guð, þá er ekki rými fyrir hið illa. Þegar Guð er ferðafélaginn þá er hið illa fjarri. Þar sem Guð er, þar er ljós og líf, fyrirgefning og upprisa.  

 

Þessar setningar vísa til framtíðar og þess að Guð haldi okkur frá því sem er slæmt fyrir okkur og frelsi okkur til hins góða.  

 

Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen.  

 

Já, og með þessum orðum undirstrikum við hvert bænin beinist. Við beinum henni til Guðs sem er allt í öllu, mátturinn að baki lífinu og dýrðin.                           

 

Gestrisnin 

 

“Gleymið ekki gestrisninni því að vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita.”  Segir í Hebreabréfinu, sem lesið var úr hér áðan. 

 

Þetta finnst mér ein dásamlegasta setning Biblíunnar. Mér finnst áhugavert að hugsa þessa setningu í samhengi tímans og eilífðarinnar.  

 

Englarnir koma úr eilífðinni, má segja. Með því að sýna öðrum gestrisni og bjóða fólki inn, þá gætum við sem sagt, án þess að vita, boðið englum í bæinn. Ég held raunar að við séum stöðugt að þessu. Því samkvæmt kristnum skilningi hefur guðlegu fræi verið sáð í hjörtu okkar hvers og eins. Í okkar eigin lífi mætast því einnig tíminn og eilífðin. Svo með því að sýna hvert öðru gestrisni þá erum við að bjóða Guði sjálfum heim.  

 

Kannski er það því þannig að gestrisnin fjallar í raun ekki um samskipti okkar við annað fólk, heldur þegar öllu er á botninn hvolft, samskipti okkar við Guð.  

 

 Því við erum í raun alltaf að fást við Guð, er það ekki?  

 

Hvað heldur þú? 

 

Guð er þér nærri, elskar þig og vill veita þér hugrekki og heilsu, gæfu og þor.  

Þetta er einn af rauðu þráðum Biblíunnar. Guð er nærri og elskar heiminn, alla menn, og þar með þig og mig. Það er kjarninn í boðskapnum. Ef við útleggjum boðskapinn í andstöðu við þennan kjarna, þá má segja að við setjum okkur í flokk með faríseum og saddúkeum, svo vísað sé í guðspjall dagsins 

Hver sem staða okkar er í lífinu eða hvernig sem vegferðin hefur verið eða hvaða erfiðleikar sem það eru sem við stöndum frammi fyrir núna, þá höfum við öll tækifæri til að miðla þessum kærleika, friði og hlýju áfram til þeirra sem í kringum okkur eru. Hvort sem það er á gleðistundum þeirra eða þegar skórinn kreppir að.  

  

Hvernig við beitum okkur, horfum á lífið og reynumst samferðarfólkinu, þar ræðst það síðan hvort okkur beri gæfa til að lifa í friði og miðla ljósi kærleikans áfram eður ei. 

  

Við finnum það þegar við skoðum texta Biblíunnar hve rangt það er að setja sig á háan hest á grundvelli trúar sinnar eða lífsafstöðu. Einkenni trúar, sem grundvölluð er að textum og boðskap Biblíunnar, er að hún ætti ávallt að vera leitandi, auðmjúk, mild, gæskurík og þjónandi. Trúin er ekki tæki til að dæma aðra heldur getur verið grundvöllur þjónustu og friðar í heiminum. Sé friður í okkar eigin hjarta, þá er líklegra að friðurinn breiðist frá okkur út til annarra.  

Í textum Biblíunnar sjáum við svo og finnum að við erum ekki ein, því Guð vill styrkja okkur á lífsveginum og gefa okkur frið, frið sem hvergi annarsstaðar er að finna.   

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.  

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.  


Hugleiðing flutt í morgunmessu í Grensáskirkju kl. 11 og kvöldmessu í Bústaðakirkju kl. 20, sunnudaginn 14. júlí 2024.