Lýsi og brauð

Lýsi og brauð

„En nú þurfum við að standa saman og treysta á Guð og hvert annað. En tökum eftir því að lýsingin úr 2. Mósebók í allsleysinu er um leið lýsing á hinu fullkomna samfélagi þar sem allir fá nóg, enginn of mikið og enginn of lítið. Postulinn tekur í sama streng er hann segir í pistli dagsins . . . “

Hægt er jafnframt að hlusta á ræðuna með því að smella hér.

Í fréttum Sjónvarps í gær var fjallað um konu frá Nepal. Pryanka á allt sitt undir velvild yfirvalda og almennings á Íslandi til að verða ekki framseld til heimalands síns og þar sett í aðstæður sem hún getur ekki hugsað sér.

Flóttamenn frá Túnis voru einnig í fréttum. Þeir búa þúsundum saman við ömurlegar aðstæður á eynni Lampedusa sem tilheyrir Ítalíu.

Uppreisnarmenn í Líbýu berjast fyrir mannréttindum og hrópa á hjálp annarra þjóða.

Japanir glíma hnípnir af sorg við missi og mengun.

Sögur af fólki í erfiðum aðstæðum.

Sagan sem við heyrðum úr 2. Mósebók er um þjóð á flótta, þjóð án heimilis, landlausa þjóð, allslausa þjóð.

Og þó ekki allslausa því hún átti öflugan leiðtoga – og svo átti hún trú á almáttugan Guð.

Ísraelsmenn höfðu kosið með fótum sér og yfirgefið landið þar sem þeir voru þrælkaðir. Því hefur verið haldið fram að brottför þeirra, Exódus, marki pólitísk skil í sögu heimsins. Hvað sem um það má segja þá er þarna fólk á ferð. Mat er ekki hægt að kaupa í búðum og vatn rennur ekki úr krönum. Þetta er allslaust fólk á ferð sem lærir að lifa af því sem Drottinn gefur, fólk sem hefur þá vitund að vera algjörlega uppá vernd og náð Guðs komið.

Og þegar sverfur að kvartar fólkið og kveinar við leiðtoga sinn. „Ég hef heyrt mögl Ísraelsmanna“, segir Drottinn. Svo kom hjálpin. Lynghænsn þöktu tjaldbúðirnar og morguninn eftir var eyðimörkin þakin hélu sem var þó ekki snjókoma eins og ábreiða morgunsins hér í Vesturbænum, heldur eitthvað sem varð að fínkornóttum mat þegar hélan þornaði. En þennan mat var ekki hægt að geyma. Þess vegna var tilgangslaust að hamstra og safna en hver mátti taka eins og hann þurfti.

Vafalaust eru nátturulegar skýringar á þessu undri en Ísraelsmenn sáu þetta sem hjálp Drottins. Og maður spyr í því samhengi: Hvað í þessum heimi er ekki gjöf Drottins? Hvað er ekki afurð ljóssins eina sem skapað var í öndverðu? Þorskurinn í sjónum er af ljósi og gaf Íslendingum ljós um aldir – lýsi!

Landlaus þjóð á flótta í auðnum og allsleysi. Orð postulans Páls koma fram í huga minn:

Við erum „öreigar, en eigum þó allt.“ (2 Kor 6)

Hvenær erum við í aðstæðum þar sem við verðum að treysta á hið æðsta og besta í tilverunni?

Við erum oft í þeim aðstæðum og jafnvel á hverju andartaki. Lífið hangir til að mynda ávallt á bláþræði.

Ég var að vafra um í Íslendingabók og skoðaði þá ætt langömmu minnar í ætt móðurafa. Hún var ein 7 systkina. Einungis tvö þeirra náðu fullorðinsaldri, hin dóu öll á fyrsta ári eða fyrir tíu ára aldur.

Séra Páll Jónsson í Viðvík reyndi margt. Hann eignaðist mörg börn og aðeins eitt þeirra lifði hann. Ég fann á vefnum texta eftir afkomanda hans, Gylfa Pálsson og leyfi mér að vitna til hans hér:

„Á Viðvíkurárunum fer heilsu séra Páls hrakandi og hann verður fyrir sárum barnamissi eins og hann lýsir sjálfur í bréfi til séra Davíðs á Hofi fyrsta og fimmta febrúar 1884:

“Ég fékk bréf þitt á sömu mínútunum og elskað barn mitt, stúlka, sex ára gömul, frábær af gáfum og gæðum, Guðrún að nafni, skildi við þetta líf. Hún dó úr hinni voðalegu, færeysku barnaveiki, háls- og kokbólgu og fjögur börnin mín önnur liggja nú í henni og ef guð sviptir mig þeim öllum þá þykir mér hönd hans leggjast þungt á mig. En ég hef æ í huga og minni þau fögru orð er stóðu í ræðu yðar eftir Gamalíel sáluga að af elsku stjórnar höndin sem hirtir. Þau hafa æ verið mér í huga og minni og ekki síst þegar ég missti Snorra son minn því með honum missti ég allt athvarf hér í heimi. Guðrún mín er tólfti ástvinur minn sem ég hef hlotið að sjá á bak; konan, elskað sonarbarn, fimm börn af fyrra hjónabandi, hið yngsta 30 ára, hið elsta fjörutíu og þriggja ára – og fimm frá síðara hjónabandi. Barn sem ég eignaðist á næstliðnu vori og lét heita Snorra dó eftir liðugan sólarhring og saknaði ég þess mjög og það er það eina af ástvinum mínum sem ég hef búið til eftirmæli eftir og hefi þau hjá rúmi mínu.”

Þessu bréfi sínu lýkur Páll þremur dögum síðar:

“Ekki þykja góðum guði hjartasár mín vera nógu mörg enn. Nóttina milli þriðja og fjórða þessa mánaðar missti ég ástkæran son, Jón að nafni, tæplega sjö ára gamlan, mjög frá- bæran til sálar og líkama. Hann, þetta elskulega og blessaða barn, hef ég elskað mest af öllum ástvinum mínum því hann var í öllum hlutum í hverri grein svo elskulegur og var því slitinn frá hjartarótum mínum blóðugum. Yngsta barnið mitt, Elinborg, tæplega fjögurra og hálfs árs gömul liggur og við dauðann og mun naumast lifa lengur en einn sólarhring. Ég get nú ekki skrifað meira þó að ég ætlaði mér það. Þungur, óbærilegur harmur gjörir mér dimmt fyrir augum. Lífið er eins og hryggileg eyðimörk, lukin dimmu og dauða. Ég óska yður alls góðs. Yðar Páll Jónsson. Biðjið þér guð fyrir mér.”

Þessi sami maður orti í þessum sömu aðstæðum:

Ó, Jesú bróðir besti og barnavinur mesti, æ breið þú blessun þína á barnæskuna mína.

[. . . ]

Það ætíð sé mín iðja að elska þig og biðja, þín lífsins orð að læra og lofgjörð þér að færa.

Þín umsjón æ mér hlífi í öllu mínu lífi, þín líknarhönd mig leiði og lífsins veginn greiði.

Mig styrk í stríði nauða, æ styrk þú mig í dauða. Þitt lífsins ljósið bjarta þá ljómi’ í mínu hjarta.

Svo orti hann hinn undurfagra páskasálm:

Sigurhátíð sæl og blíð.

Getum við eitthvað lært af þessum manni? Við ættum í það minnsta að geta aukið með okkur æðruleysi og þolinmæði.

Fólkið sem lifði við þessar aðstæður voru formæður og forfeður okkar sem nú lifum við allsnægtir enda þótt kvartað sé og kveinað um kaup og kjör. Ég segi þetta ekki t.þ.a. draga kjark úr fólki sem lifir við bág kjör. Trúna má ekki nota til að kúga fólk enda þótt dæmi séu til um það í sögunni. En við höfum samt gott af því að heyra um kjör fólks fyrr á öldum – og kjör einnar konu frá Nepal, flóttamanna á Lampedusa og uppreisnarmanna í Líbýu, Japana í kjölfar flóðbylgjunnar ægilegu.

Ísrealsmenn voru fólk á ferð um gróðurlausar sandauðnir. Lynghænsn og manna fengu þau til fæðu af himnum ofan.

Íslendingar ganga nú í gegnum erfiða tíma enda þótt enn sé ekki orðinn vöruskortur eða húsin köld né kalda vatnið ókræsilegt. Vonandi er leiðin héðan í frá bara upp á við!

En við getum hins vegar alveg ímyndað okkur aðstæður þar sem landið mundi einangrast og við yrðum að fara niður á bryggju daglega til að biðja sjómenn um fisk í soðið – „manna“ úr sjónum. Vonandi verður aldrei svo dimmt yfir efnahag Íslendinga.

[Innskot - Baráttan um brauðið vs. þau sem stálu bakaríinu]

En nú þurfum við að standa saman og treysta á Guð og hvert annað. En tökum eftir því að lýsingin úr 2. Mósebók í allsleysinu er um leið lýsing á hinu fullkomna samfélagi þar sem allir fá nóg, enginn of mikið og enginn of lítið. Postulinn tekur í sama streng er hann segir í pistli dagsins:

„Verið lítillát og metið hvert annað meir en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.“

Hann „er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.“

Hvað merkir það að eta af þessu brauði?

Í hjartastað kirkjunnar er veisluborð, borð með brauði og safa af ávexti vínviðarins, táknræn fæða, himnesk fæða því hún er eins og allt sem við neytum, fætt af einu og sama ljósinu.

Hann sem bauð sínum nánustu vinum til kveðjumáltíðar forðum daga bíður fylgjendum sínum enn til borðs. Hann er hér sjálfur í anda og segir:

Þið eruð vinir mínir, þið eruð við sama borð og ég.

Við sama borð.

[Innskot um kenosis - lægingu Krists]

Það er einmitt mergurinn málsins og með því að neyta gjafa hans erum við að samsama okkur hinu eilífa ljósi og lífi. Því fylgir sú ábyrgð að við látum fordæmi Krists móta líf okkar og samfélag, að við gerum samfélag okkar að fyrirmyndar samfélagi þar sem allir hafa nóg, samfélag þar sem við njótum þess að vera til sem börn Guð í hinni góðu og fögru veröld.

Við erum söfnuður sem á heimili í Neskirkju. Í dag höldum við aðalfund safnaðarins. Við horfumst í augu við samdrátt og minni ráðstöfunartekjur en ótrauð höldum við áfram því nauðsynlega starfi sem er það að boða orð Guðs um elsku og frið, um sátt og samlyndi, um huggun og kraf, um fagurt mannlíf og heilindi í samskiptum allra manna. Neskirkja er vettvangur til þess að æfa sig í þeirri íþrótt að vera manneskja – að vera kristin manneskja. Við erum Neskirkjufólk og þurfum að standa saman og vera ötul í baráttunni fyrir betra samfélagi.

Við erum jafnframt eitt mannkyn:

Íslendingar,

konan frá Nepal,

flóttamennirnir á Lampedusa og

uppreisnarmennirnir í Líbýu,

Japanska þjóðin.

Eitt mannkyn sem þráir friði og hamingju. Við getum breytt þessu þjóðfélagi og líka þessum heimi í samfylgd með honum sem er „hið lifandi brauð sem steig niður af himnum.“

Neytum brauðsins og ávaxtar vínviðarins og þiggjum þannig kraft til góðra verka. Verum með sama hugarfari sem Kristur var. Hann er með okkur í verki. Hann sem tók okkur að sér í heilagri skírn, fylgir okkur allt til enda og um alla eilífð.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

- - - Texta dagsins er hægt að skoða hér.