Satt og rétt

Satt og rétt

Okkur finnst þetta vera hryllilegt stríð og við hugsum ekki hlýlega til rússneskra stjórnvalda um þessar mundir sem bera ábyrgð á andláti saklausra barna og kvenna í Úkraínu. Við hugsum þeim þegjandi þörfina. Ég var að hugsa um það um daginn hvort ég ætti að ryðjast fram á ritvöllinn og hvetja bændur um allt land til að streyma til höfuðborgarinnar með mykjudreifarana sína og sprauta mykjunni á veggi sendiráðs Rússa í Reykjavík en svo mundi ég eftir því að sendiráðið er við hliðina á Landakots spítala þannig að ég hætti við. Lyktin myndi líka gera út af við nágrannanna. Til eru andar sem tala máli lyginnar. Það þarf að kveða þá niður. Það er gert með máli sannleikans. Mér finnst rússneska rétttrúnaðarkirkjan vera höll undir anda lyginnar um þessar mundir. En biskup þeirrar kirkjudeildar hefur lofað rússnesk stjórnvöld fyrir að hafa ráðist inn í Úkraínu og eyðilagt um eitt hundrað kirkjur. Hann hefur lofað rússnesk stjórnvöld fyrir að hafa myrt saklaus börn, konur og gamalt fólk. Þessi biskup á skilið að vera á einhverjum slæmum stað eins og ráðamenn í Rússlandi um þessar mundir. Já, helvíti, ég segi það bara fullum fetum og stend við það. En hvar er helvíti og hvað er sannleikur í þessum víðsjárverða heimi. Ég leysi ekki þá gátu í dag.


Sunnudagarnir eftir Páska hafa verið nefndir gleðidagar í kirkjunni frá fornu fari til að minna okkur á þá einlægu gleði sem fyllti hjörtu lærisveinanna þegar þeir sáu Jesú upprisinn mitt á meðal þeirra. Hann átti síðan eftir að vera með þeim   líkamlega í 40 daga þar til hann steig upp til himna á degi uppstigningarinnar. Þá kvaddi hann lærisveina sína með þeim orðum að hann myndi koma aftur til þeirra í anda sínum. Með uppstigningu sinni varð Jesús óháður tíma og rúmi. Því getum við trúað því að hann sé hér hjá okkur í dag í anda sínum.

Að sönnu er tilefni til að gleðjast yfir upprisu Jesú Krists frá dauðum vegna þess að ef hann hefði ekki gert það þá væri trú okkar fánýt eins og postulinn Páll sagði.  Þá hefði kristið fólk ekki reist Drottni  helgidóma um allan heim þar sem hann yrði tilbeðinn í anda og sannleika fyrir orð hans og máttarverk fyrr og síðar.

Rætur okkar liggja í gyðingdómnum en biblía gyðinga er gamla testamentið og svo notast þeir við önnur rit sem urðu til á vegferð þeirra en tilheyra ekki safni rita í gamla testamentinu. En það eru t.d. bækur sem urðu til þegar gyðingar tóku boðskap fimm bóka ritsins til sín, Mósebókanna

Jesús sem gyðingur var handgenginn ritum gamla testamentisns og vísaði einatt til þeirra og lasupp úr þeim í samkunduhúsi gyðinga   Á einni slíkri stundu las hann  úr spádómsbók Jesaja og sagði svo að þessi spádómur hefði ræst í sér. Þá var hann gerður samkundurækur vegna þess að fólk sá þá aðeins son trésmiðsins frá Nazaret í Jesú en ekki mann sem hafði guðlega hlið og yfirnáttúrulega hæfileika. Áður en gyðingar reistu sér helgidóma þá gegndi sáttmálsörkin því hlutverki að vera bústaður Guðs en hún var færanleg eins og kunnugt er.

Lexia dagsins er úr spádómsbók Eskiels. Hann var ábyrgur fyrir trúarlífi safnaðarins í útlegðinni í Babylon. Hann sagði að söfnuðurinn í útlegðinni gæti aðeins lifað af ef hann færi eftir lögum Drottins og varðveitti þannig trú sína og siði. Hann sagði að Drottinn myndi setja helgidóm mitt á meðal þeirra til að þeir gætu þannig varðveitt trú sína og siði

Pistill dagsins er ritaður af Pétri postula. Hann segir að endir allra hluta sé í nánd.  Það var viðtekin skoðun postulanna eftir að Jesús steig upp til himna að hann myndi fyrr en síðar snúa aftur og dæma lifendur og dauða.  Postularnir lifðu í þessari eftirvæntingarríku von frá uppstigningardeginum þar til líkamar þeirra urðu að dufti og sálir þeirra hurfu heim til Drottins.

Kristið fólk lifir enn í þeirri von að Jesús muni koma aftur til jarðarinnar í sýnilegum líkama til að dæma lifendur og dauða.  Á meðan tökum við undir orð postulans og reynum að halda vöku okkar og vera algáð til bæna en umfram allt að hafa brennandi kærleika til hvers annars. Aldrei hefur verið meiri þörf á þessu en á þessum víðsjárverðu tímum þegar fólk um allan heim veltir fyrir sér hvort þriðja heimstyrjöldin sé í vændum. Guð gefi að stríðandi aðilar sjái að sér í tíma í þágu heimsbyggðarinar.

Umhyggja fyrir sjúkum var eitt af því sem kom með kristinni trú. Kristið fólk fór þá að dæmi Jesú og sýndi fólki sem átti erfitt að ýmsum ástæðum virðingu, nærgætni, hlýju og stuðning.  Og fólk var hvatt til þess að nota margvíslega hæfileika sína til að þjóna fólki í kærleika og muna eftir því að gefa Guði jafnan dýrðina.

Jesús hafði oftsinnis rætt við lærisviena sína um það að hann myndi fara í burtu frá þeim en hann myndi koma aftur. Þeir skildu ekki hvað hann var að tala um. Jóhannes guðspjallamaður birtir þessar ræður, svo kallaðar kveðjuræður í köflum 14-17 í guðspjalli sínu. Kirkjan hefur undanfarna sunnudaga fjallað um boðskapinn í þessum kveðjuræðum. Guðspjall dagsins er  tekið úr 15 kafla Jóhannesarguðspjalls. Þar gefur Jesús loforð um nærveru andans. Hann talar um hjálparann sem er sannleiksandinn sem kemur til með að vitna um sig. Hann fullvissar lærisveina sína um að það sé hægt að treysta þessum anda því að hann sé frá föður sínum kominn og vitni ekki um sjálfan sig heldur um son Guðs sem var krossfestur saklaus en reis upp frá dauðum. 

Reynsla kynslóðanna er líka sú að til eru andar sem eru ekki sannleikans megin og draga til sín auðtrúa sálir og blekkja þær til að tala sínu máli, máli lyginnar. Mér fannst fyrrverandi bandaríkjaforseti tala þannig oft á tíðum að það var erfitt að treysta orðum hans. Það var eins og hann væri oft ekki að segja satt þegar hann talaði til heimsins. Það er erfitt að byggja upp traust í garð fólks sem segir ekki sannleikann. Það málar sig út í horn fyrir vikið.

Fyrsta fórnarlambið í stríði er sannleikurinn. Donald Trump ímyndaði sér kannski að hann ætti í stríði við fjölmiðla samtímans. En hann var mjög viðkvæmur gagnvart slæmri umfjöllun um sig í fjölmiðlum

Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu þá var sannleikurinn fyrsta fórnarlambið. Ástæðan var sögð sú að fasistar og nasistar réðu ríkjum í Úkraínu.  Það er ekki satt. En forseti Úkraínu er af gyðinglegum ættum. Það skýtur því skökku við að segja að nasistar séu við stjörnvölinn í Úkraínu.

Í sjálfu sér eru Rússar að murka lífið úr saklausu fólki sem á ættir sínar að rekja til svæða sem tilheyrðu áður gömlu sovétríkjunum, fólki sem talar rússnesku.  Okkur finnst þetta vera hryllilegt stríð og við hugsum ekki hlýlega til rússneskra stjórnvalda um þessar mundir sem bera ábyrgð á andláti saklausra barna og kvenna í Úkraínu. Við hugsum þeim þegjandi þörfina.  Ég var að hugsa um það um daginn hvort ég ætti að ryðjast fram á ritvöllinn og hvetja bændur um allt land til að streyma til höfuðborgarinnar með mykjudreifarana sína og sprauta mykjunni á veggi sendiráðs Rússa í Reykjavík en svo mundi ég eftir því að sendiráðið er við hliðina á Landakots spítala þannig að ég hætti við. Lyktin myndi líka gera út af við nágrannanna.  Til eru andar sem tala máli lyginnar. Það þarf að kveða þá niður. Það er gert með máli sannleikans. Mér finnst rússneska rétttrúnaðarkirkjan vera höll undir anda lyginnar um þessar mundir. En biskup þeirrar kirkjudeildar hefur lofað rússnesk stjórnvöld fyrir að hafa ráðist inn í Úkraínu og eyðilagt um eitt hundrað kirkjur. Hann hefur lofað rússnesk stjórnvöld fyrir að hafa myrt saklaus börn, konur og gamalt fólk. Þessi biskup á skilið að vera á einhverjum slæmum stað eins og ráðamenn í Rússlandi um þessar mundir. Já, helvíti, ég segi það bara fullum fetum og stend við það. En hvar er helvíti og hvað er sannleikur í þessum víðsjárverða heimi. Ég leysi ekki þá gátu í dag.

Við þráum frið í garð þeirra sem hernaðurinn beinist gegn að sjálf sögðu. En til þess að friður takist þá verður að semja um vopnahlé og setjast að samningaborði þar sem fólk talar sannleika en ekki lygi. Þar getur kannski sannleiksandinn frá föður okkar á himnum verið besti sáttasemjarinn. Sannleiksandinn sem kom yfir lærisveinana á Hvítasunnudag sem nefndur er hjálparinn í guðspjalli dagsins.

Hjálparinn talar um orðið sem leitar okkar og tekur sér bústað í hjörtum okkar. Jesús hvetur lærisveina sína til að bera vitni um sig í orði og verki því að þeir hafi verið með sér frá upphafi starfs hans  Jesús átti svo eftir að hvetja þá til að fara til að safnast saman í Jerúsalem á Hvítasunnudegi því  að

þá myndi hann úthella heilögum anda yfir þá.  En í þeim stóra atburði væri fólginn stærsta fyrirheiti upprisunnar um óendanlega elsku Guðs sem er með lærsveinunum á öllum tímum í lífi og í dauða.  Hjálparanum svokallaða er ætlað að hugga og hughreysta lærisveinana og taka frá þeim allan ótt um að þeir yrðu yfirgefnir. Þess í stað væru þeir hvattir til að gerast erindrekar Krists í þeim heimi sem þeiri lífðu og hrærðust í.

Á Hvítasunnudag forðum var kirkjan stofnuð og fleiri en fimm þúsund komust á þeim degi til lifandi trúar á Jesú Krist Við sem lifum í dag og trúum á Jesú Krist erum mikilvægir hlekkir í lærisveinakeðjunni sem varð til þegar Jesús kallað lærisveinana til að yfirgefa allt og fylgja sér.  Og lærisveinakeðjan átti bara eftir að lengjast. Stöðugt bættust nýir hlekkir í hana og hún hefur aldrei rofnað. Líkt og fyrstu lærisveinarnir forðum þá erum við líka hvött til að vera erindrekar Krists í þessum fallvalta heimi. Við erum líka send út með heilnæman boðskap Jesú til samferðafólks okkar

Andinn er tákn og trygging hins góða lífs með Guði nú þegar dýrð sonarins eingetna hefur verið opinberuð á krossinum og í upprisunni. Andinn er beinlínis lykill að hjálpræðisáætlun Guðs sem vill að allt fólk á jörðinni komist til lifandi trúar á frelsarann Jesú Krist. En við sem trúum á hann erum öll kölluð,valin og send til að taka þátt í því verkefni til lífstíðar.

Andinn mun leiða fólki fyrir sjónir veruleika syndar, réttlætis og dóms. Hann mun afhjúpa þeim sem ekki trúa, villu vantrúar þeirra. Syndin heldur fólki utan samfélagsins. Andinn hefur því það hlutverk að vitna um Jesú fyrir fólki sem ekki trúir til að laða það að samfélagi þeirra sem trúa á Jesú.

Það sem mér finnst vera spennandi við heilagan anda er sú staðreynd á hverjum tíma frá einni kynslóð til annarar þá mun hann færa kenningar Jesú í spennandi búning fyrir nýja tíma.  Sjáið þið bara hvað hefur gerst hjá þjóðkirkjunni hér á landi og annars staðar í kirkjulegu samhengi á norðurlöndum og víðar á covid 19 veirutímanum. 

Í stað þess að fólkið færi til kirkju þá fór kirkjan til fólksins með boðskap sinn og nýtti sér nýjustu tækni í því skyni á netinu sem féll í góðan jarðveg ekki síst hjá unga fólkinu. Kirkjan bauð upp á streymis bæna og helgistundir af ýmsu tagi og börnin fengu sunnudagaskólann í viðtækin sín heima.  Þetta er nú komið til að vera tel ég. Nú er hægt að lesa biblíuna í snjalllsímanum og leikarar tóku að sér að lesa allt Nýja testamentið þannig að unnt er að hlusta á lesturinn á netinu. Allt er þetta mikilvægur liður í því að breiða út fagnaðarerindið til fólks. Hér er heilagur andi að verki sem gefur visku og vísdóm til að orðið megi bera sem víðast ávöxt.

Heilagur andi ber vitni um tvennt.  Í fyrsta lagi þá segir Heilagur andi frá því að  hjálpræðisáætlun föðurins og sonarins  hafi náð fram að ganga. Krossinn var ekki tákn um ósigur heldur sigur.  Fyrir orð Guðs varð heimurinn til. Og þetta orð varð hold og bjó meðal okkar. Hyldjúp elska Guðs föður til heimsins birtist þegar Jesús lýsti því yfir á krossinum að verkefni föður síns á himnum væri lokið, þegar hann sagði:,,Það er fullkomnað.“

Í öðru lagi ber Heilagur andi vitni um einingu sína við föðurinn og soninn. Heilagur andi framkvæmir þannig vilja föðurins á himnum fyrir son sinn Jesú Krist sem er að sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Syndin er að heimurinn trúði ekki að Guð hafi gefið heiminum son sinn Jesú Krist. 

Réttlætið er fólgið í því að sonurinn eingetni fer aftur til föður síns á himnum og heimurinn sér hann ekki lengur. Dómurinn er fólginn í því að höfðingi þessa heims er dæmdur. Heilagur andi mun leiða heiminn í sannleikann um þetta.

Í skírninni endurfæðumst við fyrir vatn og heilagan anda. Guð tekur okkur í ríki síns elskaða sonar þar sem er fyrirgefning syndanna, líf og sáluhjálp. Það er að sönnu stórkostlega gleðilegt að fá að vera barn Guðs í þessum víðsjárverða heimi þar sem margir stígar eru hálir. Sem betur fer eru þó flestir stígarnir þurrir og heiðríkja er yfirleitt yfir höfðum okkar. En þegar syrtir að þá er gott að finna sig umvafinn örmum Guðs sem huggar okkur fyrir orð sitt og gefur okkur styrk til að takast á við verkefnin framundan.

Maðurinn er ekki eyland. Við erum tengslaverur. Við hugsum til hvers annars og ræktum tengslin við hvert annað með ýmsu móti þótt ólík séum. Við sinnum þeim sem sjúkir eru til líkama og sálar. Við komum fátækum til hjálpar með ýmsu móti innan lands og utan. Við hjálpum flóttafólki og hælsileitendum í anda frelsarans frá Nazaret. Við fögnum fjölbreytninni í mannlífinu sem gefur því gildi. Þar er heilagur andi líka að verki sem gefur þessu yndislega lífi fallega litaflóru sem við erum hluti af. Heilagur andi er líka valdeflandi og kennir okkur að standa með okkur sjálfum, kennir okkur að halda okkur við það sem er rétt og heilnæmt og hafna því sem er rangt og dregur okkur niður.

 Kæru vinir. Það er tekið að birta á ný hér á landi. Guði sé lof og dýrð fyrir það. Að sönnu eru þessir dagar eftir Páska gleðidagar. En fyrst og fremst getum við á öllum tímum glaðst yfir þeirri náð að fá að vera Guðs börn  og ganga á hans vegum. Amen

 

Lexía: Esk 37.26-28

Ég mun gera við þá sáttmála þeim til heilla og það skal verða ævarandi sáttmáli við þá. Ég mun fjölga þeim og setja helgidóm minn mitt á meðal þeirra um alla framtíð. Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín. Þjóðirnar munu skilja að ég er Drottinn sem helgar Ísrael þegar helgidómur minn verður ævinlega á meðal þeirra.

 Pistill: 1Pét 4.7-11

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla. 1Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónar sýni að Guð gefi máttinn til þess. Verði svo Guð vegsamaður í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

 Guðspjall: Jóh 15.26-16.4

Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi.

Þetta hef ég talað til yðar svo að þér fallið ekki frá. Þeir munu gera yður samkunduræk. Já, sú stund kemur að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gera af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. Þetta hef ég talað til yðar til þess að þér minnist þess að ég sagði yður það þegar stund þeirra kemur.