Þjónusta í trausti

Þjónusta í trausti

Við erum ekki tilbúin til að lúta valdi ef við treystum ekki þeim er valdið hefur. Traustið er því forsendan fyrir því að við viljum lúta valdi. Vald Jesú Krists, sem byggist á kærleika og umhyggju er vald sem við getum treyst.

Í þrítugasta og sjöunda Davíðssálmi segir:

„Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá“.

Þessi orð skáldsins eins og mörg önnur í hinni helgu bók eru gott veganesti á lífsins leið. Þau minna okkur á að við erum aldrei ein. Þau minna okkur á að við þurfum ekki að starfa í eigin mætti og þau minna okkur á að líta björtum augum á lífið vegna þess að Drottinn mun vel fyrir sjá. Hvort sem dagar okkar eru bjartir eða dimmir þá megum við treysta því. Þessi áminning skáldsins eru gott veganesti þegar fetuð er ný leið í lífinu eins og í dag hjá þér kæri vígsluþegi. Ekki einungis svarar þú kalli Drottins að þjóna honum í kirkju hans heldur mun annað land fóstra þig og þína að minnsta kosti um tíma. Þú tekst því á við mikla áskorun og finnur mikilvægi þess að treysta Guði þínum.

Á ferð minni um Afríkulönd nýverið varð ég áþreifanlega vör við hverju trúin á Jesú Krist hefur áorkað og breytt lífi fólksins til batnaðar. Í Pókothéraði í Kenýu þar sem íslenskir kristniboðar hafa starfað í 35 ár var talað um lúxusvandamál sem felst í því að söfnuðurnir vaxa svo hratt að fólkið hefur ekki undan að byggja kirkjur og mennta presta til þjónustunnar. Ekki einasta breytist hugsunarháttinn og lífsviðhorfið og vonin kviknar um betra líf sjálfum sér og börnum framtíðarinnar til handa, heldur finnur fólk að hin kristna samhjálp eykur lífsgæðin. Það er sennilega hvergi meiri gleði í kristinni trúartjáningu en á þeim svæðum sem nýkristin eru, því fólkið man enn hvernig það var áður en Jesús kom inn í líf þeirra. Og þar hafa kraftaverkin gerst þegar nafnið hans hefur verið nefnt upphátt.

Þar voru sagðar sögur af kraftaverkum þar sem engill Drottins frelsaði fórnarlamb úr klóm kvalara sinna með aðferð sem enginn mannlegur máttur getur skýrt eða skilið. Og þar var sögð saga drengins einhenta sem fórna átti í skóginum vegna fötlunar sinnar en slapp vegna þess að kristinn maður kom þar að á hárréttum tíma. Þessi drengur brosti til okkar fyrir framan skólann sinn sem hann sækir nú, skóla sem er einn af mörgum sem Íslendingar hafa hjálpað til með uppbyggingu á.

Eftirtektarvert var líka að hvarvetna sem komið var í þorpin þar sem Hjálparstarf kirkjunnar vinnur að verkefnum var byrjað með bæn og endað með bæn. Það var ótvírætt merki um það að ef við lifum, lifum við Drottni, ef við deyjum, deyjum við Drottni, eins Páll postuli kemst að orði í bréfi sínu til Rómverja.

Prestar finna það fljótt að detti þeim í hug að reyna að þjóna í eigin mætti, þá endist krafturinn stutt. Þess vegna er mikilvægt að uppbyggjast af Orði Guðs, rannsaka það og leitast við að haga lífi sínu í samræmi við það. Að vera trúr þeim boðskap sem okkur er ætlað að flytja og hvíla í þeirri vissu að andinn heilagi leiði og blessi. Að trúa því og treysta að kraftur Guðs hafi áhrif í heiminum og daglegu lífi einstaklinga og þjóða.

Prestar eru sendir af Guði til að þjóna meðbræðrum sínum og systrum. Sendir til að þjóna kirkju Krists, í krafti valds hans.

Valdi fylgir ábyrgð. Um valdið talar Jeús við lærisveina sína. Vald er vandmeðfarið og því fylgja fórnir. Jesús leggur áherslu á það að þeir, lærisveinar sínir verði að vera tilbúnir til að færa fórnir. Ganga veg krossins, jafnvel líða og þjást eins og hann. Þó þeir væru metnaðarfullir og vildu hlýða Jesú og breiða út fagnaðarerindið þá fæli það ekki í sér nein forréttindi. Eftirsókn eftir völdum ætti ekki heima í guðsríkinu.

Vald birtist víða. Í guðspjöllunum sjáum við dæmi þess að valdi er beitt, t.d. þegar Jesús var handtekinn og dæmdur til dauða á krossi. Pílatus hafði valdið til að dæma og það jafnvel til dauða. En hann skorti kjarkinn og kannski líka viljann til að beita valdi sínu, en lét svo undan vilja lýðsins eins og kunnugt er. Þannig notaði hann vald sitt.

Það fylgir vandi vegsemd hverri og það fylgir því ábyrgð að hafa vald. En þau sem valdið hafa verða líka að vera tilbúin til að axla þá ábyrgð og standa og falla með gjörðum sínum.

* * *

Jesús sagði eftir upprisuna og áður en hann steig upp til himna að hann hefði allt vald á himni og á jörðu. Þetta sagði hann við lærisveina sína um leið og hann sendi þá út í heiminn til að skíra og kenna. Í krafti valds síns sendi hann þá. Hann sendi þá tómhenta út í heiminn til að boða fagnaðarerindið.

Þegar Jesús talar um að hann hafi allt vald á himni og á jörðu þá á hann við að honum hafi verið gefið hið góða vald og það sé eina valdið, sem gildi á himni og jörðu. Allt illt vald ber sinn eigin dóm og dauða í sér. Vald Jesú Krists er lífið, Guðs sigrandi líf. Og í krafti þess valds sendi hann lærisveinana út í heiminn til að gera allar þjóðir að lærisveinum. Og í krafti þess valds eru prestar sendir til að boða trú á hann sem hefur allt vald á himni og á jörðu. Með þá bæn á vörum að Jesús nái tökum á huga okkar þannig að Guðs vilji nái fram að ganga. Þá getur ekkert bugað eða gert illt, því hans góði máttur sigrar allt.

„Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá“ segir í 37. Davíðssálmi.

Við erum ekki tilbúin til að lúta valdi ef við treystum ekki þeim er valdið hefur. Traustið er því forsendan fyrir því að við viljum lúta valdi. Vald Jesú Krists, sem byggist á kærleika og umhyggju er vald sem við getum treyst.

Lærisveinar Jesú voru venjulegir menn. Jesús kallaði þá ekki til fylgdar við sig vegna þess að þeir voru á einhvern hátt sérstakari en aðrir. Hann kallaði þá til fylgdar við sig vegna þess að hann sá í þeim eiginleika allra manna til að gera öðrum gott. Lærisveinarnir lutu valdi Jesú þegar þeir ákváðu að fylgja honum. Þeir treystu því að hann myndi vel fyrir sjá, þó þeir köstuðu frá sér netum, yfirgæfu allt og fylgdu honum. Þeir voru reiðubúnir til að hefja nýtt líf. Að öðru leyti höfðu þeir ekkert umfram annað fólk. Þeir þurftu ekki að þreyta próf, ekki einu sinni að fara á námskeið áður en þeir gerðust lærisveinar Jesú, eins og við prestar. Samt voru þeir sendir út í heiminn til að skíra og kenna.

Á sama hátt ert þú sendur kæri vígsluþegi til að skíra og kenna. Til að þjóna náunganum í kærleika. Til að boða Orðið þess Drottins er við megum fela allt okkar ráð og dáð. Megi hann blessa þig og leiða í þjónustunni, í Noregi og vonandi hér heima einnig.

„Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Flutt í Dómkirkjunni við prestsvígslu Haralds Arnar Gunnarssonar, 24. febrúar 2013.