Æðruleysi til vonar

Æðruleysi til vonar

Við sem eigum sára reynslu af samleið með áfenginu, en höfum risið upp til lífs og gæða. Við finnum svo vel hve lífið er heilagt og vonin raunsæ. Þá blómgast svo einlæg þrá til að halda áfram um leið og við þökkum og tökum á móti hverjum degi með æðruleysi til vonar.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Með æðruleysi til vonar. Þetta orð, æðruleysi. Það er svo erfitt að ná utan um það með orðum, en við finnum nákvæmlega hvað merkir í ræktinni við lífið. Það er svo stórt og rúmar svo mikið. Einlægan frið, en samt iðandi sköpun. Uppgjöf, en samt sigur. Umburðarlyndi, en samt staðfestu. Ástina, en þorir samt að segja nei af sanngirni. Boðar mildi, en felur líka í sér baráttu. Æðruleysi sem umvefur lifið allt og hefur vonina að hugsjón.

Þetta er svo samofið í krossinum og sögu hans, og helgar föstudaginn langa. Svo fráleitt eins og það er, að kross, þetta dauðans merki, skuli orðið að sigurmerki ástarinnar og vongleðinnar, en segir um leið sögu af sárustu þjáningu og líka um breiskleika mannlegrar tilveru, en vitnar um kærleika sem boðar vonina um sigur lífsins.

Við þekkjum þessa sögu, og margir, konur og karlar, eiga í persónulegri reynslu sinni. Það endurspeglast m.a. hér i einlægum vitnisburðum sem við fáum að njóta. Í þeirri reynslu er eitt stef samofið,- og sprettur af æðruleysi til vonar. Við gefumst ekki upp af því að lífið er svo óendanlega dýrmætt, heilagt.

Við þekkjum þá reynslu, þegar öll sund virtust lokuð og við blasti tómið svart. Byrðin af lífinu orðin svo þung að var í þann mund að slökkva lífsþorstanum. Saga krossins segir frá þessu, krossinn í lífi Jesú Krists og ástvina hans, krossinn í lífi svo margra sem tekist hafa á við áföll, erfiðar aðstæður, og sára reynslu af samleið með áfengi og vímuefnum, en gáfust ekki upp, risu upp, fylltust æðruleysi til vonar, tóku á móti lífinu til þess að njóta, elska, virða, þakka.

Æðruleysi til vonar er að njóta lífsins eins og frekast má, elska lífið í samfélagi samferðafólks. Það er kjarni málsins. Maðurinn er ekki eyland, einn og sér með sjálfum sér. Við erum saman með ástvinum okkar á lífsveginum. Það er talsvert áræði og áskorun fólgin í því að deila kjörum saman, en líka óhjákvæmileg og felur í sér svo falleg tækifæri til þess að njóta, bæði með því að leggja gott til og líka með því að þiggja, að njóta umhyggju, ástúðar og gæða.

Þetta er einmitt sigurinn sem krossinn í lífi okkar beinir sjónum að. Það ber ekki allt upp á sama daginn. Við sem eigum sára reynslu af samleið með áfenginu, en höfum risið upp til lífs og gæða. Við sjáum svo vel hve lífið er heilagt og vonin raunsæ. Þá blómgast svo einlæg þrá til þess að halda áfram um leið og við þökkum og tökum á móti hverjum degi af æðruleysi til vonar. Því lífið er núna og eigum saman. En hver og einn á sína persónulegu sögu, reynslu, hugsanir og þrár. Sögu sem er eigi að síður svo samofin með fjölskyldu, ættingjum og vinum.

Við skiptum öll máli. Erum samt svo ólík á ýmsan hátt. Sumir eru öðruvísi og skera sig úr. Sýnum öllu fólki virðingu. Það er svo ágengið í nútímanum að steypa alla og allt í sama mót, eins og hávaðinn af samfélagsþrýstingnum heimti að ráðskast með persónulegt líf fólks. Við þolum ekki órétt og ofbeldi. Leggjum því gott að mörkum, en heimtum ekki að allir séu eins og ég.

Það er svo mikil þörf á að hefja virðingu fyrir lífinu til sigurs, virðingu sem á sér uppsprettu í æðruleysi til vonar. Ekki til þess að láta allt yfir sig ganga, heldur virðingu sem elskar lífið af því að lífsréttur hvers einasta manns er heilagur. Fjörið er dýrmætt, frelsið líka, en felur í sér ábyrgð á eigin lífi, gagnvart sjálfum sér og samferðafólki, ekki ábyrgð til að verða að þungri byrði, heldur ábyrgð sem felur í sér vonina og glæðir lífsþorstann til að njóta, þakka og elska. Frelsið og ábyrgðin standa saman órjúfanlegum böndum

Æðruleysi til vonar sameinar einum huga til að halda áfram á krossi sem elskar lífið. Ég segi gjarnan við fermingargbörnin mín, að lífið sé á krossi, þar sem lóðrétta tréð vísar til himins á Guð, en hið lárétta vísar á mig og þig, okkur saman á veginum. Við stefnum inn í miðju krossins, að elska Guð og elska náungann.

Einu sinni fyrir mörgum árum húsvitjaði ég hjá öldruðum manni og spurði í okkar samtali. Trúir þú á Guð. „Já, það geri ég“, svaraði maðurinn og bætti við: „Guð er þar sem góðir menn fara“.

Mér er þetta svar svo hugstætt, af því að reynsla mín af samleið með fólki við margvíslegar aðstæður hefur svo oft opnað mér sýn, að þetta reynist oft svo satt. Þegar öll sund virtust lokuð, þá opnuðust óvænt dyr, af því að góðir menn og góðar konur birtust, oft eins og af tilviljun, færandi hendi og opnuðu leið til bjargar og án þess að þau gerðu sér nokkra grein fyrir hverju þau voru að valda til blessunar. Bænheyrslan birtist gjanan svo óvænt og enginn reiknaði með eða gat sér til hugar komið, að svona myndi það gerast. Þú átt slíka reynslu, þegar þú lest í sögu þína.

Guð er í krossinum og með í för. Trúin felst í að sjá Guð í krossinum, finna hann og treysta, og leyfa orði hans að móta för og ljósinu að lýsa inn i sálina og yfir lífsveginn. Hann þrengir sér ekki inn í lífið með látum, en þráir að leiða, laða og elska. Þetta hafa einmitt svo margir fundið, þegar neyðin var í þann mund að niðurbrjóta, og ekki síður í sigurgleðinni í upprisunni til lífsins, þegar ekkert á mennsku forriti var til að útskýra, nema æðri blessun og náð. Þá blómgast þakkklæti í huga og hjarta.

Hér erum við saman að elska lífið, njóta og þakka. Æðruleysi til vonar sameinar huga og hjarta. Ræktum þrek og styrk til að halda áfram, elska og vera saman. Amen.