Fuglinn á landið

Fuglinn á landið

Fuglinn á landið. Tófan og músin, lyngið og kjarrið, mosinn og smágerð flóran sem fagnað hefur vori í þúsundir ára á þetta land á undan okkur. Við höfum verið hér í rétt rúm þúsund ár ásamt hundi, ketti og búsmala. Gestir í fögru landi.

Hefur þú komið upp á hálendi Íslands? Þekkir þú hvernig það er að standa höggdofa horfandi yfir víðerni landsins? Sá sem hefur fikrað sig yfir sprungin skriðjökulsranann á björtum sumardegi á leið sinni upp á Dyngjujökul og horft þaðan norður yfir hina vængjuðu auðn þar sem Trölladyngja breiðir úr sér í vestri, Þorvaldstindur gnæfir við Öskju og Herðubreið rís yfir landið í tign sinni og ró, - sá sem það hefur reynt verður aldrei samur.

Ef þú hefur legið á mosaþembu yst á Langanesi í sól og logni og drukkið í þig ilmandi veruleika mófuglsins og hikandi skriðið út á hamarsbrún þar sem heitir Fontur og horft ofan í ríki bjargfuglsins þar sem skiptast á byggðir Fýlsins og Ritunnar og Teistunnar í sínu sveimandi gargi og dritandi bjástri sem staðið hefur í tugþúsundir ára löngulögnu áður en mannsaugða leit þetta land, þá skilur þú lífið og landið nýjum skilningi upp frá því. Þá veistu að það er heimska að halda að hægt sé að eiga land. Fuglinn á landið. Tófan og músin, lyngið og kjarrið, mosinn og smágerð flóran sem fagnað hefur vori í þúsundir ára á þetta land á undan okkur. Við höfum verið hér í rétt rúm þúsund ár ásamt hundi, ketti og búsmala. Gestir í fögru landi.

Ég varð að henda gamla göngutjaldinu mínu um daginn. Ég keypti það í Útilífi í Glæsibæ þegar ég var unglingur. Þetta tjald var eitt af þeim fyrstu sem komu á markaðinn með léttum álstöngum og þunnum dúk sem stóðst íslenskt rok. Í því átti ég ótal sælustundir á ólíkum áfangastöðum og þegar við Jóna Hrönn hófum hjúskap okkar bar ég þetta tjald í búið ásamt prímusi og bakpoka, einum bláum Lúxorlampa og skrifstofustól. Og enda þótt hún ætti græjur og borðstofusett og heila þvottavél þá fannst mér mitt tillegg vera all nokkuð. Einkum tjaldið.

Ég gleymi aldrei atviki sem gerðist eitt sinn er ég hafði farið einn hér upp á Hellisheiði á björtu sumri og gist í tjaldi mínu við lækjarpsprænu austarlega á Hengilsvæðinu. Um morguninn vakna ég í mildum andvara með notalegar harðsperrur í skrokknum, rís upp við dogg og hyggst gá til veðurs. En sem ég renni upp lásnum til að líta út mætir mér ásjóna sem horfir á mig alvöruþrungnu augnaráði í svo sem hálfs meters fjarlægð. Ég held raunverulega að hjartað hafi stoppað í brjósti mér þegar þessi persóna fnæsti hásu hljóði. Þá snéri hún sér í ofboði svo sá í foruga ullarlagða og tók á rás. Ég stóð lengi vankaður í tjalddyrunum á fjórum fótum og horfði á eftir kindinni hverfa niður eftir gilskorningnum. Ég veit ekki hvort okkar hefur verið lengur að ná adrenalíninu úr blóði sínu þennan morgun en báðum var okkur verulega brugðið. Við vorum þarna bæði í sama rétti, rollan og ég, en hvorugt átti von á hinu.

Hvað er land? Hvaða er náttúra?

Hin forna hebreska og kristna hefð gefur mörg mikilvæg skilaboð varðandi afstöðuna til landsins. Sagan sem sögð er í Gamla Testamenntinu er saga af sáttmála sem snérist ekki síst um meðhöndlun á landi. Guð gerði sáttmála við Abraham og síðar við afkomendur hans Ísraelsþjóðina, sáttmála um líf í landi. „Ekki má selja land fyrir fullt og allt því að ég á landið.“ segir Guð í 25. kafla 3. Mósebókar og bætir við: „Þið eruð aðeins aðkomumenn og leiguliðar hjá mér.“ (3. Mós. 25.23)

Eitt stærsta vandamál mannkyns er hroki. Hroki er eins konar aðal-veiki. Við höldum að við séum aðal, en við þurfum ekki að vera nema svo sem tvo sólarhringa á fjöllum eða úti á annesjum á Íslandi til þess að læknast af aðal-veikinni. Þess á milli er gott að lesa Biblíuna og biðja til Guðs, áhrifin eru hliðstæð.

Hvaða stórkostlegu sjávarsýn hefur skáldið sem orti 24. Davíðssálm hafa haft fyrir augum: „Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa, því hann hefur grundvallað hana á hafinu, fest hana á vötnunum.“

Og hver hefði ekki viljað vera með í þessari útilegu?: „ Himnarnir segja frá Guðs dýrð, festingin kunngjörir verkin hans handa. Hver dagur kennir öðrum og hver nótt boðar annari speki. Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra. Þó berst boðskapur þeirra um alla jörð og orð þeirra ná til endimarka heims.“ (Sálm 19.2-5)

‚Þér er óhætt‘ er Guð alltaf að segja. Orð hans streymir til okkar úr öllum áttum þótt við heyrum það ekki, skiljum það ekki, viljum það ekki. ‚Þér er óhætt ef þú bara hættir að verja þig. Þú átt allt ef þú bara getur skilið að þú átt ekkert. Þú ert allt ef þú bara vilt taka við því að þú ert ekkert.‘

Sá sem heldur að hann eigi fjall á ekki neitt. Sá sem heldur að hann eigi hafið og gæði þess fyrir sig er allslaus. Sá sem ætlar að bjarga lífi sínu mun týna því. „Ekki má selja land fyrir full og allt því að ég á landið. Þið eruð aðeins aðkomumenn og leiguliðar hjá mér.“ Þetta er fyrsta vers í öllu eignarhaldi. Engin ráðstöfun er varanleg, allt er að láni, við erum bara gestir og leiguliðar. Ef við höldum að við séum eitthvað annað og meira verður hrokinn og heimskan hlutskipti okkar.

Í þriðju Mósebók eru líka ákvæði um meðhöndlun á landi. Þar er staðfest að landið þarf að njóta hvíldar. Þar segir svo í 25. kaflanum: „Þegar þið komið inn í landið, sem ég gef ykkur, skal landið hvílast Drottni til dýrðar. Sex ár skaltu sá í akur þinn og sex ár skaltu klippa víngarð þinn og hirða afrakstur hans. En sjöunda árið skal landið hvílast algjörlega. Það er hvíld Drottni til dýrðar. [...] Það sem landið gefur af sér hvíldarrárið skal vera fæða handa ykkur, handa sjálfum þér, þræli þínum, ambátt þinni, kaupamanni þínum og aðkomumönnunum hjá þér. Allar afurðir landsins sulu vera fénaði þínum og villidýrum til fæðu í landi þínu.“ (3. Mós. 25.2-7)

Við sem lifum á tímum línuritsins, hagvaxtarins og ávöxtunarkröfunnar eigum bágt með að kyngja svona skilaboðum. En lifum við ekki líka á tímum hopandi jökla og hækkandi sjávarborðs, hverfandi regnskóga og aukinnnar misskiptingar? Aldrei hefur lífkeðjan engst af jafn gengdarlausum ágangi og þráð hvíld. Hvíld.

„Þú skalt telja sjö hvíldarár“ heldur hin forna lögbók Móse áfram. „Þú skalt telja sjö hvíldarár, sjö sinnum sjö ár svo að tímabil sjö hvíldarára verði fjörutíu og níu ár. Tíunda dag sjöunda mánaðar skaltu blása fagnaðarblástur með hafurshorninu [...] alls staðar í landi ykkar. Þannig skuluð þið kunngjöra helgi fimmtugasta ársins og boða lausn í landinu fyrir alla íbúa þess: Þetta skal vera ykkur fagnaðar ár. Þá skal hver maður halda heim til jarðeignar sinnar, sérhver skal snúa heim til ættar sinnar.“ (3. Mós. 25.8-10) Í framhaldi er því svo lýst með all nákvæmum hætti hvernig fagnaðarárið skuli á hálfrar aldar fresti valda því að allt það fólk sem komist hefur í skuldir, misst land sitt og jafnvel sjálft orðið ánauðugir þrælar skuli fá frelsi og fara heim til ættar sinnar.

Sú hgsun sem hér býr að baki er ljós og auðskilin enn í dag, og talar raunar furðu sterkt inn í ástand heismálanna og stöðuna í íslensku samfélagi. Landið og lífið er öllum af Guði gefið og enda þótt mannanna láni sé misskipt er sanngjarnt að alltént einu sinni á hverri mannsævi geti maður vænst þess að mega líta upp og finna sig frjálsan í eigin tilveru. Nánar segir: „Þegar landi þinn lendir í kröggum og selur sig þér mátt þú ekki láta hann vinna þrælavinnu. Hann á að vera hjá þér eins og daglaunamaður eða gestur og vinna hjá þér til næsta fagnaðarárs. Þá skal hann fara frá þér frjáls maður ásamt börnum sínum og snúa aftur til ættmenna sinna og jarðeignar forfeðra sinna. Vegna þess að þeir eru þrælar mínir, sem ég leiddi út úr Egyptalandi, má ekki selja þá mansali. Þú skalt ekki beita þá valdi. Sýndu Guði þínum lotningu.“ (3. Mós. 39-43)

Þannig er staðfest að lotning fyrir Guði birtist m.a. með þrennum hætti: • í virðingu fyrir landinu að það megi hvíla í sjálfu sér, • í trúnaði við alla lifandi náttúru að hún fái að njóta sín á eigin forsendum • og í sáttmála manna í millum að við beitum ekki hvert annað valdi. Að öðrum kosti kann að rætast ávarp skáldsins til lands og þjóðar sem sungið var hér áðan:

Ó þú skrínlagða heimska og skrautklætta smán. Mín skömm og mín tár og mitt blóð.

Amen.