Vorleysingar

Vorleysingar

Páskarnir eru engin smá hátíð. Þeir vorið í kirkjunni og í lífinu. Þeir taka við að loknum köldum dögum föstunnar þegar við hugleiðum líf okkar og háttu og spyrjum hvernig við getum bætt okkur og lagað þá bresti sem við rogumst með í gegnum lífið.

Gleðilega hátíð. Kristur er upprisinn og ef við hugleiðum það, þá er það hlutverk kirkjunnar að boða þau tíðindi. Byggingarnar, orgelin, kórarnir, allt starfsfólkið og hinir frábæru sjálfboðaliðar - og auðvitað prestarnir - boða upprisu Krists, já og fagna henni og auðvitað velta því fyrir sér hvernig hún birtist í lífi mannanna. Hvernig hið eilífa teygir sig inn í andartakið. Nærir það og glæðir og gefur því aukið gildi, jafnt í mótlæti daganna sem í meðbyr hinna góðu stunda.

Upprisa

Páskarnir eru engin smá hátíð. Þeir vorið í kirkjunni og í lífinu. Þeir taka við að loknum köldum dögum föstunnar þegar við hugleiðum líf okkar og háttu og spyrjum hvernig við getum bætt okkur og lagað þá bresti sem við rogumst með í gegnum lífið. Þá buðum við hér í Neskirkju að vanda upp á saltfiskveislu hér á kirkjutorginu, trú þeirri hefð að snæða fisk á föstunni en sneiða hjá kjöti. Þá hafa sálmar Hallgríms ómað í samfélaginu og í miðlum þar sem við hugleiðum þjáningar Jesú en um leið spyrjum hvað það er sem við sjálf getum lært og numið af hverjum þeim atburði sem píslarsagan greinir frá. Passíusálmarnir leiða okkur svo inn í vorið því þegar lestri þeirra lýkur er risin upp páskabirta upprisunnar.

Risin upp - upprisa, þetta dularfulla orð sem er hluti af glímu fermingarbarna vorsins sem leggja trúarjátninguna á minnið. Hvernig var þetta, Píndur á dögum Pontíusar Pílatusar og svo koma sagnorðin hvert af öðru: krossfestur, dáinn, grafinn, steig niður og svo það sem allt snýst um: Reis upp.

Já, upprisan er það sem allt snýst um í þessum húsakynnum og þar sem kristin trú er við lýði. Að baki henni býr sú vitund að heimurinn sé ekki allur þar sem hann er séður. Að kurlin séu aldrei öll komin til grafar þótt útlitið sé um tíma svart. Að enn búi leyndardómar baki þess sem við þekkjum. Ekki aðeins huliðsheimar vídda og efnis og orku sem mannhugurinn hefur ekki enn kannað til fullnustu heldur líka einhver ótrúleg orka sem tengir manninn við Guð. Það er einhver vissa gerir okkur kleift að hefja höfuð til himins í þeirri trú að lífið hafi tilgang og við þar á meðal. Já, það er þessi trú sem flytur fjöll og um það á sagan mörg dæmi.

Upprisan er leyndardómur sem felur þó í sér meiri breytingar en nokkur annar atburður. Hvað gerðist í gröfinni þar sem frelsarinn lá vitum við ekki. Við vitum á hinn bóginn að tíðindin um upprisu hans ollu sannkallaðri byltingu. Fylginautar hans, lærisveinar og vinir höfðu horft framan í myrkrið í öllu sínu vonleysi. Þeir skynjuðu að allt sem þeir höfðu skynjað og upplifað á för sinni með Jesú væri ónýtt orðið og til einskis. Ekki aðeins höfðu féndur hans náð yfirhöndinni, ekki aðeins hafði þeim tekist að enda lífdaga hans - heldur varð aftakan með þeim hætti sem eingöngu þótti hæfa hinum verstu sakamönnum.

Krossinn, þetta aftökutákn, merkti hinn fullkomna ósigur og uppgjöf. Ekkert undirstrikaði betur niðurlægingu og ófarir en að enda ævi sína á þeim vonda stað.

En svo öðlaðist krossinn nýja merkingu. Krossinn var ekki lengur til marks um hið ófagra og það sem brýtur niður. Og óttinn vék fyrir hugrekki sem á sér vart sinn líka. Þeir sem áður höfðu lagt á flótta, sýnt allar sínar verstu hliðar stigu nú upp sem leiðtogar hinnar nýju kirkju. Já, lærisveinarnir áttu eftir að halda borg úr borg og flytja tíðindin, og aðrir hafa flutt þau áfram allt til þess er við nemum þeim hér og nú.

Vorleysingar

Lýsingin af því í guðspjalli Mattheusar þegar jörðin bifaðist og eldingum hafi lostið niður er eins og vorleysingar himnanna séu í nánd. Heimurinn og himinarnir yrðu aldrei samir. Allt var nýtt með upprisu Krists.

Bylting - já. Í boðskap Krists var fólginn sá neisti er átti eftir að fá fylgjendur hans til að spyrja sig um allar þær forsendur sem áður höfðu verið teknar gildar. Hverjir njóta náðar Guðs? Eru það eingöngu hinir voldugu, þeir sem ríkir eru, þeir sem njóta frægðar og auðlegðar? Eða eru það líka hin. Þau sem eru undirokuð, búa við skertan hlut sökum uppruna.

Já, á stóru hátíðum kirkjunnar erum við í sífellu minnt á þverstæður tilverunnar, hvernig hið smæsta verður svo ótrúlega stórt og það sem virðist vera utangarðs og afskipt stendur skyndilega mitt í sviðsljósi atburða sem ná út fyrir mörk lífs og dauða. Á jólum birtist hinn almáttugi í mynd lítils barns sem lagt er í jötuna. Á páskum eru það konurnar sem ganga að gröfinni, í ótta og óvissu og ganga svo frá gröfinni í gleði og fullvissu. Á þessum tveimur hátíðum hafa englar hlutverk og þeir segja hið sama: Óttist ekki. Þannig byrjar fagnaðarerindið og með þeim orðum nær það hámarki sínu.

Já, Kristur er upprisinn og ef við hugleiðum það þá er það hlutverk kirkjunnar að miðla þeim fagnaðarríka boðskap. Í anda þeirra ólíkinda sem ritningin býður, ólíkinda út frá lagskiptum mælikvarða mannsins á verðmæti og verðgildi - þá eru það konurnar sem fyrstar fá þau tíðindi og konurnar eru fyrstar til að boða upprisu Krists. Þær eru auðvitað samkvæmt því öldum og árþúsundum á undan sinni samtíð - fyrstu kvenprestarnir, en ekki hvað?

Kvenprestar á 16. öld Ég las eitt sinn eldgamla bók - eftir samtímamann Marteins Lúthers, Anton Corvinus. Hann skrifaði predikun fyrir hvern helgan dag ársins fyrir presta að lesa upp í kirkjum enda voru þeir flestir illa að sér í hinum nýja sið. Bókin var þýdd á Íslensku, líklega var það Oddur Gottskálksson sem vann það verk, sá sami og þýddi Nýja testamentið. Predikun þessa siðbótamanns á páskum er mér hugleikin. Hugsið ykkur segir hann, þarna gegna konurnar því hlutvekri sem prestum er ætlað að sinna. Og hann spyr í einlægni af hverju kirkjan leyfi ekki konum að vera prestar fyrst heilög ritning sé svo afdráttarlaus í þeim efnum.

Hugleiðum það hvílík bylting það er að eiga heilaga Ritningu sem mælistiku og leiðarljós. Þessi orð voru þýdd á íslensku og fjöldamörg önnur tungumál og klerkar, flestir hverjir aldir upp í kaþólskum sið hafa sjálfsagt þulið þau upp í íslenskum kirkjum á seinni hluta 16. aldar og fram á þá 17. Má ætla að þá hafi farið kurr um kirkjubekkina og fólk hefur fussað og sveiað hvert með sér. Og auðvitað hefur þungur hrammur vanans og kreddufestunnar komið í veg fyrir að hugleiðingar þessari hafi náð lengra en raun bar vitni.

En orðin sýna hvaða drifkraftur býr í Biblíunni og hversu mikil sú upprisa raunverulega er sem tengist. Það var upprisa hinna hræddu lærisveina sem boðuðu fagnaðarerindið, upprisa kvennanna sem litu upp frá úrtölum sínum og angri og fengu að heyra gleðitíðindin. Upprisa samfélags sem hvílir undir fargi staðnaðra hefða og fjandskapar milli stétta, kynja, kynþátta og annarra hópa. Sú upprisa á sér meðal annars stað hér í þessari kirkju, sem leiðir samtal trúarhópa undir þeim formerkjum að kærleikurinn sameini. Þetta samtal hvetur okkur til þess að vinna að þeim stóru viðfangsefnum sem bíða okkar eigi heimurinn að geta batnað og börnin okkar að eiga bættra framtíð.

Upprisan birtist á svo mörgum sviðum. Gleðilega páska.