Þetta er líkami minn

Þetta er líkami minn

Þegar þú þiggur þá gjöf Krists að meðtaka líkama hans, þegar hann verður hluti af þér í holdi og þú hluti af honum. Þá mildar hann tímann, hann mildar óttann og gefur þér von.

Ég trúi á Guð sem er af holdi og blóði, Jesú Krist, Guð sem varð manneskja eins og ég og gekk í skónum mínum Guð sem fór sömu leið og ég og þekkir ljós og skugga Guð sem neytti matar og leið hungur Átti heimili og varð einmana Var fagnað og bölvað Var kysstur og hræktur Var elskaður og hataður.

Guð sem tók þátt í gleðskap og sorgarstundum. Guð sem hló og grét.

Þessi texti er hluti af trúarjátningu vonarinnar eftir Gerardo Oberman frá Argentínu, í þýðingu sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar.

Hefur þú einhvern tímann velt því fyrir þér, hvað felst í því að trúa á Guð sem er af holdi og blóði. Guð sem kom í mannslíkama og tók á sig allt sem felst í því að vera manneskja af holdi og blóði. Hugsarðu frekar um Guð sem anda, andlega veru sem er svo ofar þínum skilningi að þú átt á stundum erfitt með að nálgast hann og sjá hann fyrir þér sem raunverulegan frelsara, í þínu lífi. Guð sem verður að yfirskilvitlegri hugmynd, óaðgengilegur og langt ofan við þinn daglega reynsluheim.

Kristin trúarhefð hefur skilað okkur þeim arfi að líkaminn er neikvætt afl. Allt sem honum fylgir og allar þarfir hans eru neikvæðar jafnvel, óæskilegar. Reyna skal hið ítrasta til temja holdið svo andinn verði frjáls. Hefðin hefur alla tíð skipt heiminum upp í tvennt, gott og illt, anda og efni, karla og konur, þræla og frjálsa, okkur og hina. Allt sem er slæmt hefur verið tengt líkamanum. Til að andinn sé hreinn, þarf að iðka meinlæti, forðast allt sem mengar og saurgar hugsanir og það er gert með því að hafa taumhald. Berja skal duglega á holdinu til að nálgast Guð. Önnur leið er ekki fær.

Líkamsótti gegnsýrir okkar menningu. Líkaminn okkar er áþreifanleg sönnun þess að við erum dauðleg. Við þurfum ekki annað en að líta á hendurnar okkar til að sjá áþreifanlega merki tímans. Húðin tognar, hrukkur myndast. Líkaminn eldist án þess að við fáum rönd við reist.

Til að milda áhrifin sjá marðkaðsfyrirtæki okkur fyrir ýmsum ráðum til að fresta hinu óhjákvæmilega, áhrifum tímans. Með hinum ýmsu aðferðum snyrtifræðanna og yngingaráða eins og bótox og jafnvel lýtalækninga, getum við reynt að komast hjá því að við okkur blasi í speglinum manneskja sem er tímanum háð.

Alls staðar blasa við þau skilaboð að líkaminn eins og hann er skapaður sé óæskilegur, hann þurfi að flýja, yngja, fegra og grenna. Flóttinn, það að þurfa ekki að horfast í augu við forgengileikann verður eftirsóknarverður. Það ber að hefja sig yfir efnið, komast hjá því að vera manneskja af holdi og blóði. Okkur er líka kennt að það finna til og upplifa tilfinningar sé slæmt. Við eigum að herða okkur upp, hætta öllu væli. Bera okkur ávallt vel og brosa framan í heiminn. Til þess að þurfa ekki að horfast í augu við lífið sem er stundum erfitt og ekki alltaf réttlátt, getum við deyft okkur með vímuefnum, sem lamar allt tilfinningalíf. Við getum horfið inn í sýndarheim tölvuleikja, þar sem hægt er að eiga mörg líf og ýta bara á restart þegar allt gengur illa eða fylgst með fjöldaframleiddu afþreygingarefni í sjónvarpi sem endar yfirleitt vel í fallegri tilbúinni veröld.

Ungmennin okkar lifa og hrærast í þessari sýndarveröld. Mörg hverfa inn í þennan heim tölvuleikja og sjónvarps. Þau klæðast til að falla í hópinn, þau aðlaga sig jafnvel að hinum verstu aðstæðum til að skera sig ekki úr. Þau eru á öllum vefsíðum til að öðlast vinsældir og gefa jafnvel kost á því að svara nafnlausum nærgöngulum spurningum á svokölluðum Formspringme síðum til að vera gjaldgeng.

Ég hef fylgst með þessum síðum í gegnum starfið mitt með unglingum í Akureyrarkirkju og ég get sagt það, að það sem þessi ungmenni taka við á hverjum degi í netheimum er með því óhugglegra sem ég hef séð. En þú ert ekki með nema þú takir þátt í þessum leik og bjóðir þig fram. Unglingamenningin í dag er hörð og það eru mörg ungmenni sem eru í mikilli vanlíðan. Það er okkar foreldra og okkar sem vinnum að málefnum barna og unglinga að halda vel vöku okkar og standa vörð um velferð barnanna okkar.

Það er erfitt að vera ung manneskja á stöðugum flótta undan því sem hún var sköpuð til að vera og fá stöðugt þau skilaboð úr umhverfinu að það sem þú ert, er ekki nóg gott. Líkaminn þinn er ekki góður. Það sem þú finnur og upplifir líkamlega er ekki rétt. Ef þú lætur undan og skerð þig úr þá fjarlægistu hópinn og ert ekki með. Ert dæmd til að lifa utangarðs og það er veruleiki sem engin ung manneskja vill upplifa í dag.

Inn í þessar aðstæður okkar talar Jesú til okkar, þessi sláandi orð: Brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.

Hann kemur til þín og segir: Ég vill vera hluti af þér og þínu lífi, ekki bara á stórhátíðum eins og jólum og páskum. Hann vill vera hluti af allri veru þinni, holdi þínu og blóði. Hann vill finna það sem þú finnur, upplifa það sem þú upplifir, þjást með þér, gráta með þér, gleðjast með þér og hlægja með þér. Ef þú þiggur þessa gjöf hans, þá bíður hann þér hlutdeild í eilífu lífi með Guði. Þetta líf getur hafist strax í dag!

Það þarf kjark til að þiggja þessa gjöf, vegna þess að hún er ólík öllum þeim gjöfum sem við hljótum í lífinu. Hún er ólík öllum þeim hugmyndum sem við gerum okkur um Guð almennt. Gjöfin krefst þess að þú sért tilbúin til að skapa samfélag þar sem við komum saman og gefum Jesú Kristi hlutdeild í okkur. Það er persónan sem heild sem liggur undir, ekki bara andinn og sálin,

Sá merkilegi atburður gerðist í holdtekjunni að allt varð eitt, veruleikinn varð einn, andinn og efnið urðu eitt, líkaminn og sálin urðu eitt.

Það merkir að við skiptum öll máli, sama hvaða við komum. Það merkir að við sem hluti af kristnu samfélagi látum okkur aðra varða, við leggjum okkur fram um að leita að þeim sem hafa týnst og hafa rekið af leið. Við göngumst undir það að vera alltaf vakandi fyrir aðstæðum sem vinna gegn fullri mennsku fólks.

Það er hin kristna krafa. Kristindómurinn eru ekki ekki trúarbrögð yfirborðsmennskunnar og þægindanna. Það að vera kristin er ekki upphefð eða staða sem þú hlýtur í verðlaun fyrir að vera duglegur að mæta í kirkju.

Kristur biður þig að vera vakandi fyrir þeim sem minna mega sín, fyrir þeim sem heimurinn hafnar á hverjum degi vegna fordóma, kúgunar, eineltis og ofbeldis. Krafa sem er mörgum erfið vegna þess að enginn er fordómalaus og það að horfast í augu við eigin fordóma og dómhörku er verkefni sem manneskjan á erfitt með að takast á við, að líta í eigin barm. Að takast á við bjálkann í eigin auga frekar en flísina í auga náungans.

Þegar þú þiggur þá gjöf Krists að meðtaka líkama hans, þegar hann verður hluti af þér í holdi og þú hluti af honum. Þá mildar hann tímann, hann mildar óttann og gefur þér von.

Hann lofar þér að fara aldrei frá þér, hann segir þér að það sem þú ert er gott. Líkaminn þinn er góður, tilfinningarnar þína og þrár eru eðlilegar. Þær eru hluti að því að vera manneskja. Þú sem manneskja ert elskuverð. Þá gildir einu hvort að líkaminn þinn sé ungur eða gamall. Með Krist í hjartanu, blóðinu og holdinu ert þú nú þegar orðinn hluti af eilífðinni og þarft ekki að óttast dauðann eða þjáninguna.

Því koma hans mildar allt og gefur þér von.

Þetta eru máttugustu skilaboð sem við getum fært ungri kynslóð í dag sem er að alast upp við aðstæður í íslensku samfélagi sem eru nánast án fordæmis. Þetta eru skilaboð sem ég reyni að miðla í mínu starfi með börnum og unglingum. Ég er þakklát fyrir það á hverjum degi að fá að vera hluti af svo stórkostlegu verkefni að færa ungu fólki þessa von og trú á Guð sem kom í holdi, sem kom í heiminn sem manneskja, í Jesú Kristi, til að þekkja þig betur og skilja betur hvað þú sem manneskja tekst á við á hverjum degi. Jesús reis upp í holdi á páskadagsmorgun, Upprisa hans verndar þig þannig og umfaðmar. Hún gefur þér rödd þegar þú hefur þagnað, mátt þegar þú ert orðin máttvana, von í vonlausum aðstæðum og hún gefur þér kraft til að horfast í augu við forgengileikann óttalaust.

Þegar við finnum Guð á þennan hátt, verður hann ekki eins fjarlægur og upphafinn. Hann er nærri þér, hann er í þér og þegar þú finnur það ert þú tilbúin að horfast í augu við heiminn með sama hugarfari og Kristur.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda, Amen.