Var Guð í flóðinu?

Var Guð í flóðinu?

Öldur flóðsins í Asíu fara nú um alla heimsbyggðina. Myndirnar hrella og spurningar knýja á. Flóðveggir, grafir og líka lítil þriggja vikna Tulasi, sem var á floti í tvo sólarhringa þegar hún fannst lífs. Tveggja ára finnskur drengur hafði verið á dýnu við ströndina þegar skelfingin byrjaði og hélst á dýnunni og svo fjaraði undan honum. En mamman var dáin, amman líka, en pabbinn fannst á spítala.

Öldur flóðsins í Asíu fara nú um alla heimsbyggðina. Myndirnar hrella og spurningar knýja á. Flóðveggir, grafir og líka lítil þriggja vikna Tulasi, sem var á floti í tvo sólarhringa þegar hún fannst lífs. Tveggja ára finnskur drengur hafði verið á dýnu við ströndina þegar skelfingin byrjaði og hélst á dýnunni og svo fjaraði undan honum. En mamman var dáin, amman líka, en pabbinn fannst á spítala. Vesalings maðurinn var í öngum sínum, hafði misst konu og tengdamóður, en fékk svo þetta kraftaverkabarn í fangið. Hann bæði hló og grét í senn.

Hver er merkingin?

Hvernig er hægt að glíma við merkingu þessara hamfara og fjöldadauða á ströndum Indlandshafs? Við leggjum auðvitað fé til hjálpar, einstaklingar, opinberir sjóðir og með hjálp líknarsamtaka. Gefum og styðjum hjálparstarf.

Í spurningunum förum við sjálf af stað með flóðinu og alla leið að fjöldagröfunum. Var Guð í flóðinu? Eru hamfarir Guði að kenna? Eigum við að beygja svírann og sjá hendi Guðs við flekaskilin, himneskan þrýsting og himneska reiði?

Um það hafa margir vitnað þegar þau sáu þessa ótrúlegu bylgju koma af hafi, rísa upp í æði og með ógnarkrafti, að það hafi verið eitthvað „biblíulegt“ við þessa sýn. Og hvað þýðir þetta „biblíulegt“ í þessu samhengi? Kannski að fólk hafi upplifað “heimsendi.” Auðvitað endaði heimurinn í þeim sem létust. Og vísar þetta “biblíulega” til ógna, sem frá er sagt í hinum helgu ritum og voru sýndar í kvikmyndum eins og Boðorðin tíu. Flóðasenur þeirrar myndar gripu marga sálina. Afleiðingar hamfaranna voru sem víti, þar sem allt er í rúst.

Hvernig er hægt að skilja?

Myndirnar af látnu fólki, börnum og fullorðnum, hjálpa ofurlítið við innlifun. Við getum ímyndað okkur hvernig hvað það er að lyfta barni. En þau eru stíf sem dáin eru og það er annað en halda á sofandi barni. Reynum síðan að margfalda þessar myndir, ímyndum okkur hvað það er að lyfta hundrað börnum, þúsund börnum, tugþúsundum fólks. Þá hættum við að geta skynjað djúp alvörunnar. Tilfinningarnar fara á flot og hugur með.

Hvar ertu Guð? Taílendingurinn hrópaði upp í himininn: “Hvers eigum við að gjalda? Höfum við gert eitthvað af okkur?” Auðvitað fór mikið aflaga í almannavörnum þessara landa þar sem flóðin gengu yfir og drápu fólk. Hversu góð eru þau stjórnvöld, sem hafa leyft byggingar við strendur rétt við flekaskil? Stjórnvöld hafa brugðist rangt við, hvort sem það var vegna óvitaskapar eða vegna hræðslu, þegar ekki var varað við flóðbylgjunni. En fólki er vorkunn. Það er erfitt að skilja ógn slíkra hliðstæðulausra atburða og bregðast rétt við.

Spurningar þyrlast upp

Á bak flóðinu koma fjöruspurningarnar um ástæður. Í leikriti Shakespeare um Lér konung er spurt hvort mennirnir séu eins og flugur, sem guðirnir gamni sér við að deyða. Í spurninni felst hvort Guð sé eins og óður risi, sem vaði um með skapbrigðaköstum. Er það sá Guð sem við þekkjum og trúum á? Nei, svo sannarlega.

Af hverju leyfir Guð að þetta komi fyrir? Fólk spyr, þegar áföllin dynja yfir, snjóflóð æða, slys verða og ástvinir deyja. Glíman við sorgina og merkingu þjáningarinnar er sístæð. Á öllum öldum hafa menn reynt að skilja hið óskiljanlega, botna í sorginni og leita trúarlegra raka. Í Biblíunni eru margar Guðsglímurnar vegna þjáningar, t.d. sagt frá hinum guðhrædda Job sem ekki skildi af hverju Guð leyfði að hann þjáðist án tilefnis. Trúarhefðirnar reyna að svara hinum stóru spurningum um illsku og þjáningu.

Einhæfni í guðstúlkun

Var Guð í flóðinu? Spurningin varðar Guðsímyndina og þær myndir, sem við notum til að túlka Guð. Ef Guð er í okkar huga sem súperpabbi er ekki einkennilegt að spurningin um Guð í flóðinu vakni. Slík mynd af Guði túlkar gjarnan bókstaflega hugtök um almætti og alvitund Guðs og önnur álíka. Síðan eru einnig oftúlkaðar líkingar af Guði sem heimssmið, konungi, herforingja, heimsarkitekt, tyftara, dómara og stríðsherra. Ef allt er tekið saman og menn varpa síðan yfir á Guð bókstafsskilningi á þessum hlutverkum í heimi manna verður til ímynd af guði sem allt skipuleggur fyrirfram, guð sem hefur í höndum sér allt til góðs og ills í heimi, guð sem skipuleggur fæðingu og dauða hvers manns. Sem sé, þá vakna allar hinar djúptæku og skelfilegu spurningar um af hverju guð leyfi flóð, hvort sem er eyðingaröldur í Asíu eða flóð úr fjöllum upp á Íslandi. Gagnvart slíkum guði er eðlilegt að menn spyrji: Af hverju guð? Af hverju leyfir þú þetta? Og gagnvart þeim guði er eðlilegt að menn segi: “Fyrst þú ert svona vil ég ekki lengur trúa á þig. Þú ert vondur!”

Hin kristna sýn

Jesús breytti öllum forsendum, skipti út bæði stýrikerfi trúarinnar og öllum forritum. Hann umhverfði hinum gyðinglega boðskap um sértækan guð þjóðar eða kynþáttar, sem útvaldi sumt fólk en hafnaði öðrum, valdi fólk til lífs og aðra til slátrunar. Sá Guð, sem Jesús opinberaði í orði og verki var persóna elskunnar, sem var tilbúinn að fórna öllu í þágu ástarinnar. Sá Guð fylgdist með höfuðhári og hamförum, en ávallt í ljósi elskunnar. Það er slíkur Jesús, sem ég sé í guðspjöllunum og starfi kristninnar um allan heim og á öllum öldum.

Því fer fjarri að allir, sem kenna sig við Krist, séu mér sammála. Í kristninni má greina margar túlkunarhefðir. Þær trúarútgáfur eru ekki allar jafnfagrar.[1] Í þeim verstu hefur Guð verið túlkaður sem orsök og samhengi erfiðleika, sjúkdóma, hamfara og dauða. Slíkur guð sprettur fram í hugum þröngt hugsandi manna.[2]

Frelsið

En ef Guð elskar, hver er staða Guðs í flóðinu? Í haust íhuguðu fermingarbörnin í Neskirkju kvikmyndina Bruce Almighty. Í myndinni fær söguhetjan innsýn í vanda þess að vera Guð og fær jafnvel að leika hlutverk Guðs. Í ljós kemur að Guð hefur gefið mönnum frelsi til að ákveða og leggur á það þunga áherslu að alls ekki megi skerða það frelsi. Kvikmyndin tjáir ágætlega að menn eru frelsisverur.

Við þennan boðskap vil ég bæta að náttúran er með sömu einkennum. Vissulega lýtur hún leikreglum náttúrulögmála og þróunarferla. En þar ríkir líka frelsi og samspil. Við skuldum ekki vanmeta þann þátt eins og fram kemur skýrt í svo sértækum viðburðum eins og stórflóðum. Í mannheimi hefur svo fólk frelsi til að ákveða stefnu og gerðir. Vitaskuld erum við bundin af skorðum erfða og aðstæðna, en frelsið er ótrúlega mikið samt. Í ljósi þessa getum við nálgast flóðahryllinginn.

Guð beitir ekki inngripsvaldi. Guð hristi ekki flekana og olli því ekki dauða fólks við strendur Indlandshaf. Ég þekki engan ábyrgan guðfræðing eða prest sem heldur slíku fram. Slík guðsmynd er aðeins í hugum þeirra sem sækjast eftir valdi, sækja í alræðiskerfi og laga guðsmyndina að eigin þörfum og þrám, hvað sem það kostar.

Kærleiksmáttur

Hvað þá? Hver er hlutur Guðs? Mín skoðun er sú, að Guð sé sá andlegi kraftur, sem á öllum augnablikum beitir kærleiksáhrifum sínum, varpar upp möguleikum, í efnaferlum náttúrunnar, í huga einstaklinga, í góðum samhug hópa og þjóða - já mannkynsins alls. En á öllum þrepum og stigum getur efni, náttúruferlar, einstaklingar, hópar og þjóðir brugðist við, með réttu eða röngu móti eða blöndu af hvoru tveggja í einhverjum hlutföllum. Af hverju brugðust stjórnvöld kalli sínu til öryggiskerfa, viðvarana og viðbragða? Þar brugðust þau kalli kærleikans. Til okkar er kallað sem einstaklinga, samtaka, þjóða og mannheims að rétta hjálparhönd og styðja í úrvinnslu hörmunganna.

Fimmtíu þúsund konur munu fæða börn á flóðasvæðunum á næstu mánuðum. Hvað ætlum við sem mannfélag að gera gagnvart þeim konum. Þar túlka fjölmiðlar skýrt ástarbeiðni Guðs og okkur ber að bregðast við.

Hinn hvetjandi Guðsnánd

Getur Guð þá ekki stoppað fleka og flóð? Hvernig á að svara slíkri spurningu? Jú, auðvitað gæti Guð, sem kallar fram sólir og vetrarbrautir, beitt sér. En þannig starfar Guð ekki. Menn hafa notað hugtakið almætti til að tjá mátt Guðs. En Guð er ekki eins og alræðisforstjóri veraldar, sem beitir sér. Í Guði sjá kristnir menn dýpri og mennskari veruleika nándar. Guð tekur þátt í baráttu fólks, grætur með þeim sem syrgja og hlær með hinum fagnandi. Því varð þessi makalausa sendiför Guðssonarins inn þennan heim til að samsamast öllu lífi manna, leysa úr viðjum og bjarga.

Guð skelfist með hlaupandi fólki á ströndinni, líður þegar það sogast niður eins og kaffikorgur í flóðasvelgjum, grætur yfir börnum og fullorðnum sem kremjast og drukkna og kallar á hjálp með þeim sem æpa. Guð stjórnar ekki atburðarásinni, en Guð líður ferlið með sköpun sinni. Guð er ekki ofvirkur heldur samvirkur. Guð ofstjórnar ekki heldur meðstýrir. Guð tekur ekki af sköpun sinni frelsi heldur bendir á ábyrgð. Guð hefur ekki yfirgefið sköpun sína, heldur styður með kærleikskrafti sínum.

Flóðið er ekki refsing af himnum, ekki hefndaræði guðlegrar reiði. Flóðið má skýra með rökum fræða og almennrar dómgreindar. En flóðið eflir trúmanninn til íhugunar um hlut trúar og hvetur til öflugs viðnáms gegn eyðingunni. Lærðu að sjá Guð að starfi, ekki sem íhlutandi Guð, heldur sem nálæga systur eða bróður, sem stendur við hlið þér, hvetur til starfa, styður þegar þú ert að falla, hvíslar grátandi að þér huggunarorð þegar þú hefur misst og yfirgefur þig aldrei, þótt þú bregðist herfilega í hræðilegum aðstæðum. Lærðu líka að heyra kallið að hjálpar þinnar sé þörf. Þá vinnið þið saman þú og Guð.

Flóðahörmungar í Asíu – viltu hjálpa?

* Söfnunarsími Hjálparstarfs kirkjunnar er 907 2002 * Reikningur í banka er 1150 26 21000 * Upplýsingar eru á heimasíðunni www.help.is og einnig hjá www.act-intl.org * Söfnunarsími Rauða krossins er 907 2020 * Reikningur í banka 1151 26 12 * Upplýsingar eru á heimasíðunni http://www.redcross.is/

Aftanmálsgreinar

[1] Ég bendi á rit Pjeturs Pjeturssonar, biskups á Íslandi á 19. öld, sem dæmi um skelfilega trúarhugsun. “Guð og þjáningin í Pjeturspostillu : "En lof sé þér líka, líknsami faðir! fyrir sóttir og sjúkdóma" Kirkjuritið 67 (3): 2001.

[2] Þetta er oft sú manngerð, sem reynir að tryggja völd sín og karlmiðlæg gildi í patríarkal samhengi. Gildir einu hvort það er í kristni, Islam, gyðingdómi eða annars staðar þar sem hópur eða einstaklingar vilja tryggja völd sín og ákveðinna gilda í samfélagi sínu. Sem sé málið er ekki átrúnaður heldur vilji einstaklinga og barátta fyrir ákveðnum þáttum í stjórnskipan.

Sigurður Árni Þórðarson er prestur í Neskirkju. Flutt í messu á sunnudegi milli nýárs og þrettánda, 2/1/2005.