Leyndardómur Guðsríkisins

Leyndardómur Guðsríkisins

Í dag hefst níuviknafasta, tímabilið sem er undanfari lönguföstu. Víða í hinum kristna heimi, hefur þessi tími mótast af fjörmiklum kjötkveðjuhátíðum. Fólk safnast saman, fer um götur og torg íklætt litríkum búningum, syngur og dansar. Hátíðarhöldin standa víða í marga daga, jafnvel vikur. Þannig gera menn sér glaðan dag áður en hin eiginlega fasta gengur í garð. Því þá hefst tímabil iðrunar og yfirbóta, þegar kirkjan íhugar píslarsögu og pínu Drottins Jesú Krists.

Svo er um himnaríki sem mann, er ætlaði úr landi. Hann kallaði þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur, fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gjörði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina, fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það.

Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gjöra skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm. Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.

Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Loks kom sá er fékk eina talentu, og sagði: Herra, ég vissi, að þú ert maður harður, sem uppsker þar, sem þú sáðir ekki, og safnar þar, sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.

Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir, að ég uppsker þar, sem ég sáði ekki, og safna þar, sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum, þegar ég kom heim. Takið af honum talentuna, og fáið þeim, sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Matt. 25. 14 -30

* * *

Ó, Guð, mér anda gefðu þinn, sem glæðir kærleik, von og trú, og veit hann helgi vilja minn, svo vilji ég það, sem elskar þú.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag hefst níuviknafasta, tímabilið sem er undanfari lönguföstu. Víða í hinum kristna heimi, hefur þessi tími mótast af fjörmiklum kjötkveðjuhátíðum. Fólk safnast saman, fer um götur og torg íklætt litríkum búningum, syngur og dansar. Hátíðarhöldin standa víða í marga daga, jafnvel vikur. Þannig gera menn sér glaðan dag áður en hin eiginlega fasta gengur í garð.

Því þá hefst tímabil iðrunar og yfirbóta, þegar kirkjan íhugar píslarsögu og pínu Drottins Jesú Krists.

Fyrr á öldum tóku kristnir menn föstuna alvarlega, neyttu ekki kjöts, heldur ekki smjörs og eggja, "þeir föstuðu við fisk" eins og það var kallað.

Sumir gengu enn lengra, neyttu einungis vatns og brauðs. Þeim mun hafa þótt hinir fyrrnefndu stunda lágmarksföstu.

Hér á Íslandi þekkjast ekki kjötkveðjuhátíðir eins og þær gerast víða erlendis, Hins vegar eigum við daga sem minna um margt á þessar hátíðir. Það er bolludagurinn, þegar við fyllum okkur af sykursætum brauðbollum, sprengidagur þegar borðað er saltkjöt og baunir og við látum eins og við ætlum að fasta vikurnar þar á eftir.

Svo er það öskudagurinn, þegar börnin klæða sig í marglita búninga, hengja öskupoka á hvert annað, helst þó á fullorðna og svo slá þau köttinn úr tunnunni.

Það er ekki rétt að bera þessa daga saman við litríkar kjötkveðuhátíðir erlendis, en þeir bregða lit á hversdaginn okkar og verða okkur oft tilefni til að fjölskyldumóta og sameiginlegra máltíða.

* * *

Í dag líta menn almennt föstuna ekki alvarlegum augum, allavega ekki hér á Íslandi. Hinsvegar eigum við dýrmætan sjóð sem við höfum varðveitt með sérstökum hætti. Það eru Passíusálmar Hallgríms Péturssonar. Hallgrímur lét þjóðinni eftir þennan mikla arf og sú einstaka hefð hefur haldist í áratugi að flytja þá í Ríkisútvarpinu á lönguföstu. Hefst sá lestur annað kvöld.

Í Passíusálmunum endursegir Hallgrímur snilldarlega frásagnir guðspjallanna af píslasögu Krists. Hann rekur framvindu atburðanna: leið Jesú Krists til Golgata, þar sem hann var krossfestur og dó saklaus á krossinum.

Hallgrímur leggur út af textanum. Þannig eru hver sálmur frásögn, prédikun og jafnframt persónuleg hugleiðing; vitnisburður, þar sem hann íhugar hvernig þessir atburðir tala til hjarta hans og sálar. Það er óendanlega dýrmætt að þessi arfur skuli hafa varðveist kynslóð fram af kynslóð.

* * *

Þessar tvær vikur sem nú fara í hönd, vikurnar fram að föstuinngangi og lönguföstu hafa sitt sérstaka íhugunarefni sem er "Leyndardómur Guðsríkis."

Þegar Jesús talaði um Guðs ríki eða Himnaríki, talaði hann ávalt í líkingum, eða dæmisögum. Á einum stað segir hann: "Líkt er um himnaríki og húsbónda einn, sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn." Á öðrum stað líkir hann, Guðs ríki við sáðmanninn sem gekk út að sá sæði sínu. Hann sáði sæðinu sem féll hjá götunni og varð fótum troðið, og fuglar himins átu það upp, sæðinu sem féll á klöpp, spratt upp, en skrælnaði, af því að það hafði ekki raka. Því sem féll meðal þyrna, og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. Og því sem féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.

Og í dag er guðspjallstextinn einnig dæmisaga, sérstök perla eins og einnig hinar. Nú líkir Jesús "himnaríki við mann sem ætlaði úr landi og kallaði til sín þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi."

Dæmisögurnar er eins og fegurstu demantar margbrotnir með fögru ljósbroti. Það er sem við sjáum í þeim margar hliðar samtímis. Því frekar sem við hugleiðum innihald textans, þeim mun dýpri merkingu fær hann. Sumt virðist augljóst, annað sjáum við sem í skuggsjá, frá öðru stafar ljósbrot, svo bjart, að það sker í augun og fær okkur jafnvel til að líta undan.

Einn flöturinn eða eitt sviðið skírskotar ævinlega til samtíma Jesú og á sér samsvörun í daglegu lífi þeirra sem hann talaði til. Þar þekktu allir húsbændur eins og þann sem sagt er frá í dæmisögunni, valdamikla stóreignamenn.

Það gera menn líka í dag hér á Íslandi trúi ég. Við þekkjum líka: "Húsbændur sem kalla til þjóna sína og fela þeim eigur sínar." Þessi samlíking er ekkert fjarri okkar raunveruleika, og það ætti að vera auðvelt að setja sig í spor þeirra sem koma við sögu.

En þó má með sanni segja að það sem gerir þessa frásögn óvananlega í okkar augum er að í dæmisögunni nutu þjónarnir allir saman trausts, enginn var yfir annan settur. "Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, Hann þekkti þjónana og fól þeim hverjum eftir hæfni."

Þetta virðast ekki hafa verið háar upphæðir. Okkur kann að virðast sem svo að hér hafi verið um smámuni að ræða sem hann skildi eftir í þeirra vörslu. En það er öðru nær.

Ein talenta var á þessum tímum engin smá upphæð. Ef við horfum til þess að heildartekjur allrar skattheimtu Rómverja í Palestínu voru 200 talentur á ári, þá getum við betur gert okkur grein fyrir verðgildi einnar talentu.

Sem sagt; húsbóndinn fól þjónum sínum þessi miklu verðmæti sem þeir áttu að taka ábyrgð á og varðveita á meðan hann var fjarverandi.

Þegar við lítum frá sjónarhorni þess raunveruleika sem við hrærumst í daglega þá er kannski auðveldast að setja sig í spor húsbóndans. Er ekki auðvelt að skilja það, að hann reiddist þeim sem ekki ávaxtaði talenturnar. Það gæti jafnvel verið auðveldara að skilja það, enn að hann skildi launa hinum tveim tryggðina. Því er nú einu sinni þannig farið með okkur mennina að okkur veitist léttara að skammast yfir því sem illa fer, en að hrósa því sem gott er gert. Orð húsbóndans til "Lata þjónsins" eins og hann nefnir hann, hafa þótt hörð og miskunnarlaus, en ættu þó ekki að koma okkur á óvart því þau gætu rétt eins vel verið okkar eigin orð.

Þegar við horfum í þennan flöt, í þetta ljósbrot raunveruleika samtímans, á svið sem við þekkjum, þá könnumst við líka þjónana, bæði þá sem voru óhræddir og ávöxtuðu talenturnar, en einnig verðum við að kannast við þann sem gróf talenturnar í jörð vegna þess að hann óttaðist viðbrögð húsbóndans. Sumum verður allt að fé, hjá þeim virðist allt ávaxtast sem þeir koma nærri. Aðrir eru varkárir, tekja það reyndar til dyggðar. Þeim líta gjarnan svo á að það séu hyggindi að vera varkár og taka ekki áhættu.

* * *

En það eru fleiri fletir í þessari dæmisögu, eins og í öllum dæmisögum, ljósbrot sem bregða birtu inn í annan veruleika. Jesús talar hér í líkingum um Guðsríki. Þegar við skynjum þá vídd, eða leiðum hugann að þeim möguleika, þá gerist það nær ósjálfrátt að okkur reynist erfitt að setja okkur í spor húsbóndans. Það er ekkert skrítið við það, því að þá hlýtur húsbóndinn að vera Guð almáttugur. Hver þorir að setja sig í þau spor?

Og hver skildi þá vera sá auðurinn sem hann fól þjónunum sínum að gæta ? Ekki getur þá verið um veraldlega fjármuni að ræða, eða hvað? Eru það ekki frekar gjafir Guðs?

Það hlýtur að vera því að allt sem lífs andann dregur er Guðs. Allt mannsins, líf hans og lán, gáfur, þrek og kostur allur, allt eru það verðmæti sem manninum er trúað fyrir.

Enska orðið talent, er dregið af þessu hugtaki talentur. Það hefur djúpa merkingu, getur átt við um gáfur og gjörvileika, hæfileika og mannkostir sem einstaklingurinn býr yfir. Það á almennt við um andlegan auð mannsins, sem ómögulegt er að meta til fjár. Engum er gefið alveg það sama, allir eru sérstakir. En allir eiga það þó sameiginlegt að hafa fengið þær til varðveislu og Guð gerir hvern og einn ábyrgan fyrir sínum talentum. Guð setur traust sitt á hvern mann, alla jafnt, enginn er undanskilinn.

* * *

Þegar við horfum frá þessu sjónarhorni, hvert skyldi samkennd okkar þá leita? Til þeirra tveggja, sem tóku við talentunum í trausti til réttlætis húsbónda síns? Eða til hins sem taldi húsbóndann harðan og strangan og fól því talentuna sem honum var trúa fyrir djúpt í jörð svo að enginn kæmist að henni?

Mér segir svo hugur að þá breytist staða okkar heldur betur, og að nú færist samkenndin til þjónsins sem faldi talentuna. Það gæti vel gerst því að nú litast samkenndin af þeirri Guðsmynd sem við berum innra með okkur. Nú gæti það vel gerst að samkenndin litast af ótta okkar sjálfra við refsingu.

Stafar sá ótti af því að í huganum býr dómharður Guð? Hvernig hefði það annars geta gerst að þeir völdu ólíkar leiðir, þjónarnir? Misskildi "lati" þjóninn húsbóndann? Eða þekkti hann ekki húsbóndann? Eða, kallaði hann kannski sjálfur fram í huga sér, þann húsbónda sem þar bjó?

Víst er að tveir þjónanna báru fullt traust til húsbóndans. Þess vegna voru þeir óhæddir og þess vegna tóku þeir áhættu og ávöxtuðu féð. Launin sem þeir fengu fyrir trúmennsku sína, voru ríkuleg. Þau miðuðust ekki við afköst þeirra eða upphæðina sem þeir skiluðu, heldur við trúmennsku þeirra.

En sá þriðji, hugmyndir hans um húsbóndann koma greinilega fram í svari hans: "Ég vissi að þú er maður harður, sem uppskerð þar sem þú sáir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki Ég var því hræddur." Engin furða þó hann væri hræddur.

* * *

Við höfum haldið tryggð við þann sið að lesa Passíusálmana í útvarpi á föstunni. Fjölmörgum finnst það ómissandi þáttur í menningu okkar. En við erum ekki opin um trúarskoðanir okkar Íslendingar. Sú skoðun er útbreidd hér á landi að trúin sé okkar einkamál og ekki síður guðsmynd okkar. Engum komi við hverju við trúum og á hvað við treystum. En er það í raun okkar einkamál? Litar ekki trú okkar og guðsmynd allt okkar viðmót til annarra og öll okkar viðhorf?

Lati þjónninn á sér skírskotun til samtíma Jesú. Í honum birtist ímynd trúarleiðtoganna, sem höfðu njörvað Guð niður í lögmálsfjötra, falið kærleiks ríka ásjónu hans langt undir fargi hugmynda sinna og túlkunar.

Það hafði þær afleiðingar að þeir sáðu frjókornum tortryggni, ótta og fjandsemi gagnvart þeim sem ekki gengust undir þeirra túlkun. Þetta gerðist í samtíma Jesú, þetta gerist á öllum tímum, einnig í dag. Þess sjáum við augljós merki í öllum trúarbrögðum.

En Jesús Kristur kom í heiminn til að frelsa mennina úr þessum fjötrum, til að kenna þeim sem höfðu tapað áttum, grafið talentur sínar í jörðu og misst sjónar á kærleiks ríkri ásjónu Guðs. Hann kom til að frelsa þá úr fjötrum, til að boða þann Guð sem hefur fyrirætlanir fyrir börn sín, fyrirætlanir til vonarríkrar framtíðar, til góðs ekki til ills.

Í dæmisögunni sjáum við greinilega hvernig ólíkur Guðsskilningur þjónanna, réði því hvernig þeir tókust á við ábyrgð sína? Tveir gengu beint til verks frjálsir og fullir trúnaðartrausts með þeim afleiðingum að þegar kom að því að þeir afhentu sjóðinn aftur hafði hann tvöfaldast.

En sá þriðji geymdi í hjarta sér barnslega mynd af hörðum óvægnum húsbónda, sem hann taldi sér trú um að honum stafaði hætta af. Þvermóðskufullur rétti hann því húsbóndanum talentuna og sagði. "Ég hélt að þú vildir ekki, þess vegna þorði ég ekki." Þjónarnir þrír unnu fyrir sama húsbónda, en litu hann ólíkum augum. Svar "lata þjónsins" segir meira um þjóninn en húsbóndann. Þannig er það með mennina og trú þeirra. Jafnvel þótt þeir játi sama Guð, þá er sú Guðsmynd sem er greipt í hjarta þeirra ákaflega mismunandi.

* * *

Mikill meirihluti íslensku þjóðarinnar játar kristna trú, sem mætti ætla að væri trú á sama Guð. Okkur hefur verið falinn mikill auður, ríkulega hefur okkur verið gefið. Guð hefur leitt okkur inn í gott land, þar sem er nóg af vatnslækjum, lindum og djúpum vötnum, sem spretta upp í dölum og fjöllum, eins og sagði í lexíunni hér áðan. Fagurt land, auðlindir, hreint loft, gnægð matar, friður og velsæld, svo að börnin okkar ættu að fá að vaxa úr grasi óhrædd. Sannarlega hefur okkur verið falin mikil verðmæti til varðveislu. Og við berum samfélagslega ábyrgð á þeim verðmætum, ábyrgð gangvart Guði og gagnvart komandi kynslóðum.

Til eru þeir sem halda því fram í fullri alvöru að kristnir menn áskildu sér rétt til að fara með sköpunina að eigin vild, eins og þeir værum sjálf Guð. Það geri þeir vegna þess kristna skilnings að Guð hafi skapað manninn í sinni mynd og sett hann yfir alla sköpun sína. Þess vegna megi hann fara með sköpunina að vild.

Þeir sem segja þetta hljóta að hafa þann skilningi að Guð fari með okkur mennina eftir vild, nánast eftir hentugleikum og alla vega ekki af kærleika og umhyggju. Ef við eigum þá Guðsmynd þá hljótum við að líta svo á að manninum stafi hætta af Guði.

En þetta getur ekki verið guðsskilningur kristinna manna, það getur ekki staðist. Kristin siðfræði kennir okkur allt annað, hún kennir að einmitt vegna þess að Guð gaf okkur ábyrgð á allri sköpun, lífríki jarðarinnar, lífi okkar sjálfra, gaf hann okkur ábyrgð á líkamlegu og andlegu atgervi, kostum okkar og hæfileikum, einmitt þess vegna beri manninum að umgangast lífríkið með kærleika og miskunn, og ávaxta okkar persónulegu talentur. Eins og Guð hefur umgengist okkur með kærleika og miskunn, eins ber okkur að ávaxta talenturnar.

* * *

Dýrmætasti auðurinn sem við höfum fengið til varðveislu er fagnaðarerindið, orðið sem birtir okkur kærleika Guðs og fyrirætlanir hans. Orðið er sá grundvölur sem við stöndum á. Og eins og vitur húsameistari veit, gildir einu úr hverju er byggt ofan á þann grundvöll, því að hann er traustur. Hvort heldur byggingarefnið er gull, silfur eða dýrir steinar, tré, hey eða hálmur. Það gildir einu. Trúin á kærleiks ríkan Guð er ekki einkamál hvers og eins, hún er gefin til að hún megi bera ávöxt. Trúin og traustið á kærleiks ríkan Guð á að verða okkur aflvaki til að ávaxta talentur okkar. Í ljósi kærleikans fellur hún í frjóan jarðveg hjartans og vex þar fram Guði til dýrðar.

Jesús Kristur, Guðs sonur boðaði trú á miskunnsaman kærleiks ríkan Guð, sem trúir manninum fyrir láni sínu. Hverju svaraði heimurinn? Heimurinn hafnaði kærleikanum. Í skjóli harðræðis og ógnar réttlætti heimurinn það að krossfesta Guðssoninn, og fullvissaði sig jafnframt um það að það væri að Guðs vilja.

Á meðan heimurinn dýrkar þá Guðsmynd sem leiddi trúarleiðtoga samtíma hans til þeirrar ákvörðunar og krefjast dauða Guðs sonar, þá er illa fyrir honum komið, þá verður frá honum tekið. Á meðan allir þorrinn hefur þá mynd, þá er frá honum tekið.

Ef að tilvistarskilningur okkar er sá, að Guð sér harður húsbóndi, sem bíði eftir því að finn á okkur veikan blett til að geta refsað okkur, þá búum við stöðugan ótta. Og margur hefur fórnað lífi sínu á altari óttans. Ef svo er þá býr það harðræði og þeir þungu dómar í hugskoti okkar sjálfra og þá gröfum við talentur okkar djúpt í vitundina, undir óttann og leyfum þeim ekki að ávaxtast.

Gömul og ósönn guðsmynd getur verið greipt djúpt í vitundina og til þess að öðlast nýja mynd og nýja sýn verða menn að hafna þeirri mynd sem fyrir er. Þeir þurfa að brjótast út úr þeim fjötrum óttans, annars þora þeir aldrei að taka áhættur og láta talentur sínar bera ávöxt.

"Dagurinn mun leiða það í ljós hver dómurinn verður," segir postulinn. "Og dagurinn opinberast með eldi og eldurinn mun prófa. Ef einhver brennur upp mun hann bíða tjón, en sjálfur mun hann frelsaður vera, þó eins og úr eldi."

Margur ber þess merki að hafa brunnið í eldi erfiðrar lífsreynslu, vanrækt sjálfan sig og gleymt að ávaxta pund sitt. En margur hefur einnig risið upp kjölfar þess, risið upp til nýrrar vitundar, nýs lífs. Þeir hafa komið fram með mikilli djörfung snúið sér til Drottins, með óhjúpuðu andliti. Drottinn er andinn, og þar sem andi Drottins er, þar er frelsi. Og þeir hafa ummyndast til hinnar sömu myndar, frá dýrð til dýrðar. Þar hefur andi Drottins verið að verki.

Gætum þess að gleyma aldrei Drottni Guði. Við skulum ekki segja í hjarta okkar: Minn eigin kraftur, og styrkur handa minna hefur aflað mér þessara gæða. Heldur skulum við minnast Drottins. Því hann er sá sem veitir kraftinn til að afla gæðanna.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Anna Sigríður Pálsdóttir er prestur í Grafarvogskirkju. Þessi prédikun var flutt við útvarpsmessu á 1. sunnudegi í níuviknaföstu, þann 16. febrúar 2003.