Í ótta elskunnar

Í ótta elskunnar

Tilveran er oft gleðirík, full eftirvæntingar, en hún býr stöðugt við undirliggjandi ótta, - ótta viðskilnaðarins. Þegar Biblían er lesin og komið er fram í Nýja testamentið, verður manni endanlega ljóst að allur vitnisburður hennar tjáir okkur væntumþykju Guðs gagnvart sköpun sinni, fólkinu sínu, börnunum sínum. Við skulum horfast í augu við óttann, - en treysta á anda Guðs.

Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi.

Þetta hef ég talað til yðar svo að þér fallið ekki frá. Þeir munu gera yður samkunduræk. Já, sú stund kemur að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gera af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. Þetta hef ég talað til yðar til þess að þér minnist þess að ég sagði yður það þegar stund þeirra kemur. Jóh. 15:26-16:4

Örsaga

Þau voru saman tvö. Kvöldið hafði verið yndislegt. Þau gátu masað í einlægni og þrasað í hálfkæringi, en fannst best að haldast í hendur og halda utan um hvort annað og finna heitan straum tilfinninga sinna snerta hvort annað, umvefja hjartað. Og það var vellíðan og það var hvíld og það var friður og gegnheil gleði. Samt bærðist dulinn óttinn undir niðri. Óttinn um að þessu kynni að ljúka einhvern tíma. Kannski allt of fljótt. Kannski á morgun. Og þau mættu saman úti á flugvelli snemma að morgni hins nýja dags, hún með tösku og farmiða, hann með húfu til að skýla sér fyrir svölum vorvindi og bíllykla til að keyra heim aftur. ‘Bless, elskan,ég hringi í kvöld,’ sagði hún og kyssti hann létt á munn. Farðu sæl, ástin mín, sagði hann, já, ég heyri í þér í kvöld. Svo tók flugvélin sig á loft. Og þó hún hefði nákvæma ferðaáætlun, var einhver óvissa undir niðri, sem hvorugt gat útskýrt, bærðist bara innra með þeim. Þau áttu sér nú aðeins þá líknarfullu óvissu, sem í voninni felst, - að heyrast á ný og hittast aftur. Sæluvon.

Umhyggja Guðs

Kæri söfnuður. Þetta var augnabliksmynd úr lífi ósköp venjulegs fólks. Þar sem hjarta mætir hjarta, auga mætir auga, hönd heldur í hönd. Allt eins mætti segja að þetta væri örsaga af jarðneskri tilveru okkar. Sú tilvera er oft gleðirík, full eftirvæntingar, en hún býr stöðugt við undirliggjandi ótta, - ótta viðskilnaðarins. Hvenær sé ég þig aftur? Það er óttinn, sem fylgir því að elska einhvern annan en sjálfan sig, eins og segir í hinum bragðmiklu og tilfinningaríku Ljóðaljóðum Salómons: “Fögur ertu , vina mín, eins og Tirsa, yndisleg eins og Jerúsalem, ægileg eins og herflokkar, snú frá þér augum þínum, því að þau hræða mig.” (L. 6:4). Rétt eins og það er hugljómun að horfa í augu ástvinar, svo er og umhugsunin um viðskilnað ógnvekjandi eins og drepsótt eða stríð. Eitthvað sem hrifsar ástvininn burt. Þegar Biblían er lesin og komið er fram í Nýja testamentið, verður manni endanlega ljóst að allur vitnisburður hennar tjáir okkur væntumþykju Guðs gagnvart sköpun sinni, fólkinu sínu, börnunum sínum. Í Jesú Kristi og öllu því sem hann er í orði sínu og gjörðum, lífi og dauða, já, upprisu og uppstigningu, opinberast Guð í lífi okkar. Umhyggju hans fyrir okkur hefur verið líkt við tilfinningar elskenda, þar sem löngunin til að gefa sjálfan sig er algjör, en óttinn við að missa hvílir í meðvitund og undirmeðvitund, og fær aldrei hvíld, nema þegar hægt er að umvefja ástvinin, hlýju og kærleika, milliliðalaust. Ljóðaljóðin eru ástarljóð, en þau eru einmitt talin túlka samfélag Guðs og manns. Kærleika og umhyggju.

Samfélag traustsins

Lærisveinarnir voru kvíðnir og óttaslegnir. Þeir óttuðust að Jesús væri farinn. Þeir sátu þarna samankeyrðir í hóp, eftir uppstigningu Drottins, margir, karlar og konur, í ótta sínum og kvíða yfir burtför hans, voru þeir engan veginn vissir um að heyra hjómþrungna rödd hans meir, eða fá að horfa í djúpu, yndislegu augun hans, eða þá komast í snertingu við þá heitu tilfinningu kærleikans, sem af honum stafaði. Það var ógnvænlegt tilhugsunar. Það var eins og endir alls væri á næsta leyti. En þau, í hópnum, minntu hvert annað á orðin hans. Drógu fram orð, setningar og atburði frá liðnum samverustundum. Einnig þeim augnablikum, þegar hann var tekinn frá þeim og færður á kross dauðans. Og síðan orð hans eftir upprisuna, huggunarrík, hvetjandi, vonarsæl. Þau rifjuðu upp viðmót hans, röðuðu saman orðum hans, eftir því sem þau gátu munað. Sagði hann ekki einmitt þetta: ‘Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur og aftur innan skamms munuð þér sjá mig’. (Jóh. 16:16). ‘Hryggð yðar mun snúast í fögnuð’ (Jóh. 16:20). ‘Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi. (Jóh. 15:26-27). Þetta og mörg önnur orða hans fóru um huga þeirra og þó vonin væri veikari nú en áður, báðu þau saman, einmitt nú, þegar óttinn var ríkjandi og kvíðinn nagandi. Hvað er þá betra en fylgja orðum Jesú: ‘Biðjið í mínu nafni .... Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn. (Jóh. 16:23, 24). Þegar ástvinir þjappa sér saman með þessum hætti, í orði Drottins og í bæninni, í vanmætti og í samkennd, þá verður tilfinningin um það að vera barn Guðs, þrátt fyrir allt, mjög sterk. Við þekkjum þessa mynd, að vera saman, standa þétt saman, í vanmætti og kærleika, t.d. þegar við söfnumst saman að jarðarför og erum þar öll eitt í tillitssemi, umhyggju og velvild gagnvart stríðandi tilfinningu viðskilnaðarins, sem ríkir á slíkri stundu og þeim einstaklingum sem sorgin bítur sárast. Kraftur sameiningarinnar í þeim aðstæðum er ómælanlega dýrmætur – og öflugur.

Einsemd

Stundum hvarflar sú hugsun að okkur að hægt sé að skilja lífið hjálparlaust. Það er vissulega gott að hafa sjálfstraust, sterkan vilja og telja sig hafa vit til að greina sundur gott og illt. En þegar viðmiðunin er sú að ganga út frá sjálfum sér eingöngu, verður lítið um skilning á öðrum og sambandið við aðra verður takmarkað, snautt, fátæklegt. Líka sambandið við sjálfan sig. Þá er sagt að maður sé firrtur, fjarlægur, án tengsla, sambandslaus. Það er hin raunverulega einsemd. Til þess að komast út úr eigin þrönga hugarheimi, verður að leita samfélags við aðrar manneskjur og finna hið æðsta og besta í hverjum manni. Það besta í hverjum og einum er sú list að geta elskað, unnað, auðsýnt kærleika, - verið öðrum það, sem maður þráir sjálfur, elskusemi, gleði og uppörvun. Ef þú skoðar eigið líf, eigin sögu , muntu fljótt komast að því, að það sem skiptir máli, varðar líf með öðrum og samfélag við annan einstakling. Palli sem var einn í heiminum, átti öll auðæfi heimsins, en undurfljótt komst hann að því, að hann átti samt ekki neitt. Hann var einn. Og þegar einhver er aleinn, þá vantar allt. Þá er eins gott að mega vakna upp af martröðinni.

Auðlind réttlætisins

Stundum verður firringin svo ógæfuleg að einhver óttast meir að verða viðskila við eigur sínar en sína nánustu. En það er auðvitað aðeins staðfesting jarðneskrar viðmiðunar og gerir í rauninni ekki annað en vekja upp þá spurningu innra með okkur, hver sú viðmiðun er , sem við höfum að leiðarljósi. Auðæfi heimsins eru okkur gefin til þess að lifa af við jarðneskar aðstæður. Við getum hvorki hafnað þeim eða án þeirra verið. En við getum látið þær nýtast okkur til góðs og hjálpað okkur, til þess að koma á réttlæti. Slíkt réttlæti er nauðsynlegt til þess að halda jafnvægi í lífi mannsins og stuðla að viðgangi mannlífsins, velsæld og hamingju. Þegar við hrekjumst í óttanum á þá niðurstöðu, að Guð sé fjarlægur, jafnvel ekki til, missir manneskjan grundvöll tilveru sinnar og um leið trúna á sjálfan sig. Vonin um nærveru hans í eigin lífi og trúin á kærleika hans og eilífa miskunnsemi, er tilfinningin, sem er uppspretta sannrar ástar, meðlíðanar og löngunar til að gefa af sér. Það er því aðeins í ástinni til Guðs, trúartraustinu, að manneskjan getur hafist upp úr sjálfselsku sinni og orðið andleg vera, hugsandi manneskja, skapandi og gefandi. Okkur skortir ekki hæfileikana, svo vel sem við erum af Guði gerð. Því síður skortir okkur auðlindir og möguleika. En okkur kann að skorta trúartraust og samkennd, sem er af kærleika Jesú Krists sprottin – og vit til að finna því framgang í réttlæti við náungann.

Lesið á lífið

Jesús gaf engin loforð um að líf lærisveinanna yrði auðvelt, létt, fyrirhafnarlaust eða án áhættu. Þeir voru gerðir samkundurækir, þ.e. þeim var útskúfað fyrir það eitt að játast sjónarmiðum Jesú Krists og vitnisburði hans um ást Guðs til mannsins. Svo hefur verið á öllum tímum. Sá sem elskar tekur áhættu. Áhættan felst í því að missa, verða hafnað, verða einn. Þá segir Jesús: “Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út genginn frá föðurnum, mun hann vitna um mig.” Jóh. 15: 26).

Vitnisburðurinn verður til þegar andi Guðs gerir sér bústað í sál okkar. Heilagur andi Guðs er gjöf. Hann fyllir hjörtu okkar hæfileikanum til að lesa Guðs orð. Án hans er okkur um megn að skilja það. Því fylgir sá hæfileiki að lesa á lífið, skilja umhverfi sitt, skynja tilvist náunga síns, þekkja þarfir þjóðar sinnar, eignast vitund um mikilvægi samkenndar og tillitssemi, og fá að upplifa hina óeigingjörnu ást í hjarta sér. Hver vill missa af því? En þegar það verður staðreynd er það um leið vitnisburður um kærleika Krists.

Hönd í hönd

Við skulum þjappa okkur saman, “standa þétt saman”, eins og sungið var í frægum og góðum slagara og eins og lærisveinarnir gerðu. Við skulum ekki síst standa saman þegar þrengir að. Við erum vön því Íslendingar. Tala saman og vinna hlið við hlið, hönd í hönd að sameiginlegum málum okkar. Við skulum forðast misskiptingu og stéttaskiptingu eins og heitan eldinn. Við skulum halda í sjálfstæðan vilja og getu einstaklingsins, eins og hann er hjá hverjum og einum. Við skulum halda uppi merki sjálfstæðrar þjóðar, sem skrifaði sig út úr fátækt, vansæld og niðurlægingu með rauðum bókstöfum, og það tók margar aldir að skrifa öll þau bréf og allar þær bækur, sem að baki þeirri baráttu bjó. Sá vopnabúnaður reyndist þó farsæll. Við skulum horfast í augu við óttann, - en treysta á anda Guðs. Við skulum treysta því, að það sem hann segir sé rétt. Við skulum treysta því, að hann sendi anda sinn og opni augu okkar. Við skulum reikna með því að andi Guðs sé nálægur, sé að verki í lífi okkar og komi á tilsettum tíma.

Við skulum biðja Guð að vekja í okkur brennandi kærleika, því kærleikur hylur fjölda synda. Amen.