Hvaðan ertu?

Hvaðan ertu?

Vegabréf Guðs ríkisins er í hjarta mínu og þínu. Stimpill yfirvaldsins er krossins tákn á enni þínu og brjósti sem þar var settur við skírn þína og þú endurnýjar í hvert sinn sem þú signir þig eða gerir krossmark fyrir þér.

Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér því að þeir eru þínir og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Í þeim er ég dýrlegur orðinn. Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við. Meðan ég var hjá þeim varðveitti ég þá í nafni þínu sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar svo að ritningin rættist. Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn. Ég hef gefið þeim orð þitt og heimurinn hataði þá af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Ég bið ekki að þú takir þá úr heiminum heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur. Jóh 17.9–17

Hvaðan ertu?

Ég hitti mann hér í Reykjavík á dögunum sem spurði mig hvaðan ég væri? Fyrst spurt var í Reykjavík svaraði ég: Frá Ísafirði. Þannig er því nefnilega farið þegar maður er inntur eftir uppruna að svarið ræðst af því hver spyr og hvar. Sé ég spurður á Akureyri segist ég vera frá Reykjavík og ef ég er spurður í útlöndum segist ég vera frá Íslandi. Reyndar hefur það nú ekki alltaf dugað mér í útlöndum. Einu sinni horfði spyrjandinn á mig eins og stórt spurningarmerki þegar ég nefndi Ísland. Hann var frá einhverju landi í Asíu og þekkti ekkert til þessa heimshluta. Hefði ég bætt við nafni höfuðborgarinnar hefði hann orðið enn meira hissa hvað þá ef ég hefði nefnt Ísafjörð. Þá hefði hann ranghvolft í sér augun og álitið mig hálfgerða geimveru.

Hvaðan ertu? Það er nú vægast sagt alvarlegt ef maður veit ekki hvaðan maður er eða hvert för er heitið. Billy Graham var eitt sinn á nýjum stað með samkomuherferð. Hann fór niður í bæ og hitti þar ungan mann á förnum vegi og bað hann að vísa sér til vegar á næstu rakarastofu. Strákur var snöggur að því og þegar prédikarinn frægi þakkaði fyrir sig og kvaddi sagði hann við strák: -Ef þú vilt vita svörin við spurningunum hvaðan við komum og hvert við stefnum þá vertu velkominn á samkomuna í kvöld því þar skal ég gefa þér svörin. Þá gall við í strák: -Ég veit nú ekki hvort ég á að leita svara hjá manni sem ratar ekki einu sinni til rakarans.

Hvaðan ertu? Ef þú ert ekki frá Ísafirði, ekki frá Reykjavík, ekki frá Íslandi og ekki Evrópu og ekki af heiminum, hvaðan ertu þá?

„Tilvera okkar er undarlegt ferðalag, við erum gestir og hótel okkar er jörðin.“ Svo kvað Tómas. Þessi hugsun er ekki ný því á öllum öldum hafa menn fundið fyrir framandleika eigin sálar í þessum heimi. Við erum sem gestir og útlendingar á þessari jörð.

Jesús bað fyrir lærisveinum sínum og þar með fyrir fylgjendum sínum á öllum öldum er hann sagði við Föðurinn „. . . þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. . . “

En hvað á Jesús við að við séum eða eigum ekki að vera „af heiminum“?

Heimurinn í orðum Jesú og einkum í túlkun Jóhannesar guðspjallamanns er ekki staður heldur ástand eða afstaða. Gríska orðið er kosmos, heimur. Við þekkjum samsetta orðið heimshyggja og orðasamböndin heimsins prjál og heimsins háttur. Þessi orð vísa til þess hvernig heimurinn hugsar.

Við lifum ótrúlega tíma og höfum orðið vitni að því hvernig heimshyggjan og háttarlag heimsins hefur leitt okkur í algjörar ógöngur. Blindir leiddu blinda og allir féllu í sömu gryfju (Matt 15.14)

En hvar er þá heimaland okkar?

Ég skal segja þér það með orðum postulans:

„ . . . [F]öðurland okkar er á himni og frá himni væntum við frelsarans, Drottins Jesú Krists. Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama okkar svo að hann fái sömu mynd og dýrðarlíkami hans því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig. (Fil 3.20-21)

Meðan við lifum hér á jörðu erum við að heiman. Við kunnum að meta þetta líf og elskum þennan heim. Kristin trú boðar ekki heimsflótta og hafnar ekki heldur efninu. Hún boðar ekki að veröldin sé vond eða líkaminn og hið efnislega sé óæðra andanum. Heimsflóttahugsun er ekki hluti heilbrigðrar kristinnar trúar. Við getum ekki og eigum ekki að flýja heiminn sem stað en við eigum að flýja heimshyggjuna, flýja hina heimslegu hugsun. Innan sumra austurlenskra trúarbragða gætir heimsflóttahugsunar, efnið er talið vont og líkaminn fangelsi andans. Kristin trú umfaðmar veröldina, líkamann, holdið og segir það allt vera hluta Guðs góðu sköpunar. Hugmyndir manna og tilgátur um að Jesús hafi ferðast til Indlands og dvalið í Austurlöndum fjær frá 12 ára aldri og til þess tíma er hann hóf að kenna í heimalandi sínu um þrítugt eiga við lítil rök að styðjast sé tekið mið af kenningum hans því þær eru svo gjörólíkar austrænni hugsun til að mynda hvað varðar afstöðuna til veraldarinnar og efnisheimsins. Veröldin öll er Guðs góða sköpun skv. gyðinglegri og kristinni trú. Vel má vera að Jesús hafi dvalið í Indlandi en hann lærði þá fátt þar nema það sem styrkti hans gyðinglegu trú og hugsun. Hins vegar eiga trúarbrögðin margt sameiginlegt og okkur ber að bera virðingu fyrir trú annarra.

En meðan við dveljum í veröld hér geisar stríð, (ekki milli trúarbragða því svonefnd trúarbragðastríð eru allt annað en stríð milli trúarbragða. Þau eru styrjaldir skilningsslórra manna) styrjöld er háð, og þá á ég ekki við styrjöld eða styrjaldir úti í hinum stóra heimi og ekki heldur lokastyrjöldina við Harmageddon (Op 16.16), heldur styrjöldina í sálu minni og þinni, styrjöldina milli góðs og ills. Í því sambandi er gott að eiga skjól eða eins og segir í Orðskviðum Salómons: „Nafn Drottins er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er óhultur.“ (18.10)

Heimurinn er í vanda staddur og reyndar á algjörum villigötum þegar hann hugsar einungis um sjálfan sig, þegar heimurinn verður til heimsins vegna, þegar heimshyggjan ræður ríkjum. Heimshyggjan birtist í því að fólk hugsar einungis um sig sjálft, um einskisverða hluti, um hégóma. Þegar sjálfshyggja og síngirni ræður ríkjum hjá okkur þá erum við heimsins börn, heimsk börn. Eina von heimsins er að hann hætti að vera heimur (Barrett í Brown s. 763n) eða láti af heimsku sinni. Í pistli dagsins heyrðum við um frumsöfnuðinn, um postulana og konurnar, nafngreint fólk. Þau lifðu í einingu og kærleika, voru „með einum huga stöðug í bæninni.“ (Post 1.14) Samhugur þeirra vísar til hins fullkomna ríkis. Og í lexíunni úr Gamla testamentinu sér spámaðurinn líka fyrir sér fagra framtíð. Hann sér ástand þegar samfelldur dagur verður. „Á þeim degi verður hvorki hlý sólarbirta né svalt mánaskin, það verður samfelldur dagur og á því kann Drottinn einn skil. Ekki dagur, ekki nótt og jafnvel að kvöldinu verður bjart.“ (Sak 14.6-7) Sakaría sá fyrir sér fagra veröld, nýja veröld og beitir ímyndunarafli sínu til að sjá hvað verður. Og það er engu líkara en að hann sé að lýsa íslensku sumri!

Stephan G. Stephansson saknaði Íslands og eins og margir sem fluttu héðan forðum og áttu fæstir afturkvæmt.

Þótt þú langförull legðir sérhvert land undir fót bera hugur og hjarta samt þíns heimalands mót, frænka eldfjalls og íshafs, sifji árfoss og hvers, dóttir langholts og lyngmós, sonur landvers og skers!

Yfir heim eða himin, hvort sem hugar þín önd, skreyta fossar og fjallshlíð öll þín framtíðar lönd! Fjarst í eilífðar útsæ vakir eylendan þín: nóttlaus voraldar veröld, þar sem víðsýnið skín.

Hér er ort um Ísland úr fjarska. Og landið okkar er yndislegt. Það hefur fóstrað okkur og nært. Sumarið gleður okkur í kjölfar erfiðs vetrar og við finnum til tímabundins léttis. En það er á brattann að sækja fyrir okkur sem þjóð. Við líðum fyrir mistök þeirra sem fóru með fjöregg okkar á liðnum árum. Hér bjó ekki sjálfráð þjóð á næstliðnum árum heldur það sem ég leyfi mér að kalla bjálfráð þjóð, þjóð á heimsins vegi, heimskunnar vegi, bjálfráð þjóð sem nú er vart sjálfstæð lengur heldur bjálfstæð þjóð, ein á hjara veraldar í sjálfsköpuðu skuldafangelsi.

Ræða Jesú um heiminn á vel við á okkar tímum. Við höfum gengið heimsins veg, heimskunnar veg. En við eigum þess kost að snúa við, að beyta um stefnu og halda heim á leið, ekki til fæðingarstaðar okkar eða upprunasveitar, ekki til Evrópu eða Ameríku, ekki til Asíu eða annarrar álfu, heldur til himinsins. Þar eigum við heima, þar er heimaland okkar, föðurlandið eina og sanna. Þú sem finnur til fremdar, einsemdar og sársauka vegna hlutskiptis þíns, veikinda, heilsubrests eða ástvinamissis, þú átt föður á himnum og þú átt föðurland. Ástvinir þínir eru líka sömu ættar, samlandar í himni Guðs.

Eða eins og postulinn orðar það:

„Og hann kom og boðaði ykkur frið sem fjarlægir voruð, og frið hinum sem nálægir voru. Því að fyrir hans tilverknað getum við hvor tveggja nálgast föðurinn í einum anda. Þess vegna eruð þið ekki framar gestir og útlendingar heldur eruð þið samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs. Þið eruð bygging sem hefur að grundvelli postulana og spámennina en Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini. Í honum tengist öll sú bygging saman, vex og verður heilagt musteri í Drottni. Með honum eruð einnig þið sambyggðir til andlegs bústaðar handa Guði.“ (Ef 2.17-22)

Hvaðan ertu? Ef ég væri spurður núna gæti ég sagt: Ég er fæddur á Ísafirði, bý í Reykjavík, sem er á Íslandi, tilheyrir Evrópu og þessari jörð, en föðurland mitt er aftur á móti á himnum! Og þangað stefni ég! Himininn er mér aflvaki til góðra verka. Himininn gefur mér kraft til að bæta þennan heim, þessa góðu veröld sem Guð gaf okkur til lærdóms og þroska.

Vegabréf Guðs ríkisins er í hjarta mínu og þínu. Stimpill yfirvaldsins er krossins tákn á enni þínu og brjósti sem þar var settur við skírn þína og þú endurnýjar í hvert sinn sem þú signir þig eða gerir krossmark fyrir þér. Signet Guðs er á lífi þínu.

Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að vera Guðs barn?

Hvernig komumst við af sem þjóð? Hvernig tekst okkur að bera byrði samfélagsins á erfiðum tímum? Hvernig fóru forfeður okkar og mæður að við enn erfiðari aðstæður en við? Þeim tókst það með því að hafa augun á hinu æðra og betra. Þau sáu fyrir sér nóttlausa voraldar veröld, betri tíð.

„Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. 29Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. 30Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matt 11.28-30)

Hvað sjáum við þegar við tökum mið af himninum?

Hvað sérð þú? Og hvernig breytist leiðin framundan þegar þú sérð hana sem leiðina heim?

Ef þú verður spurð / spurður: Hvaðan ertu? Hvert er heimaland þitt?

Hverju svarar þú þá?

Á annál höfundar er hægt að hlusta á þessa prédikun.