Deus absconditus eða Immanúel?

Deus absconditus eða Immanúel?

Og það er við þennan Guð sem íslenska þjóðin geri sáttmála á Þingvöllum árið 1000, við Guð kærleikans sem hefur verið með henni í þúsund ár í gleði og sorg ...

Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi.

Þetta hef ég talað til yðar svo að þér fallið ekki frá. Þeir munu gera yður samkunduræk. Já, sú stund kemur að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gera af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. Þetta hef ég talað til yðar til þess að þér minnist þess að ég sagði yður það þegar stund þeirra kemur.

Jóh 15.26-16.4

Hvar er Guð? Er hann upp í himninum? Er hann Deus absconditus, hinn huldi Guð, eða er hann Immanúel, Guð á meðal manna? Lítil stúlka átti samtal við ömmu sína nýlega. Þær ræddu afstöðu stráks sem var reiður út í Guð og vildi helst fara upp í himininn til að berja hann með spýtu! Og þá sagði sú stutta við ömmu: Upp í himininn? Hvað, veit hann ekki að Guð býr í hjartanu hans?!

Og það varð í þessu samtali eins og svo mörgum að barnið veit sannleikann. Nema þér verðið eins og börn, komist þið aldrei inn í Guðs ríki, sagði Jesús.

Já, Guð er nær en margur heldur.

Við lásum ekki lexíu eða pistil í dag vegna skírnarinnar er þið hafið textana á blaði sem þið getið tekið með heim. Skoðið feitletruðu orðin og spurningarnar á bakhlið blaðsins.

Segja má að textar dagsins fjalli allir með einum eða örðum hætti um nærveru Guðs. Guð þráir að vera mitt á meðal manna. „Ég mun [. . . ] setja helgidóm minn mitt á meðal þeirra“, segir Drottinn í texta Esekíels „Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín.“

Og ennfremur segir Drottinn: „Ég mun gera við þá sáttmála [. . . ] ævarandi sáttmála.“

Já, Guð gerir sáttmála, samning. Sáttmáli er yfirleitt gagnkvæmur. Í þessu sambandi er það þannig. Guð gerir sáttmála við sitt fólk. Hann stendur við sína hlið og ætlast til þess að gagnaðilinn standi við sína hlið. En getum við dauðlegir men og syndugir staðið við sáttmála við heilagan Guð? Nei, auðvitað ekki. Þegar Páll postuli ritaði bréf sitt til Rómverja lýsti hann glímu sinni við Guð. Í 7. kafla bréfsins er hann andlega gjaldþrota er hann segir: „Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég.“ (7.19) Hann finnur til vanmáttar og skipbrots eigin sálarlífs. En hann veit um lausn og hann lýsir henni í næsta kafla. Lausnin er í Kristi sem gerir syndugum manni kleift, fyrir kærleika sinn, að halda sáttmálann. Við erum samerfingjar Krists að auðæfum himinsins og dauðinn á ekki síðasta orðið yfir okkur. Andi Krists gerir okkur lifandi á ný og að eilífu. Og svo máttugur er elska Guðs að hún nær yfir allt, smýgur í gegnum allt og umvefur allt eða með orðum postulans:

„Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? [. . . ] Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum. (Rm 8:31.b- 32, 38-39)

Það er ekkert til sem getur gert það að verkum að Guð nái ekki til okkar. Og það er við þennan Guð sem íslenska þjóðin geri sáttmála á Þingvöllum árið 1000, við Guð kærleikans sem hefur verið með henni í þúsund ár í gleði og sorg. Því hefur verið haldið fram að engin þjóð í Evrópu hafi misst fleiri einstaklinga hlutfallslega af völdum náttúruhamfara í gegnum aldirnar en íslenska þjóðin. Og hún hefur fundið styrk í trúnni, treyst á nærveru Guðs. Nærtækustu dæmin eru hörmungarnar sem dundu yfir Vestfirðinga og þjóðina alla í snjóflóðunum í Súðavík og á Flateyri. Trúin sameinaði, trúin huggaði, styrkti og efldi.

„Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín. Þjóðirnar munu skilja að ég er Drottinn sem helgar Ísrael þegar helgidómur minn verður ævinlega á meðal þeirra.“

Helgidómur Guðs er á meðal okkar. Hann birtist í nærveru Guðs sem við skynjum bæði í gleði og sorg. En hann er líka hjá okkur í táknrænni og áþreifanlegri mynd í því húsi sem við nú gistum. Neskirkja er tákn um nærveru Guðs á meðal fólks eins og aðrar kirkjur landsins. Þær eru tákn um undirritun sáttmálans. En ekki bara einar og sér, því tómar kirkjur verða bara eins og minnisvarðar, legsteinar á gröf sem vísa til lífs sem einu sinni var. Nei, kirkjan er ekki bara hús, hún er í frumgerð sinni fólk, söfnuður sem fylgir Drottni.

Í dag er haldinn aðalfundur Nessóknar, fundur fólksins hér í hverfinu sem er aðili að sáttmála Guðs. Hvernig birtist okkar hlið sáttmálans í starfi safnaðarins. Það mun koma fram síðar í dag og kemur reyndar fram alla daga. Hins vegar leyfi ég mér að fullyrða að hér er unnið gott starf og hér ríkir góður andi og því ættum við að geta sagt: Immanúel, Guð er með oss.

Strákurinn í samtali stúlkunnar og ömmu kemst ekki upp í himininn til að lemja Guð með spýtu. Guð býr hið innra með okkur. Nærvera Guðs er miklu nær en margur heldur. Og Sigurbjörn Einarsson, biskup segir í einum sálma sinna: Nær en blærinn blómið, barn á mínum armi. Guð er nær en það allt. Nærvera Guðs birtist í verkum okkar. Það vissi postulinn Pétur eins og hann nefnir í pistli dagsins - ég les hann fyrir ykkur þar sem hann var ekki lesinn fyrr í messunni vegna skírnarinnar:

„En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla. Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónar sýni að Guð gefi máttinn til þess. Verði svo Guð vegsamaður í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.“

Nærvera Guðs birtist í kærleiksverkum okkar, í gestrisni, góðri ráðsmennsku, góðum verkum og heilu lífi. Við erum ráðsmenn Guðs. Og íslenskt þjóðfélag birtir á hverri tíð hvort það er í sáttmálssambandi við Guð eða ekki. Trúnaðurinn við sáttmálann birtist m.a. í réttlæti og miskunn, í skiptingu gæða landsins og tekna þjóðfélagsins. Tökum vel eftir þessu. Og nú þegar syrtir í álinn verður sáttmálinn áleitnari en þegar allt virtist leika í lyndi og neysludansinn dunaði.

Samningar virðast oft auðveldir eins og þeir birtast á pappírnum. Fólki finnst oft við undirritun samninga að allt muni ganga upp. En svo er nú ekki alltaf í lífinu. Margir eiga í erfiðleikum um þessar mundir með að standa við skuldbindingar sínar.

Glíman við lífið og glíman við Guð fylgir okkur og við erum í áþekkum sporum og Páll sem í 7. kafla Rómverjabréfsins segir í raun: Ég gefst upp, ég get þetta ekki.

En í 8. kaflanum segir hann: Ég get það með Kristi og anda hans.

Kristur sagðist mundu senda fylgjendum sínum hjálp. Hann lofaði þeim hjálparanum sem á grísku heitir Parakletos. Orðið para merkir hjá og kletos sá sem kallaður er. Andi Guð er því hjástoð. Og hann á sér líka samsvörun í málfari réttarfars. Andi Guðs er talsmaður, verjandi, umboðsmaður, eins og til dæmis umboðsmaður barna, fulltrúi, sá sem gætir hagsmuna og ver okkur fyrir dómi. Orð Jesú voru mælt til fylgjenda sem margir hverjir áttu eftir að líða fyrir vitnisburð sinn um hinn upprisna, sumir áttu eftir að verða gerðir samkundurækir, aðrir líflátnir fyrir trú sína. Munið þá að ég sagði ykkur þetta fyrir, sagði Jesús.

Við sem hér komum saman í dag skulum líka taka til okkar þessi orð um að hjálparinn muni vera með okkur í öllum atvikum lífsins, í gleði og sorg, á fagnaðarhátíðum og líka ef slys eða náttúruhamfarir dynja yfir okkur. Hann mun vera hjá okkur í sjúkdómum og að endingu í dauðanum sem vitjar okkar allra í fyllingu tímans.

Hinn góði andi Guðs var með þeim sem liðu og hann er enn með þeim sem líða. Hann er sendur okkur til hjálpar í daglegu lífi. Og andi Guðs tekur sér bústað í helgidómi, í kirkjunni, en líka í okkur sjáfum, í helgidómi hjartans. Þar býr hann svo fremi að honum sé boðið inn. „Ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.“ (Op .20) Þessi orð, þeim er beint til okkar allra, beggja kynja, karla og kvenna.

Þetta vissi stúlkan litla sem átti samtal við ömmu. Hún vissi að Guð býr hið innra, í hjartanu. Og nú er knúið á dyr hjartna okkar. Guð gerir það með orði sínu og í brauði og víni þegar hann býður okkur til veislu hér á eftir og spyr: Viltu fylgja mér? Viltu vera með í göngu kærleikans, miskunnarinnar, friðarins og hins góða vilja til allra manna? Viltu vera með í sigurgöngu lífsins sem gengur örugg til móts við himinn Guðs?

Já, auðvitað viljum við öll vera með. Enginn getur með neinum haldbærum rökum hafnað slíku tilboði, tilboði um sáttmála sem gengur upp, ævarandi sáttmála við hann sem aldrei svíkur, aldrei bregst. Guð er hér og hann vill finna þig og gæta þín að eilífu.

Guð blessið þig.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.