Við sólarupprás komu þær að gröfinni. Konurnar sem voru fyrstu vottar upprisunnar. Árla morguns fengu þær að heyra og sjá að vinur þeirra var ekki í gröfinni, hann var upprisinn. Hann var ekki þar. Þær fengu að heyra að þær ættu að fara og flytja lærisveinunum tíðindin. Þær áttu að fara til Galileu og segja frá. Hann fer á undan ykkur sagði engillinn við þær, en hann hafði tekið á móti þeim við gröfina.
Vegna þessa atburðar erum við hingað komin í dag. Á undan okkur hafa kynslóðirnar komið hingað á þessum degi og löngu áður en þessi kirkja var byggð kom fólk saman til að minnast upprisunnar. Upprisu Jesú sem markar tímamót í sögu mannkynsins og við minnumst á helstu hátíð kristinna manna, páskunum.
Þær voru valdar til að flytja tíðindin til lærisveinanna og annarra fylgjenda Jesú sem hafði verið líflátinn og fluttur í gröf 3 dögum áður. Merkilegt, í ljósi þess að konur voru ekki teknar sem trúverðugir boðberar í þann tíð. En Guð hefur fyrirætlanir. Guð sendi konur til að flytja boðskapinn sem breytti svo mikilu fyrir mannkyn allt og fyrir hvern þann einstakling er meðtekur boðskapinn í trú.
Á þessu ári minnumst við þess að 100 ár eru liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt hér á landi. Að vísu voru takmörk sett, en skref var þetta í þá átt að telja konur meðal manna. Enn í dag eru dæmi þess að konur njóta ekki þeirra sjálfsögðu mannréttinda að kjósa, eins og okkur finnst það nú sjálfsagt hér á landi. „Vér heilsum glaðar framtíðinni, þar sem karlar og konur vinna í bróðerni saman að öllum landsmálum, bæði á heimilunum og á alþingi.“ sagði Bríet Bjarnhéðinsdóttir í hátíðarræðu á Austurvelli af þessu tilefni. Já, það ríkti gleði þann dag.
Í ár er líka annars atburðar minnst sem gaf tækifæri til breytinga. Þann 10. júlí í sumar eru 200 ár frá því að hið íslenska Biblíufélag var stofnað. Áður en það var stofnað var Biblían ekki almenningseign, svo dýr var hún. Í þeirri helgu bók, er gleði, von og trú, ásamt kærleik og gefandi lífsgildum útdeilt. Boðskapurinn hefur verið landanum traustur förunautur á lífsins leið.
Gleði fylgir hverju því skrefi sem tekið er í átt til janræðis og sjálfsagðra mannréttinda. Gleðin var líka við völd upprisudaginn þegar Maríurnar tvær vitjuðu grafarinnar, sem var tóm. Óttinn sem heltók þær við gröfina breyttist í gleði við orð engilsins. Í stað ótta er komin gleði, en gleðin er einkenni upprisunnar. Það var svo sem ekkert nýmæli að grafar væri vitjað. Það var siður meðal Gyðinga að fara reglulega að gröfinni fyrstu dagana til að athuga hvort um kviksetningu væri að ræða. Konurnar vissu hvar gröfin var, því þær höfðu verið viðstaddar dauða Jesú og flutning líksins til grafarinnar. Þær voru vottar að dauða hans og upprisu.
Gleðin sem umvafði konurnar við gröfina fylgdi þeim áfram veginn. Ekki var verra að á undan þeim fór hann sem þær treystu á, hinn upprisni frelsari. Hann vísaði veginn, hann birtist þeim og öðrum næstu vikurnar og enn í dag vitna konur og karlar um trú sína, trú á hinn upprisna Krist. Fyir nokkrum dögum heyrði ég menn segja frá þeim breytingum sem orðið hefur á lífi þeirra við að leyfa Jesú að ganga með sér lífsveginn. Þeir höfðu farið frá helsi til frelsis, frá böli til blessunar.
Fyrir trúað fólk eru páskarnir því ekki bara kærkomið frí frá amstri hversdagsins heldur færa þeir andlega næringu og minna á að andstreymi og erfiðleikar eiga ekki síðasta orðið. Upprisan á sér margar myndir í heimi hér og það allar jákvæðar og hvetjandi. Upprisan minnir á að lífið er sterkara en dauðinn og blessun Guðs sterkari en hið illa afl, sem virðist oft láta á sér bera í heimi hér.
Það er eftirtektarvert í frásögu Matteusar guðspjallsmanns af upprisunni að varðmenn dauðans sem gættu grafarinnar skulfu af hræðslu og liðu út af þegar atburðurinn átti sér stað. Það er svo sem skiljanlegt að hið óvænta skyldi láta þeim bregða, en um leið er sem þeir séu yfirliði bornir. Þeir sem gættu hins látna brugðust við hið óvænta. Lífið, sem hafði verið lokað inni í gröfinni, braust út. Dauðinn og þeir sem gættu hans biðu ósigur fyrir lífinu.
Ljótleiki lífsins og grimmd mannsins birstist okkur í ýmsum myndum. Í fréttatímum fjölmiðlanna er greint frá voðaverkum, þar sem hatur, mannfyrirlitning og drottnunargirni virðast ráða för. Kirkjur heimsins hafa sent út bænaákall og beðið Drottin um að grípa inn í og miskunna. Sem betur fer fáum við spurnir af miskunnarverkunum sem unnin eru. Dæmi um þau eru björgun flóttamannanna sem ferjaðir voru um borð í varðskipið Tý fyrir nokkrum dögum. Það var falleg myndin þegar tveir karlmenn föðmuðust þegar þeir voru komnir um borð í skipið, hólpnir eftir sjóferðina heimsálfa á milli. Þannig eru upprisur lífsins oft. Þær eru samvinnuverkefni margra aðila sem leggja sig fram um að gefa líf og bæta líf. Flóttamenn taka áhættu. Þeir þrá lífið og flýja óviðunandi aðstæður heima fyrir. Heimurinn getur ekki lokað augum og eyrum fyrir því.
Jesús var krossfestur og hann er upprisinn. Sú staðreynd leyfir okkur að lifa í þeirri trú að þrátt fyrir allt sigri hið góða, sigri lífið og blessunin. Upprisan er lykilatriði trúarinnar og lykilatriði boðunarinnar. Alla daga er mannkynið að reyna að bæta heiminn og berjast gegn því sem meiðir og deyðir. Það er enda ærið verkefni í veröld sem er full af grimmd og hatri. Engillinn sem birtist konunum við gröfina og flutti þeim tíðindin tók burt ótta þeirra. Í stað óttans kom gleðin og krafturinn til að fara og segja frá.
Óttinn vill taka stjórnina í lífi fólks á stundum. Hann er ógnvaldur sem ekki er góður förunautur. Það er slæmt að láta óttann stjórna sér, en það getur verið erfitt að bægja honum frá þegar andstreymi mætir. Næstu dagana eru boðuð verkföll hér á landi. Margir óttast að þau geti orðið langvinn og erfið. Fjárhagsáhyggjur þjá margan manninn sem og ótti er tengist framtíð og lífsafkomu. Það er óásættanlegt að í okkar fámenna þjóðfélagi skuli vera fjölskyldur sem ekki sjá fram á bjarta framtíð börnum sínum til handa. Það er óásættanlegt að unga fólkið hafi ekki jöfn tækifæri til náms og þroska. Kannski væri betur komið fyrir okkur sem þjóð ef boðskapur hins upprisna Jesú væri meira í hávegum hafður og meira mark væri tekið á honum.
„Þar munuð þið sjá hann“ sagði engillinn við konurnar sem höfðu fengið það hlutverk að fara og segja frá. Og nú getum við spurt hér í dag. Hvar er Jesú að sjá, í veröld okkar í dag, í samfélagi okkar, í lífi okkar? Sjálfur sagði hann: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.” Sigurbjörn Einarsson biskup orti:
Þú, mikli Guð, ert með oss á jörðu, miskunn þín nær en geisli á kinn. Eins og vér finnum andvara morguns, eins skynjar hjartað kærleik þinn.Í dagsins iðu, götunnar glaumi, greinum vér þig með ljós þitt og frið. Hvar sem ein bæn er beðin í hljóði, beygir þú kné við mannsins hlið.
menn skynja upprisuna er boðskapurinn skýr: að Kristur er upprisinn og dauði hans leiðir til nýs lífs, frá myrkri krossins til birtu upprisunnar. Þetta er sá leyndardómur sem mörgum er hulinn. En fyrir þeim sem skynja hann, leiðir hann til lífins og fyllir lífið von og birtu.
Kristur er upprisinn. Hann er lifandi og við munum lifa. Þetta eru gleðifréttirnar sem berast til okkar í dag. Gleðifréttir er varða sálarheill okkar. Frelsunin er til staðar og okkar er að taka á móti frelsuninni og gera hana að veruleika í lífi okkar með hjálp Guðs. Leyfum skynfærum okkar að taka á móti frelsisboðskapnum og lifum í frelsinu, sem okkur stendur til boða fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum. Sannarlega er Kristur upprisinn. Páskavikan er hafin. Njótum hennar í gleði og frelsi trúarinnar.
Dýrð sé Guði, föður og syni og Heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.