Ást í trú og verki

Ást í trú og verki

Tvöfalda kærleiksboðorðið hefur líka verið kallað þrefalda kærleiksboðorðið – þrefalda vegna þess að þar ræðir um elskuna til Guðs, til náungans og til okkar sjálfra. Sagt hefur verið að til þess að geta elskað náunga okkar eins og okkur sjálf verðum við að bera eðlilega umhyggju fyrir eigin lífi. Því hefur líka verið haldið fram að til þess að geta borið virðingu fyrir öðrum verðum við virða okkur sjálf að verðleikum.

Þá kom til hans fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann, að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: "Hvert er æðst allra boðorða?"

Jesús svaraði: "Æðst er þetta: ,Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.' Annað er þetta: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.' Ekkert boðorð annað er þessum meira."

Fræðimaðurinn sagði þá við hann: "Rétt er það, meistari, satt sagðir þú, að einn er hann og enginn er annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira."

Jesús sá, að hann svaraði viturlega, og sagði við hann: "Þú ert ekki fjarri Guðs ríki."

Og enginn þorði framar að spyrja hann. Mark. 12.28-34

Á brúðkaupsdaginn eru brúðhjónin spurð tveggja spurninga; hvort það sé einlægur ásetningur þeirra að ganga að eiga hvort annað og síðan hvort þau vilji reynast maka sínum trú, elska hann og virða í öllum aðstæðum lífsins. Þetta er verkefni hjónabandsins, sem byggir á bæði viljanum og þránni eftir að vera saman.

Í dag erum við minnt á æviverkefni kristinnar manneskju, sem þessu er líkt: Að elska Guð. Við getum spurt okkur sjálf hvort það sé einlægur ásetningur okkar að vera hans, elska hann og virða af trúmennsku, af hjarta, sálu, huga og mætti. Elskan til Guðs – og elskan til náungans sem sprettur af henni – byggir á sama grunni og hjónaelskan, viljanum og lönguninni.

Á fermingardaginn er líka lagt fyrir okkur verkefni. Við erum spurð hvort við viljum leitast við af fremsta megni að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Er það vilji þinn og þrá að elska Jesú og reynast honum trú í öllum aðstæðum lífsins?

Til að geta svarað því játandi er ýmislegt sem við þurfum að tileinka okkur. Til þess er fræðsla kirkjunnar og í fermingarundirbúningnum er margt sem þarf að læra og sumt utan að. Gert er ráð fyrir því að unglingarnir kunni að lágmarki bæn Jesú, Faðir vor, og var áður fyrr talað um að “fermast upp á faðirvorið”. Þá var átt við að börn sem einhverja saka vegna gætu ekki lært neitt að ráði skyldu þrátt fyrir það fá að fermast, að því tilskyldu að þau gætu farið skammlaust með hina drottinlegu bæn. Þetta var á þeim tímum þegar fermingarbörnin voru spurð út úr í fermingarathöfninni og var mörgum kvíðaefni.

Við erum reyndar löngu hætt að leggja spurningar úr kverinu fyrir ungmennin á fermingardaginn og eru sjálfsagt flestir fegnir því. Samt eru ákveðin grundvallaratriði sem þykir sjálfsagt að allir, sem á annað borð geta lært utan að, kunni. Samkvæmt Fræðum Lúthers minni á þungamiðja trúfræðslunnar að vera, auk bænar Jesú, hin postullega trúarjátning, boðorðin tíu og tvöfalda kærleiksboðorðið. Allt þetta höfum við ýmist farið með eða heyrt lesið í messunni í dag. Það fyrst talda, Faðir vor og trúarjátningin, er eins og við heyrðum, ómissandi þáttur í skírnarathöfninni, sem er jú grundvöllur fermingarinnar.

* * *

Lífi kristinnar manneskju hefur verið líkt við bátsferð. Báturinn er Guð sem ber okkur uppi og veitir hlíf í ölduróti lífsins. Árarnar eru annars vegar trúin og hins vegar verkin. Trúarjátningin segir okkur hver trúin er og boðorðin sýna hvernig verk okkar eiga að vera. Ef við róum aðeins með annarri árinni, sýnum ekki trú okkar í verki eða reynum að gera góðverk án þess að þau spretti af trúnni, komumst við lítið áfram. Lífið snýst þá einvörðungu um okkur sjálf og við förum í endalausa hringi. Við þurfum að nota báðar árarnar til að komast áfram. Trú okkar þarf að birtast í góðu verki og góðu verkin framkallast af trúnni. Ef trúin er árin í vinstri hendinni, hjartamegin, (lyfta henni) og verkin árin hægra megin (lyfta hægri hönd) sameinast þær tvær í tilbeiðslunni (leggja hægri hönd í vinstri og lyfta upp eins og í lofgjörð) þegar við tökum okkur hvíld í nærveru Guðs (draga andann djúpt).

Þess vegna eru trúarjátningin og boðorðin tíu slík grundvallaratriði að við þurfum að kunna þau utan að og helst að skilja þau með hjartanu. Þið vitið að enska orðasambandi fyrir utanbókarlærdóm er “to know by heart”. Kristindóminn meðtökum við ekki nema að hluta með heilanum. Þann þátt getum við lært í skólanum. En til þess að vera í raun og sann kristnar manneskjur þurfum við að þekkja Guð með hjartanu. Því kynnumst við í kirkjunni og heima.

Og þá erum við komin að tvöfalda kærleiksboðorðinu. Það birtir reyndar boðorðin tíu í hnotskurn, þar sem fyrst er talað um að elska Guð, eins og í fyrstu þremur boðorðunum, og síðan náungann, samanber fjórða til tíunda boðorð.

Höfum í huga að boð Guðs um elsku byggir á því að hann elskar okkur fyrst – eins og sagt er í skírninni: Sjáið, hvílíkan kærleika Guð faðir hefur auðsýnt oss, að vér skulum kallast hans börn. Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists hefur elskað oss að fyrra bragði. Og svo er vitnað í Litlu Biblíuna, Jóhannes 3.16: Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Þetta er eitt af því sem við ættum öll að kunna utanað og minna okkur á daglega því að þessi orð varða okkur sjálf og líf okkar: Því svo elskar Guð þig og mig að hann gaf son sinn eingetinn til þess að þú og ég glötumst ekki heldur höfum fyrir trú eilíft líf.

Boð Guðs er þannig ekki úr lausu lofti gripið. Það er ekki eins og hver önnur óskiljanleg fyrirskipun heldur eðlilegt framhald þess sem hann hefur gert fyrir okkur. Ef við veltum fyrir okkur orðinu “boð” eða sögninni “að bjóða” þá getur verið blæbrigðamunur á merkingunni. Við erum boðin til veislu, kannski þiggjum við boðið og hlökkum til að hitta fólkið sem bauð okkur. Svo fáum við boð um að hitta vin okkar á ákveðnum tíma og ef til vill getum við komið til fundar við hann. Lögin bjóða okkur líka að gera þetta eða láta hitt vera og væntanlega reynum við að fylgja boði laganna, okkur til góðs.

Þannig er boð Guðs líka, bæði tilboð og hvatning, skilaboð og fyrirmæli. En okkar er að bregðast við, þiggja far með bátnum sem er ást Guðs til okkar (mynda bát með báðum lófum, rétta út hendur sem gjöf) og nýta okkur verkfærin til betra lífs, árarnar sem okkur eru lagðar í hendur, ár trúar (vinstri hönd) og ár verka (hægri hönd).

* * *

Tvöfalda kærleiksboðorðið hefur líka verið kallað þrefalda kærleiksboðorðið – þrefalda vegna þess að þar ræðir um elskuna til Guðs, til náungans og til okkar sjálfra. Sagt hefur verið að til þess að geta elskað náunga okkar eins og okkur sjálf verðum við að bera eðlilega umhyggju fyrir eigin lífi. Því hefur líka verið haldið fram að til þess að geta borið virðingu fyrir öðrum verðum við virða okkur sjálf að verðleikum. Sálfræðingar segja okkur foreldrum að besta leiðin til að innræta, rótfesta í börnum okkar heilbrigða sjálfsmynd sé að okkur líði vel með sjálfum okkur. Það er mikið til í þessu og tengist líka forvarnarumræðunni um að við séum fyrirmynd þess lífernis sem við viljum sjá börnin okkar tileinka sér. Máltækið “Það læra börnin sem fyrir þeim er haft”, sannast aftur og aftur.

Vinaleið Þórdísar Ásgeirsdóttur, djákna í Mosfellsbæ, sýnir umhyggju kirkjunnar í verki. Hún er ekki trúboð í þeim skilningi að þar fari fram bein innræting á boðskap Biblíunnar. Vinaleiðin sprettur af elskunni til Guðs og náungans, í þessu tilfelli skólabarnanna, sem því miður þurfa oft að bíða lengi eftir aðstoð í tilfinningavanda, þar sem úrræði ríkisins eru af skornum skammti. Vinaleiðin er ekki meðferðarúrræði, heldur eyra sem heyrir, hönd sem styður, hjarta sem grætur og gleðst með ungum vinum. Þar er framfylgt orðum Jesú: Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér (Mt. 18.5).

Þarna sjáum við árarnar tvær aftur, trúna og verkin, knúin áfram af kærleika. Líf okkar ætti að birta heilbrigða umhyggju fyrir okkur sjálfum og samferðafólki okkar. Aðeins þannig erum við heilar manneskjur. Eitt það fallegasta sem hægt er að segja um einhvern er að hann eða hún sé heilsteypt. Myndir þú ekki vilja fá slíka einkunn þeirra sem þekkja þig? Þá er brýnt að líf þitt spegli elskusemi Guðs. Við sækjum nefnilega ekki ástina til okkar sjálfra. Ef kærleikur okkar á sér ekki uppsprettu í Guði þrýtur hann fyrr eða síðar. Ekkert okkar getur elskað eins og vert væri. Aðeins fyrir heilagan anda getum við komist nálægt því að uppfylla boð Guðs um kærleika sem birtist í afstöðu okkar og verki.

Í Jóhannesarguðspjalli, kafla 7 (v. 37-39) talar Jesús um þetta: Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki. Sá sem trúir á mig – frá hjarta hans munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir. Þarna átti hann við andann, er þeir skyldu hljóta, sem á hann trúa. Pistillinn í dag fjallar líka um þetta, hvernig Guð auðgar okkur í öllu í Kristi, og að það er hann sem gerir okkur staðföst allt til enda, óásakanleg á degi Drottins vors Jesú Krists. Og pistlinum lýkur með þessum uppörvandi orðum: Trúr er Guð, sem yður hefur kallað til samfélags sonar síns Jesú Krists, Drottins vors. Höldum fast í þetta, þegar við finnum að kærleikur okkar er á þrotum, að trúr er Guð, sem hefur kallað okkur til samfélags sonar síns Drottins Jesú Krists. Hann gefur okkur kærleika sinn að hann megi flæða áfram til annarra. Það er andi Guðs, sem leggur okkur í brjóst bæði viljann og löngunina til að elska.

Heyrst hefur: “Það sem þú gerir getur annað hvort strikað undir það sem þú segir eða strikað yfir það”. Fréttir liðinnar viku um eftirmála hinnar skelfilegu árásar í skóla Amish-fólksins í Ameríku eru áhrifaríkt dæmi um það. Daginn eftir útför telpnanna sem voru skotnar til bana með köldu blóði hins sálsjúka manns fóru ástvinir þeirra til aðstandenda morðingjans og færðu þeim heilshugar fyrirgefningu sína að gjöf. Þetta er æðra mannlegum mætti. Slíkt getur enginn án anda Guðs, sem rennur frá hjarta hinna trúuðu sem lækir lifandi vatns, sigur lífs yfir dauða, sigur kærleikans á hatrinu.

Vinir, elskum eins og við erum elskuð í verki og sannleika.