„Kjósa, kjósa,
mér finnst svo gaman að kjósa
ó, hvað ég hlakka til!”
Val Vigdísar
Já, við erum að fara að kjósa. Hér í lýðveldinu fáum við að velja okkur forseta með hækkandi sól. Upphafsorðin eru upprifjun mín úr kosningasjónvarpinu sumarið 1980 þegar forsetaval fór fram. Ég man ekki hver orti eða söng en þetta var viðlagið. Og eitt erindið var alveg örugglega svona:
„Albert er glæstur og Guðlaugur hress,
ég gjarnan vil kjósa þá,
veljið hann Pétur hann vann til þess
og Vigdísi allir þrá“
Mér er fyrirmunað að skilja af hverju heilinn hefur fest þennan brag í minni en ég stenst ekki mátið að deila honum hér og nú. Þetta reyndist jú vera sögulegt kvöld. Vigdís Finnbogadóttir varð hlutskörpust og það var mikil gæfa fyrir þjóðina okkar og áfangi í stjórnmálasögu heimsins.
Í öllum þeim umbrotum og ósköpum sem hafa dunið yfir samfélag okkar á þessum áratugum sem liðnir eru, hafa nafn Vigdísar og verk hennar staðist dóm tímans. Sigurganga hennar náði ekki þó hámarki með þessu kjöri, nei við getum sagt að hún hafi raunverulega byrjað þegar hún steig þessi örlagaríku skref í að verða forseti þessarar fámennu þjóðar.
Þar nýttust kostir hennar vel og það hugarfar sem hún byggði þjónustu sína á.
Vigdís hafði til að bera mikilvægan eiginleika þegar kemur að því að geta tileinkað sér nýja færni og þekkingu. Það er auðmýktin. Ekki barst hún á, hún talaði við fólk af jafningjagrunni. Mýkt er forsenda vaxtar og framfara. Þannig er því háttað með allt lífríkið. Á vaxtaskeiði sínu eiga lífverur auðvelt með að vera mjúkar, eins og orðið „auðmýkt“ felur í sér. Því geta þær vaxið eða lagað sig að umhverfinu. Sumar fá síðar harðan skráp og þá er ekki von á frekari vexti.
Með sama hætti er auðmjúkt fólk á ævilöngu þroskaskeiði. Það gengur inn í allar aðstæður með þá hugsun í bakhöfðinu að það eigi ekki sjálft öll svörin en spyr fyrir vikið þeim mun meira og hlustar grannt. Framandleg viðfangsefni verða ekki tilefni til að sýna yfirburði sína og yfirvald, og breiða með því yfir veikleikana. Þvert á móti verða slíkar áskoranir tækifæri til að kynnast nýjum hliðum tilverunnar þar sem fólk talar minna en hlustar meira. Mistök og árangur eru ekki andstæður heldur tvær hliðar á sama peningnum. Hrösun veitir tækifæri til aukinnar þekkingar.
Allt þetta er forsenda þess að geta haldið áfram að vaxa, verða „meira maður“ eins og Páll heitinn Skúlason orðaði það.
Nágrannatungurnar eiga orð yfir sama fyrirbæri sem er dregið af latneska orðinu: humilitas, sem er sjálft náskylt orðinu humus – eða mold. Viska kynslóðanna lætur ekki að sér hæða, þarna sjáum við sömu vaxtarsprotana.
Já, „mér finnst svo gaman að kjósa“ söng trúbadorinn og ég var ekki einu sinn fermdur þegar þarna var komið sögu, hvað þá með kosningarétt. En ég fæ bráðum að kjósa og það í tvígang.
Áður en kemur að forsetavalinu fær lítill hópur innan kirkjunnar að velja fólk inn til miklu eldra embættis, sem nær allt aftur til ársins 1056 hér á eyjunni. Já, við erum að fara að kjósa biskup. Eitt af því sem Vigdís lærði fljótt í forsetatíð sinni, eins og hún hefur sjálf greint frá, var mikilvægi kirkjunnar fyrir samfélag okkar. Og ekki í þeirri merkingu að leiðtogar kirkjunnar ættu svörin við öllum okkar helstu vandamálum, heldur þvert á móti. Það var einmitt innbyggt í taugakerfi kristinnar kirkju að gæta hófs og halda sig innan ákveðinna marka.
Sú hugsun nær allt aftur til elstu rita Biblíunnar þar sem hið veraldlega og hið trúarlega skiptu með sér verkum. Konungurinn bar ábyrgð á hinu fyrra en spámaðurinn sem átti að tala röddu Guðs gætti þess að yfirvaldið virti þau mörk sem því ætti að vera sett. Spámaðurinn talaði inn í samtíma sinn og eins og nafnið gaf til kynna spáði fyrir um hið ókomna. Þetta var afar ólíkt fyrirkomulag og tíðkaðist meðal annarra þjóða þar sem kóngafólk rakti ættir sínar til guðanna. Hin biblíulega hefð hvílir aftur á móti á þeirri hugsun að valdhafar þurfi sjálfir að lúta yfirvaldi.
Og þegar þeir fara út fyrir þau mörk er langtímaminni þessarar menningar slíkt að flest annað bliknar í samanburðinu, þar á meðal sú einkennilega staðreynd að ég skuli enn muna söng trúbadorsins í kosningasjónvarpinu í júní 1980!
Sagan af innreið Jesú í Jerúsalem er í því sambandi uppfylling ævafornra spádóma, raunar eldgamals reiðilesturs.
Aðrir guðspjallamenn hefja nefnilega frásögnina uppi á Olíufjallinu og færa hana svo niður í gegnum Betfage og Betaníu. Þetta kann nútímanum að finnast óþarfa smáatriði en Gyðingar á fyrstu öld vissu undir eins hvað þetta þýddi. Þeir mundu enn sex hundruð ára gömul dómsorð Ezekíels spámanns yfir þjóðinni sem honum fannst hafa glatað öllum gildum sínum. Af orðum hans að dæma ríkti þar siðleysi og ójöfnuður gegnsýrði samfélagið.
Svo hörmuleg var staðan að Ezekíel lýsti því hvernig andi Guðs hefði yfirgefið musterið, sem Salómon hafði á sínum tíma byggt. Já, Drottinn eirði þar ekki lengur meðal fólks sem sýndi náunga sínum skeytingarleysi. Og því er lýst hvernig andinn hélt út um austurhlið borgarinnar í gegnum Betaníu og þaðan sást hann sveima yfir Olíufjallinu áður en hann hvarf sjónum borgarbúa.
Þannig verður ferðalagi Jesú lýst, að hann hafi komið við á sömu slóðum og frá Betaníu lá leiðin inn um sama inngang og fyrr var lýst, sjálft austurhliðið. Og boðskapurinn er sá að með þessum atburði hafi samfélagið endurheimt það sem áður, konungurinn hefur snúið aftur. Það sem var brotið og spillt er nú orðið heilt og ómengað. Síðar sagðist Jesús ætla að rífa musterið niður og endurreisa eftir þrjá daga en það er í sama anda og hér er talað um. Musterið var guðvana en þarna átti að endurheimta það sem hafði glatast.
Hógvær leiðtogi
Og textarnir gefa tóninn um það með hvaða hætti sá konungdómur, sú forysta ætti að einkennast af þeim þáttum sem guðspjall pálmasunnudags lýsir. Innreiðin í Jerúsalem vísaði í orð annars spámanns, Sakaría:
Fagna mjög, dóttirin Síon,
lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem.
Sjá, konungur þinn kemur til þín.
Réttlátur er hann og sigursæll,
lítillátur og ríður asna,
ungum ösnufola.
Hér sjáum við hina biblíulegu forystu sem ætti að vera leiðarljós ekki aðeins fyrir þau sem taka að sér ábyrgð á vettvangi kirkjunnar heldur samfélagsins alls. Lítillætið birtist í því hvernig hann situr á þessum lágreista fararskjóta í augnhæð þeirra sem nærstaddir voru og undirstrikar með því gildi auðmýktar þess sem leiðir samfélag áfram. Þetta látlausa fas Jesú í frásögninni er því grundvallað á ævaforni hugmynd um framkomu leiðtoga.
Þjónusta Mörtu við Jesú þar sem hún þvoði fætur hans er svo annað dæmi um þetta. Litlu síðar átti Jesús eftir að miðla þeirri sömu þjónustu við furðu lostna lærisveina sína á skírdegi, af hverju voru þeir undrandi? jú vegna þess að fótþvottur átti ekki að vera viðfangsefni meistarans, heldur þjónsins. Og með þessu sýndi Jesús í verki það sem hér hefur verið fjallað um – einmitt þá vitund að fremstu leiðtogar eru lærisveinar.
Það var á þessum þáttum sem leiðtogar á borð við Vigdísi Finnbogadóttur byggðu forystu sína. Þar var ekki gengið fram í stærilæti og ásókn í völd, nei öðru nær. Hún hafði í reynslusjóði sínum myndina af hinum sanna leiðtoga sem gengur fram í auðmýkt og lærir með því enn meira á lífið og sjálfa sig.
Árið 1974, sjö árum áður en Vigdís tók við forsetaembættinu, hafði kirkjan borið gæfu til þess að vígja til prests fyrstu konuna, Auði Eir Vilhjálmsdóttur. Sjálf lýsti Auður Eir þeim hugsjónum sem hún og aðrar talskonur þessarar hugmyndafræði í grein frá árinu 1996. Þar segir hún:
„Kvennaguðfræðin, sem er guðfræði sem konur skrifa út frá sinni eigin reynslu er meðal annars guðfræði sem konurnar skrifa eftir sinni eigin reynslu, er meðal annars guðfræðin um völdin og valdaleysið. Hún gagnrýnir völdin sem safnast saman hjá fáeinum einstaklingum og fáum hópum. Hún berst fyrir því að völdunum sé dreift svo allir eigi hluta af þeim.“ (Auður Eir Vilhjálmsdóttir, ,,Kirkja og trúarlíf síðustu áratuga: Hvað hefur breyst – hvað skortir enn á jafnrétti?", Konur og kristsmenn: Þættir úr kristnisögu Íslands, Inga Huld Hákonardóttir ritstýrði (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1996), bls 297)
Eins og svo oft í sögu kristninnar var þessi afstaða grundvölluð á upprunalegum gildum. Hér er með öðrum orðum lýst þeirri sýn sem hér hefur verið lýst um það hvernig við getum haft bætandi áhrif á umhverfi okkar og heiminn með því að valdefla fólk í kringum okkur. Og Auður Eir gagnrýnir valdabaráttuna sem hafði áður einkennt kirkjuna en hélt því miður áfram þótt kirkjan hefði síðar valið sér konu sem biskup.
Söngurinn sem þeir sungu í kosningasjónvarpinu er kostulegur og hefur reyndar ekki elst mjög vel. Hvað á það annars að þýða að „allir þrái“ einu konuna sem þarna býður fram krafta sína? En við getum gefið þeim orðum eðlilegri blæ og lýst því yfir að öll þráum við forystumanneskju eins og hana Vigdísi. Þar hafa frambjóðendur verðuga fyrirmynd sem við getum svo sótt lengra aftur, í sjóði frásagna ritningarinnar.