María við krossinn

María við krossinn

Ég veit ekki hvaða hugmyndir gjörningakonur höfðu um þær viðtökur sem Neskirkja myndi sýna óði þeirra til Maríu. Sannleikurinn er sá að túlkunarsaga Biblíunnar einkennist af því að birta ný sjónarhorn á þekkta atburði.

Flutt 30. mars 2018 í Neskirkju

Krossinn er einfalt tákn og krossa getum við fundið í flestum menningarsamfélögum. Það þarf ekki mikla myndlistarhæfileika til að geta rissað þá upp. Þó kallar þessi einfalda mynd á frekari sköpun og krossar birtast okkur í margvíslegum myndum.

Krossar

Í kristnum sið birtast okkur margs konar krossar. Andrés, þjóðardýrlingur Skota, sem sagður er utangátta í jólasöngnum, á sinn kross. Hann er eins og x í laginu. Georg dýrlingur enskra er með einn sem er jafnarma. Sólarkross kelta er með hring utan um ásana tvo. Hann er einnig kallaður Óðinskross. Gríska rétttrúnaðarkirkjan bætir hallandi fótstigi við sinn kross með vísan í sögusagnir um að fætur Jesú hafi verið mislangir. Franska andspyrnuhreyfingin gerði Lorrain krossinn að einkennismerki sínu, þar er áletrunin efst á krossinum svo áberandi að það er eins og hann hafi tvö þvertré. Tómasarkrossin er með laufskrúði á endanum, þar sem hann minnir á lifandi tré.

Hér frammi á Torgi Neskirkju vinnur listamaðurinn Kees Visser með þetta merkilega tákn. Í myndum hans er það alltaf sami krossinn sem birtist okkur, sambærilegur þeim sem höfum á kórveggnum stóra hér í Neskirkju. Efniviðinn sækir hann í verk meistara endurreisnarinnar sem leituðu í hefðbundið myndmál kristninnar en færðu það í þann búning sem nýfundin tækni og þrívíddarskyn þeirra gerði þeim kleift að gera. Þökk sé því þá birtist hann frá ólíkum hliðum og ákveðnir hlutar hans sjást á verkunum.

Já, endurreisnin er í rauninni ákveðinn kross. Þar mætast tveir ásar. Annars vegar var það samtími þeirra og svo hin nýja fæðing eins og nafnið á erlendum tungum ber með sér. Endurfæðing hins klassíska tíma, stefnumót hins forna við hið nýja var um leið upphaf nútímans. Með því véku hinar síðarnefndu miðaldir fyrir tímaskeiði sem við kennum við nýöld. Húmanisminn, manngildisstefnan tók smám saman við af því hugmyndakerfi sem þéttóf líf mannsins saman við kirkju og konungsveldi.

Í hönd fór tímabil sem einkenndist af áður óþekktri grósku á öllum sviðum listarinnar, auk framfara sem áttu sér enga hliðstæðu í sögu mannsins. Rétt eins og myndir Vissers sýna okkur krossinn frá ýmsu sjónarhorni í verkum listamannanna er óhætt að segja að við getum séð fyrir okkur margvíslegar hliðar á þeirri vegferð sem var í burðarliðnum þegar verkin voru unnin. Krossinn er ekki alltaf beinn og réttur eins og sá sem hér trónir.

María

Listin tjáir lífið og tilveruna með þeim hætti að við skynjum að á því eru fleiri hliðar en ein. Hér á sunnudaginn, í upphafi dymbilviku, fór fram gjörningur hér á torginu. Krossinn var hvergi nálægur í honum en þar unnu listamenn með hlutskipti einnar persónu sem kemur við sögu í frásögninni af krossfestingunni. Það er María, móður Jesú. Flytjendur bentu á einn flöt á þeim atburðum þegar María fékk vitrun þess efnis að hún gengi með son Guðs. Listamennirnir tengdu það við #meetoo umræðuna og bentu á að mærin hefði aldrei verið innt um samþykki sitt fyrir þeirri gjörð. Það er rétt. Þar sjáum við annað sjónarhorn á atburði sem við höfum litið á út frá einni hlið.

Ég veit ekki hvaða hugmyndir gjörningakonur höfðu um þær viðtökur sem Neskirkja myndi sýna óði þeirra til Maríu. Sannleikurinn er sá að túlkunarsaga Biblíunnar einkennist af því að birta ný sjónarhorn á þekkta atburði. Og má sjá ýmsa útleggingu á því hvernig saman fer hlutskipti fólks sem það hefur ekki valið sér sjálft og síðan viðbrögðin við þeim örlögum. Spámennirnir í Gamla testamentinu fengu sína köllun óbeðnir. Lofræða Maríu minnir á texta þeirra þar sem hún segir að Guð muni niðurlægja auðmenn og upphefja smælingja.

Þrautirnar sem harmkvælamaðurinn Job þurfti að þola átti upptök sín í duttlungum skaparans. Kain, fyrsti morðinginn samkvæmt hinni biblíulegu mannfræði, framdi ódæðisverk sitt í kjölfar þess að Guð leit ekki við fórn hans. Skýrast birtist það á krossinum, þessu einfalda tákni. Þar mætir maðurinn ráðgátum lífs og þrautar. Kristur er þar í hlutverki þolandans og í hinum kristna skilningi mætir hann þar, hverjum þeim einstaklingi sem horfir inn í myrkrið í tilgangslausri þjáningu á erfiðustu stundum ævi sinnar.

Pieta

María er sjálf nærri í allri þessari frásögn. Hún stendur við krossinn og knappur texti sögunnar skilur eftir litríka túlkun á því hvernig henni var innanbrjósts. Michelangelo, einn postuli endurreisnarinnar orti tilfinningar hennar í marmara í verkinu Pieta þar sem hún er látin sitja með son sinn andvana í fanginu. Þar er hún kornung af útlitinu að dæma. Svipur hennar og látæði lýsa einhverju samblandi af umhyggju og uppgjöf. Móðir sem horfir á eftir afkomanda sínum skynjar hvað tilveran getur verið glórulaus. Og eins og allt táknmál kristinnar sem tengist krossinum er sú spurning borin fram, ekki af hálfu einstaklings innan sögunnar, heldur talar hann fyrir hönd allra þeirra sem standa frammi fyrir spurningum sem ekki verður svarað.

Í því sambandi verður Guð alltaf óskiljanleg stærð fyrir manninum. Lúther talaði um að í illskunni og hörmungunum þá snúi Guð bakinu við manninum. Þá hylji hann ásýnd sína og um leið sækir húmið á, óreiðan ryður sköpuninni úr vegi og vegurinn hverfur sjónum okkar. Það er ekkert nýtt að maðurinn hrópi út í tómið þegar allar bjargir virðast bannaðar. Sjálfur gerði Jesús það á krossinum í frásögn Markúsar.

Heimska og hneyksli

Krossinn er líka tákn ólíkinda. Hann er grikkjum heimska og gyðingum hneyksli, sagði Páll postuli. Sá sem Kristur bar upp á Golgatahæð og listamaðurinn dregur upp svörtum þykkum línum hér á Torginu var vitaskuld hvorki tákn um sól, hringrás né mót hins jarðneska við himininn. Hann var aftökutæki. Krossfesting svipti fólk lífinu en áður var hinn krossfesti niðurlægður og leið vítiskvalir. „Sjáið manninn“ sagði Pílatus, Ecce homo á latínu. Og hvar birtist okkur mennskan í allri sinni nekt, veikleika og hvar sjáum við takmörk hennar skýrar fyrir okkur en þar sem Kristur er negldur upp á krossinn? Líf okkar lýtur ströngum takmörkum í tíma og rúmi. Allt hlýtur að endingu að deyja, og áður en andlátsstundin rennur upp stynjum við undan veikleika okkar og því mikla gapi sem ríkir á milli hins ákjósanlega og þess sem líf okkar er bundið.

Á svipnum á Maríu, Michelangelos er eins og henni fallist hendur yfir þessari staðreynd. Krossinn er hugleiðing kristinna manna um þennan veruleika. Í öllum sínum einfaldleika umfaðmar hann í senn dauða og myrkur en vísar svo til upprisunnar. Sá er boðskapurinn í þeim sem hér trónir. Kristin trú fegrar ekki veruleikann. Hún leitast við að draga fram ólíkar hliðar hans, bæði sorg og gleði. Á krossinum mætir Jesús okkur í lífinu með nærgætni þess sem hefur staðið á brúninni og horft niður í djúpið og rauf að lokum bönd hins takmarkaða í sigrinum stóra sem við fögnum á páskum.