Umbreytingarafl

Umbreytingarafl

Ein af forsendum hinnar sönnu tilbeiðslu er einingin, samstaðan með hinni kristnu fjölskyldu sem er eins og einn líkami. Þess vegna látum við ekki duga að eiga okkar einkastundir í tilbeiðslu og bæn heldur sækjum kirkju til að vera í samfélagi trúaðra.

Gleðilega hátíð. Það er til marks um helgi hvítasunnunnar að annar dagur hennar skuli fá að halda sér sem helgidagur. Á sínum tíma áttu hátíðirnar sér þriðja daginn og eimir enn af því í málvenju á jólum. En fáir myndu líklega vilja missa annan dag þessara hátíða, þó ekki væri nema fyrir kærkomið frí frá vinnu og skóla. Við sem sækjum kirkju fögnum því að hafa tækifæri á að koma saman til að tilbiðja Guð á öðrum degi hátíðanna og þannig undirstrika mikilvægi þeirra fyrir trúarlífið. Lækir lifandi vatns Í guðspjalli dagsins grípum við niður í samtal Jesú og konunnar við brunninn, í fjórða kafla Jóhannesarguðspjalls. Við munum eftir orðaskiptum þeirra um hið lifandi vatn, sem konan skildi ekki alveg í fyrstu en orð Jesú kveiktu þrá í hjarta hennar eftir þessu vatni sem gæti gert líf hennar svo miklu auðveldara. Þá þyrfti hún ekki lengur að fara að brunninum til að ausa. Jesús átti hins vegar við lind eilífs lífs, heilagan anda Guðs sem stemma myndi hinn andlega þorsta. Þessa líkingu sjáum við einnig í sjöunda kafla Jóhannesarguðspjalls þar sem Jesús kallaði til fólksins: „Ef nokkurn þyrstir þá komi hann til mín og drekki. Frá hjarta þess sem trúir á mig munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir“ (Jóh 7.38). Og guðspjallamaðurinn útskýrir að þarna hafi Jesús átt við „andann er þau skyldu hljóta sem á hann trúa“ eftir að Jesús væri dýrlegur orðinn, það er upp stiginn til himins (Jóh 7.39).

Þar er komið í samtali Jesú og samversku konunnar að hún hefur áttað sig á að Jesús er enginn venjulegur maður og orð hans engin venjuleg orð. Og hún veltir fyrir sér hvar rétt sé að tilbiðja Guð, á fjalli Samverja eða í Jerúsalem. Í gær, á hvítasunnudag, heyrðum við um mikilvægi Jerúsalem fyrir úthellingu heilags anda, stofnun kirkjunnar og útbreiðslu fagnaðarerindisins. Borgin helga gengdi lykilhlutverki í því samhengi þar sem fjöldi fólks var saman kominn á viknahátíðinni frá „öllum löndum undir himninum“ (Post 2.5).

Hinir sönnu tilbiðjendur En hér horfir Jesús lengra, að þeirri stund að staður tilbeiðslunnar skipti ekki máli. „Sú stund kemur að þið munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem“ (Jóh 4.21). Og hann talar um „hina sönnu tilbiðjendur“ sem vissulega sækja þekkingu sína á hjálpræðinu til Gyðinga – já þiggja sjálft hjálpræðið frá Gyðingum, því það var engin tilviljun að Jesús Kristur var Gyðingur - en þurfa ekki lengur á ákveðnum stað að halda fyrir hina sönnu, andlegu tilbeiðslu. „Guð er andi og þeir sem tilbiðja hann eiga að tilbiðja í anda og sannleika“ (Jóh 4.24).

Og konan, sem litlu áður hafði áttað sig á að Jesús væri meira en aðrir menn, kallað hann spámann og ávarpað hann með heiðursheitinu Drottinn, kemst nú enn nær sannleikanum þegar hún nefnir Messías, það er Krist. Við þeirri nálgun konunnar á Jesús aðeins eitt svar: „Ég er hann, ég sem við þig tala“ (Jóh 4.26). Ég er hann. Ég er er Kristur, ég sem við þig tala.

Tilbeiðsla í anda og sannleika Við vitum að sönnu ekki hvernig konunni var innanbrjósts, en ætli hún hafi ekki fundið þessa sérstöku tilfinningu þegar við finnum okkur augliti til auglitis við heilagleikan sjálfan. Því miður er sú tilfinning oft fjarri í daglega lífinu en við þurfum að vera opin fyrir því að nálægð Guðs sé að verki í lífi okkar. Til þess þurfum við oft að skapa Guði aðstæður, eins og með því að sækja kirkju. Þá beinum við sjónum okkar að Jesú og allt hitt sem dags daglega upptekur hugann víkur til hliðar.

Ég er svo lánsöm að eiga mót við Guð flesta daga vikunnar í kirkjunni. Það er ómetanlegt fyrir andlegt líf mitt. En andi Guðs er ekki háður ákveðnum stöðum. Tilbeiðslan getur verið jafn sönn og andleg úti í náttúrunni eða heima við rúm barnanna. Og það eru undursamleg augnablik þegar við fáum að finna okkur frammi fyrir hinum heilaga, gleyma stað og stund og þiggja nærveru hins kærleiksríka Drottins.

Hjarta úr holdi - einn líkami Hvítasunnan fjallar um að meðtaka orð og nærveru Guðs inn í hjarta sitt. „Þá mun ég gefa þeim eindrægt hjarta og leggja þeim nýjan anda í brjóst. Ég mun fjarlægja steinhjartað úr líkama þeirra og gefa þeim hjarta úr holdi svo að þeir fylgi lögum mínum...“ (Esk 11.19). Heilagur andi Guðs umbreytir hjarta okkar. Stundum gerist það í einu vetfangi, á tilbeiðslustund, í sönnum bænaranda, en líka hægt og bítandi yfir lengri tíma þegar við þiggjum leiðsögn anda Guðs í daglega lífinu og hjálp hans við að fylgja því lögmáli kærleikans sem andinn leggur í brjóst okkar.

Páll postuli dregur fram sterka líkingu í síðari ritningarlestri dagsins, 1Kor 12.12-13: „Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur. Í einum anda vorum við öll skírð til að vera einn líkami, hvort sem við erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjáls, og öll fengum við einn anda að drekka“. Ein af forsendum hinnar sönnu tilbeiðslu er einingin, samstaðan með hinni kristnu fjölskyldu sem er eins og einn líkami. Þess vegna látum við ekki duga að eiga okkar einkastundir í tilbeiðslu og bæn heldur sækjum kirkju til að vera í samfélagi trúaðra. Skírnin er innganga okkar í það samfélag. Í skírninni verðum við hluti af líkama Krists, kirkjunni, og þiggjum einn og sama anda að drekka, andann sem Jesús talar um í Jóhannesarguðspjalli.

Sterkasta sameiningaraflið Og frá hinu umbreytta hjarta, hjarta þess sem trúir á Jesú Krist, munu renna lækir lifandi vatns, vatns þess anda sem Guð hefur gefið okkur að drekka af. Vatnið er sterk líking um eininguna, eins og líkaminn, vatnið sem við fáum að ausa af, sú lífsins lind anda Guðs sem gefst okkur í sannri tilbeiðslu og bænaranda. Hina sönnu tilbeiðslu er að finna í öllum kirkjudeildum og kristnum hreyfingum og eining í bæn er sterkasta sameiningaraflið sem til er. Í

Í bráðum þrjú ár hefur hópur kristins fólks komið saman vikulega í Friðrikskapellu – í hádeginu á miðvikudögum – til að biðja fyrir landinu okkar og íslensku þjóðinni. Einn þeirra sem þangað kemur flesta miðvikudaga sagði um daginn að þetta væri öflugasta samkirkjulega starf sem hann hefði verið þátttakandi í á sinni göngu með Guði í nær hálfa öld. Friðrikskapelluhópurinn og Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga á Íslandi standa fyrir bænastund hér í Hallgrímskirkju næstkomandi föstudag, á þjóðhátíðardag okkar Íslendinga. Við komum hér saman fyrir ári síðan nálega fimmhundruð manns og áttum áhrifaríka stund í bæn og söng. Það er máttur í hinni sameiginlegu bæn og hvet ég ykkur til að koma sem flest hingað í kirkjuna á 17. júní kl. 16.

Vitnisburðurinn Hvort sem við höfum tækifæri á því eða ekki skulum við leitast við að finna okkur í stöðu hinna sönnu tilbiðjenda sem leita Guðs af öllu hjarta og eru reiðubúnir að þiggja umbreytingu hjartans fyrir heilagan anda. Konan sem var þarna við brunninn við sína daglegu iðju hafði ekki lifað heilögu lífi, langt í frá. Og skilningi hennar var að mörgu leyti ábótavant. En hún stóð frammi fyrir hinum heilaga, augliti til auglitis, og það breytti lífi hennar á svo róttækan hátt að hún sem ekki hafði verið hátt skrifuð meðal samborgaranna fór rakleiðis af fundi þeirra Jesú og sagði fólki að koma og sjá manninn sem kynni að vera Kristur. Og margir Samverjar úr þeirri borg trúðu á hann vegna orða og vitnisburðar konunnar (Jóh 4.39). Mætti umbreytingarafl anda Guðs á sama hátt verða að vitnisburði í okkar lífi, þeim til lífs sem með okkur fylgjast.

En sú stund kemur, já er þegar komin, er hinir sönnu tilbiðjendur skulu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika, því að faðirinn leitar einmitt slíkra tilbiðjenda (Jóh 4.23, þýð. 1912).