Vorlaukar

Vorlaukar

Kristur hvarf ofan í djúpið, rétt eins og laukarnir sem við potuðum niður í freðna moldina.

Biðjum: Ó, Jesús, gef þinn anda mér, allt svo verði til dýrðar þér upp teiknað, sungið, sagt og téð, síðan þess aðrir njóti með.

Tíminn líður. Ný skeið renna upp, hvert með sínum einkennum. Gott er að finna birtuna narta í myrkrið og skynja um leið að ný viðfangsefni taka við af eftir því sem nálgast gróandi sumar. Hér í kirkjunni tókum við okkur til um daginn og settum niður lauka í beðin. Vonumst við til þess að fjólubláir og hvítir krókusar gægist upp úr moldinni þegar fastan verður komin í hámæli og svo heiðgular páskaliljur þegar þeirra tími kemur á upprisuhátíðinni. Túlípanarnir ættu þó að verða að öðrum ólöstuðum senuþjófarnir þegar líða fer nær sumri. Það verður ekki ónýtt að geta prýtt altarið okkar með tignarlegum þéttum krónblöðum, rauðum og gulum á sterkum stilkum.

Laukar vorsins

Það er ekki alveg víst að svo verði. Umbúðirnar utan um laukana skörtuðu myndum af þéttum og litríkum blómabreiðum. En þeir eru ekki kallaðir haustlaukar fyrir ekki neitt og þar sem við holuðum þeim niður í kringum helgidóminn læddist að sá grunur að verði þeir ekki eins þéttir á velli eins og myndirnar gefa til kynna. Hvað sem verður.

Já og þegar við förum að sjá árangur erfiðisins verða komin þáttaskil í samfélaginu. Nýir laukar koma upp úr mold þjóðlífsins. Nýir leiðtogar og því er eins háttað með þá og aðra lauka að þeir rísa mishátt. Sumir kunna vel við sig í hlutverki krókusanna vinna að undirbúningi, fara hljóðlega og sinna sínum störfum. Aðrir stíga hærra til lofts og skarta stærri krónublöðum. Eftirvæntingin er mest gagnvart þeim stærstu – túlípönum samfélagsins okkar. Það eru þeir sem munu leiða landið áfram inn í nýja tíma.

Enn ein tímamótin eru að renna upp þar sem ný stefna verður tekin. Við höfum fengið forsmekkinn að því sem í vændum er. Flokkarnir halda sín þing og þar eru alltaf einhverjir sem vilja komast til æðstu metorða, vilja standa upp úr beðunum þar sem þeir gnæfa yfir lágreistari gróðurinn. Þar kennir ýmissa grasa ef svo má segja. Víða fólk með góða sýn og gott eðli. Annað væri það nú. En mun mæta tortryggnum hópi kjósenda sem hefur fengið að kynnast ýmsu og veit að ekki er allt gull sem glóir og ekki er víst að uppskeran verði eins litrík og umbúðirnar gefi til kynna.

Leiðtoginn Kristur

Við kynnumst ólíkum leiðtoga í guðspjalli dagsins. Þar gengur ekki fram einstaklingur með loforð upp í báðum ermum um skyndilausnir á flóknum málum. Þetta er ekki snoppufríð andlitsmynd púðruð og snyrt í tölvu sem á að sýna allt í senn, traust, mildi, kraft og þor – eða hvað þeir hugsa ímyndarsérfræðingarnir sem fara fimum höndum um ásjónur frambjóðenda.

Nei þetta er leiðtogi af allt öðrum toga. Þarna sjáum við í hverju sönn forysta felst. Alls ekki í því að láta aðra bera sig upp til æðstu metorða, né síður að beita brögðum til þess að öðlast meiri og meiri völd og áhrif. Þegar Kristur hafði gert kraftaverk, læknað og líknað og unnið hylla margra – þá steig hann skrefið í hina áttina. Hann framseldi sjálfan sig til þess að aðrir mættu lifa.

Hversu ólíkt er það þeirri hugsun sem ríkir meðal manna þar sem laukarnir keppast við að komast upp úr moldinni til þess að yfirgnæfa alla hina? Afstaða Krists sýnir okkur gerólíka hlið og þarna bendir hann til þeirra daga sem við síðan minnumst á föstunni. Það er krossferlið sem hann tók á sig, þjáningarnar og niðurlægingin sem hann tók á sig voru gerólíkar því sem hefðbundnir leiðtogar sóttust eftir. Enda segir postulinn þegar hann lýsir þessum atburði.

Gyðingar heimta tákn og Grikkir leita að speki en við prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku en okkur sem Guð hefur kallað, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs. Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari.

Já, víst er þetta heimska í augum þeirra sem leita eftir táknum og speki þessa heims. En hversu miklu meira virði er hún þegar við hugleiðum það sem gerist þegar stærstu túlípanarnir gleyma því hvar rætur þeirra liggja og keppast við það eitt að trana sér sem lengst fram.

Biblían er óður til þeirrar hugsunar að sönn forysta felist í þjónustu, að öll hagkvæmustu ytri skilyrði séu forsenda þess að geta lifað góðu lífi. Hún boðar ekki að hagur okkar felist ekki í því að yfirskyggja aðra og sanka að okkur sem mestu af takmörkuðum auðæfum jarðar.

Lýsing Krists í guðspjalli dagsins á hlutskipti sínu segir þar meira en mörg orð. Kærleikurinn var það leiðarljós sem Kristur sjálfur hafði og vildi miðla til okkar og hann er æðstur alls, eins og postulinn sagði. hlutskipti lærisveins Krists er vel orðað í bæn sr. Hallgríms Péturssonar sem hér var lesin í upphafi – þar sem við miðlum af þeim gjöfum sem við höfum fengið að njóta frá Kristi: „Síðan þess aðrir njóti með“.

Hann er fyrirmynd okkar því Kristur minnir okkur á það að tilverunni er svo háttað að mikill árangur krefst mikilla fórna. Og að baki valdabrölti mannsins býr óseðjandi löngun til þess að drottna og stýra, undiroka og kúga. Það er aðeins ein birtingarmynd af mörgum um það eðli okkar sem Biblían kallar synd. Syndin krefur okkur um endurgjald, greiðslu til þess að geta bætt það sem óheilt er. Kjarninn í píslarsögu Krists og upprisu hans er einmitt sá að hann galt það gjald með líkama sínum. Hann dó svo við mættum lifa.

Já, við ætlum okkur að skapa betri heim og betra samfélag. Er það ekki göfugasta köllun okkar allra? Við gróðursetjum vonir okkar í moldina og þar vonumst við til þess að þær skjóti rótum, fái næringu og síðar meir lífgefandi birtu sem gerir þeim kleift að auðga umhverfið og heiminn.

Um leið og við stígum hænufet í þá áttina skynjum við það fljótlega hvers virði hún er. Ekki vegna þess að veskin okkar tútna út eða myndir af okkur fylla opnur fjölmiðlanna. Ekki vegna þess að við skráum nöfn okkar á spjöld sögunnar. Nei, gjörðin sjálf stendur algerlega fyrir sínu og við finnum þegar fyrir því hvernig samviska okkar bregst við. Við styrkjum hinn þreytta og við eflum þá sem eru máttvana.

Og Kristur hvarf ofan í djúpið, rétt eins og laukarnir sem við potuðum niður í freðna moldina. Skilyrðin voru sannarlega ekki góð og lærisveinar hans töldu allt unnið fyrir gíg. En hann reis upp frá dauðum, sigraðist á öllu mótlæti og efa og er með okkur í anda sínum allt til þess að hann snýr aftur til þess að dæma lifendur og dauða.

Verum því vakandi, kæru vinir. Hugleiðum það hvernig við getum með gjörðum okkar bæði unnið gagn og ógagn. Látum ljós Krists og fordæmi lýsa okkur leiðina í gegnum lífið.