Til er lýsing á samkomu kristinna í Róm á annarri öld okkar tímatals. Það er Justinus píslarvottur sem var tekinn af lífi 165 sem skrifar um hina kristnu og lýsir lífi safnaðarins, sunnudagsguðsþjónustu og útdeilingu á brauði og víni. Hann segir meðal annars: “Þeir ríkari meðal okkar hjálpa hinum fátæku og við stöndum saman og þökkum skapara allra hluta [...] fyrir það sem okkur er gefið. “ Síðan lýsir hann því hvernig kristið fólk kemur saman á sunnudögum, hlýðir á lestur úr ritningunum, útleggingu og hvatningu. Svo biður það og að lokinni bæn er komið með brauð, vín og vatn og sá sem stýrir samkomunni biður og þakkar og fólkið tekur undir með því að segja amen. Síðan er brauði og vatnsblönduðu víni deilt til viðstaddra og hluti af því fer einnig til þeirra sem ekki gátu komið. Að því loknu er söfnun og þau sem standa vel og hafa til þess vilja, gefa það sem þeim þykir rétt. “Og það sem safnast er borið til þess er leiðir söfnuðinn sem deilir því til munaðarleysingja, ekkna og þeirra sem vegna veikinda eða af öðrum ástæðum líða skort og “ókunnugra sem dvelja meðal vor”. “ segir Jústinus. (úr Apologia I)
Þetta er falleg lýsing á broti af lífi hinna kristnu á fyrstu öldum. Fámenns hóps sem stundum leið ofsóknir eins og sannaðist á æfi píslavottarins Jústinusar. Sameiginlegar máltíðir virðast frá upphafi hafa einkennt samkomur kristinna manna á fyrstu öldum og þar var brauðið blessað, brotið og allir viðstaddir fengu af því. Og tengt þessu deildu menn auðæfum sínum til að hjálpa þurfandi. Það var órjúfanlegur hluti altarissakramentisins. ---
Í guðspjalli dagins mætir okkur önnur matarsaga. Saga af svöngu fólki. Og saga af svartsýni og bjartsýni, af trú og vantrú.
Jesús og lærisveinarnir eru staddir upp á fjalli og þangað kemur mikill mannfjöldi, 5000 karlar – ótaldar konur og börn.
Jesús spyr Filippus: Hvar eigum við að kaupa brauð, svo að þessir menn fái mat?”
Filippus er raunsæismaður. Hann sér fjöldann, hann veit hvað matur kostar – hans svar er: “Þetta er ómögulegt. Brauð fyrir 200 daglaun væru ekki nóg.”
Lærisveinninn Andrés sér vonarglætu: Hér er piltur með fimm byggbrauð og tvo fiska – en svo er hann fljótur að sjá að þetta gengur ekki upp og raunsæin – eða svartsýnin nær tökum á honum: En hvað er það handa svona mörgum?
Jesús er ekki svartsýnn. Hann veit að það er nægur matur. Látið fólkið setjast niður, segir hann. Undirlagið var mjúkt, nóg af grasi. Svo tók Jesús brauðið og þakkaði Guði. Svo fór hann að deila út brauðinu og fiskunum. Og allir fengju nægju sína.
Þetta var kraftaverk. Nú hugsa eflaust einhverjir:” o-jæja, skyldi þetta hafa verið yfirnáttúrulegt eða var það bara þannig að þegar fólkið settust niður og sá Jesú blessa matinn hugsaði það: “aha, nestistími” – og tóku fram brauðið sitt.”
Það er reyndar ekkert sagt um að fjöldinn hafi haft nesti. Menn virðast hafa flýtt sér á eftir Jesú upp á fjall. Og bara einn virðist hafa gefið sig fram með nesti til fararinnar þegar lærisveinarnir könnuðu málið.
Ég ætla að ganga svo langt að segja að þarna hafi orðið kraftaverk, sama hvernig það varð. Hvort sem það varð af því að blessun Krists hafði þessi áhrif á byggbrauðin eða að örlæti piltsins hafi hvatt fleiri sem höfðu mat á sér til að deila honum. Því eftir stendur að þegar allir voru orðnir mettir varð afgangur – 12 körfur – sem var safnað saman svo ekkert færi til spillis.
En hvers vegna tel ég það kraftaverk, jafnvel þótt einhverjar haldbærar skýringar geti fundist á atburðinum?
Vegna þess að heimurinn í dag er eins og ranghverfa þessarar sögu. Við vitum að nægur matur er framleiddur í heiminum til að metta heimsbyggðina. Samt ganga margir hungraðir til hvílu og daglega deyr fólk úr skorti.
Jesús horfir á þau sem hungrar í heiminum í dag og segir: Hvar eigum við að finna mat handa þessu fólki? Og við svörum: “Það er ekki hægt að deila gæðum heims þannig að allir fái.” Við erum nefnilega eins og Filippus, raunsæisfólk. Ótal hagfræðikenningar virðast styðja það að einhverjir þurfi alltaf að eiga ofgnótt og aðrir lítið til að heimurinn virki. Til að breyta þessu þyrfti kraftaverk.
Jesús horfir á þau sem hungrar í heiminum í dag og segir: “Hvar eigum við að finna mat handa öllu þessu fólki?” Og við svörum: “Ég á smávegis en hvað er það handa svo mörgum.”
Sögð er saga af ungum manni sem gekk eftir ströndu þar sem var að fjara út. Þúsundum krossfiska hafði skolað á land og lágu þar eins og hráviði, ófærir um að koma sér aftur í sjóinn. Ungi maðurinn sá öldung ganga löturhægt eftir ströndinni, staldra við, grípa krossfisk og henda út í sjó. Þetta gerði hann aftur og aftur. “Af hverju ertu að henda krossfiski í sjóinn,” spurði ungi maðurinn. “Af því að nú fjarar og sólin er að koma upp. Hann deyr ef hann liggur hér á ströndinni.” “En ströndin er svo löng og hér eru þúsundir fiska. Þú nærð ekki að bjarga einum tíunda þeirra. Þó að þú hamist í allan dag þá geturðu ekki gert neitt sem skiptir máli.” Gamli maðurinn hlustaði rólegur, beygði sig svo niður, greip einn krossfisk og hendi honum varlega út í sjó og sagði: “Þetta skipti máli fyrir þennan.”
Í heimi þar sem er nóg fyrir alla deyja menn úr hungri. Á fjalli þar sem hungur fjöldans virtist yfirvofandi og nær ekkert af mat, reyndist nóg handa öllum.
Það var kraftaverk. Og það kraftaverk byrjaði með einum sem vildi deila gæðum sínum. Einum sem sagði ekki: Þetta er svo lítið að það hjálpar ekki, heldur “Þetta á ég og ég er reiðubúinn að deila því.”
Guðspjall dagsins er valdeflandi guðspjall. Það kennir okkur að einstaklingur sem af örlæti ber gjafir sínar fram fyrir Jesú getur komið miklu til leiðar.
-- Eitt af því sem er svo fallegt við guðspjall dagsins er þegar Jesús lítur yfir fjöldann og spyr um mat. Vegna þess að fólkið skipti máli og þarfir þess skiptu máli. Jesús er ekki eingöngu umhugað um andlega eða trúarlega einangraða afstöðu fólk, hann mætir því þar sem það er og eins og það er. Er umhugað um heilsu, líðan, hungur. Við sjáum reyndar víða í guðspjöllunum að Jesús lagði mikið upp úr máltíðum og samvistum og honum var legið á hálsi af óvinum hans að vera mathákur og vínsvelgur. Í síðustu kvöldmáltíðinni, þegar hann blessaði brauðið og braut það, sagði hann: Gerið þetta í mína minningu.
Og hinir fyrstu kristnu héldu áfram að hittast og borða saman og vín og brauð var blessað og matnum deilt út svo allir fengju. Um leið var minnt á að Jesús sagði, ég er brauð lífsins – þann mun aldrei hungra er til mín kemur. Maðurinn lifir ekki af brauði einu saman heldur af sérhverju orði sem fram gengur af Guðs munni, eins og lexía dagsins minnir okkur á. En hin andlega þörf og hin líkamlega þörf haldast í hendur.
Ég sagði í upphafi þessarar predikunar frá hinum kristnu í Róm á annari öld. Þetta eru samtímalýsingar Jústínusar og þær sýna okkur að hin fyrstu kristnu sáu það sem hlutverk sitt að hjálpa hvert öðru og sjá til þess að enginn liði skort. Boðskapur Krists tengdist ekki eingöngu andlegri líðan, að vera kristinn snérist um að láta sig velferð náungans varða. Blessun brauðsins og útdeiling í helgihaldinu tengdist órjúfanlega því að bjóða öllum að leggja af mörkum af auði sínum til að gefa þurfandi.
Í fallegum altarisgöngusálmi frá Suður Ameríku eru eftirfarandi orð: Gef öllum þeim sem hungra brauð þitt, en hungur réttlætis þeim sem nóg eiga brauð.
Guðspjallið í dag hvetur okkur til að sjá möguleikana, ekki ómöguleikana. Minnir okkur á skyldur okkar, minnir okkur á að bera gjafir okkar fram fyrir Jesú og biðja hann að nota þær. Og treysta því að þannig fáum við saman komið einhverju til leiðar.