Frambjóðandinn sem kaus þig

Frambjóðandinn sem kaus þig

Nú hyllir undir fyrsta vetrardag og framundan er kosningaár. Frambjóðendur standa í biðröðum við fjölmiðla til að tilkynna framboð og stefnumál. Og við skulum þakka fyrir allt þetta góð fólk sem býður sig fram til þjónustu. Frambjóðendur benda fram á veginn og lofa betri tíð. Þeir eru því réttnefndir postular vonarinnar. Lífið er pólitík, lífið snýst um málefni fólks, líf politikoi á grísku, líf borgaranna.

Þá kom til hans fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann, að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: "Hvert er æðst allra boðorða?"

Jesús svaraði: "Æðst er þetta: ,Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.' Annað er þetta: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.' Ekkert boðorð annað er þessum meira."

Fræðimaðurinn sagði þá við hann: "Rétt er það, meistari, satt sagðir þú, að einn er hann og enginn er annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira."

Jesús sá, að hann svaraði viturlega, og sagði við hann: "Þú ert ekki fjarri Guðs ríki."

Og enginn þorði framar að spyrja hann. Mark. 12.28-34

Nú hyllir undir fyrsta vetrardag og framundan er kosningaár. Frambjóðendur standa í biðröðum við fjölmiðla til að tilkynna framboð og stefnumál. Og við skulum þakka fyrir allt þetta góð fólk sem býður sig fram til þjónustu. Frambjóðendur benda fram á veginn og lofa betri tíð. Þeir eru því réttnefndir postular vonarinnar. Lífið er pólitík, lífið snýst um málefni fólks, líf politikoi á grísku, líf borgaranna.

Kosningavetur, vetur loforða og tilboða. Komdu með mér, segja frambjóðendur, ég leiði þig til fyrirheitna landsins þar sem smjör drýpur af hverju strái. Og það er engu líkara en við séum stödd á tímum Móse í Egyptalandi forðum daga, Móse sem í vissum skilningi var fyrsti pólitíski frambjóðandi sögunnar. Hann fylkti fólki um vonarboðskap sinn og hóf fyrstu útrás almennings, alþýðufólks, sem gerði sér grein fyrir því að það átti val um örlög sín og tilvist. Þetta fólk telst til fyrstu kjósenda sögunnar, í það minnsta þeirrar sögu, sem til er í rituðum heimildum. Exódus, brottför gyðinga úr þrælahúsinu í Egyptalandi, var fyrsta útrásin, hugmyndafræðileg uppspretta allra þeirra sem boða betri tíð í landi framtíðarinnar.

Upphaf almennra stjórnmála má rekja til þess að fólk sá fyrir valkost um nýja skipan mála, þegar þrælar áttuðu sig á því að kúgun þeirra var ekki náttúrulögmál. Guð birtist Gyðingnum Móse á Sínaífjalli sem löghlýðinn Guð sem gera vildi sáttmála við menn um nýja skipan mannlegrar tilveru og þar með allrar veraldar.

Sínaísáttmálinn, með Boðorðin tíu sem kjarna, birtir nýja sýn á veruleikann og endurtúlkar alla tilveruna. Valdið sem menn tóku sér forðum og beittu í eigin nafni var nú sett undir æðri lög - Guðs lög. Og þar með varð valdið að þjóni réttlætis og réttvísi, ambátt elskunnar, embætti í þágu mennskunnar.

Ísrael var valinn úr þjóðahafinu til að gegna prestsþjónustu gagnvart öllum heiminum.

„ . . . ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir, því að öll jörðin er mín. Og þér skuluð vera mér prestaríki og heilagur lýður.“ (2 Mós 19.5-6a).

Í þessum orðum 2. Mósebókar birtist meðal annars sjálfsmynd Gyðinga í árdaga um hlutverk sitt í heiminum. Síðar má segja að skilningur þeirra hafi skroppið saman og tekið að snúa að þeim einum en ekki veröldinni allri. Og þar tók kristnin við af Gyðingdómi og varð fyrsta alþjóðahreyfing sögunnar, alheims útrás, hnattræn hreyfing almennings til hagsbóta fyrir alla. Kristur gaf heiminum nýja framtíðarsýn með því að tjá verðandi veraldar er hann setti allar lifandi verur, allt líf, allan heiminn í eitt stórt samhengi. Við erum í samhengi almáttugs Guðs, skapara himins og jarðar. „Í honum lifum, hrærumst og erum vér.“

Við erum kristin þjóð í kristinni álfu – enn sem komið er! En hversu lengi verður það? Stundum er engu líkara en að hinn svonefndi kristni heimur sé að snúa aftur til tímans fyrir brottförina úr Egyptalandi, til þess tíma þegar valdið laut engum æðri lögum? Guð er ekki lengur talinn þarfur. Honum er einfaldlega kastað út.

Í textum dagsins heyrðum við Boðorðin tíu með hinum stórfenglega formála: "Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.“ Það er á grundvelli verka Guðs, björgunar hans, að okkur er boðið að flykkja okkur undir merki hans. Þetta var og er framboð Guðs sjálfs, tilboð um að fylgja honum sem er uppspretta alls sem er. Og hvergi sjáum við betur hver Guð er í raun og veru en í Jesú Kristi. Hann skilgreindi Guð á mjög einfaldan hátt er hann sagði: Guð er kærleikur. Innsta eðli Guðs og þar með allrar sköpunar er kærleikur. Veröldin er ekki tilgangslaus vettvangur stríðandi afla og valdasjúkra einstaklinga. Hún er vettvangur kærleikans, tilvera sem veitir tækifæri til að vinna góð verk og uppskera þar með hamingjuna sjálfa að launum. Og við skulum vona að þau fjölmörgu sem nú bjóða sig fram til forystu í íslenskum stjórnmálum hafi þessa sýn á veruleikann, skynji sig sem hluta af heild, hinstu heild alls sem er.

Guð var á ferð forðum daga á Sínaífjalli og bauð sig fram. Hann var líka í Jesú Krist sem einnig var í framboði sem syndafórn fyrir vegvilltan heim. Hann var í sinni framboðsför þegar fræðimaður kom til hans og spurði um hvað mestu máli skipti í lífinu, um æðsta boðorð allra boðorða. Og svarið fólst og felst enn í því að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig. Og svo þessi sérstöku orð Jesú í kjölfar orðaskipta hans og fræðimannsins: "Þú ert ekki fjarri Guðs ríki."

Og Guðs ríki hefur elskuna eina að stjórnarskrá. Hvar erum við í afstöðunni til Guðs ríkis? Erum við í afstöðunni til lífríkisins, til auðlindanna, til hvers annars, í takti við ríki elskunnar? Erum við í gengdarlausri lífsgæða- og hamingjusókn í takti við elskuna? Erum við sem þjóð í takti við elskuna í slagtogi við þá sem nú þegar hafa valdið dauða 650 þúsunda manns í vonlausu stríði þar sem stefnt er að því að koma á lýðræði með vopnavaldi? Er hægt að þvinga elskuna fram með vopnum? Höldum við virkilega að hægt sé að ná sáttum í heimi andstæðra afla, ólíkrar hugmyndafræði og trúarbragða með vopnavaldi og hinu úrelta hefndarákvæði: auga fyrir auga og tönn fyrir tönn?

Biblían er merkilegt rit og geymir langa sögu, bæði ljóta og fagra enda er hún um fólk, syndugt fólk. Eina leiðin til að lesa þessa flóknu og mikilvægustu bók veraldarsögunnar er að lesa hana með Krist og kærleika hans að leiðarljósi. Þau gleraugu skilja hismið frá kjarnanum, henda út til að mynda úreltu lögmáli um augu og tennur, hafna öllu sem ekki stenst heilbrigða skynsemi og dómgreind fólks sem hefur kærleikann að leiðarljósi. Vandi okkar samtíðar er ekki hvað síst fólginn í því að annars vegar virðist þeim nú fjölga sem hafna því að veröldin eigi uppruna sinn í Guði og hafi þar með kærleikann að innsta kjarna og svo hins vegar þeim sem trúa á bókstafinn og gleyma að setja upp gleraugu elskunnar og koma þar með óorði á kristni eða islam og í raun á alla heilbrigða trú. Við erum kristin þjóð. En viljum við áfram vera kristin þjóð? Hver eru áhrif kristninnar í lífsgæðum okkar? Er það einskær tilviljun að við erum talin í hópi þjóða þar sem lífsgæði eru hvað mest og félagslegur auður hvað stærstur? Er það tilviljun að þær þjóðir sem hæst skora í lífsgæðakönnunum eru einkum hinar norrænu, kristnu þjóðir? Hver er lífsgrundvöllur okkar? Hvar er Guðs ríkið að finna? Þú ert ekki fjarri Guðs ríki, sagði Jesús við manninn sem þekkti lögmál elskunnar.

Á sama tima ber neir og meir á öfgafengnum málflutningi svonefndra trúleysingja sem agnúast út í starf kirkjunnar og trúarbragða yfir höfuð. Og því er haldið fram af sumum þeirra að flest það sem miður fer í heiminum sé trúarbrögðunum að kenna. En með sömu rökum má segja að pólitíkin sé rót alls þess sem illt er, eða hvað annað hér í heimi, sem fella má undir þennan eða hinn ismann, sé uppspretta alls þess sem illt er.

Trúarbrögðin eru ekki rót hins illa. Vandi heimsins er ekki leit manna að samhengi tilverunnar undir merkjum ólíkra trúarbragða heldur sá að í okkur öllum er brotalöm sem veldur því að við villumst af vegi kærleikans sama hvaða trúfélagi við tilheyrum, menningarheimi eða isma. Þess vegna skipta orð Jesú svo miklu máli þegar hann tekur allt lögmál Gyðinga saman í hið tvíþætta kærleikslögmál um að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig.

Þetta eru gömul gildi og traust. Í kvikmyndinni The Queen, Drottningin, sem nú er sýnd í kvikmyndahúsum, birtast átökin um gildin með skýrum hætti. Annars vegar er Bretadrottning og hennar hirð í afkima hefðar og valds og hefts kærleika og hins vegar almenningur sem stjórnast af fjölmiðlum og tilfinningaþrunginni elsku. Gamall tími og nýr. Gömul gildi þar sem því er haldið á lofti að eigi skuli æðrast og þaðan af síður bera tilfinningar sínar á torg og hins vegar tilfinningasemi og lýðskrum. Beggja vegna girðingarinnar sem umlykur Buckinghamhöll og Balmoralkastala er kærleikur til staðar en líka blinda á eigin tilvist. Beggja vegna girðingar er syndugt fólk í leit að tilgangi og lífsfyllingu.

Myndin birtir öðrum þræði þær breytingar sem orðið hafa í Evrópu. Margt mátti breytast en annað mátti líka fá að vera. Evrópa virðist vera á flótta undan gömlu gildunum og sá tími getur runnið upp að hún viti ekki lengur hver hún er, hvaðan hún kom eða hvert för sé heitið. Kannski er björgun Evrópu fólgin í hinni miklu ögrun og áminningu sem islam er henni og fær hana til að hugsa á ný um uppruna sinn og hamingjugrunn. Í spádómsbók Jeremía segir:

„Svo mælti Drottinn: Nemið staðar við vegina og litist um og spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin, og farið hana, svo að þér finnið sálum yðar hvíld.“

Lausn samtímans er ekki fólginn í því að kasta trúnni og taka upp trúna á manninn. Sú trú er aum trú á auman guð. Hins vegar eigum við að trúa á manninn sem ráðsmann í heimi Guðs og undir valdi og dómi Guðs. Án þess aðhalds er hætt við að maðurinn villist af vegi og tortími að lokum sjálfum sér. Sagan geymir dæmi um slíka þróun og hegðun, um dóm og glötun.

Hvar er sannleikurinn? Hver er tilgangur lífsins? Fræðimaðurinn hlaut þá einkunn að hann væri ekki fjarri Guðs ríki vegna þess að hann skildi lögmál kærleikans. Hvar erum við á vegi stödd? Erum við nærri eða fjarri Guðs ríki? Eru þau sem boða okkur nýja framtíð á vettvangi stjórnmálanna nærri eða fjarri Guðs ríki? Um það snýst val okkar. Allt vald verður að lúta æðsta valdi Guðs. Veröldin er hans og allt verður að koma fyrir dóm hans í fyllingu tímans. Valdamönnum á hverri tíð er hollt að minnast þess og skoða ákvarðanir sínar og gjörðir í ljósi hinsta dags og uppgjörs. Lífið snýst um pólitík og lífið snýst um kosningar. En það sem mestu skiptir er að Guð kærleikans hefur kosið okkur. Hann kaus þig! Hann kaus þig í heilagri skírn, setti krossinn sinn við nafnið þitt og valdi þig til að lifa og ríkja í anda kærleikans. Við erum kosin til lífs, eilífs lífs í ríki kærleikans.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.