Sorgin fer ekki en þú getur lifað með henni. Það er góð vísa sem er síst of oft kveðin. Við höfum meiri aðlögunarhæfni en okkur grunar. Það hefur mörg sorgarsagan sannað. Jafnvel þótt okkur líði þannig núna að geta með engu móti lifað án ástvinar þá gerist það engu að síður. Spurningin er bara hvernig við lifum og viljum lifa eftir ástvinamissi. Og fyrir því lífi þurfum við að hafa eins og öllu öðru í tilvistinni. Það er þó þannig að það vinnur enginn eins úr sorg sinni, það sem einum finnst hjálplegt, finnst öðrum óþarft og gagnslaust o.s.frv. Þá er það deginum ljósara að það er engin ein lína til að fara eftir í sorginni. Virtir sérfræðingar í sorgarfræðum hafa lagt fram ramma yfir viðbrögð við missi en sorgin er þannig að hún fer alltaf út fyrir rammann. Þar sem sorg er ekki ein tilfinning heldur safn tilfinninga þá getum við aldrei reiknað út hvernig við sjálf né annað fólk bregst við áföllum og missi. Að því ógleymdu að sorgarviðbrögð okkar litast mjög af þeim tengslum sem við höfum átt við þau sem við höfum misst.
Á undanförnum árum og áratugum hefur umræða og umfjöllun opnast mikið í samfélaginu um málefni sem hafa í fortíð verið drepin með þögninni. Eitt þessara málefna er dauðinn, sorgin, og sorgarviðbrögð. Börnum var áður t.a.m. haldið frá dauðanum og hann varð fyrir vikið kaldur og ógnvænlegur í huga kynslóðanna. Viðbrögð við sorg og áföllum hafa erfst á milli kynslóða og enn erum við leynt og ljóst að kljást við það hvernig forfeður og formæður okkar tókust á við sorg og missi þegar við sjálf tökumst á við þrengingar í lífi okkar. Það er segin saga að úrvinnsla sorgar gengur gjarnan betur hjá fjölskyldum sem eru opnar og mælskar um líðan sína og um hinn látna heldur en hjá þeim sem láta allt slíkt liggja í þagnargildi. Það er reyndar mjög mikilvægt að við spyrjum okkur hverju sinni af hverju við syrgjum með þeim hætti sem við gerum og hver eru okkar úrræði. Og þá kem ég kannski fyrst að því sem mig langaði að setja hér fram í þessari grein. Maður að nafni George A. Bonanno er prófessor í klínskri sálfræði við Colombia-háskóla í New York. Hann hefur skrifað bók sem ber titilinn „The Other Side of Sadness.”
Bonanno er fræðimaður sem leggur áherslu á það með skrifum sínum að sorgin geti hæglega farið út fyrir rammann, hann fjallar um leiðir sem okkur gæti þótt nokkuð óhefðbundnar til að fást við sorg, hann bendir sem sagt á ferska vinda í þeim vísindum sem fjalla um lífið eftir missinn. Og þar er það ekki bara að tala um hinn látna heldur hreinlega við hann. Þegar þangað er komið er ekki fjarri lagi að feimni láti á sér kræla eða hvað? Talar þú við látinn ástvin? Hefur þú talað við hann upphátt? Hefur þú talað við hann upphátt í kirkjugarðinum eða fyrir framan myndina af honum sem þú lætur standa eða hanga á mikilvægum stað á heimili þínu? Eða bara við aðstæður sem minna þig á hann? Við hugsum margt og tölum margt í huganum en Bonanno bendir á það hvað það getur verið hreinsandi að segja það sem manni býr í brjósti upphátt við hinn látna. Þú segir hvernig þér líður og hvað þér liggur á hjarta og þú tekur við þeim viðbrögðum sem þú gætir ímyndað þér að ástvinur þinn látni myndi sýna miðað við hvernig þú þekktir hann í lifanda lífi. Þetta er þáttur í því að viðhalda böndum án þess að það hafi nokkuð með afneitun á missinum að gera.
Bonanno lýsir því í fyrrnefndri bók sinni þegar hann fáeinum árum eftir að faðir hans dó hóf að eiga samræður við hann. Faðir hans hafði átt erfitt líf og Bonanno fundið fremur til léttis við fráfall hans, þjáningu föðurins var þá lokið og líf Bonanno gat tekið aðra og nýja stefnu. En um það leyti sem Bonanno var að ljúka háskólagráðu við Yale-háskólann sótti þessi þörf á hann að eiga samskipti við látinn föður sem hafði dáið í þeirri trú að ekkert yrði úr syninum og að hann hafi brugðist honum. Bonanno hafði því ríka þörf fyrir að segja honum að allt hafi farið vel. Dag einn var hann á gangi niður götu þar sem fáir voru á ferli og þá byrjaði hann að tala upphátt. Honum fannst það sjálfum undarlegt og leit vel í kringum sig. Hann ávarpaði föður sinn, nam svo staðar og fann þá skyndilega fyrir nærveru hans sem honum þótti hlý og notaleg. Með þessu var Bonanno alls ekki að óska þess að faðir hans snéri aftur enda hafði hann þjáðst mikið í lífi sínu, hann vildi aðeins tala, hann vildi einkum segja honum að barátta þeirra feðga í lífinu hefði ekki verið föðurnum að kenna, að allt hafi breyst til betri vegar í lífi sonar hans og að hann vildi enn eiga hann sem föður.
Við það að segja honum þetta upphátt fann
hann að þungu fargi var af honum létt.
Vissulega fór í gegnum huga Bonanno við þessa reynslu hvort hann væri að
verða galinn en þær efasemdir hurfu fljótt því hann uppgötvaði að tungumálið
gefur hugsunum og hugmyndum formgerð og skýrleika og bara það að segja upphátt að
hann þarfnaðist föður síns færði Bonanno hluta af látnum föðurnum tilbaka. [1]
Mig langaði til að deila
þessari reynslu Bonanno með þér, lesandi góður, því oft er það þannig að við
látum eitthvað sem bæði saga og samfélag hefur í gegnum tíðina sagt okkur að sé
ekki viðurkennt atferli hindra okkur í einhverju sem getur hæglega unnið með
okkur þegar síðan að sverfur. Við sjáum sem sagt nýjar áherslur leysa aldagömul
fræði og viðhorf af hólmi sem hafa á margan hátt bundið hugsanir okkar í fjötra
t.d. sem snertir það að takast á við ástvinamissi. Það er vitað mál að það að reyna sorg á eigin
skinni og bregðast við henni er nokkuð sem enginn verður sérfræðingur í, hvorki
hinir reyndustu né hinir lærðustu. Við fáum alltaf sorgina sisona í fangið. Það
má þó nýta sér reynslu sorgar til aukins þroska og þá skiptir líka máli að
leyfa sér að fara út fyrir rammann.
Höfundur er sr. Bolli Pétur Bollason
[1] George A. Bonanno 2009. The Other Side of Sadness. What the New Science of Bereavement Tells Us About Life After Loss. BASIC BOOKS. New York.