Skapandi forysta

Skapandi forysta

Það er einmitt okkar hlutverk, kristinna manna, að rísa upp og verja þau verðmæti sem við vitum að erum dýrmæt á öllum tímum.

Nú koma Keflvíkingar í Skálholt, enn eitt haustið. Þessar ferðir hafa öðlast fastan sess í starfinu okkar en þær eru að miklu leyti helgaðar hugmyndavinnu þar sem við mótum framtíðina í söfnuðinum. Einnig hugleiðum við forystu og leiðtogasýn – nokkuð sem ekki er vanþörf á að gera, hvort sem litið er til kirkjunnar eða samfélagsins alls. Þessar ferðir okkar hafa skilað miklu. Árið 2006 hófst stefnumótunarvinna safnaðarins hér á þessum stað. Meginatriðið í þeirri vinnu var að flokka starfsemi safnaðarins í kærleiksþjónustu, æskulýðsstarf og skapandi helgihald og höfum við unnið eftir því leiðarljósi síðan.

Ýmislegt fleira er minnisstætt úr þessum ferðum. Árið 2008 var það einmitt undir merkjum kærleiksþjónustunnar sem hugmyndin um Velferðarsjóð á Suðurnesjum var sett fram. Sú októberhelgi líður seint úr minni og er merkilegt til þess að hugsa að liðin séu tvö ár frá henni. Þá hlýddum við líka á fróðleg erindi um leiðtoga, bæði um sr. Friðrik Friðriksson og svo hina náttúrulegu safnaðaruppbyggingu sem leiðir til eðlilegs vaxtar í safnaðarstarfi. Og núna er lokið eftirminnilegri dvöl hérna með skapandi hugmyndavinnu og frábæru námskeiði um skapandi forystu.

Sögufrægar slóðir

Já, leiðtogar eru okkur hugstæðir og þegar við horfum í kringum okkar hér á þessum mesta sögustað á Íslandi, koma nokkur slík nöfn upp í hugann. Ísleifur Gissurarson, sigldi til Brimarborgar árið 1056 og hlaut þar vígslu sem fyrsti íslenski biskupinn. Það voru mikil þáttarskil í hinu unga þjóðveldi. Þorlák Þórhallson þekkja menn, en hann var mikill baráttumaður fyrir kirkju og alþýðu gegn höfðingjaveldinu. Hann var svo tekinn í dýrlingatölu.

Hér var vettvangur átaka á siðbótartímanum þegar menn börðust fyrir hinum nýja sið. Á þessum slóðum var unnið það þrekvirki sem þýðing Nýja testamentisins var en Oddur Gottskálksson er sagður hafa unnið þá vinnu í fjósi, vart hefur nokkur lagt meira af mörkum til íslenskrar tungu. Hér risu dómkirkjur, sumar margfalt stærri en sú sem hér stendur og hýsir okkur nú. Timbri var landað á Eyrarbakka og dregið upp eftir Hvítá þegar hana lagði á veturna.

Mikil hefur sú skipulagning verið og dregur upp gerólíka mynd af því samfélagi sem hér var fyrr á öldum. Þar kemur nafn Brynjólfs Sveinssonar upp í hugann en kirkja sú sem við hann er kennd er meðal þekktustu bygginga á Íslandi og var í hópi stærstu timburkirkna í Evrópu á þeim tíma. Meistari Jón Vídalín sem predikaði einmitt úr þessum stól er annálaður fyrir orðsnilld sína, þótt frændi hans Páll hafði haft það á orði að mikill væri á honum væri dómadagskjafturinn og lýsir þau orð nú íslenskri kaldhæðni vel.

Ludwig Harboe, sá er reisti um landið með Njarðvíkingnum Jóni Þorkelssyni sat hér á biskupsstóli í eitt ár. Þeir tveir unnu afrek í menntamálum um miðja 18. öld með þeim afrakstri að læsi varð almennt á Íslandi. Erlendir gestir furðuðu sig á því að hvar sem þá bæri að garði í þessu bláfátæka landi mætti þeim fólk sem kynni að lesa og draga til stafs og í hverri sókn væru prestar sem gætu rætt við þá á grísku og latínu. Það nám fór vitaskuld fram hér í Skálholti og norður á Hólum.

Móse

Þegar við rifum upp þessa sögu og þessi nöfn, blasir það við okkur að menn þessir höfðu einmitt áhrif vegna þess að þar var ýmsu ábótavant sem laga þurfti. Ástæðan fyrir því að þeir fóru af stað í upphafi var einmitt sú að þeir vildu bæta umhverfi sitt og samfélagið.

Sú er saga Móse. Þjóðin hans var ánauðug í landi Egypta en með miklum erfiðismunum tókst honum að vinna þeim frelsi og leiða þá yfir eyðimörkina til fyrirheitna landsins. Eitt var þó ætíð ljóst í fari hans – eins og er með þá sem fremstir eru á þessu sviði. Markmiðin voru ekki þau að upphefja hann sjálfan. Nei, hann starfaði Guði til dýrðar og þjóðinni til heilla. Boðskapurinn sem hann flutti með sér ofan af Sínaífjallinu lýsir þessu svo vel. Þar var að finna siðareglur sem gera engan mannamun. Nei, allir eru jafnir fyrir Guði hvar sem þeir standa í hinum lagskipta píramída. Þetta er svo áréttað á þeim mörgu stöðum í bókunum sem við Móse eru kenndar. Þar eru menn hvattir til þess að huga að rétti þess sem ekki getur varið sig og liggur því vel við höggi óréttlátra manna. Þannig ávarpar hann dómarana:

Hlýðið á mál bræðra yðar og dæmið réttlátlega, hvort heldur mann greinir á við bróður sinn eða útlending, er hjá honum dvelur. Gjörið yður eigi mannamun í dómum, hlýðið jafnt á lágan sem háan. Hræðist engan mann, því að dómurinn er Guðs.

Og í útleggingunni á fyrsta boðorðinu segir Móse:

Því að Drottinn Guð yðar, hann er Guð guðanna og Drottinn drottnanna, hinn mikli, voldugi og óttalegi Guð, sem eigi gjörir sér mannamun og þiggur eigi mútur. Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og elskar útlendinginn, svo að hann gefur honum fæði og klæði. Elskið því útlendinginn, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi.

Boðorðin

Já, víst eru boðorðin einhver merkasti afrakstur þessarar eyðimerkurgöngu. Þessar reglur eru í fljótu bragði settar til þess að banna okkur eitt og annað, en við nánari sýn má sjá að í þeim eru fólgin jákvæð skilaboð sem segja okkur það að sjálf njótum við einnig verndar frá öðrum eins og þeir frá okkur. Eignir okkar, líf, orðstír og fjölskylda eru helg og verðmæt. Og fyrstu þrjú boðorðin sem fjalla um tengsl okkar við Guð minna okkur einnig á það hversu verðmæt við erum, hvert og eitt.

Fyrsta boðorðið segir okkur til dæmis að ekkert verðskuldi það að kallast Guð okkar nema skapari okkar og lausnari. Annað boðorðið minnir á það að orð okkar hafa áhrif og við eigum að gæta þeirra, eins og hverra annarra verðmæta. Við eigum ekki að gera lítið úr okkur sjálfum með því að gaspra um hið heilaga á vanhelgan hátt. Og þriðja boðorðið kallar okkur til ábyrgðar yfir tímanum okkar – hann er verðmætur og dýrmætur. Við erum ekki sköpuð til þess eins að framleiða efnisleg gæði – nei við eigum að helga a.m.k. einn dag hvíld, bænahaldi og íhugun.

Þessi grunntónn er sleginn fyrir árþúsundum og enn er þetta hornsteinninn í því sem við köllum réttarríkið og við skynjum stundum hversu viðkvæmt það er, ekki síst í þeirri eyðimerkurgöngu sem Ísland, já heimurinn allur virðist dæmdur til þess að feta á komandi tímum. Ég rifjaði það upp þegar efnahagskerfið hrundi, þá vorum við Keflvíkingarnir í Skálholti þar sem við sóttum okkur næringu í fræðslu og samfélagið hvert við annað. Nú horfum við reið í kringum okkur og leitum að sökudólgum því sannarlega hefur ástandið versnað og sérstaklega er það alvarlegt suður með sjó. Jú, sannarlega er ástæða til þess að kalla menn til ábyrgðar, við gerum ekki lítið úr því, eins sárt og það kann að vera.

Boðorð nútímamannsins

En í baksýnisspeglinum góða þaðan sem óþrjótandi viskan vellur fram – eftiráviskan – er auðvitað nokkuð ljóst að margt var bogið við hugsunarhátt okkar og atferli á þeim tímum þegar við töldum að sólin myndi aldrei setjast né krónan falla. Og er sjálfsagt er svo enn. Danskur grínisti setti fram þessi tíu boðorð sem hann segir nútímamanninn hafa sett fyrir sjálfan sig:

Þú mátt ekki hafa aðra Guði en sjálfan þig Hafirðu löngun, þá hefurðu leyfi Allt er leyfilegt sem er ekki bannað Hafðu stjórn á reiði þinni Það er heimskulegt að drepa Heiðra föður þinn og móður, en ef þau eru orðin byrði á þér, hafðu þá samband við félagsmálayfirvöld Þú skalt girnast konu náunga þíns og steldu ef þú getur komist upp með það Það má ekki ljúga – en þrátt fyrir allt þá erum við mannleg Ef þér leiðist, farðu þá í gegnum tilboðin í blöðunum Að endingu þá er ekkert þér að kenna

Víst er ádeilan beitt í þessum orðum. Þetta er hugsunarháttur hinnar andlegu eyðimerkur, sem er einmitt andstæða þess sem er tilbúinn að leiða og feta nýjar, ótroðnar slóðir.

Skapandi forysta

Við skulum ekki halda að þeir einir séu leiðtogar sem sagan hefur sett á slíkan stall. Nei, þeir eru miklu fleiri og langflestir þeirra eru gleymdir fjöldanum. Það er líka allt í lagi því tilgangurinn þarf ekki að vera sá að hefja sjálfan sig upp til skýjanna. Hann getur miklu fremur beinst inn á við. Sannur leiðtogi horfir í eigin barm og spyr sig hverju hann eða hún hafi áorkað til þess að bæta líf sitt og sinna. Já, hvað hef ég gert til þess að hlúa að því sem mér er trúað fyrir?

Hversu marga slíka leiðtoga þekkjum við ekki, hvert og eitt? Vini, vinnufélaga, fjölskyldufólk, kennara eða aðra sem við höfum fengið að kynnast. Þetta kom svo vel fram í erindi Sigrúnar Sævarsdóttur þar sem hún lýsti því sem sínu fyrsta hlutverki að setja sig í spor þeirra ólíku hópa sem hún vinnur með þegar hún kallar fram sköpunarkraftinn í þeim.

Núna er rétti tíminn til þess að rísa upp og bæta umhverfið. Við þurfum að færa það til betra horfs. Til þess höfum við skýrt leiðarljós. Boðorðin tíu eru þar á meðal. Enn dýrmætari er gullna regla Krists sem sett var hér fram og tvöfalda kærleiksboðorðið. Hún er einföld og auðskilin, en henni getur verið erfitt að framfylgja eins og boðorð nútímamannsins bera með sér. En það er einmitt okkar hlutverk, kristinna manna, að rísa upp og verja þau verðmæti sem við vitum að erum dýrmæt á öllum tímum.