Hold fyrir hold

Hold fyrir hold

Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hold fyrir hold - svo hljómar hið forna lögmál og birtist í þeirri mynd að til þess að koma á jafnvægi og sátt, já friði, þurfi að færa fórn.

Í ritinu Ríkið lætur Platon, lærimeistara sinn Sókrates segja söguna af Leonídesi sem var á ferð fyrir utan norðurvegg borgar nokkurrar. Þar kom hann að aftökustað þar sem líkin lágu á jörðinni í steikjandi hitanum. Hann var enn nokkuð fjarri er hann sá hvað beið. Þótt framundan væri ófögur sýn fann hjá sér sterka löngun til að líta hana augun. En um leið fylltist hann viðurstyggð og ótta, svo hann hélt fyrir augun þar sem hann reið til móts við vettvanginn. Löngunin og óttinn toguðust á í huga hans. Átti hann að horfa eða forða sér frá því að sjá það sem beið þar á jörðinni? Hann tók hendurnar frá, leit hryllinginn og um leið ávarpaði hann augun sín og mælti: ,,Horfið þið nú, óhræsin ykkar!”

Líkaminn

Frásögn þessi þótti hinum merka hugsuði til marks um það hvernig sálarlíf mannsins og ákvarðanir hans togast á milli andstæðra afla. Innra með okkur færu fram átök. Í þessu tilviki var það sómakenndin, blygðunin og skynsemin og svo á móti hin dularfulla þörf til að líta það augun sem hryllir og skelfir. Hún hafði betur. Augun gátu ekki annað en rifið sig laus og meðtekið myndina af hinum rotnandi líkum. Það var eins og áfellisorðin kæmu frá hinn betri vitund sem hrópaði til þeirra, undirokuð af knýjandi lönguninni.

Hvað var það sem vakti slíka löngun? Jú, það sem höfðar hvað mest til vitundar okkar og áhuga. Sjálfur mannslíkaminn. Í þessu tilviki afskræming hans. Fátt er það sem kallar fram í manneskjunni meiri og sterkari kenndir en einmitt það sem tengist líkamanum. Og ekki allt er það fallegt. Nei, síður en svo. En mannslíkaminn hefur slíkt aðdráttarafl og koma þar margir þættir til.

Upphafning hans eða niðurlæging kallar fram í okkur viðbrögð sem eiga vafalítið rætur að rekja til okkar eigin örlaga. Hvað býr annars að baki þegar við liggjum límd yfir fréttum af misþyrmingum og hörmungum. Sveltandi líkömum, sundurtættum fórnarlömbum? Nú eða setjum slíkt jafnvel á svið. Iðnaðurinn sem vinnur með mannslíkamann er stærri en svo að nokkur geti gert honum skil.

Þetta birtist okkur í margvíslegri mynd - bæði í nútíð og fortíð.

Þegar kristni var lögtekin á Íslandi greina heimildir frá því að heiðnir menn hafi framið mannfórnir. Þeir vörpuðu fólki fram af háum klettum þar sem bein þess brotnuðu og fólkið hlaut bana af. Jón Hnefill Aðalsteinsson sér í þessari athöfn hliðstæðu annarrar fórnar - þar sem hinir norrænu guðir drápu jötuninn Ými og notuðu líkama hans til að skapa jörðina og himininn. Já, skrokkur hins ógvænlega þurs varð að smíðaefni fyrir veröldina og í kjölfarið tóku lögmálin að ganga sinn veg. Þegar þeir köstuðu hinu ógæfusama fólki fyrir björg var það mögulega gert í þeim tilgangi að koma aftur á reglu. Mannfórnin hafði þann tilgang. Nýr siður var að ryðja sér til rúms og þurfti að grípa til þeirra ráða sem vísuðu til upphafsins þegar óreiðan vék fyrir skipaninni. Líkamar fórnarlambanna molnuðu rétt eins og Ýmir sjálfur hafði gert í öndverðu.

Aftaka sú byggir í raun á sömu forsendum og refsing sakamanna þeirra sem ollu hinum gríska Leonídesi í senn hryllingi og freistuðu hans að líta þá augum. Já og allar sambærilegar fórnir. Með því að svipta þá lífinu eða rýra lífsgæðin reyndu yfirvöld að eyða því ójafnvægi sem myndaðist með glæpnum. Fórnin kom að nýju á reglu þar sem meintir glæpir og yfirsjónir kostuðu þá lífið sem þá höfðu framið. Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.

Þetta átti ekki aðeins við um þá sem voru röngu megin hinnar hárfínu línu réttlætisins. Á miðöldum höfðu líkamshlutar dýrlinga slíkt verðgildi að ferðalangar sem fóru á milli borga í Evrópu töldu margir það eitt frásagnarvert sem heimamenn áttu af slíkum minjum. Þar var lokkur úr hári Jóhannesar skírara, fingurnögl af Maríu, húðflipi, blóð eða annað það sem vert þótti að geta um. Þessir munir staðfestu það að á hverjum stað bjuggu menn með mönnum sem höfðu eitthvert vægi.

Þegar Skálholtsstaður vildi efla vald sitt og vegsemd um aldamótin 1200, grófu menn upp bein Þorláks biskups og komu þeim fyrir í dómkirkjunni. Hann hafði verið tekinn í heilagra manna tölu og líkamshlutar hans fengu slíkan sess að fólk lagði staðnum til háar fjárhæðir. Löngu síðar fluttu íslendingar lík Jónasar Hallgrímssonar sem hvíldi í kirkjugarði í Kaupmannahöfn og komu þeim fyrir á Þingvöllum. Mögulega var þetta ekki Jónas, heldur danskur slátrari, en látum það liggja milli hluta. Líkami þessa þjóðardýrlings Íslendinga skyldi hvíla í íslenskri mold þótt ef til vill hafi ekki tekist eins vel til og að var stefnt. Þjóðernishyggjan á sína helgidóma og þarna var líkama hins merka skálds komið fyrir á þessum merku slóðum.

Á okkar dögum birtist þessi ástríða á líkamanum með öðrum hætti þótt hún haki í flesta þá sömu reiti sem hún hefur gert á fyrri tímum. Enn er mannslíkaminn í forgrunni og allt snýst um þá meðfæddu og áunnu þrá okkar að líta hann augum, hvort heldur það er í aðdáun upphafinna dýrlinga, eða hvort við getum sagt eins og Leonídas forðum - horfið þið nú óhræsin ykkar. Já, líkaminn er í senn viðfang aðdáunar og alls hins ljóta. Annars vegar höfum við goðumlíkar myndir af fólki sem þykir bera af í útliti - rækilega tilsniðnar og lagfærðar sem eiga að vera okkur hinum ófullkomnu til fyrirmyndar. Skammt er þó á milli fegurðar og ljótleika í þeim efnum því fórnirnar sem við færum á altari þeirrar tilbeiðslu eru ógnvænlegar.

Svo höfum við ófögnuðinn í sinni skýrustu mynd. Og hann flæðir yfir úr öllum áttum, upptökur og myndir þar sem líkaminn er til umfjöllunar og hann niðurlægður á allan mögulegan hátt. Fegurð kynlífs og ástar er afskræmt svo það fær á sig annarlega mynd. Ein afleiðingin er sú að fólk er farið að pukrast er með líkamann og í menningu okkar myndast furðulegt sambland menningar þar sem innstu kimar einkalífs eru bornir á torg - og svo þessi tepruskapur.

Helgasta holdið fríða Guðfræðingurinn gat ekki annað en velt þessu fyrir sér nú á dögunum þegar konur fækkuðu fötum á opinberum vettvangi og undirstrikuðu þar með hvernig sýn okkar á líkamann hefur tekið á sig þessa undarlegu mynd. Hann er markaðsettur og notaður til þess að koma höggi á fólk, einkum konur. Já, líkaminn birtist okkur þar enn og aftur. Þessi gjörningur átti að vekja okkur til vitunda fyrir því að óhræsin - augun sem leita uppi hið ljóta - eiga ekki að stýra því hvernig við túlkum og skynjum líkama hvers annars. Já, þó mér hafi í fyrstu þótt lítið til þessa alls koma þá rann boðskapurinn upp fyrir mér um síðir. Ekki varð hjá því komist að spyrja, hvaðan það hneyksli sé sprottið sem konur þessar vildu ögra og hvort það væri í raun ásættanlegt að við létum það stýra því hvernig við lítum á systkini okkar og samferðafólk.

Á þessum degi sjáum við líkama fyrir okkur. Sjónin er í senn ljót og fögur. Hún birtir okkur sannarlega þjáningu, vonleysi, grimmd og dauða. Hallgrímur Pétursson kemst svo að orði er hann hugleiðir meðferðina sem líkami Krists hlaut:

Helgasta holdið fríða frá hvirfli iljum að drottni varð sárt að svíða, svall allt af benjum það. Hver hans líkama limur og æð af sárum sundur flakti, sú hirting mjög var skæð.

Hallgrímur undirstrikar hér hversu sárar þær voru þrautir Krists og hvernig böðlar hans léku líkama hans. Þessi athöfn, þar sem Kristur er negldur á krossinn birtir okkur svo sterkt þá fórn sem krossdauði hans er fyrir þjakað mannkyn sem leitar hins ljóta og afskræmir fegurð lífs og náttúru.

Þarna birtist okkur kærleikur Guðs í hnotskurn. Hann gengur inn í það ójafnvægi og allt það sem aflaga fer í lífi manna og menningar þeirra og færir fram sjálfan sig að fórn. Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hold fyrir hold - svo hljómar hið forna lögmál og birtist í þeirri mynd að til þess að koma á jafnvægi og sátt, já friði, þurfi að færa fórn. Dómur er felldur yfir því sem aflaga fer og það er sonur Guðs sjálfur sem gengur inn í það ferli og tekur út refsinguna.

En Hallgrímur velkist ekki í vafa um þann ávöxt sem af dauða Krists hefur hlotist:

Ekkert má sóma síður: Síkátur þrællinn er, þá herrann hörmungar líður. Haf slíkt í minni þér. Hryggðarmynd hans er heiður þinn. Lát mig það læra og halda, ljúfasti Jesú minn. -

Líkami Krists tekur á sig það hlutskipti sem hinir seku höfðu mátt þola og þau sem fórnað hefur verið á öllumt tímum. Já, krossdauði Krists birtir okkur það fegursta og ljótasta. Hann leiðir í ljós fyrir okkur, syndugum mönnum, hvernig Guð sýnir kærleika sinn í föllnum heimi þar sem hið ljóta er upphafið og hið fagra er gert að féþúfu.

Hryggðarmynd Krists er heiður mannsins, eins og Hallgrímur kemst að orði. Og Kristur mætir okkur á öllum tímum mitt í erfiðleikum okkar og einsemd. Hann stendur með okkur þegar heimurinn snýr við okkur bakinu - heimurinn sem kallar stöðugt á þrautir og færir lífið inn á slæmar brautir. Þegar við hrópum út í tómið þá svarar Kristur okkur - sá sem sjálfur spurði hví Guð hefði yfirgefið sig. Sá sem stendur í kastljósi óhræsanna finnur samkennd með þeim sem sjálfur þurfti að þola háð og spott.

Krossfestingin markar þáttaskil í samskiptum Guðs og manna. Krossinn brúar bilið sem syndin hefur myndað og þar mætir okkur ekki krefjandi lögmál endurgjalds og endurtekinna fórna - heldur kærleika sem setur engin skilyrði því fórnin hefur þegar verið færð. Um leið og við tökum á móti þeim veruleika opnast hjörtu okkar fyrir birtu upprisunnar sem við svo fögnum á helgum páskum.