Engin sátt án sannleika

Engin sátt án sannleika

Nelson Mandela var stór manneskja í öllum skilningi orðsins. Hann er innblástur öllum sem trúa á að kærleikur og mannvirðing séu hin æðstu gildi samfélagins.

Mandela og Tutu

Í vikunni lést í Suður-Afríku Nelson Mandela, 95 ára að aldri. Mandela var stór manneskja í öllum skilningi orðsins og innblástur öllum sem trúa á að kærleikur og mannvirðing séu hin æðstu gildi samfélagins. Í kjölfar andláts hans hafa fjölmiðlar rifjað upp hvernig hann varð fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Suður-Afríku árið 1994, og hlaut Friðarverðlaun Nóbels fyrir framlag sitt til uppbyggingar nýrrar Suður-Afríku. Þar áður var hann þjóðhetja í heimalandi sínu fyrir einarða baráttu gegn hinni alræmdu kynþáttaaðskilnaðarstefnu sem var rekin í Suður-Afríku. Fyrir þá baráttu sat hann í fangelsi í 27 ár.

Ég held að það sé allt í lagi að rifja upp hvað aðskilnaðarstefnan í Suður-Afríku var klikkuð og ill hugmyndafræði, hugmyndafræði sem var framfylgt í stefnu og stjórnun heillar þjóðar um langt skeið. Í stuttu máli byggði hún á rasískri heimsmynd, þar sem fólk er flokkað eftir kynþáttum og húðlit. Rasisminn eða kynþáttahyggjan stjórnaði síðan allri löggjöf og innviðum samfélagsins. Allt var sér fyrir hvíta, sér fyrir svarta og svo sér fyrir blandað fólk. Mikið var lagt upp úr því að halda fólk aðskildu og mikil orka fór í að tryggja hvíta minnilhuta þjóðarinnar öll forréttindi sem hugsast gat. Á þessum tíma var t.d. hægt að finna skilti í almannarými sem sögðu "Aðgangur bannaður fyrir innfædda og hunda". Mikilvægi mannréttinda voru víðs fjarri.

Hvíta ógnarstjórnin stjórnaði með ranglæti og valdbeitingu. Stjórnmálasamtök sem ekki studdu aðskilnaðarstefnuna - eða apartheid - voru að sjálfssögðu bönnuð og því framfylgt með hörku. Afríska þjóðarráðið sem voru samtök Suður-Afríkubúa af afrískum uppruna og þess vegna dökkir á hörund, voru ein þeirra samtaka sem voru bönnuð og félagar í því dæmdir og fangelsaðir fyrir að vilja steypa stjórninni. Þannig lenti Nelson Mandela í fangelsi þar sem sat í 27 ár, lengst af í einangrun.

Hvað gerist við manneskju sem situr 27 ár í fangelsi, fjarlægð frá fjölskyldu, maka og litlum börnum sem verða stór, vinum, tækifærum til að byggja upp líf sitt og rækta hugðarefni sín? Það er ekki auðvelt að setja sig í þau spor eða ímynda sér áhrifin á líkama, sál og anda.

Kannski var það kraftaverk að allan þenna tíma missti Mandela ekki trúna á réttmæti baráttunnar fyrir mannréttindum og traustið á því að um síðir myndi réttlætið sigra og ríkja fyrir allar manneskjur, sama hvernig skinnið þeirra væri litið.

Hér kemur í hugann það sem annar baráttumaður fyrir réttindum allra, sagði í frægri ræðu sinni: "Ég á mér draum um að í landinu mínu sé fólk dæmt eftir innræti og persónuleika, ekki eftir því hvernig húðin þeirra er á litinn". Þetta sagði presturinn Martin Luther King jr. sem var myrtur árið 1968.

Mandela sat í fangelsi og apartheid ríkti í Suður-Afríku í langan tíma enn. En það sem gerðist að lokum var að alþjóðlegur þrýstingur varð of mikill til að apartheid ógnarstjórnin gæti haldið velli og viðhaldið sínu viðbjóðslega og rangláta kerfi. Og hvíti minnihlutinn sá sér þann kost vænstan að leggja niður vopnin, í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, viðurkenna að þau hefðu verið í ruglinu og að rétta út sáttahönd til allra þeirra sem höfðu verið dæmd til að lifa undir kúgun og misbeitingu valds í allan þennan tíma.

Og þarna stóð Suður-Afríka á krossgötum. Við getum rétt ímyndað okkur hvað þessi staða hefði getað fætt af sér. Stór hluti þjóðar sem hafði búið við ranglæti og kúgun en fær núna frelsi. Við getum spurt okkur sjálf, hvernig okkur líður þegar andspænis þeim sem hefur beitt okkur ranglæti og bara verið vondur við okkur. Langar okkur ekki bara að hefna okkar, láta viðkomandi finna fyrir reiðinni okkar og sársaukanum, langar okkur ekki til að hann fái makleg málagjöld?!!

Þegar apartheid hrundi gerðist margt. M.a. voru pólitískir fangar sem höfðu verið sviptir frelsi vegna baráttu fyrir mannréttindum, látnir lausir. Þar á meðal var Nelson Mandela. Leiðtogi í Afríska þjóðarráðinu, hugsjónamaður fyrir mannréttindum og baráttumaður fyrir réttlæti. Augu allrar þjóðarinnar, allrar álfunnar, og alls heimsins, hvíldu á Mandela. Hvernig myndi hann bregðast við? Myndi hann höfða til reiðinnar og sársaukans og hatursins sem skiljanlega var til staðar? Myndi hann nota aðstöðuna og hvetja milljónir manns til að hefna sín á minnihlutanum sem hafði misnotað stöðu sína og fótum troðið mannréttindi meirihlutans?

Í ljósi þess hve viðkvæm staðan var og hverjar afleiðingar hefðu orðið af blóðugri borgarastyrjöld og endalausum hefndarvígum var ekki skrítið að heimurinn biði með öndina í hálsinum. Hvað myndi nýr leiðtogi meirihlutans, sem sjálfur hafði þjáðst og setið inni, segja og gera?

Hér kemur kraftaverkið Nelson Mandela aftur til sögunnar. Kannski var það vegna þess að hann hafði sjálfur þjáðst og þurft að bera ranglætið á eigin herðum að hann varð þessi stóri maður sem bar þá gæfu að leiða þjóðina sína í gegnum breytingarnar sem voru nauðsynlegar til að Suður-Afríka yrði land sem hefði mannréttindi og réttlæti að leiðarljósi. Og, lesandinn athugi það, að hann leiddi alla þjóðina sína, þjóð sem hafði verið klofin eftir hugmyndafræði kynþáttahyggjunnar, en fékk nú að ganga saman leið sáttagjörðar og friðar.

Lykillinn að friði var sáttagjörð. Og lykillinn að sáttagjörðinni var sannleikurinn. Hefnd var ekki leiðin en leiðin var heldur ekki sú að stroka yfir fortíðina og láta sem ekkert hefði gerst. Ferlið sem leiddi til friðar í Suður-Afríku náði yfir erfiða sannleiksleit og játningar þar sem ekkert var dregið undan og ekkert var falið. Gengið var út frá forsendunni að til að fyrirgefa þyrfti alvöru játningu og alvöru iðrun. Þrátt fyrir galla og ófullkomnleika þjónaði sannleiksnefndin í Suður-Afríku tilgangi sínum og er stórmerkileg aðgerð í þágu friðar og fyrirgefningar í heiminum. Og þess vegna er Mandela - og fleiri, eins og biskupinn Desmond Tutu sem lagði sannarlega sitt af mörkum - verðugir að skoða og fylgjast með og læra af.

Vitaskuld er auðveldara að fylgjast með og dáðst að manni eins og Mandela, heldur en að líkja eftir honum. Að ná réttlæti með miskunn, iðka von með raunsæi, örlæti með ábyrgð. Mandela átti raunverulega, áþreifanlega fjandmenn sem höfðu unnið honum illt. Þeim fyrirgaf hann og vann þannig sjálfum sér, þeim og allri þjóð sinni frelsi.

Þannig að spurningin sem við eigum að spyrja okkur sjálf að, sérstaklega þegar við hugsum til Nelson Mandela og fyrirmyndarinnar sem hann var í lífi sínu, erum við tilbúin að ganga þennan veg fyrirgefningarinnar í aðstæðum þar sem við höfum sjálf þurft að bera byrðar ranglætisins?

Þetta eru spurningarnar sem Nelson Mandela krefur okkur um að svara, og þær eru bæði áleitnar og einlægar. Og þær urðu ekki til í tómarúmi heldur vaxa þær úr jarðvegi sem mótast af boðskap Biblíunnar um Friðarhöfðingjann og Réttlætisberann, sem fæddist í Betlehem.

Íhugum Jesajatexta aðventunnar um þann sem kemur til að færa heiminum frið. Sjáum fyrir okkur þessar myndir úr náttúrunni þar sem rótgróinn fjandskapur er upphafinn. Sjáum fyrir okkur aðstæður sem minna á síðustu tíma þar sem ekkert er eins og áður - allt verður nýtt!:

Réttlæti verður belti um lendar hans, trúfesti lindinn um mjaðmir hans. Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum. Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna verða saman á beit, ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru, og ljónið mun bíta gras eins og nautið. Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holu nöðrunnar og barn, nývanið af brjósti, stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn mun gera illt, enginn valda skaða á mínu heilaga fjalli.

Það er svo frelsandi að losna út úr vítahring ofbeldis og hefnda, það er frelsandi að upplifa fyrirgefninguna bæði í hlutverki gefanda og þiggjanda. Kannski var það Nelson Mandela sem sagði - og kannski er þetta bara snjöll yrðing sem er eignuð honum - að ef maður fyrirgæfi ekki þeim sem brjóta gegn manni þá væri maður í raun og veru að drekka eitur og vonast til að það dræpi óvini manns. Það væri svo tilgangslaust!

Guð blessi minningu Nelson Mandela. Guð blessi friðflytjendur sem gera heiminn örlítið betri en hann var. Guð blessi þau sem berjast fyrir mannvirðingu allra. Guð blessi þau sem boða kærleika Jesú frá Nasaret með orðum sínum og verkum.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.