Íslensk þrælabörn

Íslensk þrælabörn

Frá því að ég var misnotuð af heimilisgesti fimm ára gömul leið mér alltaf eins og ég væri álíka mikils virði og leifar af máltíð á skyndibitastað. Óhrein, ógeðfelld og í raun bara ruslmatur.

Í dag berast okkur orð úr miklum fjarska, sem þó eru svo nærri að þau liggja á okkar eigin tungu. Það er maður sem stendur í algerri angist fyrir framan Jesú og segir: “Komdu áður en barnið mitt andast!” Enginn ótti er meiri í lífi okkar en sá að missa börnin okkar. Sá einn sem reynt hefur getur skilið þann sársauka sem foreldrar ganga í gegnum þegar veik börn þeirra berjast fyrir lífi sínu og læknar og hjúkrunarfólk gerir allt sem það getur til þess að bjarga. Ef mannlegur vanmáttur er einhverntíman alger þá er það þegar við stöndum yfir moldum barna. Og engin gleði er sterkari en sú þegar barn kemst til lífs og heilsu, ekkert þakklæti jafnast á við þakklæti foreldris sem endurheimtir barn sitt úr dauðans hættu.

Ósjálfrátt verður okkur öllum hugsað til fjölskyldunnar sem nú lifir þá raun að horfa á bak ungu hjónanna sem létust í bílslysi á Tyrklandi. Sex mánaða drengurinn þeirra, Daníel, lifði. Öll þjóðin þjáist með og finnur að andspænis köldum örlögum er þetta barn okkur öllum merki um að lífinu er ætlað að sigra. Okkur kann að finnast Tyrkland langt í burtu og tyrkneskt fólk ólíkt okkur. En um leið og við skynjum í skugga hinnar miklu sorgar hvernig þessi ljósi og bjarti drengur er táknmynd um gjafir lífsins og fegurð þess andspænis dauðanum þá finnum við að þeim sömu tilfinningum átti Daníel að mæta hjá góðu tyrknesku fólki sem líka þráði að fá fullvissu um mátt lífsins í þjáningunni. Og enn sterkari varð myndin er í ljós kom að einn hjúkrunarfræðingurinn á sjúkrahúsinu hafði huggað hann og nært við móðurbrjóst. Já, lífið er óendanlega dýrmætt. Hvert einasta barn er kyndilberi lífsins og mennskan, sjálf mennskan er í því fólgin að varðveita það ljós. Hér höfum við saman orðið vitni að fegurð og tign mennskunnar sem birtist skærast þegar við lútum barninu og helgum lífinu þannig alla okkar krafta.

“Herra, kom þú áður en barnið mitt andast!” mælti konungsmaðurinn við Jesú. Þarna stóð konungsmaðurinn, erlendi valdsmaðurinn sem ekki tilheyrði þjóð Jesú heldur var hann beinn aðili að hernámi þjóðarinnar. En líka hann var manneskja af holdi og blóði, líka hann átti hlutdeild í því sem gerir okkur mennsk. Afvopnaður, valdalaus, afhjúpaður í sársauka sínum og angist stóð hann og átti ekkert nema þetta eina ákall til lífsins, þessa einu þrá: „Herra, kom þú áður en barnið mitt andast!” Við getum vel séð fyrir okkur að einhverjir í mannfjöldanum hafi ekki litið svo á að þessi maður ætti það skilið að vera hjálpað. Var hann ekki framandi, ókunnugur og þegar allt kom til alls óvinur? Hvað átti hann með það að biðja um hjálp í sinni neyð standandi innan um fólk sem liðið hafði undan valdinu sem hann sjálfur beitti. Í öðrum guðspjöllum er sama saga sögð og þar er þessi konungsmaður nefndur hundraðshöfðingi. Hann hafði hundrað hermenn undir sér. Slík herdeild skilur eftir sig blóðuga slóð. Nú stóð hann í sinni angist, í varnarlausri mennsku sinni: “Herra, kom þú áður en barnið mitt andast!” Og á sama hátt og við höfum öll orðið vitni að svarinu við ákalli þeirra sem elskuðu Daníel litla mest þannig heyrum við Jesús gefa konungsmanninum svar við heitasta ákalli lífsins: Far þú, sonur þinn lifir!

Seint mun þjóðinni úr minni líða myndin af ástvinum Daníels sem komin voru að sækja hann þar sem við horfðum á hann fara út einum faðminu í annan. Frá lækni og hjúkrunarkonu, starfsfólki sjúkrahússins og ræðismanni Íslands á Tyrklandi yfir í fang ástvinanna sem í lamandi sorg áttu styrkar hendur. Þarna var allt þetta ólíka fólk einhuga í þágu lífsins. Þrátt fyrir ólíkan litarhátt, menningu, tungumál og trú var trúnaðurinn við barnið einn og heill. Þetta er mennskan í kjarna sínum. Mennskan er það að lúta barninu og ljá því allt.

Í kristnum sið er þessi vitund tjáð með sögu jólanna, sögunni um almáttugan guð sem fæðist inn í lamandi ranglæti þar sem styrkar ástvinahendur taka við. Þessi vitund er ekki sér kristin. Við eigum engan einkarétt á jólunum fyrir það að telja okkur kristin. Jólin, lotning fyrir barninu, virðingin fyrir hinu varnarlausa lífi og baráttan gegn öllu því sem ógnar er sammensk. Því höfum við enn og aftur orðið vitni að.

Það er mennskan sem sameinar mannkyn. Það er virðingin fyrir lífinu og viljinn til þess að fórna öllu sem lífið krefst sem gerir það að verkum að við getum sem þjóð og sem jarðarbúar horfst í augu og kannast hvert við annað.

Ég veit að ég var ekki ein um það að fyllast þakklæti þegar Ármann H. Gunarsson kom fram í Kastljósi sl. helgi og útskýrði fyrir þjóðinni það verkefni sem unglingar í æskulýðsstarfi Þjóðkirkjunnar hafa tekið sér fyrir hendur í samvinnu við Hjálparstarf Kirkjunnar, að leysa þrælabörn á Indlandi úr ánauð. Það hefur verið verulega styrkjandi að sjá fréttir af þessu unga fólki sem af svo mikilli hugsjón og gleði hefur verið að vinna að því að leysa börn úr fjötrum. Hversu djúp uppeldisleg áhrif getum við ímyndað okkur að það hafi á ungling að vera virkur þátttakandi í því að færa börnum sem hneppt hafa verið í þrældóm vegna fátæktar foreldra sinna lífið að nýju og veita þeim tækifæri til að menntast og öðlast sjálfstæði? Bara þessa helgi var safnað fé sem notað verður til þess að leysa á sjötta tug barna úr ánauð. Við höfum verið svo lánsöm hér í Garðasókn að njóta krafta Ármanns H. Gunnarssonar um þriggja ára skeið og hann hefur innleitt í unglingastarfið þá sterku megin hugsun að einn getur ekki gert allt en mörg getum við gert mikið. Á þeim tíma sem hann var hér lögðu unglingar við æskulýðsstarf kirkjunnar mikla hugsun og sköpunargleði í það að safna fé í þágu þrælabarna. Þessi ungmenni hér náðu á ótrúlegum tíma að leysa 54 börn undan skuldum foreldra sinna. Á sunnudagskvöldið eftir viku ætlar Harpa Stefánsdóttir, eiginkona Ármanns, að koma hér í kvöldguðsþjónustu til þess að segja frá þessu verkefni og m.a. mun hún færa afregnir af afdrifum þeirra barna sem unglingarnir okkar hafa leyst úr ánauð. Ég hvet okkur til þess að koma og fyllast innblæstri til þess að halda verkinu áfram. Börnin á Indlandi er annarrar trúar, hafa annan litarhátt og eru menningarlega fjarlæg okkur. En það að nálgast þau til þess að lyfta þeim upp úr ómanneskjulegum aðstæðum færir okkur nær eigin mennsku og bætir samfélag okkar sjálfra um leið og gagnið sem unnið er á Indlandi er ómetanlegt.

Kristinn siður boðar endurlausn úr ánauð og við sem kirkja hans eigum að vera endurleysandi kraftur. Þess vegna hefur þetta verkefni orðið okkur svo hugfólgið í Garðasókn því að við eigum að vera hvert öðru endurleysandi kraftur. Heyrðuð þið lexíuna sem var flutt hérna áðan frá Jesaja spámanni: „Hinir endurkeyptu Drottins snúa aftur og koma fagnandi til Síonar. Eilíf gleði fer fyrir þeim, fögnuður og gleði fylgir þeim, en sorg og sút leggja á flótta.” (Jes. 51.11-12)

Það er margt í íslensku samfélagi sem er að sundra okkur og margir upplifa vonleysi og depurð yfir samfélagi sínu. En við getum fundið leiðir til að sameina okkur sem þjóð með því að standa að heill og hamingju barna. Það getum við með því að tala saman og finna ráð og tækifæri til þess að bæta hag barna.

Vandi okkar sem þjóðar er ekki fyrst og fremst fjárhagslegur heldur tilfinningalegur og menningarlegur. Sannleikurinn um Íslenska þjóð er sá að hún hefur í sögu sinni ekki verið barnvæn. Um það vitna margar frásagnir og lýsingar liðinna alda. Þrátt fyrir stórstígar framfarir á mörgum sviðum m.a. í heilsugæslu og menntun að ekki sé minnst á veiðar og vega- og fjármálakerfi, þá höfum við ekki borið hag barna nægilega fyrir brjósti. Það að fæðast á Íslandi hefur ekki verið trygging fyrir því að eiga örugga æsku. Í stað þess að horfa á verkefni líðandi stundar frá sjónarhóli mennskunnar höfum við litið þau frá sjónarhóli afkasta og stjórnunar. Við höfum spurt börnin okkar hvað þau ætli að verða en síður innt þau eftir því hvernig þeim líður og hvað þau eru að hugsa. Styrkur þjóðar ræðst af mennsku hennar. Hann birtist í því atlæti sem við búum börnum okkar og öðrum sem ekki geta borið hönd yfir höfuð sér.

Það var merkileg reynsla að koma í Laugarneskirkju á fimmtudagskvöldið var í Ljósastund og kærleikshitting sem var hugmynd Sigrúnar Pálínu Ingvarsdóttur þar sem grýttur vegur var prýddur ljósum og rósum eftir kirkjugólfinu. Og við endi vegarins sem lagður hafði verið voru þrjú kerti sem táknuðu trú, von og kærleika. Á þessari kvöldstund hlýddum við á þolendur kynferðisofbeldis greina frá reynslu sinni og því hvernig þau höfðu lifað af þrátt fyrir allt. Þarna stóðu sigurvegarar, eftirlifendur, sem þrátt fyrir allt höfðu náð að halda áfram. Kynferðisofbeldi í æsku kostar besta falli áratuga erfiði við það að losna úr fjötrum og ná því að lifa mennsku sína en það kostar líka lífið sjálft. Ein frásögn ungrar konu hljóðaði á þessa leið: „Frá því að ég var misnotuð af heimilisgesti fimm ára gömul leið mér alltaf eins og ég væri álíka mikils virði og leifar af máltíð á skyndibitastað. Óhrein, ógeðfelld og í raun bara ruslmatur.”

Hér talar íslenskt þrælabarn sem er að losna úr fjötrum. Í hennar tilfelli var það Guð sem gaf henni nýja mynd. Mig langar til þess að enda þessa ræðu á ljóði sem þessi hetja bað mig að flytja í ljósastundinni. Hún hafði lesið í Nýja testamentinu sínu söguna af konunni sem vildi fá að snerta Jesú og hún segir: „Saga þessarar konu er líka svo mikið saga mín.”

Klæðafaldurinn

Frá einum stað til annars, um árabil hún gekk. Samt var það svo að hún aldrei lækninguna fékk. Allt það sem hún átti, allt það sem hún var fór í það eitt að leita lausnar allsstaðar.

Hún vissi vel af augnagotum, þekkti sína skömm. Hún var talin óhrein, skítug - sorg hennar var römm. En dómur samferðamanna, eins harður og hann var bliknaði hjá sjálfsmyndinni brotnu sem hún bar.

Hún vissi að allt sem sagt var, hlaut að vera rétt en daginn þennan til eyrna hennar hafði borist frétt. Sögur voru á kreiki um merkilegan mann sem öllum virtist gera gott og af kærleikanum brann.

Vonin bærði á sér, þráin varð svo sterk, að bara mætti hún reyna, Herrans máttarverk. Í trássi við tíðarandann og samfélagsins lög, að stefnumóti við Hann, hún fór að leggja drög.

Enginn mátti sjá hana, síst af öllu Hann, átti hún að dirfast að snerta helgan mann? Kannski ef hún passaði að trufla ei Hans för bæði Hann ekki að stoppa til að veita henni svör.

Ef bara mætti hún snerta klæðafaldinn Hans þá skyldi hún ekki krefjast athygli þessa manns. Svo hikandi hún nálgaðist svo hennar yrð’ ei vart, og laumulega rétti út hönd uns hún Jesú sjálfan snart.

Um æðar hennar streymdi lækning hans og ást og skyndilega skipti ei máli, þó hún myndi sjást. Skömm hennar og meinsemd var í burtu máð, sála hennar hafði loks griðastaðnum náð.

Í lok bréfisins segir þessi unga hetja: Konan, hún er ég.”