Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“ Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: „Nú á einhver yðar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé?“ Þeir gátu engu svarað þessu. Jesús gaf því gætur, hvernig þeir, sem boðnir voru, völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið, að manni þér fremri að virðingu sé boðið, og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig: ,Þoka fyrir manni þessum.’ Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: ,Vinur, flyt þig hærra upp!’ Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“ Lúk. 14.1-11
Hvernig tilfinningin skyldi það vera að vera ósnertanlegur eða ósnertanleg? Ég las einu sinni bók sem heitir Ilmurinn. Hún fjallar um barn sem fæðist án líkamslyktar. Við vitum hvað ilmur af nýfæddum hvítvoðungi er yndislegur, en af þessum dreng var engin ilmur og ástvinir hans og aðrir sem önnuðust hann fylltust skelfingu. Sérstaða hans varð algjör og hann einangraðist frá fólki sökum þess að hann skorti þessa hlið mennskrar tilveru sem við sjaldnast gefum gaum í samskiptum. Í frásögn höfundarins býr söguhetjan hinsvegar sjálf yfir ofurnæmu lyktarskyni sem hann síðan nýtir til að hefna sín á því samfélagi sem hafnar honum. Af ótrúlegri næmni lýsir þessi frásögn stöðu þess sem er ósnertanlegur, óhreinn í augum umhverfis síns og þeirri höfnun sem slíku fylgir.
Í okkar samfélagi sem öðrum gilda óskráðar reglur varðandi snertingu. Ég man eftir yngsta syni mínum á fermingardaginn hans. Hann var minntur á það af foreldrum sínum að þakka vel fyrir sig þegar hann kveddi gestina. Eftir á sagði hann við okkur að það eina sem hefði verið erfitt við fermingardaginn hefði verið sú þraut að sjá út hverjum hann ætti að þakka með handarbandi, hverjir ættu að fá koss og hverjir faðmlag. Það gilti ekki það sama um alla sem til veislunnar komu. Já, snerting er vandmeðfarin. Það gilda ólíkar reglur innan fjölskyldna, þjóðfélaga og vinahópa. Það er t.d. mjög mikilvægt þegar manneskjur eignast tengdafjölskyldu að fara varlega í fyrstu meðan komist er að því hvaða reglur ríkja varðandi gildi snertingarinnar. Að ekki sé nú talað um það þegar við heimsækjum aðrar þjóðir. Snerting er mjög menningarbundin, og í henni felast mikilvæg skilaboð í lífi okkar allra, og flest kunnum við sögur úr eigin lífi þar sem við flöskuðum á einhverjum óskráðum reglum í þessu sambandi. En hvernig tilfinning er það að vera ósnertanlegur? Gleggsta dæmið úr nútímanum e.t.v. staða HIV smitaðra. Það er ekki langt síðan þeir einstaklingar voru, sökum almennrar fáfræði, ósnertanlegir. Margt fólk lifir við félagslega djúpstæða einangrun og eru varla snert af neinum. Skortur á snertingu er skortur á samskiptum og umhyggju. Þau sem lifa við slíkt þola skort á lífsgæðum sem eru hverjum manni nauðsynleg. Ég heyrði um daginn að það væri ekki óalgengt að læknar vísi fólki í nudd, ekki eingöngu gegn streitu heldur vegna einmannaleika og vegna þess að snertingin er hverjum manni nauðsynleg.
Í guðspjalli dagsins heyrum við um ósnertanlegan mann sem stendur frammi fyrir Jesú þar sem hann er í boði í húsi eins af höfðingjum farísea. Maður þessi er vatnssjúkur, líkami hans er allur afskræmdur í bjúg og samkvæmt viðmiðunum samtíma Jesú var fólk í þessu ástandi óhreint, ósnertanlegt. Og ofan á þessa staðreynd bættist að þetta bar upp á hvíldardag, og þá þótti hin mesta hneysa að vinna nokkurt verk. Frelsarinn sér þarfir þessar manns og veit að hann þráir lækningu. Í kringum Jesú standa farísear og lögvitringar sem vitaskuld héldu lög og siði af mikilli kostgæfni, “og höfðu þeir gætur á honum”, segir Guðspjallið. Sem sagt, Jesús var staddur í hótandi umhverfi, þar sem þvingunarlögmálið gilti. Sem minnir okkur á að kirkja Jesú Krists hlýtur alltaf að mótmæla hótandi samskiptum. “Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: ‘ Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?’ Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara.”
‘Hann tók á honum!’ segir Guðspjallið. Jesús snerti vatnsjúka manninn. Hann vissi að maðurinn var félagslega einangraður vegna sjúkdómsins og að fólk sniðgekk hann. En með framkomu sinni staðfesti Jesús að á þennan mann skyldi hlusta, og að þarfir hans og aðstæður væru ekki utan við kærleika Guðs. Það sem gefur þessari frásögn aukinn slagkraft er staðsetning atburðarins í tíma og rúmi. Jesús er undir þaki eins af höfðingjum samtíma síns, boðinn í mat á hvíldardegi. Og við skulum ekki ímynda okkur að vatnssjúki maðurinn hafi verið á gestalistanum. “Hvað gerir hann núna?” hugsuðu gestirnir, þar sem þessi boðflenna stóð frammi fyrir Jesú. Hugsun þeirra snérist ekki um þarfir þessa veika manns, þeir voru með athyglina á viðbrögðum Jesú af því að þeir ætluðu að ná sér niðri á honum. Þeir vildu sjá hvort Jesú bryti reglur samfélagsins. En athygli Jesú var ekki á siðum og venjum, heldur sá hann og hlustaði á þörf þessa manns Þar lá styrkur Jesú. Hann hlustaði, hann skapaði í kringum sig hlustandi andrúmsloft.
Hlustum við á hvert annað í okkar samfélagi? Gæti það verið að Jesús Kristur þyrfti að standa upp hér meðal okkar Íslendinga á 21.öld og snerta einhvern sem við viljum ekki snerta og krefjast hlustunar einhverra sem ekki eiga rödd? Getur verið að til séu þjóðfélagshópar á Íslandi sem eru ósnertanlegir og raddlausir? Móðir mín sem er 70 ára segir stundum við mig að hún upplifi að það sé ekki á hana hlustað af því að hún er eldri borgari, þó hana skorti nú hvorki orð né skoðanir. Ég hef oft hitt fólk í mínu starfi sem upplifir sig ósýnilegt. Hvernig er samviska okkar sem þjóðar gagnvart börnum? Hér drýpur smjör af hverju strái og allur þorri barna býr við hlaðið nægtarborð. Samt heyrum við neyðaróp innan úr heilbrigðiskerfinu því að vaxandi hópur barna lifir við atferlisraskanir. Í blaði Geðhjálpar sem kom út um helgina segir Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir barna-og unglingageðlæknir að rannsóknir hafi sýnt að um það bil 10% barna þurfi einhvern tíma á aðstoð að halda vegna tilfinningalegrar vanlíðunar og talað er um að allt að 5% barna þurfi sérfræðiaðstoð af þeim sökum. Guðrún Bryndís segir stuðning við foreldra vera hag allra og að við séum öll ábyrg sem samfélag gagnvart börnum þessa lands. Það er líka merkilegt viðtal í Blaðinu í gær við Herdísi Þorgeirsdóttur prófessor við lagadeildina á Bifröst. Hún hefur verið að vinna nýtt rit um tjáningarfrelsi barna samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í viðtalinu segir Herdís : “Því meir sem ég kynnti mér málið við samningu ritsins því betur rann upp fyrir mér að börn sem mannverur eiga fullan rétt á að tjá sig og að mun meira tillit sé tekið til skoðana þeirra og hagsmuna en gert er, fram að þessu höfum við aðallega einblínt á jafnrétti kynjanna, jafnrétti fólks að ólíkum kynþáttum og trúarbrögðum og jafnrétti samkynhneigðra. Börn hafa að mínu mati orðið útundan í þessari umræðu. Það stendur upp á okkur öll að standa vörð um velferð barna. Rödd sakleysisins þarf að fá meiri hljómgrunn í samfélaginu. Samfélagið er spillt, fólk er uppgefið og markaðsþjóðfélagið er orðið öfgafullt, samkeppnin er hörð, hraðinn mikill og neysluhyggjan er orðin stjórnlaus” (Tilvitnun lýkur.)
“Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?” spurði Jesús í matarboði faríseans. Í neysluveislu samtíma okkar stendur Jesús á fætur og spyr: “Er leyfilegt að hlusta á börn í hversdeginum eða ekki? Í öllum hraðanum, kröfunum, flýtinum og kappinu sem ég og þú erum hluti af stendur Jesús á fætur svo að umferðin stöðvast, það slokknar á skjám og símum, auglýsingaskiltin standa auð og síbyljan þagnar. “Er leyfilegt að hlusta á börn í hversdeginum eða ekki?”
Í Morgunblaðinu í dag segir Hrefna Ólafsdóttir sérfræðingur í fjölskyldumeðferð að tilfinnngaleg vanræksla fari vaxandi og hópur barna upplifir að langa ekki til að þess að vera til lengur. Og þegar kemur á unglingsaldur virðist depurð hreinlega vera eins og faraldur í hinum vestræna heimi.
Hér í Garðabæ og á Álftanesi eru skólar og kirkja farin af stað með tilraunaverkefni sem heitir “Vinaleiðin”. Verkefnið hefur í nokkur ár reynst einkar vel í Mosfellsbæ, og felst í því að þjónar kirkjunnar fara inn í grunnskóla samfélagsins og hlusta á börn. Þetta er tilboð um sálgæslu og forvarnastarf gagnvart börnum og stuðning við foreldra. Skólayfirvöld og kirkja hafa þannig efnt til samstarfs um að veita virka hlustun, þar sem börnin fá enn aukið tækifæri til að tjá sig og þar sem tekið er tillit til skoðana þeirra og hagsmuna. Markmiðið er að í skólanum vaxi og dafni hlustandi andrúmsloft. Við eigum í okkar kristna menningararfi gildi og vegvísa sem fjalla um það hvað er rétt og rangt, gott og illt. Hvaða augum við eigum að horfa á okkur sjálf og hvernig við eigum að mæta öðrum? Rödd sakleysisins þarf að fá meiri hljómgrunn. Góð gildi þurfa að greypast inn í barnssálina og stuðningur við foreldra er hagur allra. Heimili, skólar, kirkja, stjórnvöld og atvinnurekendur þurfa að hlusta á orð Jesú þegar hann spyr: “Er leyfilegt að hlusta á börn í hversdeginum eða ekki?” Er leyfilegt að skapa forvarnir sem byggðar eru á umhyggju og hlustun?
Við lifum á spennandi breytingatímum, þar sem menningarstraumar mætast og nýjar hugmyndir skjóta upp kollinum í öllum áttum. Einmitt þess vegna, einmitt vegna þess að við erum fjölhyggjuþjóðfélag, þar sem margbreytileikinn ræður ríkjum í lífsháttum, trúarskoðunum og fjölskyldumunstri, þurfum við að iðka virka hlustun í anda Jesú Krists. Við þurfum að láta börnin okkar finna að þau eigi rödd, að þeirra sjónarmið séu gild, að þeirra líf sé að marka. Þau þurfa m.a. að finna og heyra að fjölskylda þeirra sé ekki jaðarfyrirbæri, heldur séu öll fjölskyldumynstur virt. Þau þurfa líka að vita frá fulltrúum þess trúfélags sem hér hefur verið nær einrátt öldum saman og mótað andlegt líf þjóðarinnar, að trúarafstaða foreldra þeirra sé virt, hver sem hún annars er. Í stað átaka milli menningarheima og lífsskoðunarhópa þarf samvinnu og gagnkvæmt traust. Vinaleiðin er aðgerðaáætlun í þá átt, undirbúin og studd af skólafólki og kirkju, vegna þess að við skuldum komandi kynslóðum að við vöndum fótspor okkar inn í nýja öld, þar sem fjölbreytnin mun ráða ríkjum. Við eigum í andlegum arfi þjóðarinnar þá vitneskju og reynslu sem reynast munu farsæl. Við eigum hina einföldu og lausnamiðuðu nálgun Jesú frá Nasaret sem hlustaði með huga og hjarta og krafðist þess að hver einasta manneskja væri tekin gild.
Í mínum huga er það alveg ljóst að kirkja sem bendir ekki á samfélagsmein er ekki kirkja Jesú Krists. Kirkja sem finnur ekki nýjar leiðir og er lausnarmiðuð við breyttar aðstæður er ekki kirkja Jesú Krists. Kirkja Jesú Krists er boðandi, biðjandi og þjónandi, já hugrökk og hlustandi kirkja.
Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Amen.