Myndin og viðmiðið

Myndin og viðmiðið

Við þurfum stundir og staði til að minna okkur sérstaklega á, stundir og staði til að gefa því rúm sem heilagt er, stundir og staði þar sem minna okkur á Guð, þar sem vitund okkar er opin fyrir návist Guðs, þar sem eyru okkar eru opin fyrir orði hans og augu okkar fyrir mildu augliti náðar hans og fyrirgefningar.

Ég óska söfnuði, sóknarnefnd, sóknarpresti og öllum hollvinum Reyðarfjarðarkirkju til hamingju á vígsluafmæli kirkjunnar.   Öllu því góða fólki sem hefur lagt fram krafta sína til hátíðarinnar þakka ég og bið Guð að launa og blessa það allt og þau öll sem hlynna að helgidóminum. Og Guð blessi allar góðar minningar og kærleiksþel og ræktarsemi sem Reyðarfjarðarkirkju tengjast. Við blessum minningu þeirra sem reistu þetta hús,  og þeim sem hér hafa haldið uppi helgri þjónustu í áranna rás.

      Við eigum þessa stund í skugga áfalla og sorgar sem grúfir yfir þessum landshluta. Ég vil  nota tækifærið hér og votta samúð þeim sem eiga um sárt að binda vegna banaslysanna á Fagradal og á Djúpavogi í vikunni er leið. Megi Drottinn hugga og styrkja þau öll og gefa hverju hjarta sem harmar og grætur sitt helga ljós og frið.

Reyðarfjarðarkirkja er Guðs hús, bænahús. Þær eru allt í kringum landið, um 300 talsins, smáar sem stórar. Þær helga þetta land. Kirkjurnar í landslaginu og bæjarmyndinni minna á tíma þegar Guð var í miðdepli lífs og samfélags, helgihaldið rammaði inn lífsferil manna og gaf merkingu. Minna á tíma þegar trúin var í miðjunni, viðmið vegferðar manns og samfélags. Eða hvað? Ég er annars ekki alveg viss um að það hafi þótt sjálfsagt fyrir einni öld þegar þetta hús var reist. Mér er nær að halda að þá hafi æði margir talið fullljóst að dagar kirkjunnar væru taldir, að vísindin og tæknin, menntunin og upplýsingin og þroski og framþróun mannsandans myndu senn ganga af henni dauðri, enda væru ný og betri viðmið fengin til hamingju og heilla.

 Okkar tíma vantar ekki viðmið, við getum valið úr þeim, og ekki eru þau öll heilsusamleg, þau viðmið sem lögð eru til.

Reyðarfjarðarkirkja vitnar ekki um úrelt viðmið og horfinn heim!

Í guðspjallinu sem hér var lesið áðan bendir Jesús okkur á fugla himinsins og liljur vallarins sem dæmi um æðruleysi og áhyggjuleysi trúarinnar. Það er áminning og viðmið sem við þurfum áreiðanlega ekki síður á að halda nú en fyrri kynslóðir. Jesús dregur einatt líkingar úr heimi náttúrunnar. Jörðin er heilög, lífið er heilagt. Öll jörðin er full af Guðs dýrð, í hverju barni sjáum við hans mynd, í fuglasöng og vængjaþyt nemum hans raust. Í menningu, hugsun, viti og visku mannanna er speki hans að verki. Bara ef VIÐ myndum opna augun, já, og hjörtun!

Í vor var half öld liðin frá því að fyrsti geimfarinn, Gagarín, fór út í geiminn. Þegar hann kom til baka var hann spurður hvort hann hefði séð Guð úti í geimnum. Hann svaraði því neitandi, hann sá engan Guð úti í geimnum. Skólakennari  í Sovétinu sagði bekknum sínum sigri hrósandi frá þessu: „sjáið þið, börn, Gagarín sá engan Guð! Enda er enginn Guð til!“ Lítil stúlka í bekknum sagði: „Ef Gagarín sá ekki Guð þá hefur hann ekki hreint hjarta.“ Barnið hafði lært orð Jesú: „Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá.“ Sá sem ekki sér Guð í hjarta sínu mun ekki sjá hann í himnum, sá sem ekki sér Guð heima hjá sér hann mun ekki heldur sjá hann í geimnum. – Og ekki heldur í helgidóminum!

Guð býr ekki í húsum sem af höndum eru gjörð. Það kemur oft og víða fram í bókinni helgu. Og skáldið Einar Benediktsson orðar það þannig:„Musteri Guðs eru hjörtun sem trúa.“ Og þau hjörtu slá hér í Reyðarfirði, eins og á heimilunum um landið allt, Guði sé lof fyrir það. Til hvers þurfum við þá kirkjur? Jú, við erum manneskjur, við erum ekki bara sálir heldur líka hold. Við þurfum stundir og staði til að minna okkur sérstaklega á, stundir og staði til að gefa því rúm sem heilagt er, stundir og staði þar sem minna okkur á Guð, þar sem vitund okkar er opin fyrir návist Guðs, þar sem eyru okkar eru opin fyrir orði hans og augu okkar fyrir mildu augliti náðar hans og fyrirgefningar og staðsetja okkur gagnvart því á lífsgöngunni. Þannig staður er Reyðarfjarðarkirkja, frátekin til að vera Guðs hús og minna á návist hans og náð, vegvísir, sjómerki, varða við vegina okkar.

Einu sinni stóð lítil stúlka á bæjarhlaðinu á björtum vormorgni með fóstra sínum. Lóan söng vorljóð sín. Og litla stúlkan sagði: „Lóan er að dýrka Drottin.“ Fóstrinn svaraði:„Já: Lóan er að dýrka Drottin dýrðarinnar. Af öllum mætti andar sinnar. Eg má gæta skyldu minnar.“

Embætti, skylda lóunnar er að dýrka Drottin. „Dýrðin! Dýrðin!“ Syngur hún. Embætti, skylda, hlutverk barnsins er að leika sér. En hver er skylda mannsins? Að elska Guð og biðja. Á það minnir Reyðarfjarðarkirkja. Kristin kirkja á Íslandi er hluti hins samfélagslega raunveruleika en stendur ekki utan hans. Þau sem henni tilheyra ganga til sinna verka á vettvangi dagsins, og fæst af þeim verkum bera kristin tákn eða heiti. Þau eru eins og blómin á mörkinni og fuglar himinsins, skaparinn hefur ekki sett nafn sitt á þau, en samt vitna þau á sinn hátt um fegurð Guðs og umhyggju. Og miskunnsemin og umhyggjan í dagsins önn varpa birtu Guðs dýrðar yfir lífið. Þar er hugur Krists og hönd að verki að lækna og blessa þetta líf og heim, þó svo enginn setji nafn hans eða sögu í samhengi við það. Þá er Kristur að verki inni á heimilunum, á vinnustöðunum, skólunum, í leik og leyfum og í öllu þessu er köllun hins kristna manns.

Mörgum er í mun um þessar mundir að dæma kirkjuna úr leik. Vestur-Evrópa er óðum að hrista af sér kápu kristninnar.   Enginn veit hvert það leiðir. Saga kirkjunnar er einatt sett fram og skilgreind sem annáll um afbrot, glæpi og heimsku þjóna hennar. Það er hægt að líta þannig á hana og segja hana þannig.  Við erum sannarlega minnt á það um þessar mundir! En ef ekkert er meira að segja þá er ekki auðvelt að vera bjartsýnn.  Því miður hafa verið og eru menn sem skreyta sig skikkju kristinnar trúar til að svala ofbeldisfýsn og valdalosta, eins og dæmin sanna. Það er ekki allt geðfellt sem sjá má í ásjónu trúarinnar. Ó, nei. En við verðum að gæta þess að meta rétt það sem munur er á. Gera greinarmun á heilbrigðu og brengluðu í trúarefnum, eins og öðru. Eins og öðru.

Hinn heili og sanni mælikvarði er Jesús og sagan af honum, fagnaðarerindi hans. Ef sú saga er ekki lengur sögð og kennd og numin, hvert leiðir það?  Hvað var það í andlegu lífi og menningu sem hratt þeim hrunadansi af stað sem ollu þeim ósköpum sem Ísland situr í nú?  Var það trúin á Guð? Var það sagan af Jesú? Var það Nýja testamentið, var það gullna reglan, eða bænin í Jesú nafni? Nei, áreiðanlega ekki. Samt virðist kapp lagt á að halda þessu frá ungu kynslóðinni í þessu landi. Makalaust! Það sem við þurfum umfram allt á að halda er sú trú sem Jesús gefur. 

Sagt er að mannshugurinn, heilinn muni það lengst sem hann lærði fyrst. Þess vegna lögðu fyrri kynslóðir höfuðáherslu á að kenna ungum börnum bænir og vers, sem fylgdu þeim inn í svefninn og myndu síðan vaka í vitundinni, og gefa viðmið og leiðsögn á lífsgöngunni, og helga í hjartans innstu innum þann helgidóm þar sem myndin helga og háleita lifir.

Já, myndin. Ég heyrði einu sinni sögu sem höfð var eftir miklum áhrifamanni. Hann lýsti því, hvernig hann þurfti eitt sinn samtímis að leysa áríðandi verkefni og passa ungan son sinn. Hann greip þá til þess ráðs að rífa í sundur heimskort og sagði stráknum að spreyta sig á að setja það saman. Var hann viss um að það myndi gefa honum vinnufrið. En fljótlega kom strákurinn inn og var búinn að leysa þrautina. Pabbi hans spyr undrandi hvernig hann hafi getað þetta, og svarið var: Ég tók eftir að það var mynd af manni aftan á kortinu — og ég hélt að ef maðurinn yrði í lagi þá yrði heimurinn það líka. Já, ef maðurinn yrði í lagi.

Svo ótal margt er öðru vísi en ætti að vera í heiminum. En það er Guði sé lof til svo margt gott fólk. Okkur finnst svo oft sem það megni sín lítils. 

 Framganga, viðhorf og viðmót heilsteyptra og heiðarlegra, góðra kvenna og karla, sem láta gott af sér leiða. Mikið eigum við slíku fólki að þakka. Jesús kallar það salt jarðar og ljós heimsins, fólk sem ver og bætir lífið og gerir bjartara. En okkar kristna trú hún kennir okkur líka það að það er myndin aftan á, myndin sem er viðmiðið sem við hjálpar okkur umfram allt til að átta okkur á því hvað er heilt og gott og satt og rétt, er Jesús Kristur, frelsarinn.  Ef þú styðst við þá mynd og viðmið boða hans, þá er þér óhætt.

Reyðarfjarðarkirkja er eins og aðrar kirkjur staður sem setur fram það sem minnir á Guð. Á sama hátt og sérhver kirkja um byggðir landsins. Athafnirnar sem safna fólki á krossgötum ævinnar og áföngum lífsskeiðanna. Bænin andspænis áföllum og örlögum eða sem í þökk og kærleika faðmar gæfu og gleði daganna. Helgar og hátíðir, hefðir og venjur kirkjunnar eru eins og GPS tæki sem staðsetja okkur í lífinu og minna okkur á Guð, staðir og stundir þar sem við fáum að anda að okkur andblæ Guðs. Til þess að við getum betur staðist og tekist á við átök og áföll daganna og byrðar lífsins í fylgd Jesú Krists á leið til gleðinnar sem engan skugga ber á.

Við heyrðum orð hans: „Verið ekki áhyggjufull … yðar himneski faðir veit…“ Förum með þau hvatningar og uppörvunarorð héðan, með ljós og gleði og æðruleysi trúarinnar til móts við lífið og daginn.  

Guðspjall dagsins:  25Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? 26Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? 27Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn? 28Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. 29En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. 30Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil! 31Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? 32Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. 33En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. 34Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.