Útiguðsþjónusta „. . . í kirkju úr skógarilmi,dögg og degi“

Útiguðsþjónusta „. . . í kirkju úr skógarilmi,dögg og degi“

Skógurinn vekur með okkur tilfinningar um friðsæld og fegurð, frjómagn og lífsorku. Tréð sem getur sveigst í storminum er einnig fast á sinni rót og ævi þess er löng. Tréð getur því einnig verið okkur tákn um festu og varanleika. Í lífi okkar er nauðsyn á bæði sveigjanleika og festu.

Ætlið ekki [segir Jesús] að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það mun kallast minnstur í himnaríki en sá sem heldur þau og kennir mun mikill kallast í himnaríki. Matt 5.17-19

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Þú og tréð: systkinasamband jafn djúpt jörðinni. Í nið safans undir berkinum þinn eigin draumur. Hann fetar fálmandi í svima í hringstigum myrkurs upp til móts við andlit Guðs.

Þú stendur þarna í vorvindinum og þrýstir eyranu að hrjúfum berki. Og skyndilega veistu ekki hvort það ert þú sem skynjar tréð eða tréð þig. (Hans Børli (1918-´89), 1969, Treet – niðurlag)

Þannig kemst Heiðmerkurskáldið norska og skógarhöggsmaðurinn, Hans Børli, að orði í ljóði sínu um tréð. Skógurinn vekur með okkur tilfinningar um friðsæld og fegurð, frjómagn og lífsorku. Tréð sem getur sveigst í storminum er einnig fast á sinni rót og ævi þess er löng. Tréð getur því einnig verið okkur tákn um festu og varanleika. Í lífi okkar er nauðsyn á bæði sveigjanleika og festu. Guðspjall dagsins, sem sótt er til Matteusar, leggur áherslu á festu – fastheldni við trúarhefðina.

Matteus guðspjallamaður skrifar rit sitt með gyðinglega lesendur í huga og áherslu á að Jesús sé trúr þeirra hefð. Samanber hins vegar Jóhannes sem, með orðfæri sínu og útskýringum, leggur meiri áherslu á að ná til hins grískmótaða menningarheims og heimspekilegrar hugsunar.

Annað sem gott er að hafa í huga þegar þessi, að því er virðist, nokkuð harkalegi texti um gildi lögmálsins mætir okkur, er að minnast gyðinglegrar fræðsluhefðar á dögum Jesú. Venjan var að festa í huga tiltekin sannindi með því að leggja á þau þunga, stundum að okkar mata öfgakennda, áherslu í tiltekinni ræðu eða fræðslustund. Í annarri fræðslusamveru kom önnur sterk áhersla og áheyrandanum svo látið eftir finna jafnvægið milli andstæðnanna eða að unnið hefur verið úr málum með samræðum.

Gott dæmi um þessa fræðslu- eða ræðuhefð sjáum við hjá Lúkasi guðspjallamanni þegar Jesús, í dæmisögunni um miskunnsama Samverjann, leggur býsna einhliða áherslu á að kærleiksríka þjónustu beri að taka fram yfir trúarlegt atferli. Og með því að gera lítið úr prestinum og levítanum, sem ganga framhjá særða manninum, er jafnvel gefið í skyn að hin helga þjónusta í musterinu sé ekki sérlega merkileg. En í beinu framhaldi af dæmisögunni af miskunnsama Samverjanum birtir Lúkas aðra fræðslustund með andstæðri áherslu – söguna af heimsókn Jesú til Mörtu og Maríu í Betaníu. Þar birtist hin kærleiksríka þjónusta nánast sem óþarfa amstur en hið mikilvæga, sem María fær hrós fyrir, er að sitja og hlusta á guðlegt orð og íhuga það.

Mannlífið og þær aðstæður sem við mætum verður aldrei höndlað með snyrtilegum formúlum einum. Það reynir alltaf á dómgreind og gjarnan að vega og meta andstæð sjónarmið, kosti og galla tiltekinnar afstöðu eða ákvörðunar. Dæmisögur Jesú og einstök ræðubrot hans, sem guðspjallamennirnir færa okkur, eru hráefni til að vinna úr lífsvisku og siðferðiskennd, já, og lífsstíl til heilla í ölduróti mannlífsins.

Jesús var ásakaður fyrir að varpa hefðinni fyrir róða. Fyrir að gera lítið úr viðurkenndri, strangri túlkun lögmálsins svo sem varðandi það hvernig framfylgja bæri helgi hvíldardagsins. Guðspjall dagsins, um mikilvægi lögmálsins og spámannanna, mótmælir því kröftuglega að Jesús boði hefðarrof og lausung varðandi trú og siðferði.

Á dögum Jesú, og raunar enn meðal Gyðinga, var talað um Mósbækurnar fimm, sem er að finna fremst í Biblíunni, sem „lögmálið“. Margvíslegar reglur og leiðbeiningar um trú og siði, sem þar er að finna, höfðu svo verið útfærðar nánar af fræðimönnum og faríseum. Þá ströngu og oft smámunasömu útfærslu gagnrýndi Jesús oft harðlega og taldi aðalatriðin, meginhugsunina og tilganginn vilja týnast í öllu reglufarganinu sem þróast hafði á dögum hans. Þessi gagnrýni Jesú hefur eflaust leitt til þess að sumir hafi skilið boðskap hans sem svo að hann teldi flest af þessu gamla og góða léttvægt.

Jesús gagnrýndi raunar ekki aðeins nýrri viðbætur eða útfærslur gamalla boða heldur merkti, það sem hann kallaði að uppfylla lögmálið, stundum að hann vék til hliðar bókstaf hins gamla lögmáls.

Já, Gyðingar tala um Mósebækurnar sem „lögmálið“ en í munni þeirra hefur orðasambandið „Lögmálið og spámennirnir“ merkinguna, „Hin helga bók“ eða nokkurn veginn það sama og við köllum Gamla testamentið. Þegar Jesús segist ekki vera kominn „til að afnema lögmálið eða spámennina … heldur uppfylla“ þá segist hann ekki vera kominn til að rífa niður hina helgu bók heldur uppfylla fyrirheit hennar, gera að veruleika það sem hún boðar.

Guðspjallsfrásögnin setur vissulega fram, með býsna hvassyrtum hætti, fastheldni við trúarhefðina en þó gætum við sagt að visst jafnvægi sé innbyggt í þessa yfirlýsingu. Jesús lýsir nefnilega ekki yfir einhliða hollustu við lögmálið, heldur við lögmálið og spámennina. Og þá er þess að geta að spámennirnir voru fulltrúar annarrar áherslu eða hliðar trúarhefðarinnar en lögmálið og margvísleg fyrirmæli þess t.d. um helgihald og trúarlegt atferli. Spámennirnir voru oft gagnrýnir á hefð síns tíma og lögðu áherslu á grundvallarafstöðu fremur en reglur. Kærleikur og réttlæti var fyrir þeim æðra en allar reglur.

Varðandi trúarlífið þá vöruðu þeir við því að helgihald gæti orðið að meiningarlitlum siðum ef líf þátttakenda tæki ekki mið af vilja Guðs. Fyrir spámönnunum var það að framfylgja reglum ekki aðalatriðið heldur hugarfarið sem glæðir dómgreind og knýr til góðra verka. Og í gagnrýni sinni tóku spámennirnir jafnan sterkt til orða. Spámaðurinn Hósea flytur þau boð frá Drottni að hann hafi þóknun á miskunnsemi en ekki sláturfórn og á guðsþekkingu fremur en brennifórnum (Hós 6.6). Bókstaflega tekið merkti þetta að musterisþjónustan á tíma spámannsins ætti að leggjast af en vissulega ætlaðist hann ekki til þess. En að hætti hinnar spámannlegu hefðar, sem Jesús gekk að mörgu leyti inn í, var tekið sterkt til orða til að fá fólk til að hrökkva dálítið við og skoða sinn gang, sjá líf sitt og samfélag í nýju ljósi.

Jesús minnir á að hann vill ekki umturna trúarhefð þjóðar sinnar. En gleymum því ekki að sú hefð átti sér tvær hliðar, hina spámannlegu og prestlegu eða nánast lögfræðilegu og samkvæmt meginþunga boðunar Jesú hafði síðarnefnda hefðin bólgnað óhóflega út sbr. gagnrýni hans á fræðimenn og farísea. En það var einmitt lögmáls eða faríseahefðin sem varðveittist meðal Gyðinga eftir að þjóðfélag þeirra leið undir lok á fyrstu og annarri öld.

Hefð og festa eru mikilvæg en jafnframt að gleyma ekki að skoða á hverri tíð hvort sú mynd hefðar sem mótar líf okkar þjónar þeim markmiðum sem henni er ætlað að þjóna. Í sumum aðstæðum er mikilvægt að undirstrika mikilvægi hefðar en í annan tíma kann að vera mikilvægara að spyrja eftir einlægni, góðvilja og guðsást.

Tréð sem er stöðugt á sinni rót getur minnt okkur á hefðina en tökum á einnig eftir því að greinar þess vaxa og sveigjast til ýmissa hliða. Meðan tengslin við rótina góðu og traustu, stofn vínviðarins, Jesú Krist, eru traust þola greinarnar ýmsar sveiflur.

En við sláumst aftur í för með Hans Børli:

Ég sit hér í kirkju úr skógarilmi, dögg og degi. Bláklukkan hringir til messu, hljóðlausum slögum. Og presturinn er án andlits og predikunin án orða. Heilagt sakramentið er vorangan jarðar. (Børli, Gudstjeneste, 1969)

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen