Aðventan er yndislegur tími og í hverju horni má greina jólaundirbúning fólks og tilhlökkun barna. Á aðventunni fyllist rými hversdagsins táknum, sem minna með margvíslegum hætti á komu frelsarans í heiminn og sigur ljóssins yfir skammdeginu.
Í táknheimi jólanna kallast jólaguðspjallið um fæðingu frelsarans á við helgisagnir og þjóðsögur, hefðir og siðvenjur okkar Íslendinga, sem og annara þjóða. Í hugum barna er þetta heillandi sagnaheimur en á köflum nokkuð ruglingslegur. Sem dæmi má nefna þá samblöndun Nikulásarhefða og hinna íslensku jólasveina sem hefur átt sér stað í okkar jólahaldi, að ekki sé minnst á hina ógnvekjandi Grýlu sem til allrar hamingju virðist hafa gefist upp á rólunum. Jólasveinarnir hafa tekið upp hinn rauða búning heilags biskups Nikulásar, sem sjálfur klæddist fjólubláu en í helgileikjum helguðum honum voru forðum notaðar upplitaðar biskupsskykkjur, sem urðu vínrauðar með tímanum. Heilagur Nikulás er sjálfur frá Litlu Asíu en hefur nú flutt til Finnlands og birtist börnum á hreindýrasleða í gegnum amerískt afþreyingarefni. Jólasveinarnir, sem áður voru ribbaldar, táknmyndir þess að gæta að verðmætum sem nauðsynleg voru til að geta gert sér dagamun á jólum, gefa nú börnum í skóinn og gleðja þau á jólaböllum þar sem sungnir eru sænskir maísöngvar, ásamt jólalögum. Börn hafa ótrúlega getu til að draga merkingu úr þeim margræðu skilaboðum sem jólahald birtir þeim.
Á aðventunni kemur árlega upp sársaukafull umræða um þátt hins trúarlega í hinu opinbera rými og með hvaða hætti skólar eiga og mega taka þátt í helgihaldi á jólum. Í þeirri umræðu er sjaldnast vegið að þeim bræðrum, foreldrum þeirra eða gæludýri, og því ósjaldan haldið á lofti að orðsifjar orðsins jól er heiðið, þó engar heimildir séu til um jólahald á Íslandi fyrir kristnitöku. Jólaguðspjallið sjálft virðist þó vera orðið feimnismál, sem varla má halda á lofti í nærveru barna. Umræðan um kirkjuheimsóknir leik- og grunnskóla hefur leitt af sér gagnlegar leikreglur um heimsóknir í kirkju á forsendum skólanna. Ekki er eðlilegt að krefja börn sem ekki eru kristin um beina þátttöku í helgihaldi og foreldrar eiga að hafa val um hvort börn sín fari með í slíkar heimsóknir. Sú krafa að öllu trúarlegu athæfi sé útrýmt úr umhverfi skólabarna er hinsvegar ekki réttlætanleg og það viðhorf verður til þess að börn upplifa hið trúarlega sem varhugavert og framandi.
Beggja vegna borðsins, í skólakerfinu og í Þjóðkirkjunni, sitja háskólamenntaðir fagaðilar sem virða fagleg mörk. Barn á ekki að gjalda þess í íslensku skólakerfi að tilheyra annari trúarhefð og á vettvangi skólaheimsókna á aðventunni er þess gætt. Trúfrelsishugsjón mannréttindasáttmálans byggir á þeirri grunnreglu að allir geti iðkað trú sína óhindrað og óáreitt og séu ekki látin gjalda þess að tilheyra ekki meirihlutátrúnaði samfélagsins, en hún krefst þess ekki að umhverfið sé dauðhreinsað af trúarlegu athæfi eða skírskotunum.
Foreldrar gera ekki málamiðlanir með hagsmuni barna sinna og rétt þeirra til að velja fyrir börn sín ber að virða. En við sem fullorðin erum verðum að gæta þess að tala af virðingu um hið heilaga í nærveru barna, og sérstaklega um jól, sem eru helgasta hátíð bernskunnar. Ef upphrópanir og hræðsluáróður fá að taka völdin í umræðu samfélagsins um jólahald, fara börn ekki varhluta af því. Börn fylgjast með og skilja meira í umræðu fullorðinna en við oft gerum okkur grein fyrir. Of oft grundvallast opinber umræða á fáfræði, fordómum og hræðsluáróðri í garð hins trúarlega.
Sú kynslóð sem ég tilheyri og er nú að hasla sér völl í fræðimennsku á sviði félags- og hugvísinda skortir grunnþekkingu á hinum biblíulega arfi og kann ekki skil á grunnhugtökum guðfræði. Afleiðingar þess má greina jafnt í rannsóknum sem í opinberri umræðu, rannsakendur þekkja oft ekki og koma því ekki auga á trúarlegar skírskotanir í menningunni og opinber umræða einkennist oft af upphrópunum og því að hið trúarlega er allt lagt að jöfnu.
Það er ekkert svið hugvísinda eða félagsvísinda sem ekki krefst grunnþekkingar á kristnum átrúnaði. Á sviði hagfræði má nefna að kapítalismi verður til sem afsprengi af kalvínskri guðfræði og að hin ósýnilega hönd hagfræðinnar byggir upphaflega á guðsmynd Adam Smith. Þó hugmyndasmiðir kommúnismans hafi hafnað trúarbrögðum, verða áherslur þeirra einungis skildar sem uppgjör við trúarleg átök í Evrópu á 19. öld.
Þróun vestrænna tungumála er samofin þýðingarstarfi mótmælenda við að koma biblíunni til almennings. Þannig verður háþýskan til í meðförum Marteins Lúther, engin bók á enskri tungu hefur haft meiri áhrif á tungumálið en Biblía Jakobs konungs og íslenskt biblíumál hefur gegnt lykilhlutverki í mótun og varðveislu íslensku. Án þekkingar á kristnum arfi erum við ólæs á menningu okkar, sem hefur mótast af kristnum áhrifum frá landnámi.
Gylfaginning og Völuspá eru fullar af kristnum vísunum, Íslendingasögurnar sækja ítrekað efnivið í helgisögur evrópu, alþýðubókmenntir og áhersla á menntun barna koma fram með heittrúarstefnu 18. aldar og Halldór Laxness verður ekki túlkaður með viðunandi hætti án víðtækrar þekkingar á guðfræði.
Loks er það viðhorf félagsvísindamanna, sem algengt var á síðari hluta 20. aldar, að trúarbrögð séu afgangsstærð í umræðu um mannlegt samfélag, löngu orðið úrelt. Sú afhelgun samfélagsins sem félagsvísindamenn biðu eftir, hefur ekki átt sér stað og mun ekki eiga sér stað í þeirri mynd sem þeir spáðu, og nútíma stjórnmál verða ekki skilin án víðtækrar þekkingar á trúarhreyfingum samtímans.
Sú hugmynd að leggja eigi öll trúarbrögð að jöfnu í skólakerfinu er jafn fráleit og leggja eigi öll tungumál að jöfnu. Börn af erlendum uppruna eða sem eiga erlent foreldri, læra íslensku til jafns við önnur börn og eiga síðan rétt á mikilvægum stuðningi til að þjálfa sig á sínu móðurmáli. Á sama hátt á guðfræði eða kristinfræði að vera grunnfag á öllum skólastigun, án þess þó að börn séu látin gjalda þess að tilheyra annari menningarhefð.
Mér vitanlega er guðfræði, akademísk skoðun á kristnum átrúnaði, hvergi kennd sem valgrein á vettvangi framhaldsskóla en ætti með réttu að vera skyldufag til stúdentsprófs. Það er óháð hagsmunum kirkjunnar, en þó síðasti Íslendingurinn hefði sagt sig úr Þjóðkirkjunni og gengið af trúnni, væri samt rík ástæða til að kenna guðfræði í grunn- og framhaldsskólum.
Víða má greina fáfræði, og þá fordóma sem óhjákvæmilega fylgja í kjölfarið, í opinberri orðræðu og í fjölmiðlum. Sem dæmi má nefna jólaumfjöllun vinsæls útvarpsþáttar á dögunum, sem reyndi markvisst að lítilækka jólahald með vísunum í 3. Mósebók, textum sem aldrei hafa verið miðlægir í kristnum átrúnaði. Bústaðakirkju var legið á hálsi í fjölmiðlum fyrir að senda börnum í Þjóðkirkjunni heim bækling til að kynna fermingarstörf og það var lagt að jöfnu við sértrúarbækling, með skelfilegri setningarfræði og hótunum um helvítisvist, sem sendur var nafnlaust á hvert heimili á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru áherslur bókstafshyggjumanna í Bandaríkjunum eða yfirlýsingar frá Páfagarði iðulega í umræðunni taldar endurspegla áherslur íslensku Þjóðkirkjunnar, fjölmiðlafólk þekkir oft ekki þann guðfræðilega og menningarlega mun sem er á hinum ólíku kirkjudeildum. Engum þætti það vönduð blaðamennska að leggja alla stjórnmálastarfsemi að jöfnu.
Alvarlegasta birtingarmyndin er þó sá andtrúarlegi áróður sem verður háværari með hverju misserinu í opinberri umræðu. Birtingarmyndir þess eru meðal annars hinn skelfilegi svíns-hausa gjörningur sem nafnlausir einstaklingar mótfallnir múslimum framkvæmdu á dögunum. Ef slíkur hatursáróður fær að vera óáreittur getur það leitt til skelfingar, það hefur sagan ítrekað kennt okkur.
Gagnvart kirkjunni hefur hópur trúleysingja haldið á lofti þeim hugmyndum að trúariðkun með börnum sé þeim skaðleg og leiði til þröngsýni og samfélagslegs ofbeldis. Að baki þeim staðhæfingum eru engin haldbær rök eða vísindalegar rannsóknir, þvert á móti. Það barn sem elst upp við kærleiksríkt bænahald, hefur í höndunum verkfæri til að takast á við kvíða, eignast dýrmæta nánd við þann ástvin sem biður með því og fer út í lífið með þá heimsmynd að það standi ekki eitt í lífinu. Að sjálfsögðu hefur það slæm áhrif á börn að alast upp við þrönga heimsmynd, hvort sem hún er trúarleg, byggð á stjórnmálaskoðunum eða andlegum veikindum, en heilbrigt trúarlíf auðgar tilveru, barna jafnt sem fullorðinna. Kristin trú er sannarlega ekki hafin yfir gagnrýni og það er innbyggt í trúarlega hugmyndafræði lútherskrar kirkju að vera í stöðugri mótun og framþróun. Lúther kallaði kirkjuna til síðstæðrar siðbótar og það er hluti af heilbrigðu trúarlífi kirkjunnar og einstaklinga að vera sífellt í guðfræðilegri endurskoðun, með kærleikan að leiðarljósi.
Á aðventu klæðist kirkjan fjólubláu og sá litur á að tákna undirbúning fyrir komu frelsarans, adventus Domini. Á aðventu er kirkjan hvött til föstu, sem í reynd merkir að hún eigi að ganga til hreingerninga, bæði hið innra og hið ytra. Kirkjan er ekki hafin yfir gagnrýni og beittasta gagnrýnin á kirkjuna sem stofnun og samfélag trúaðra kemur frá þeim guðspjallstextum sem hún sjálf heldur á lofti. Guðspjall dagsins er heimsendatexti og eins óvenjulegt og það nú er, þá fjallar kirkjan um endalok heimsins við upphaf kirkjuárs og á þeim tíma þegar beðið er komu barns.
Ég gleymi sjálfur aldrei þeirri stundu þegar ég frétti að ég væri að verða faðir, á þeirri stundu kölluðust á gleði og eftirvænting og ótti gagnvart því að bregðast þeirri ábyrgð að ala upp barn. Við tók tímabil þar sem ég gekk í sjálfan mig og spurði af einlægni, hvers konar faðir vil ég reynast og fyrir hvað stend ég sem manneskja. Samhliða tók heimili mitt stakkaskiptum og öllu hversdagslífi var vikið til hliðar til að undirbúa komu barns. Með vöggu inni í stofu og skiptiborð tilbúið í svefnherberginu beið fjölskyldan með eftirvæntingu. Sú helga nótt þegar ég upplifði að halda hágrátandi á nýfæddu barni, sem mér var treyst fyrir, er merkasta stund sem ég hef upplifað og það hefur mér auðnast í tvígang.
Aðventan er meðgöngutími, þar sem hversdagslífinu er vikið til hliðar til að gera rými fyrir komu barns. Heimsendaspár tala inn í það samhengi, sem áminning um að allt er hverfult í þessum heimi. Sú mynd sem kirkjan hefur tekið á sig í samtímanum er ekki endanleg og sú samfélagsgerð sem við búum við tekur breytingum á hverjum tíma. En sá boðskapur sem jólaguðspjallið ber með sér, að enginn fögnuður sé meiri en að þiggja nærveru ungabarns og að kærleikurinn birtist í sinni hreinustu mynd í nýfæddu barni, hann fellur aldrei úr gildi.
,,Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.” Þegar Jesús vildi, sem fullorðinn maður varpa ljósi á ríki Guðs og hvernig að vald kærleikans birtist í tilveru okkar, vísaði hann til bernskunnar. Jesús sagði: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“
Þeim orðum fylgir ekki hótun um eilífa útskúfun handan dauða, heldur eru þau áminning um að ef við leyfum brestum okkar að ráða för, getum við ekki notið hverrar stundar og glaðst með ástvinum okkar. Jól verða aldrei skilin með vitsmunastolti eða sjálfsupphafningu, en þeirra má njóta og þau megum við þiggja, ef við umgöngumst jólin eins og nýfætt barn.
Guð veiti okkur náð sína til þess.