Bannorð og boðorð

Bannorð og boðorð

Þú skalt ekki hafa aðra Guði, þú skalt ekki leggja nafn Guðs við hégóma, þú skalt ekki myrða, stela, drýja hór, þú skalt ekki ljúga, ekki girnast. Setningarnar sem byrja á orðunum, „Þú skalt ekki“ hljóma eins og svipuhögg þegar þær eru lesnar hver af annarri.

Strákur hér í bæ var að spjalla við pabba sinn. Þetta var um daginn þegar snjórinn virtist aldrei ætla að yfigefa okkur. „Pabbi ég veit hvað ég ætla að gera þegar ég er orðinn stór“ sagði sá stutti, „Ég ætla að vinna við það að moka innkeyrsluna hjá fólki.“ Pabbanum leist að vonum ágætlega á það og spurði hvað hann ætlaði að rukka fyrir þessa þjónustu. „5000 kall“, svaraði sonurinn að bragði. „Já, finnst þér það nú ekki svolítið mikið?“ spurði þá pabbinn. „Nei, nei, það verður þá örugglega búið að borga æseif!“

Uppeldi

Svona teygir umræðan sig inn í huga barnanna! Þau hlusta á það sem í kringum þau hljómar og draga sínar ályktanir.

Þessa dagan er ég að lesa bók sem heitir Árin sem enginn man. Þetta er leiðsögn um eitt af mikilvægustu hlutverkum okkar í lífinu – nefnilega það að ala upp börn. Höfundurinn, Sæunn Kjartansdóttir sækir fróðleik í ýmsar áttir. Hún er sálgreinir að mennt og nýtir óspart reynslu sína og menntun úr þeirri átt. Lesandinn fær líka svolitla innsýn í heim líffræðinnar, lærir um þessi ólíku hormón sem streyma um líkama okkar eftir því hvort við erum sátt, glöð og ánægð, eða óörugg, stressuð og hrædd. Já, hafið þið heyrt um hormónið kortísól? Það er að verki þegar við finnum axlirnar herpast saman, maginn fer í hnút og svitaperlur spretta fram undan hársverðinum.

En þrátt fyrir óbilandi trú á lesandanum og hæfni hans til þess að setja sig inn í þessi fræði, er þó eitt gegnumgangandi við lestur þessarar bókar. Það er sú afstaða, að fjölskyldan skipti höfuðmáli á þroskavegi barns. Í því umhverfi er helst að vænta jafnvægis aga og frelsis sem er best til þess fallið að ala upp heilsteypta mannsekju. Hún í senn sjálfstæð, en nýtur þess að vera innan um annað fólk. Hún er jákvæð en raunsæ. Hún fyllist krafti þegar á móti blæs en getur líka slappað af og notið lífsins þegar tími gefst til.

Með þessum hætti færir höfundurinn rök gegn því að börnum sé best búinn staður á stofnunum, hversu vel sem búið sé að þeim þar. Best er að vera í návist fjölskyldunnar sem mest og sem lengst því þar á það uppbyggingarstarf heima sem enginn skóli eða vistun getur komið í staðinn fyrir.

Bannorð

Á það ekki ágætlega við að horfa til barnanna nú á þessum föstusunnudegi þegar við erum nýbúin að hlýða á lestur boðorðanna tíu? Eru boð og bönn ekki meðal þess sem við þurfum að kenna börnunum okkar? Og bendir ekki framtíðarsýn drengsins sem beið þess að æseif vandamálið væri úr sögunni – að börnin séu líka þolendur þess að boðorðin mega sín stundum lítils í samfélagi nútímans.

Boðorðin tíu eiga erindi inn í brotinn heim þar sem jafnvægið á það til að raskast eða jafnvel hverfa veg allrar veraldar. Þau eru sett fram með afgerandi hætti. Forsendurnar sem þau byggja á er einmitt sá að fólki hættir til þess að gera mistök, sýna ranga hegðun, leita ekki þeirra leiða sem bestar eru. Við tölum gjarnan um þau sem boðorð – en með réttu ættum við að kalla þau bannorð.

Þú skalt ekki! Þú skalt ekki hafa aðra Guði, þú skalt ekki leggja nafn Guðs við hégóma, þú skalt ekki myrða, stela, drýja hór, þú skalt ekki ljúga, ekki girnast. „Þú skalt ekki“ hljómar eins og svipuhögg þegar þau er lesin hvert af öðru. Ef við skoðum þessi atriði þá sjáum við að sumt á sér ríkari sess en annað. Fyrsta boðorðið og þau tvö síðustu snúast ekki um hendur okkar, eða munn, eða annað það sem við kunnum að gera eða segja. Þau fjalla einmitt um huga okkar og sál. Þetta byrjar jú allt hið innra með okkur.

Hver stjórnar?

Þetta byrjar með því að við missum stjórnina. Eitthvað annað tekur völdin í lífi okkar en það sem er gott og byggir upp. Svo þversagnarkennt sem það er, þá getum við misst stjórnina vegna þess að við þráum um of að stjórna. Stundum gleymist það, að áður en við getum stjórnað öðrum við að hafa stjórn á okkur sjálfum. Hömlaus þráin eftir meiri völdum, óttinn við að lúta í lægra haldi í baráttunni um takmarkaðar auðlindir getur vel leitt til þess að við sjálf missum stjórnina.

Við finnum aðra guði. Hvaða guðir eru það? Þessir guðir eru samheiti yfir þau öfl sem stjórna okkur, einstaklingar, peningar, valdafýsn, eitthvað sem við megum hafa samfélag við, jafnvel nýta okkur til góðs – en ekki hleypa því til valda í lífi okkar. Tvö síðustu boðorðin fjalla meira að segja um girndina. Já, girndin fær hálfu stærri sess en hinir lestirnir. Það niðurlag boðorðanna horfir aftur til frásagnarinnar af Adam og Evu þar sem þráin eftir því sem ekki mátti gera bar gleðina yfir því sem mátti gera ofurliði.

Boðorðin tíu eru sannarlega skarpur spegill á manninn. Þau minna okkur á þá staðreynd, að það að vera manneskja er flókin jafnvægislist. Ekki þarf mikið út af að bera til þess að við missum fótanna og fetum á rangar brautir. Við veltum því blessunarlega fyrir okkur hvernig við eigum að koma börnunum okkar til þroska. Við þurfum þó að horfa í eigin barm og spyrja okkur að því hver það er og hvað það er sem stjórnar okkar lífi. Fyrr getum við ekki stjórnað öðrum.

Þessi hvassi tónn boðorðanna er í raun nærgöngul spurning um það hver haldi um þá stjórnartauma sem eru í okkar lífi. Hver er guð þinn? hvað lætur hann þig gera? Færa hann þig til þess að beita náunga þinn ofríki? Hrifsarðu til þín það sem hann á? Ásælistu mikilvægustu verðmætin hans? eignirnar, orðstírinn, fjölskylduna, jafnvel lífið sjálft? Ertu stöðugt með hugann við það sem náungi þinn á, svo mjög að þú sérð ekki þín eigin verðmæti?

Boðorð

Þegar við hugleiðum hverju við viljum miðla til komandi kynslóða er hægt að sækja mikla þekkingu í margvíslega sjóði. Við getum lært af reynslunni og þeim mistökum sem gerð hafa verið. Við getum lært af þeim sem hafa helgað líf sit því að læra um þessi mál. Ég mæli með bókinni sem ég sagði frá hér í upphafi – ekki síst vegna þess hversu trúr höfundur er þeirri skoðun sinni að engar tæknlegar lausnir geta komið í staðinn fyrir þá eðlilegu og náttúrulegu hegðun sem kærleiksríkir foreldrar geta miðlað til barna sinna. Engar stofnanir geta veitt þá umhyggju sem býr í ástríkum hjörtum. Gott tré ber góðan ávöxt. Uppeldið er að sama skapi prófsteinninn á siðferði okkar og upplag. Það hvernig við skilum samfélaginu í hendur afkomenda okkar er það ekki síður.

Þessi boðskapur er algerlega í samræmi við þá siðfræði sem Biblían flytur. Kristur er ómyrkur í máli þegar hann talar til hinnar guðlausu kynslóðar sem heyrir ekki raustu Guðs sem þó talar frá hjarta þeirra og samvisku. Þegar við hlýðum á boðorðin tíu er þar vissulega hvass tónn, endurtekinn eins og sársaukafull högg. En í grunninn býr í þessum texta mikil umhyggja og mikið traust á okkur sem manneskjum. Það sést best á því þegar Kristur var spurður að því hvað skiptir mestu máli í lífi mannsins. Jú, boðorðin eru mikilvægust. En um hvað snúast þau þegar öllu er á botninn hvolft? Eru þau bara boð og bönn um rétta og ranga breytni?

Nei, þau byrja og enda á því að ræða hugarþel okkar og afstöðu. Kristur dró þau saman í tvöfalda kærleiksboðorðið, sem fermingarbörnin í Keflavíkurkirkju kunna nú upp á hár. Það hljóðar svo: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matt. 22.37-39)

Einmitt þetta skiptir höfuðmáli þegar öllu er á botninn hvolft.