Skynjuðu þau helgina?

Skynjuðu þau helgina?

Nú í síðustu viku sótti ég málþing í Skálholti á vegum Siðfræðistofnunar er hafði yfirskriftina: „Gildismat og velferð barna í neyslusamfélagi nútímans“ Málþingið var hið fróðlegasta og kom margt skemmtilegt þar fram enda voru þarna samankomnir einstaklingar frá þeim stofnunum hérlendis sem hafa hvað mest áhrif á það hvernig staðið er að kennslu og aðbúnaði barna hérlendis á okkar dögum.

Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“ Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: „Nú á einhver yðar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé?“ Þeir gátu engu svarað þessu. Jesús gaf því gætur, hvernig þeir, sem boðnir voru, völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið, að manni þér fremri að virðingu sé boðið, og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig: ,Þoka fyrir manni þessum.’ Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: ,Vinur, flyt þig hærra upp!’ Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“ Lúk. 14.1-11

Nú í síðustu viku sótti ég málþing í Skálholti á vegum Siðfræðistofnunar er hafði yfirskriftina: „Gildismat og velferð barna í neyslusamfélagi nútímans“ Málþingið var hið fróðlegasta og kom margt skemmtilegt þar fram enda voru þarna samankomnir einstaklingar frá þeim stofnunum hérlendis sem hafa hvað mest áhrif á það hvernig staðið er að kennslu og aðbúnaði barna hérlendis á okkar dögum.

Uppeldi til lýðræðis

Hópurinn var sammála um brýnasta verkefni heimila og skóla væri að efla þroska barnanna okkar til þess að geta tekið þátt í lýðræðislegu samfélagi. Til þess þyrftu þau að geta haldið uppi vitrænum og upplýstum samræðum. Um það var ekki deilt og þá síður þá afstöðu að þörf er á því að þjálfa börnin okkar í slíkri list þegar frá upphafi skólagöngu.

En þar sem sátt var um þetta mál hlaut næsta spurning að snúast um það hvernig til hefði tekist í þeim efnum. Þar virtust allir á einu máli. Raktar voru hryllingssögur kennara af misheppnuðum tilraunum sínum til þess að efna til umræðna í skólastofunni. Sumir höfðu mætt til kennslu beint úr KHÍ fullir hugsjóna um upplýstar samræður við nemendur sína en hörfuðu svo fljótt inn fyrir varnarmúra fyrirlestra og utanbókarlærdóms eftir að samræðurnar höfðu ítrekað endað í almennum hávaða og ringulreið.

Óvænt sýnishorn!

Svo var gert hlé á umræðunum og venju samkvæmt í Skálholti fóru menn í kirkju þar sem sunginn var ævaforn tíðarsöngur undir stjórn sóknarprestsins á staðnum. En þegar við komum í kirkjuna var þar fyrir hópur af ungmennum – fermingarbörnum úr sveitunum þarna í kring sjálfsagt á fimmta tuginn ásamt prestunum. Og þau röðuðu sér upp ásamt okkur og tóku þátt í söngnum eins og ekkert væri. Enginn var með læti, ekkert vesen eða kliður. Nei, börnin virtust ekki eiga erfiðara með að taka þátt í þessum miðaldasöng heldur en fullorðnu gestirnir sem þarna voru.

Þetta þótti mér svolítið skondið. Þarna fengum við óvænt sýnishorn af þeim hópi sem hafði verið til umfjöllunar og í frekar frábrugðinni mynd en hafði komið fram í ræðu nánast hvers þeirra sem tekið hafði til máls fyrr um daginn. Ég gat ekki annað en haft orð á þessu við fólkið á eftir og reyndi líka að kalla fram umræðu um það hvers vegna þetta umhverfi hefði getað kallað fram önnur viðbrögð og aðra hegðun en skólinn eða leiksvæðin.

Hvers vegna birtist okkur þetta sýnishorn af tröllauknu vandamáli samtímans með þessum óvænta hætti? Mátti ef til vill leita einhverra nærtækra skýringa fyrst barnahópurinn sýndi á sér þessa ólíku hlið frá því sem rætt hafði verið um?

Trúnni fylgir agi og auðmýkt

Það skal tekið fram að ekki verða dregnar neinar afgerandi niðurstöður af þessari uppákomu og sjálfsagt kunna menn ýmsar skýringar á því hvers vegna börnin reyndust þægari þarna í helgidómnum heldur en ætla mátti af vitnisburði kennaranna úr skólastofunum. Ein skýringin getur hins vegar verið sú að börnin hafi fundið fyrir ákveðinni lotningu þar sem þau voru stödd inni í kirkjunni fallegu í Skálholti. Líklega hafa þau skynjað það sama og flestir aðrir sem koma þarna inn – einhvern samhljóm við hátíðleikann og snertingu við söguna – samhengi kynslóðanna og þau önnur hughrif sem sækja á fólk á þessum helgu slóðum.

Ef sú er raunin hafa þau í raun ekki verið fjarri þeirri kennd sem fylgir því að trúa á sér æðra afl í tilverunni og tengist að mínu viti nokkuð því vandamáli sem hafði verið til umfjöllunar á þinginu. Trúnni fylgir ákveðin auðmýkt og jafnvel agi sem sprettur fram af því að maðurinn skynjar sig sem hluta af stærra samhengi. Maðurinn viðurkennir að hann sjálfur er ekki upphafið og endirinn á öllu – ekki það sem tilveran öll snýst um og allt það sem henni fylgir.

Óður til auðmýktar og hógværðar

Guðspjallið sem lesið var hér úr áðan lýsir því vel þeim skilaboðum sem kristin trú sendir til þeirra sem hana játast. „Setjið yður ekki í hefðarsæti“ segir Kristur til sinna fylgjenda og vísar til þeirrar afstöðu sinnar sem gengur sem rauður þráður í gegnum kristna siðfræði – að sjálf eigum ekki að hreykja okkur upp og hefja okkur yfir allt og alla.

Frásögnin er í senn óður til auðmýktar og hógværðar um leið og hún sýnir hve dýrmætur maðurinn er í öllum sínum veikleika og með öllum þeim vanköntum sem á honum kunna að vera. Kristur sest til borðs með syndurum. Hann deilir með þeim húsum og deilir með þeim kjörum og vísar um leið fram til máltíðarinnar sem framundan var – þeirrar síðustu. Hún var og fyrirmyndin að helgihaldi kristinna manna um ókomna tíð. Þegar hann síðan læknar sjúkan manninn á hvíldardegi staðfestir hann ennfremur að kærleikurinn til náungans er miklu meira virði heldur en dauðar kennisetningar sem menn fylgja af blindum ótta við reiði Guðs sem kynni að fylgja slíkum lögmálsbrotum. Nei, í kjölfar helgihaldsins er kærleiksverkið unnið – þetta tvennt er ein órofa heild innan kirkjunnar og hefur alla tíð verið.

Tign mannsins

Allt er þetta unnið í nafni kærleikans. En sú tign og þau verðmæti sem hvert og eitt okkar hefur fólgið í sálu sinni eiga þó fátt sameiginlegt með hrokanum sem sækir svo oft að okkur í lífinu. Því fylgir með sú predikun að láta ekki hégómann ráða þegar kemur að því að velja sér sæti í veislunni.

Allur sá vandræðagangur og tilstand sem Kristur lýsir á svo kómískan hátt í frásögninni sæmir illa þeim sem þekkir í hjarta sínu þá tign sem aldrei verður metin til fjár eða staðsett á metorðastiga mannlífsins. Páll postuli orðar þetta svona: „Verið í hvívetna lítillátir og hógværir. Verið þolinmóðir, langlyndir og umberið hver annan í kærleika.“

Æðruleysi gagnvart því sem við fáum ekki breytt

Kristur vísar hér fram til efsta dags og hvetur okkur til þess að hreykja okkur ekki upp gagnvart þeim sem æðstur er og mestur. Hann bendir okkur á það að sjálf erum við ekki þess umkomin að dæma um það hver er í náðinni hjá Guði og hver ekki. Slíkt er einhver mesta freisting allra þeirra sem trúa og vísast má rekja margar myrkustu hliðar trúarbragðanna til þess þegar menn leitast við að svara þeirri spurningu upp á sitt eindæmi.

Nei, sá er háttur kristinna manna að treysta Guði og fela honum þá hluti sem okkur er ekki gert að skilja og sundurgreina með skynsemi okkar og veraldlegum verkfærum. Þar þurfum við auðmýkt – já og æðruleysi – einsog segir í bæninni fallegu – til þess að sætta okkur við það sem við fáum ekki breytt.

Gildismat í neyslusamfélagi

Já, og þar sem við voru saman komin í Skálholti til þessara umræðna höfðum við áhyggjur af börnunum okkar. Það er margt sem ógnar og hætturnar leynast víða. Framtíðin er ekki björt ef okkur tekst ekki að miðla því til komandi kynslóða að þörf sé að ræða málin og bera virðingu fyrir viðmælendum sínum. Skæðastar eru þær hættur sem sveigja hug barna okkar í þá átt að það eitt sé einhvers virði sem meta má til fjár. Neyslan leggur mælikvarða á athafnir okkar og hamrar því inn í okkur að tíminn kosti peninga og tímanum megi helst ekki verja í neitt sem ekkert gefur af sér.

Nei, tæknin hefur ekki fjölgað frístundum okkar og gefið okkur meira svigrúm til þess að lifa innihaldsríku lífi – þvert á allar spár bjartsýnismanna liðinna áratuga. Raunin virðist þveröfug ef eitthvað er. Hraðinn verður sífellt meiri. Og hraðinn er alltaf merki um tímaleysi er það ekki? Ímyndað eða raunverulegt, skiptir líklega ekki máli ef afleiðingin er sú sama. Það er einmitt þarna sem börnin okkar gleymast. Það er einmitt þarna sem ferst fyrir að kenna þeim að hugsa sjálfstætt, taka þátt í upplýstum samræðum – tileinka sér það gildismat sem gerir þeim kleift að greina að verðmætin og hjómið – þarna fatast okkur flugið.

Þverstæða nútímans

Svo fáum við í auglýsingum reglulega skilaboðin frá efnilegu skáldi að verja klukkustund á sólarhring með börnunum okkar! Hvílík firra. Hefði ég nú haldið að slíkur tími dugi vart nema til að byrja ærlegar samræður, hvað þá það sem mikilvægara er – að vera góð fyrirmynd börnunum okkar.

Í umræðunum okkar í Skálholti kristallast jú ein af þverstæðum nútímans. Á sama tíma og upplýsingin er höfð í hávegum og reynt er að hvetja börnin til þess að vera sjálfstæðir einstaklingar – hafa sérfræðingarnir áhyggjur af því að þróunin sé öll í þveröfuga átt. Hún færist frá sjálfstæðinu, frá því sem hefur upp gildi manneskjunnar og frá allri þeirri reisn sem við viljum að búi í brjóstum okkar – til hins gagnstæða. Neysluhyggjan og eltingaleikurinn við hverful lífsgæðin virðast eiga greiðari aðgang að sálum barnanna okkar.

Skynjuðu þau helgina?

Kannske má draga ákveðna ályktun af því þegar við vorum stödd þarna í Skálholtskirkju við endurskin kertanna á altarinu í svo sterkri nálægð við söng kynslóðanna í gegnum aldirnar. Þar mátti skynja ákveðna helgi og tilfinningu fyrir því að tilheyra einhverju sem er dýrmætt og er hafið yfir hið stundlega og hverfula. Þessu fylgir viss agi og ákveðin auðmýkt – sem er um leið algert skilyrði þess að geta tekið þátt í því lýðræði sem þróast hefur í þessum heimshluta meðal annars fyrir tilstuðlan trúarinnar og þeirrar samfélagsgerðar sem hún hefur mótað. Þetta skynjaði ég líka í Vatnaskógi nú í vikulokin með frábærum hópi fermingarbarna og á örugglega eftir að segja meira frá næstu sunnudaga.

„Setjið yður ekki á hefðarsæti“ segir Kristur, „ Verið þolinmóðir, langlyndir og umberið hver annan í kærleika.“ segir postulinn. Ég veit að slíkum skilaboðum er ekki auðvelt að miðla til okkar sem lifum á öld hraða og framapots. En þau eru jafn þýðingarmikil fyrir það og mikilvægi þeirra verður enn ljósara þegar við leiðum hugann að því hvaða fórnir við höfum fært á altari græðgi og sérhyggju.