Túlkanir

Túlkanir

Á meðan er svo sem ekki verið að flytja fréttir af syngjandi börnum í sunnudagaskólum kirkjunnar, hamingjusömum fermingarbörnum eða t.d. vinaviku á Vopnafirði. Þegar einhliða fréttaflutningur er í boði, þá höfum við ekki einu sinni möguleika á að túlka og þess vegna hlýtur að vera erfitt að treysta miðli, sem vinnur með þeim hætti.

Já, við fengum að heyra boðorðin 10 hér í dag. Það er góð vísa, sem aldrei er of oft kveðin. Ég fékk send í tölvupósti í nýliðinni viku boðorðin 10 í jákvæðri mynd. Þau hljóða svona:

1. Gerðu upp við hjáguðina og lifðu fyrir og í kærleika Guðs.

2. Ákallaðu nafn Guðs af fúsleika og biddu hann að gefa þér mátt til góðra verka.

3. Hvíldu þig reglulega og gefðu þér tíma til andlegrar uppbyggingar.

4. Auðsýndu foreldrum þínum virðingu og kærleika og láttu börnin þín njóta þess sama.

5. Verndaðu lífið og hlúðu að því í öllum myndum.

6. Vertu maka þínum trú/r.

7. Berðu virðingu fyrir eigum og réttindum annarra.

8. Vertu áreiðanleg/ur í hugsunum, orðum og verkum. Efndu loforð og baktalaðu engan.

9. Berstu gegn öfund og löngun til að eignast alla hluti.

10. Samfagnaðu fólki þegar því vegnar vel í lífinu.

Segja má að gamla útgáfan í 2. Mósebók sé eilítið niðurdrepandi miðað við þessa. Úr gömlu útgáfunni verður það m.a. lesið að mikil hætta sé á að mannfólkið brjóti boðorðin. “Þú skalt ekki”, segir í þeim flestum. Skýr skilaboð. Og vissulega hefur það verið þannig í gegnum tíðina að manneskjur hafa kiknað undan “þú skalt ekki” og það gerist enn.

Þess vegna getur það vafalaust haft alveg skínandi áhrif að setja gamlan boðskap í nýjan búning. En má það? Má túlka og breyta í því samhengi? Bókstafstrúarmenn segja nei, Kristur segir já. Ég vil fylgja Kristi, ekki bókstafstrúarmönnum. Í guðspjallinu í dag er Kristur að túlka og draga saman boðorðin 10 í aðeins eitt boðorð, sem er æðst allra boðorða, það er kærleiksboðorðið. Hann er ekki einvörðungu að minna okkur á það hversu mikilvægt það er að hleypa kærleikanum inn í líf okkar og tilveru, hann er líka að minna á þá staðreynd að það er öllum manneskjum lífsnauðsynlegt að túlka veruleika sinn, útvíkka hann og túlka boðskap, gamlan sem nýjan, inn í aðstæður hverju sinni.

Þetta er það sem við gerum meðvitað og ómeðvitað frá degi til dags. Auðvitað geta túlkanir okkar verið rangar, það er þegar við höfum t.d. ekki kynnt okkur almennilega málin, það að kynna sér málin er grunnforsenda þess að draga heilbrigðar og góðar ályktanir og túlka á þann veg að það nýtist okkur og öðrum.

Í þessu sambandi getum við haft í huga störf embættismanna á Alþingi varðandi landsdóm og kosningarnar um það hvern skyldi hengja. Það hlýtur að vera vond kosning og sérlega vond túlkun, að um sé að ræða aðeins einn mann, sem ber ábyrgð á efnahagshruni heillrar þjóðar. Að baki slíku hljóta að liggja nokkuð annarleg sjónarmið án þess að ég sé hér að tala endilega fyrir sakleysi fyrrum forsætisráðherra þjóðarinnar.

Þetta er bara eitt dæmið um veikar túlkanir á hinni tilveru, sem opinbera breyskleika manneskjunnar, sýna úrræðaleysi hennar og fordóma þ.e.a.s. þá dóma sem eru kveðnir upp án þess að skoða heildarmynd né ýmislegt annað.

Oft eru þannig dómar kveðnir upp vegna þess að í kringum okkur eru öfl, sem móta og stýra veruleikatúlkunum okkar. Stundum áttum við okkur hreinlega ekki á því að þau eru að stýra okkur. Fjölmiðlar eru eitt fyrirbrigðið. Þeir hafa óvenju mikil völd.

Ég hef oftsinnis talað við fólk, sem er kvíðið og uggandi vegna þess eins að því finnst rétt eins og veröldin sé að hruni komin vegna umfjöllunar fjölmiðla. Hefur þú ekki tekið eftir því að megnið af fréttum fjölmiðla eru neikvæðar. Ofbeldi, slys, svik, rán o.s.frv. Vondar fréttir yfirgnæfa allt og túlkun þeirra er jafnvel hálfu verri.

Fjölmiðlamenn myndu samt sem áður bara orða það þannig að þeir væru að endurspegla veruleikann, þeir væru að flytja fréttir og svona er heimurinn. En það er ekki rétt, hann er ekki bara svona!! Það er alveg hreint hellingur af björtum og jákvæðum viðburðum í gangi á þessari plánetu okkar.

Þeir fá hins vegar takmarkað pláss vegna þess að það virðist vera einhver ritstjórnarstefna, sem segir það að neikvæðni og svört tilvera selji frekar, að fólk hafi ekki eins mikin áhuga á gleðifréttunum. Og þar með er búið að túlka veruleikann fyrir okkur. Ég er bara ekkert viss um að við viljum slíka túlkun.

Við hljótum að vilja meta málin út frá þeim upplýsingum, sem við öflum okkur sjálf milliliðalaust. Upplýsingar ýmissa fjölmiðla geta verið mjög villandi,því þær eru ósjaldan túlkaðar út frá geðþótta blaðamanna eða voldugu eignarhaldi. Því miður.

Það hefur t.a.m. verið sérkennilegt að fylgjast með fréttaflutningi DV af málefnum kirkjunnar. Auðvitað vitum við að vissir embættismenn kirkjunnar, sem eru “nota bene” ekki kirkjan öll, hafa komið óorði á hana vegna misgjörða sinna og ummæla. Það er að sjálfsögðu ömurlegt og ber að upplýsa almenning um slíkt, en síðan er haldið áfram út í hið endalausa að véfengja öll verk og viðbrögð kirkjunnar, hún gerð að græðgisstofnun, sem hefur ekkert fram að færa nema seilast eftir peningum þjóðarinnar, ef einhverjir eru.

Á meðan er svo sem ekki verið að flytja fréttir af syngjandi börnum í sunnudagaskólum kirkjunnar, hamingjusömum fermingarbörnum eða t.d. vinaviku á Vopnafirði, nema að takmörkuðu leyti, þar sem unglingar í æskulýðsfélagi Hofsprestakalls tóku sig til og ákváðu að bjóða íbúum prestakallsins upp á óvænta glaðninga í heila viku í formi hverskonar aðstoðar o.fl. Þegar einhliða fréttaflutningur er í boði, þá höfum við ekki einu sinni möguleika á að túlka og þess vegna hlýtur að vera erfitt að treysta miðli, sem vinnur með þeim hætti.

En sem betur fer eru það ekki einungis fjölmiðlar, sem túlka heiminn. Til eru aðrir aðilar, sem eru ekki að sama skapi öðrum háðir og hafa jafnvel fyrir vikið heilbrigðari sýn á veröldina og nota ýmis verkfæri til þess að koma boðum sínum áleiðis.

Sumir gera það einfaldlega með atferli sínu og framkomu, miðla hversdagsreynslu sinni, sem er sterkur skóli, sumir túlka heiminn á striga eða setja þanka sína á blað og leyfa öðrum að njóta, rithöfundar, ljóðskáld.

Á Hólahátíð 2010, um miðjan ágústmánuð, steig fram ljóðskáld hátíðarinnar. Það var Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson. Hann leyfði viðstöddum að heyra túlkanir sínar á veruleikanum, sem margar voru gráglettnar, en alls ekki rætnar, þær voru sannar og kitluðu þess vegna að einhverju leyti hláturtaugar. Þetta voru túlkanir, sem hreyfðu við og skildu áheyrandann eftir hugsandi en jafnframt brosandi. Það er uppbyggjandi.

Þau ljóð, sem hann samdi og flutti voru bæði fyrir fullorðna og börn. Hér kemur eitt, sem heitir “Breyttir tímar”.

“Afar segja færri sögur en áður horfa bara stíft á sjónvarpið fara oft í golf og kalla næstum allar kellingar með hrukkur elskuna sína.

Ömmur prjóna færri sokka en áður tipla um á háum hælaskóm með síma og rauðan varalit í veskinu skipuleggja boð fyrir hressar vinkonur.

Hvers eiga börnin að gjalda? spyrja pabbi og mamma þegar þessi svokölluð afi og amma eru svona ofboðslega upptekin.

Hér með óskast hefðbundin amma og afi lúin og búin en samt ekki dáin sögufróð og sinnug mátulega minnug á allt sem börn vilja vita bara svona háttvís heiðurshjón eins og ömmur og afar hafa ævinlega verið svo lengi sem elstu börn muna”.

Öll erum við að fást við breytta tíma. Það gerir kirkjan líka og Kristur minnir á að hún á að tala inn í líf fólks, aðstæður og veruleika. Biblían gefur okkur mjög umhugsunarvert efni, sem nauðsynlegt er að kynna sér og túlka til þess að það hreyfi við og hjálpi okkur að takast á við tilveru með jákvæðum hætti fremur en ískrandi svartsýnisrausi, sem stöðugt er verið að matreiða ofan í okkur.

Hér í kirkjunni höfum við alltaf stærstu og mestu gleðifréttir fram að færa og fjalla um upprisa Krists, lífsins sigur. Já, það er frétt kirkjunnar, fyrsta og fremsta fréttin, sem er leiðarljós í öllu starfi kirkjunnar. Nú hefst vetrarstarf kirkjunnar í Laufásprestakalli.

Þar höfum við m.a. helgihaldið, reglubundnar guðsþjónustur, sunnudagaskóla, kyrrðarstundir, kirkjuskóla, leikskólaheimsóknir, eldriborgarastarf og fermingarstarf. Já, hér bjóðum við fermingarbörn og fjölskyldur þeirra sérstaklega velkomin, því unga fólkið ætlar í vetur að undirbúa sig undir játninguna miklu til Guðs og upprisu Guðssonar og ræða í fermingartímum um það hvernig við túlkum þann stóra atburð inn í líf okkar. Það verður verðugt verkefni og ástvinir þeirra eru hvattir til þess að styðja við þær umræður bæði í orði og verki.

Biblían og fermingarkver eru t.a.m. vettvangur til þess að halda umræðunni á lofti í orði og það að koma saman til kirkjunnar, syngja Guði lof, biðja til Hans og taka við Honum í helgu kvöldmáltíðarsakramenti er vettvangur fyrir verklega þáttinn. Við biðjum Guð að blessa fermingarbörn og fjölskyldur og fermingarveturinn, fermingardaginn og allt það, sem fermingarheitið felur í sér. “Trúr er Guð, sem hefur kallað ykkur til samfélags við son sinn Jesú Krist.”

Danski skáldpresturinn Kaj Munk var afbragðs túlkandi, hvort sem var í prédikun eða leikritun. Næmt auga hans tók eftir einu mjög mikilvægu atriði, sem fær Guð og mann til að nálgast hvor annan. Það er barnið, það er ungdómurinn. Hann sagði:

“Aðfangadagskvöld er það kvöld ársins þegar maður og Guð skilja hvor annan”.

Það er ekki síst einlægni og sakleysi æskunnar, sem fær okkur til að sjá tilveruna í jákvæðri mynd, sem hjálpar okkur að túlka hana á jákvæðan hátt, hvort sem það eru boðorðin 10 ellegar eitthvað annað. Barnið minnir okkur á jákvæðni og guðdómleika. Guði sé þökk fyrir það og Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.