Allt sem er til í ísskápnum

Allt sem er til í ísskápnum

Þetta eru sjálfsagt afar mannlegar og skiljanlegar kröfur: Sjáðu hvað ég er dugleg – hvað fæ ég í staðinn? En orð Jesú um hin fyrstu og síðustu og dæmisagan um verkamennina sem fá laun fyrir það eitt að þiggja vinnuna, ekki samkvæmt vinnuframlagi, benda á allt annað viðmið.

Enn kemur fyrir að óvænta gesti ber að garði – þó að sá tími sé því miður að mestu liðinn að fólk líti við án þess að gera boð á undan sér. Eins gerist það í önnum dagsins að ekki gefst tími til að fara út í búð þó vitað sé um gestakomu. En einhverjar trakteringar verður fólkið að fá. Þá opna ég ísskápinn og tíni eitthvað til og úr verðar indælar súpur og réttir sem ekki verða endurteknir. Það sem er til í ísskápnum hverju sinni ræður för – ásamt hugmyndafluginu.

Fyrsta bænin í Faðirvorinu fjallar um daglegt brauð. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Einu sinni las ég að þetta mætti orða svona: Allt sem er á innkaupalistanum. Daglegar þarfir til líkama og sálar eru á þeim lista, fæði, klæði, húsaskjól, hlýja og öryggi, vinskapur og þroskun hæfileika, svo nokkuð sé nefnt og má minna á þarfapíramída Maslows í því sambandi.

Allt sem er á innkaupalistanum. Um það biðjum við Guð: Öll vona þau á þig að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma. Þú gefur þeim og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni og þau mettast gæðum, Sálm 104.27-28. Dæmisaga, ekki kjarasamningar! Í guðspjalli dagsins, Matt 20.1-16, segir Jesús dæmisögu um himnaríki. Dæmisögu, tökum eftir því. Hér er ekki verið að fjalla um kjarasamninga eða veraldlegt réttlæti. Aðalpersónan í dæmisögunni er atvinnurekandi nokkur sem fór út snemma morguns til að ráða fólk í vinnu. Þessi saga minnir mig alltaf á frásögur af öðrum tíma, öðrum stað, frásögur af íslenskum verkamönnum á fyrrihluta síðustu aldar sem biðu þess á hafnarbakkanum að komast í uppskipunarvinnu sem gæti brauðfætt fjölskyldu þeirra, einn dag í einu. Sena úr ítölsku kvikmyndinni Reiðhjólaþjófarnir sem og amerískum myndum millistríðsáranna vekja einnig upp sömu hugrenningatengsl.

Biðin á hafnarbakkanum, torginu eða fyrir framan atvinnumiðlunina hefur án efa reynst mörgum fjölskylduföðurnum löng, ef við höldum okkur við þá mynd sem brugðið er upp af karlmönnum í atvinnuleit og konum og börnum heima við. Í hinum harða heimi samkeppninnar fengu heldur ekki allir vinnu og urðu að snúa heim eftir árangurslausa bið. En þangað nær samlíkingin í dæmisögunni ekki. Hér stendur öllum til boða þátttaka í víngarðsverkinu. Og það sem meira er: Sömu kjör bjóðast öllum, óháð því hvenær atvinnuþátttakan hófst.

Þetta kann okkur að þykja skrítið réttlæti. Við viljum sömu laun fyrir sömu vinnu, meiri laun fyrir meira vinnuframlag, er það ekki? Og við skiljum ekki hvers vegna allir fengu ekki bara aðgang að vinnunni strax um morguninn. Hvers vegna voru sumir ráðnir eldsnemma dags, aðrir um níuleytið, enn aðrir um hádegi og þrjúleytið og loks hinir síðustu á elleftu stundu, það er um fimmleytið síðdegis?

Svörin við þessum spurninginum felast í því að hér eru ekki veraldleg viðmið til umfjöllunar. Hér er Guð á ferðinni sem kallar fólk inn í ríki sitt. Sumir heyra kallið snemma í lífi sínu, aðrir heyra e.t.v. en láta það fram hjá sér fara þangað til þeir finna sig reiðubúna og enn aðrir heyra hvorki né sjá Guð að verki í lífi sínu fyrr en liðið er á lífsins dag. Það á sér allt sínar ástæður.

En megináherslan, ,pointið´ í þessari dæmisögu Jesú, er að það er ekki vinnuframlag okkar sem aflar okkur tekna í guðsríkinu. Við erum öll jöfn fyrir Guði. Það sem máli skiptir er að heyra kallið, þiggja boðið um að vera með í víngarðinum, játast Jesú, taka afstöðu með honum. Sú staða sprengir alla venjulega ramma.

Denar í daglaun Mennirnir í dæmisögunni voru ráðnir upp á denar í daglaun. Það fengu þeir allir, óháð vinnuframlagi. Denar í daglaun. Denar var sú upphæð sem dugði til að framfleyta meðalfjölskyldu í einn dag. Ekki er víst að denarinn dygði okkur í neyslusamfélagi nútímans, en hugsunin er heildræn: Allt sem þú þarft er denar í daglaun. Eins og ég sagði áðan snýst þessi dæmisaga ekki um verkalýðsbaráttu eða kaup og kjör í venjulegum skilningi. Hér er afkoma manneskjunnar í víðum skilningi til umfjöllunar, til anda, sálar og líkama. Náð mín nægir þér... 2Kor 13.9.

Við munum eftir frásögunni af Móse og fólkinu í eyðimörkinni. Þau fengu nægt manna fyrir hvern dag, einn dag í einu, sbr. 2Mós 16:

Þá sagði Drottinn við Móse: ,Nú ætla ég að láta brauði rigna af himni handa ykkur. Fólkið á að ganga út og safna saman dag hvern því sem það þarf fyrir daginn´ (v. 4)... Þetta gerðu Ísraelsmenn og söfnuðu sumir miklu en aðrir litlu. Þegar þeir mældu það... gekk ekkert af hjá þeim sem miklu safnaði og þann sem litlu safnaði skorti ekkert. Sérhver hafði safnað því sem hann þurfti til matar (v. 17-18).

Gef oss í dag vort daglegt brauð. Denar í daglaun. Allt sem ég þarf, til anda, sálar og líkama.

Fyrstir og síðastir Sama heildræna skilninginn er að finna í þeirri hugsun sem er þrítekin hér í dæmisögunni og á undan og eftir (Matt 19.30, 20.16 og 20.27): Margir hinir fyrstu verða síðasti og hinir síðustu fyrstir. Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir. Og sá sem vill fremstur vera meðal ykkar sé þræll ykkar. Þarna er mannlegum viðmiðum snúið á hvolf. Hugsun guðsríkisins er svo gjörólík okkar. Samhengið er umræða lærisveinanna um hvað þeir hljóti í laun fyrir að hafa gefið upp líf sitt til að fylgja Jesú (Matt 19.13-30, sjá líka Matt 18.1-5) og síðan ósk móður þeirra Jakobs og Jóhannesar að synir hennar fái að sitja við hlið Jesú í himnaríki (Matt 20.20-28).

Þetta eru sjálfsagt afar mannlegar og skiljanlegar kröfur: Sjáðu hvað ég er dugleg – hvað fæ ég í staðinn? En orð Jesú um hin fyrstu og síðustu og dæmisagan um verkamennina sem fá laun fyrir það eitt að þiggja vinnuna, ekki samkvæmt vinnuframlagi, benda á allt annað viðmið. Hér er engin samkeppni, hér gildi einu hvort þú hefur lokið fimm háskólagráðum, einni eða kannski engri, hvort vinna þín hefur skilað miklum útflutningstekjum til Íslands, hvort liðið þitt hefur unnið gull eða brons eða kannski fjórða sætið á Evrópumótinu. Hér gildir aðeins það að vera með í guðsríkinu, að þiggja elsku Guðs og elska Guð á móti.

Vinnan í víngarðinum Það er ekki þar með sagt að við eigum ekki að vera iðin og vinna ötullega að framgangi hins góða, fagra og fullkomna inn í þennan heim sem svo oft endurspeglar hið gagnstæða. Við eigum einmitt að leggja okkar að mörkum, vera manna Guðs til þeirra sem skortir á einhverju sviði lífsins, senda hjálpargögn til þurfandi, heimsækja sjúka og einmana, gefa af hæfileikum okkar. Það er eðlilegt framhald þess að þiggja boð Guðs um að vera með í víngarðinum. Við opnum ísskápinn okkar og gefum með okkur af því sem þar er að finna, minnug þess að það er gjöf Guðs til okkar.

Lykilatriðið er að það eru ekki verkin okkar sem forsenda þess að komast í liðið. Hins vegar er það kristinni manneskju eðlilegt að leggja sig fram í öllu því sem hún/hann gerir, eins og Páll postuli lýsir í pistlinum: Ég aga líkama minn og geri hann að þræli mínum til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki reynast óhæfur (sjá 1Kor 9.24-27). Og lexían minnir á hvað er mikilvægast:

Svo segir Drottinn: Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni, hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu og hinn ríki hrósi sér ekki af auði sínum. Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því að hann sé hygginn og þekki mig. Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, á því hef ég velþóknun, segir Drottinn. Jer 9.22-23

Allt sem ég þarf Guðsríkið, veruleiki himnanna hér á jörð og handan hennar, snýst ekki um verðleika eða þrep í mannvirðingarstiganum. Hér er annar mælikvarði. Því sú eða sá sem telur sig fyrsta(n) og fremsta(n) kann að vera svo óendanlega langt frá því að meðtaka náð Guðs. Og hinn, sem haltrar síðastur, mannlega talað, fær hina allumlykjandi ást Guðs beint í æð. Samt er ,hinn fyrsti´ að sjálfsögðu ekki útilokaður frá guðsríkinu. Honum bjóðast bara ekki betri kjör en hinum síðasta. Það eru engin betri kjör, aðeins ást Guðs, hrein og tær og stendur öllum til boða.

Frammi fyrir Guði finn ég mig algjörlega óverðuga. Frammi fyrir mönnum get ég tínt til eitt og annað en þegar kemur að Guði á ég aðeins þetta: Að hann meðtekur mig og ég gríp í hans útréttu hönd. Denar í daglaun, allt sem ég þarf – af náð.