Hvaða erindi á himinninn við þessa jörð?

Hvaða erindi á himinninn við þessa jörð?

Fyrirgefning er, samkvæmt orðanna hljóðan, gjöf en ekki gjald og í sjálfu sér ekki sjálfsögð.
fullname - andlitsmynd Sveinn Valgeirsson
24. desember 2019
Flokkar

Aðfangadagur jóla 2019. Dómkirkjan.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Gleðileg jól.     

 

Hvaða erindi á himinninn við þessa jörð? 

 

Á þetta tvennt eitthvað saman að sælda? Hið heilaga og hið veraldlega?

 

         Hver jól heyrum við um fagnaðarsöng englanna á Bethlehemsvöllum: „Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.”

 

         Nóttina þegar himnarnir opnuðust.

 

Það heyrum við erindi jólanna; þessa atburðar þegar  Guð deilir með sköpuninni dýrð sinni – þegar Jesúbarnið lá í jötunni.

 

Reyndar er önnur hlið á söng englanna sem mér finnst vert að benda og hún er sú, að englarnir eru ekki aðeins að hvetja til þess að hirðarnir – mannfólkið -  lofsyngi Guð heldur flytja þeir ákveðin boð – enda er það í starfslýsingu englanna að bera skilaboð. Gríska orðið angelos merkir jú sendiboði; En skilaboðin eru þau, að þar sem frelsarinn er nú fæddur þá er dýrð Guðs, sem er á himnum, einnig á jörðu. 

 

Guð gerist maður og maðurinn fær hlutdeild í himninum. 

 

----

 

En til hvers þá þessi atburður?

 

Staður hans í hjálpræðissögunni er að þar sem maðurinn bjargast ekki fyrir eigin rammleik, hversu mikill sem hann nú annars er, þá sendir Guð son sinn í heiminn,- já Guð gerist maður, - til að byggja brú milli manns og Guðs og manna á milli.

 

Mannlegt samfélag er alla jafna fallegt og gott; og sem betur fer er samkennd og miskunnsemi reglan frekar en undantekning. En það er ekki fullkomið, langt í frá, og mér finnst alla vega ljóst  að eitthvað það er að hjá manninum sem full þörf er á að bæta; færa í samt lag ef svo má segja. Hvert og eitt okkar þarf líkast til ekki að rýna lengi í hjarta sinn inn til að sjá að eitt og annað er komið á viðhald og þarfnast lagfæringa; ef það var ekki gallað nánast frá upphafi.

 

         Enda hefur, allt frá því í árdaga kristni verið litið á holdtekju sonarins sem sáttargjörð; Friður á jörð og fengin sátt, fagni því menn sem bæri orti sr. Einar í Heydölum og orðar þessa hugsun vel. 

 

Fyrirgefning er annað orð sem skarast mjög við það sem hér um ræðir og var einna mikilvægast í kennslu Krists. Hann vissi sem var að það er enginn vandi að elska þá sem elska mann á móti; það reynir ekki á, fyrr en maður þarf að láta sér annt um alla hina til þess að skapa betra samfélag. En til þess þarf ákveðinn vilja; því það er augljóst að þetta snýst meir um viljaafstöðu en tilfinningaafstöðu. 

 

Hvað vill maður?

 

Vissulega eru þeir til sem helst alltaf vilja ergja sig, svona til öryggis. Það væri auðvitað afleitt að missa af úrvals pirringi. En sem betur fer þekkist hitt líka að leita eftir sátt og friði.

 

Kennsla Krists umbylti viðteknum siðum í samskiptum manna hvað fyrirgefninguna varðaði:

 

Elskaðu óvini þína; biddu fyrir þeim sem ofsækja þig. Ef einhver neyðir þig til að ganga með sér eina mílu, farðu þá tvær.

 

„Barnaskapur” gæti einhver sagt. „Heilagur einfeldningasháttur sem virkar ekki í reynd, því alger fyrirgefning er aldrei möguleg: mennirnir gera hluti sem eru ófyrirgefanlegir.”

 

Ja-há?

Er það?

--

 

Nú í vetur kom út á íslensku Bókin um fyrirgefninguna eftir þau feðginin Mpho og Desmond Tutu, biskup í Suður-Afríku. Og sannast sagna er stórmerkilegt að heyra hverju þau hafa að miðla. 

         Saga Suður-Afríku er mörkuð slíku ofbeldi að hafi maður einhvers staðar reiknað með vonlausum vítahring hefndar og endurgjalds þá var það þar. 

Hefndin er hið frumstæða, hvatakennda viðbragð við órétti; fyrirgefningin hins vegar hið siðmenntaða viðbragð sem viðurkennir sameiginlega mennsku og leitast við að græða sár í stað þess að veita ný. 

 

Fyrirgefning er auðvitað ekki einfalt mál og í aukinni vitund um það hvernig meðvirknin leikur okkur svo oft, þá er gott að brýna fyrir sér að reginmunur er á því að fyrirgefa eða láta vaða yfir sig. Það á heldur enginn heimtingu á fyrirgefningu. Fyrirgefning er, samkvæmt orðanna hljóðan, gjöf en ekki gjald og í sjálfu sér ekki sjálfsögð.

 

 

En svo ég víki aftur að Suður Afríku þá var tekin sú ákvörðun að fara aðra leið en leið hefndarinnar til að rjúfa vítahringinn; vitandi að auga fyrir auga þýðir að allir verða blindir. En menn,  - raunar samfélagið allt – stóðu frammi fyrir því vali að svara í sömu mynt eða velja leið lækningar. Og það fólst ekki í því að gleyma og láta eins og ekkert hefði gerst. Fyrirgefning trompar ekki út réttlæti. 

 

Sannleiksnefndin sem komið var á fót, tryggði að fólk fékk að segja sögu sína, nefna sársaukann og viðurkenna hann eða fá hann viðurkenndan, fyrirgefa og viðurkenna sameiginlega mennsku; 

og fyrst að því loknu var hægt annað hvort að endurnýja tengsl eða rjúfa þau. Þetta ferli og þessi nálgun virðist gefa góða raun.

 

         Af lestri bókarinnar er ljóst að þetta er ekki einfalt eða ódýr afgreiðsla á erfiðum málum og aldrei hægt að skipa fólki þessa leið. En þau dæmi sem þar eru nefnd eru þess eðlis að maður sér í þeim ekkert minna en kraftaverk fyrirgefningarinnar. 

 

Kunn eru þau orð Nelson Mandela þegar hann sagði að ef hann gæti ekki fyrirgefið kvölurum sínum þegar hann gengi út úr fangelsinu eftir að hafa setið þar saklaus í 27 ár; þá myndi hann áfram vera í fangelsi. 

Sínu eigin.

 

Auðvitað gerist það ekki í einu 

vetfangi. Eða eins og segir í bók Tutu: „Maðurinn sem gekk inní fangelsið var ekki sá sami og bauð fangaverði sínum að vera heiðursgestur við embættistöku sína. Það tók tíma og áreynslu.” 

 

Þetta hafði ekkert með Stokkhólmsheilkenni að gera heldur langa og stranga vinnu með sjálfan sig.

 

Fyrirgefning snýst um svo ótal margt og ekki hægt að gera því öllu skil hér en hugsanlega fyrst og fremst um að frelsa sjálfan sig undan ánauðaroki atburða fortíðar; ekki að fría gerendurna af ábyrgð. 

En til að geta haldið áfram með líf sitt; skapað sér nýja sögu, er lífsnauðsynlegt að tileinka sér hvort tveggja, að biðjast fyrirgefningar og fyrirgefa. 

 

Uppistandari nokkur, Lili Tomlin orðaði það þannig að „Fyrirgefning merkir að gefa uppá bátinn alla von um betri fortíð.”

 

Menn geta haft sína skoðun á þessum orðum hennar;

 

En hins vegar ber fyrirgefningin í sér alla von um betri framtíð. 

 

Og snýst þetta allt ekki að töluverðu leyti um að heimurinn verði ögn betri á morgun en hann var í gær?

 

--

Í kvöld erum við að sínu leyti stödd á óræðum tíma hjálpræðis af himnum annars vegar og okkar eigin sögu hins vegar. 

Og þessir tímar mætast.

Hannes Pétursson yrkir:

 

         Þessa leið, eftir brautinni

         framhjá bæjum og túnum-

komu bernskujólin hér fyrrum

færðust smám saman nær

kaupstaðnum út við sjóinn.

 

Þessa leið, eftir brautinni

kom björt skrúðfylking: Stjörnur

hjarðmenn söngklukkur, ljós

og hálffermdir sleðar

bræður einn og átta 

með alls konar húfur og stafi

og englar sem blésu í horn. 

Aftast fór kötturinn grimmi

En fremst, í tiginni ró

á fagursöðluðum úlföldum 

riðu öldungar þrír, skrýddir pelli.  

Uppi hvelfingin heið   - -

ljós brann í kirkjum.

                                    Úr suðri

nálgaðist hægt þessi fylking

í frostköldum marrandi snjó

 

Þessa leið, eftir brautinni

sem bifreiðin þýtur.             

 

Hér er ort um bernskujólin, hvernig minningin um þau yfirstígur hindranir tímans og barnið verður samtímamaður vitringa og jólasveina, hirða og engla; en sama himinhvelfingin er yfir því öllu og ljósið sem brennur í kirkjunum er ljós af ljósi Hins Eilífa.

 

Jólin tengja saman tímana. 

Hinn fyrsta atburð, sem söngur englanna á Bethlehemsvöllum boðaði, og sögu okkar í kvöld. 

Þótt það sé ekki sagt þá stefnir öll fylkingin til fundar við barnið.

 

Og jólin rata til sinna, rétt eins og ljóðið. 

 

En minningarnar um bernskjólin eru alla jafna dýrmætar.

Hugsanlega er hér einmitt ástæða fyrir því að við viljum halda jólin nú með líku sniði og síðast og þar áður. 

Meira að segja þótt hið trúarlega hafi vikið hjá einhverjum og tali ekki til manna á sama hátt og áður; því við viljum lifa jól bernskunnar, finna sama fögnuðinn, sömu tilhlökkunina og hinn sama anda og einkenndi hátíðina, svo langt sem við munum og helst lengra. Þessi kennd sameinar okkur. 

 

Hún sameinar okkur öll hvort sem við skynjum jólin sem hátíð komu Krists í heiminn eða látum okkur nægja að halda gamla siði í heiðri. Jólin eru þannig sameign okkar allra og þess vegna hugsum við sérstaklega til þeirra sem ekki eru með fjölskyldum og vinum á hátíðinni; til þeirra sem eru á sjúkrastofnunum, hvort sem það er vegna vinnu sinnar eða sjúkleika, við hugsum til fanga og einstæðinga, flóttafólks, heimilslausra eða þeirra sem af ýmsums ástæðum einangrast, til sjómanna og farmanna allra og biðjum að birta jólanna nái að skína um alla sköpun, í hvert hús og hvert hjarta. 

 

---

Ég spurði í upphafi hvort hið heilaga og veraldlega ættu einhverja samleið. 

 

Og svarið er já. 

 

Að mistakast er mannlegt; að fyrirgefa er guðdómlegt, orti Alexander Pope og því er samleið hins himneska og jarðneska svo skýr þegar okkur tekst að lifa sannleika fyrirgefningar og miskunnsemi og umburðarlyndis okkar á milli rétt eins og Guð gefur son sinn til að sætta menn við sig. 

 

Þá er hið heilaga mitt á meðal okkar.

---

 

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.