Mannréttindi ráði

Mannréttindi ráði

Mannréttindaráð Reykjavíkur hefur sett fram tillögur - í ýtrasta ýkjubúningi - um að kreista kristni út úr skólum - skerða, þrengja og úthýsa í stað þess að opna, víkka og auka fjölbreytni. Óttumst ekki margbreytileikann heldur fögnum honum og nýtum til eflingar samfélagið. Trúin varðar lífið.

Verður stefnan á næstu jólum að bara megi syngja Snæfinn snjókarl en alls ekki Heims um ból? Verða helgileikirnir englalausir, vitringasnauðir, Jesúbarnslausir og trúlausir? Má Melaskóli ekki koma með helgileikinn sinn í kirkjuna á aðventunni eins og verið hefur í áratugi? Megum við búast við því, að þegar dauðsföll og áföll verða í framtíðinni megi alls ekki - á skólatíma - leyfa börnum að koma hér yfir í Neskirkju til að kveikja á kertum í forkirkjunni, eiga íhugunarstund eða njóta samtals við þjálfað sorgarvinnufólk hér í kirkjunni?

Á kaffistofum, mannfundum, afmælum og jafnvel í erfidrykkjum hefur síðustu daga verið mikið rætt um trú í samfélaginu, samskipti kirkju og skóla, lífskoðanahreyfinga og skóla, íþróttafélaga og skóla, gildi og trúleysi. Tilefnið var, að Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar setti nýlega fram tillögur um skarpa aðgreiningu milli lífsskoðana og skólahalds borgarinnar. M.a. er stefnt að því að meina foreldrum og kirkju að taka börn úr skóla til að fara í fermingarbarnaferðir; banna að starfsmenn trúfélaga hengi upp auglýsingu í leikskólanum um barnamessur eða eitthvað annað, sem á döfinni væri í kirkjunni. Banna ætti að trúarritum væri útbýtt í skólum. Augljóst var að það bann myndi eingöngu beinast gegn Gídeonfélaginu. Banna ætti kirkjuferðir skólabarna á skólatíma, og einnig ætti að banna bænahald og sálmasöng. Þá mætti ekki leyfa listsköpun í trúarlegum tilgangi í skólunum, þ.e. föndra með trúartákn og vinna með það sem væri á trúartáknasvæðinu. Og svo mættu prestar eða kirkjulegir aðilar ekki lengur vera í áfallateymum, sem starfa þegar hörmungar dynja yfir og slys verða.

Stíll samfélags Þetta er sérstæð nálgun og vert að íhuga tilgang, eðli og afleiðingar. Og það er vert að ræða málin í kirkjulegu samhengi einnig - því hér er komið að grunnþáttum í þróun samfélags okkar Íslendinga. Þjóðkirkjan hefur verið afslöppuð í samskiptum við skóla og ekki kippt sér upp við breytingar og hún hefur stutt fageflingu skólanna. Enda rennur henni blóð til skyldunnar. Kirkjan bar jú ábyrgð á skólafræðslu þjóðarinnar um aldir, í skjóli hennar urðu skólarnir til. Þeir eiga ekkert annað en stuðning þjóðkirkjunnar vísan. Skólarnir eru fræðslustaðir og eiga að vera það. Þeirra hlutverk er að tryggja að þekkingu sé miðlað um málefni, sem skólinn skal fjalla um. Þeir eiga því ekki að vera tæki í þágu kirkjunnar, stjórnmálahreyfinga eða einhverrar menningarbyltingar. En skólarnir eiga ekki heldur að vera eða verða skerðingarstofnanir, þrengingarfyrirbæri eða valda kreppu. Samskipti skóla og kirkju eru með ýmsu móti í landinu, hafa þróast í samræmi við aðstæður í héraði. Samskiptin eru t.d. með öðru móti hér í Vesturbænum en í Grafarvoginum eða Breiðholti. Frelsi í hverfi hefur því verið iðkað og metið að verðleikum. Þá hafa samskiptin verið vörðuð leiðbeiningum, sem starfshópur á vegum skóla og kirkju lagði fram í febrúar 2007. Þar voru eðlilegar og heilbrigðar tillögur um, að skóli væri skóli og kirkja kirkja. Skólinn hefði fræðslustarfi að gegna og kirkjan öðru vísi og trúarlega skilgreindu safnaðarstarfi að gegna. En faglega og starfslega ólíkar stofnanir geta unnið saman og til gagns þegar hlutverk eru skýr og samskiptahættir vel skilgreindir. Því var lögð áhersla á að þegar starfsmenn færu á milli yrðu menn að gæta hlutveka sinna. Og samstarfið hefur verið gott á þeim forsendum og snurðulaust.

Trúarkreistur Nú kveður við nýjan tón frá Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Þegar tillögurnar eru greindar virðist mér að lagt sé til að allt sem tengist kirkjunni verði kreist út úr skólastarfi og kirkjunni sé gert ómögulegt að fara ferðir eins og fermingarbarnaferðir (sem við Nessöfnuður höfum reyndar ekki stundað – en ættum kannski að fara að íhuga?). Tillögurnar varða að miðlun um kirkjustarf verður óheimil í samhengi skólans og þjónusta kirkjulegra starfsmanna verður afþökkuð eða jafnvel bönnuð.

Ég er málsvari þess að verja rétt fólks til trúar - og þá líka trúleysis - og vil að í skólum sé ólík afstaða barna og foreldra þeirra til trúmála virt. Það er eðlilegt og mikilvægt, að foreldrar tjái skoðun sína við skólayfirvöld ef þeim er misboðið í einhverju. Þau eiga rétt á að á þau sé hlustað með jákvæðum huga og að brugðist sé við með ábyrgum hætti. En þau hafa ekki rétt til að úrræðin verði til að réttur annarra verði skertur. Minnihlutahópur á ekki að kúga meirihluta, heldur á að reyna vinna mál svo að réttur fólks sé virtur. Best og eftirsóknarverðast er þegar fjölbreytni er nýtt með jákvæðum hætti, til eflingar og þroska en ekki fátæktar eða einhæfingar.

Fábreytni eða gleði fjölbreytninnar Kirkja má ekki skerða mannréttindi fólks og hún á ekki heldur að taka þátt í að skerða þau. Aðalmeinið í tillögum Mannréttindaráðs er einhæfing, andúð gegn fjölbreytileika og möguleikum til að nýta þá. Einhæfingin er leið óttans.

Í tillögunum er skert en ekki eflt, þar er úthýst í stað þess að auka fjölbreytni, þar er þrengt en ekki víkkað, þar er lokað í stað þess að opna. Þetta er afstaða hreinsunar í stað stefnunar, að þúsund blóm megi dafna. Því tel ég að málið sé svo mikilvægt að um það sé rætt í prédikun. Þetta er ekki pólitískt mál í merkingu flokkspólitískt, en hefur áhrif á framtíð samfélags borgarbúa og jafnvel Íslendinga. Því eru þessar tillögur svo mikilvægar og varða hvern mann, hverja fjölskyldu í þessari sókn, borginni og landinu. Við þurfum og eigum að hafa skoðun í þessum efnum. Öll heimili ræði og rísi upp og tjái skoðun og stefnu. Mannréttindamál eru fyrir alla og í þágu lífs en ekki veiklunar.

Ég er þakklátur Mannréttindaráði að hafa sett þetta mál í þennan ýtrasta ýkjubúning því þá getum við rætt það með skýrleik. Tillögur Mannrétindaráðs eru einfaldlega skerðingartillögur, heftingarráð. Trúfrelsið er samkvæmt þessari nálgun frelsi frá trú en ekki til trúar eins og trúfrelsið er jafnan skilgreint. Lagt er til að í skólastarfinu sé hinu trúarlega hrundið út og skorður verði sem næst algerar gegn hinu trúarlega og fólki sem starfar á vegum safnaða eða trúarhreyfinga.

Tillögurnar eru því miður þvert á eða gegn þróuninni. Trúarleg fjölbreytni vex í samfélagi okkar Íslendinga. Einsleitnin er að baki og fjölbreytileikinn vex. Tillögur Mannréttindaráðs keyra beint á móti straumnum, vanvirða og skerða. Það er óheppilegt og beinlínis skaðlegt. Umburðarlyndi í trúarefnum og gagnvart mismunandi lífsskoðunum verður ekki til með því að loka sig af frá öðru vísi fólki, heldur fremur við kynni, tengsl og opnun. Skólinn á ekki að loka heldur jafnvel fjölga heimsóknum fólks með ólíka lífsskoðun, nýta sér fjölbreytileikann, efla kynningu á mismunandi trú og trúariðkun.

Það er boðskapur kristinnar kirkju að samfélag okkar þarfnist mannvirðingar, virðingar á mismunandi trú og mismunandi trúariðkun. Skólinn á að ganga þeirra erinda en ekki hefta. Þetta eru meðal þeirra áhersluatriða, sem við borgarar þurfum að halda á lofti. Skólar eiga að vera víðfeðmar fræðslustofnanir. Þeir eiga ekki að vera síustöðvar sem halda lífsskoðunum utan veggja, því þá verða þeir handbendi eða tæki þröngs og heftandi mannskilnings.

Samskipti lúta tillitsreglum – þjóna fólki Samstarf skóla og kirkju í Vesturbænum hefur verið farsælt og hefur lotið skikkan, sem þróast hefur á löngum tíma. Melaskóli hefur t.d. í áratugi sett upp helgileik í kirkjunni í lok aðventu og flestir krakkar hafa notið þessa starfs og lært mikið á því. Þetta er stórmerkileg hefð, sem væri menningarslys að banna. Þá er ótrúlega grunnhyggin og óhagnýt afstaða, að meina prestum að vera í áfallaráðum grunnskóla. Prestar eru kallaðir út nætur sem daga þegar slys verða og áföll. Við þjónum fjölskyldunum, ræðum við börn og fullorðna, göngum sorgargötuna með fjölskyldunum, jörðum, föðmum og huggum.

Skólafólk og kirkjufólk veit um og kann á mismunandi hlutverk. Þegar við prestarnir förum yfir í Hagaskóla vitum við, skólastjóri sem og kennarar hvernig hlutverkin eru og hvernig starfa þarf til að hvergi sé ógnað rétti skólabarna af ekki-kristinni trú og að öllum sé sinnt með góðum og gjöfulum hætti. Reglur Mannrétindaráðsins yrðu til að skerða þjónustu, auka kostnað og flækja mál, sem eru í góðum farvegi.

Tölum saman – hröpum ekki að kreppu Niðurstaða mín er, að Mannréttindaráð eigi að hætta við afgreiðslu þessara tillagna, hætta við að samþykkja þessar reglur, því þær eru aðför að rétti barna og líka aðför að góðum tengslum kirkju og skóla. Ráðið ætti frekar að breyta málsmeðferð, loka ekki heldur leyfa umræðunni að halda áfram, rökum að koma fram og hrapa ekki að ákvörðunum.

Raunar ætti mannréttindaráðið að móta sér þá stefnu, að hver skóli ætti að hafa frelsi til að marka sér starfshætti og samskiptahætti, skv. reglunni frelsi í hverfi, sem mest lýðræði, sem ríkulegast líf. Frelsi í hverfi er affarasælla en reglur sem ekki virka. Frelsið má gjarnan vera sem mest í skólunum til að þeir geti þróast í samræmi við þarfir í hverfinu. En það frelsi krefst þátttöku okkar og virkni. Tölum saman og tökum á.

Lifir Þessir þankar um tengsl skóla og kirkju eru í samræmi við texta dagsins. Í lexíunni, pistli og guðspjalli er fjallað um mátt og vald. Í öllum þessum textum er lögð áhersla á líf og lífsgæðin. Margt má um þessa texta segja og túlkunarmöguleikarnir eru margvíslegir. Ef samþætta skal og greina hið sameiginlega þá er það meginspurning: Hvers er valdið? Hvers er mátturinn og hvers er dýrðin? Við ættum að spyrja okkur þessa reglulega. Þetta er líka pólitísk spurning, sem varðar hvað við viljum að einkenni samfélag okkar. Þetta er það, sem við skyldum íhuga þegar við undirbúum kjör til Stjórnlagaþings. “Hvers er valdið” er til skoðunar þegar við reynum að vinna úr Hrunvitleysunni og greiða úr gildaflókanum, sem hefur orðið síðustu árin á Íslandi.

Temjum okkur að vitja okkar sjálfra og spyrja okkur hvað við setjum í forgang í lífinu. Fyrir hvað lifum við, til hvers lifum við, hvernig ríma lífshættir okkar við gildi okkar? Þarf að endurskoða eitthvað í þeim efnum? Já, til hvers lifir þú og hvernig?

Konungsmaðurinn var búinn á því, vonlaus, sá að lífið var að hverfa úr barninu hans. Börnin okkar skipta okkur mestu máli og eru raunar eiginleg lífsdjásn okkar. Þegar allt um þraut hentist stjórnmálamaðurinn til Jesú til að fá hjálp. Lífsboðskapurinn, sem hann heyrði var: “Sonur þinn lifir.” Það er boðskapur sem við heyrum í dag og megum taka til okkar. Barnið þitt lifir.

Þegar að er kreppt náum við oft að greina hið mikilvægasta. Faðir sá hvað máli skipti þegar barni hans var ógnað. Í kreppum er mikilvægt að bregðast vel og ábyrgt við. Röng viðbrögð og skottulækningar eru ekki til góðs. Barnið þitt lifir er boðskapur dagsins – og það á að fá að lifa vel. Látum ekki skerða, hefta, kæfa og dapra - heldur eflum frekar lífið, fögnum fjölbreytileika og tökum þátt í mótun samfélags til að lífið lifi. Það er stefna kristninnar um allar aldir, stefna til ráða og stjórna og boðskapur til þín.

Amen

Prédikun í Neskirkju, 24. október, 2010

Textar 21. sd. eftir þrenningarhátíð A

Textaröð: A

Lexía: Jes 51.11-16 Hinir endurkeyptu Drottins snúa aftur og koma fagnandi til Síonar. Eilíf gleði fer fyrir þeim, fögnuður og gleði fylgir þeim, en sorg og sút leggja á flótta. Ég hugga yður, ég sjálfur. Hver ert þú þá sem óttast dauðlega menn og mannanna börn sem falla sem grasið en gleymir Drottni, skapara þínum, sem þandi út himininn og lagði grunn að jörðinni? Þú óttast heift kúgarans sérhvern dag, að hann ákveði að eyða þér. En hvar er þá heift kúgarans? Brátt verður bandinginn leystur, hann mun ekki deyja í dýflissu og ekki skorta brauð. Ég er Drottinn, Guð þinn, sá sem æsir hafið svo að brimið gnýr. Drottinn allsherjar er nafn hans. Ég lagði þér orð mín í munn, skýldi þér í skugga handar minnar, þegar ég þandi út himininn, grundvallaði jörðina og sagði við Síon: Þú ert lýður minn.

Pistill: Ef 6.10-17 Að lokum: Styrkist í Drottni og krafti máttar hans. Klæðist alvæpni Guðs til þess að þið getið staðist vélabrögð djöfulsins. Því að baráttan sem við eigum í er ekki við menn af holdi og blóði heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum. Takið því alvæpni Guðs til þess að þið getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli þegar þið hafið sigrað allt. Standið því gyrt sannleika um lendar ykkar og klædd réttlætinu sem brynju og skóuð á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðin um frið. Takið umfram allt skjöld trúarinnar sem þið getið slökkt með öll logandi skeyti hins vonda. Setjið upp hjálm hjálpræðisins og grípið sverð andans, Guðs orð.

Guðspjall: Jóh 4.46-53 Nú kom Jesús aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði gert vatn að víni. Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“ Konungsmaður bað hann: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“ Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“ Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir mættu honum þjónar hans og sögðu að sonur hans væri á lífi. Hann spurði þá hvenær honum hefði farið að létta og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ Þá sá faðirinn að það var á þeirri stundu þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk.