Á því leikur enginn vafi

Á því leikur enginn vafi

Hversu flókið væri líf okkar ef traustsins nyti ekki við? Það sjáum við best þegar við göngum inn í umhverfi þar sem traustið er ekki lengur til staðar, þar sem trúnaðurinn hefur verið rofinn.

Textar: Lexían Jb 14.1-6, Pistillinn 2Pt 3.8-13 og Jh 5.24–27

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hvert er það afl sem drífur samstarf áfram og er forsenda árangurs þegar tveir eða fleiri leggja saman krafta sína góðu máli til framdráttar? Hvaða aflvaki er það sem gerir okkur kleift að ganga inn í verk annarra, forðar okkur frá tvístíganda, hiki, kostnaði og flóknum vandamálum þegar leitað er þjónustu hverrar gerðar sem hún er? Á hvaða grunni hvíla vinaböndin, kærleikssamböndin, tengslin á milli hjóna, fjölskyldu og trúnaðarvina?

Kenndin stóra með litla nafnið

Það er kenndin stóra sem ber þó hið smáa nafn: Traust. Allt þetta væri óhugsandi ef ekki væri fyrir traustið. Án þess myndum við ekki bindast hvert öðru trúnaðarböndum. Án þess játuðum við ekki kærleikann hvert til annars. Hvaða pláss eiga efasemdir annars, þegar við horfum framan í aðra manneskju og flytjum henni fyrirheit sem eiga að ná fram til ókomins tíma? Hafa allar niðurstöður verið keyrðar í gegum tölvukerfi? Hafa rannsóknir verið unnar á öllum óvissuþáttum? Nei, hjartað í okkur hrópar hærra en svo að nagandi tönn efans fái þar nokkru viðkomið. Lífið og allar okkar dýrmætustu stundir eiga allt sitt undir því að við séum tilbúin að stökkva með þeim hætti út í hið ókomna. Traustið er þar efanum yfirsterkara – á því leikur enginn vafi!

Traustið er magnað fyrirbæri. Það nær ekki aðeins til rómantískra stunda eins og þeirrar sem að ofan er nefnd. Nei, heimur viðskiptanna væri lítilfjörlegur ef því væri ekki til að dreifa – ef menn bæru ekki traust hver til annars. Við sem fylgjumst með sveiflum viðskiptanna úr nokkurri fjarlægð skynjum hvernig línuritin missa flugið og hrapa niður um nokkur þrep um leið og upplýsingar berast sem rýra tiltrú manna hvers til annars. Það hefur gerst ítrekað nú að undanförnu enda hafa hugrakkir menn í þeim geira gengið að margra mati lengra en góðu hófi gegnir. Stundum er eins og ekkert haldi hagkerfinu uppi nema þetta eina – trúin á að hlutirnir séu eins og þeir eru sagðir vera.

Rofið traust

Hversu flókið væri líf okkar ef þess nyti ekki við? Það sjáum við best þegar við göngum inn í umhverfi þar sem traustið er ekki lengur til staðar, þar sem trúnaðurinn hefur verið rofinn. Ekki þarf annað en að bregða sér út fyrir landsteinana til þess að upplifa heim þar sem menn hafa brugðist trausti. Bitur reynslan veldur því að við þurfum að ganga í gegnum langt ferli til þess að komast um borð í flugvél. Hvað eftir annað er gengið úr skugga um að við séum ekki að villa á okkur heimildir, að við séum ekki með hættulega hluti er gengið er um borð í vélina. Naglaklippur og skæri eru gerð upptæk. Og þegar á leiðarenda er komið – er fagmenntað fólk tilbúið að fara í gegnum farangur okkar ef þar skyldi vera eitthvað sem ekki má flytja inn í landið.

Enginn lastar þá þjónustu sem þar er unnin og sannarlega er hún þörf – því menn vita hvað er í húfi ef sú gæsla fer úrskeiðis. Nei, en þetta er innsýn inn í heim hins brostna trausts. Og það ætti að kenna okkur að meta það hversu greiðfært og skilvirkt líf okkar er á þeim sviðum þar sem trúnaðurinn hefur ekki verið rofinn.

Hversu flókið og kostnaðarsamt væri ekki líf okkar væri ef þessi regla gilti á öllum sviðum? Hvernig væru samskipti okkar og tengsl ef allt þyrfti að fara í gegnum málmleitartæki efans? Hagsýnir menn líta þess vegna á traustið sem gríðarlega mikilvæga auðlind, sem bæði sparar fé og tíma. Og telja miklu til vinnandi fyrir félög og hópa, hvort sem það eru fjölskyldur, vinnufélegar, viðskiptavinir eða heilu þjóðirnar, að tryggja að menn treysti hver öðrum, orðum þeirra og fyrirheitum.

Vanmetið þrátt fyrir allt

Af hverju þessi langi inngangur? Jú, því traustið er þrátt fyrir allt svo vanmetið. Það er af mörgum álitið vera veikleikamerki og skýr vísbending um að gagnrýninni hugsun sé ekki beitt. Sumir segja það ala á mistökum og hampa í stað þess sívinnandi efanum sem sveimar í kringum hverja staðhæfingu og hvert orð og leitar að veikleikum þess. Menn tala jafnvel um traustið sem jarðveg öfga og ofstækis: að sá sem lofi traustið hampi því að aðhyllast skoðun á ófullnægjandi forsendum.

Textar þessa sunnudags fjalla allir um traustið og systur þess: vonina. Þetta er síðasti dagur kirkjuársins – sem hefst á fyrsta sunnudegi í aðventu. Það er undirbúningstíminn fyrir jólin þegar við eigum ekki bara að skreyta hús og híbýli með ljósum og greinum heldur einnig að gera okkur sjálf móttækileg fyrir hátíðinni stóru. Þess vegna eru textar kirkjunnar um þetta leyti til þess fallnir að vekja okkur til umhugsunar um eigið hugarþel og afstöðu til hlutanna.

Mettast órósemi

Í Jobsbók sem hér var lesið úr er dregin upp þessi mynd: „Maðurinn, af konu fæddur, lifir stutta stund og mettast órósemi. Hann rennur upp og fölnar eins og blóm, flýr burt eins og skuggi og hefir ekkert viðnám.“ Sjáið hverja mynd ritningin dregur upp af hvikulu eðli mannsins. Órósemin, flóttinn og viðnámsleysið eru allt andstæður traustsins sem líf okkar þarf að byggja á. Tortryggnin í garð náungans þar sem menn laumast með upplýsingarnar skapar enn meiri tortryggni.

Trúin er andstæða þessa. Trúin ein hlið traustsins. Sá sem trúir er ekki ósvipaður þeim sem gengur inn í kærleikssamband með annarri manneskju eða er reiðubúinn að taka þá áhættu sem felst í því að lifa lífinu til fullnustu. Hann felur áhyggjur sínar og angist við endalok sín í trausti til fyrirheita Guðs eins og þau birtast okkur í hinni helgu bók.

Guðspjall dagsins, þessa síðasta sunnudags kirkjuársins, er að sama skapi óður til traustsins. Þar segir Kristur: „Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins.“ Hugsum okkur þessi orð í ljósi þess sem að ofan var sagt. Að stíga frá dauðanum til lífins er að setja traust sitt á hinn lífgefandi boðskap Krists. Hann færir okkur vonina um eilíft líf. Hann miðlar okkur krafti til þess að takast á við verkefni daglegs lífs. Hann er styrkur okkur í mótbyr og hófsemi í meðlæti. Hann er leiðarljós til betra lífs. Og samfélag okkar við hann grundvallast á trausti.

Á því leikur enginn vafi

Traust er eitt af því sem gerir lífið eftirsóknarvert. Á því leikur enginn vafi. Við eigum að treysta og við eigum að vera traustsins verð. Við eigum að skapa samfélög sem eru grundvölluð á trausti því leitun er að betra hlutskipti fyrir okkur mennina heldur en eimitt slík tengsl. Til þess þurfum við vissulega að hafa yfir nokkrum kostum að búa. Við þurfum að hafa elju og dug til þess að sinna því sem okkur er treyst fyrir. En hitt er enn mikilvægara: að við höfum í hjarta okkar sannfæringu og réttlætiskennd sem tryggir það að kraftar okkar og hugvit nýtist til góðra hluta. Með sama hætti birtist trú okkar á Guð. Hún veitir okkur bæði löngunina og kraftinn til þess að vinna þau verk sem góð eru – þau verk sem vinna að því að efla traust manna á milli. Og sjálf göngum við í gegnum lífið í þeirri fullvissu að við traust okkar til Guðs sé endurgoldið.

Þetta er hið æðsta traust. Þetta er yfirlýsingin um að við felum okkar hinstu rök í hendurnar á Guði og biðjum hann fyrir þeim sem í kringum okkur eru. Í þessu felst þó ekki aðeins fullvissan um að Guð búi okkur öruggt skjól handan dauða og grafar. Traustið nær til jarðlífsdaga okkar og minnir okkur á það að við erum ekki ein í baráttu okkar og viðfangsefnum. Það minnir okkur á það að við höfum æðri gildi til þess að fylgja. Leiðarljós í lífinu sem færir okkur dýmæt skilaboð og dýrmæt sannindi á hverjum degi.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.