Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: "Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?" Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: "Nú á einhver yðar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé?" Þeir gátu engu svarað þessu. Jesús gaf því gætur, hvernig þeir, sem boðnir voru, völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: "Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið, að manni þér fremri að virðingu sé boðið, og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig: ,Þoka fyrir manni þessum.' Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: ,Vinur, flyt þig hærra upp!' Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða." Guðspjallið Lúk. 14.1-11
Eitt af því sem kemur upp í huga minn þegar ég les og heyri frásögn guðspjallsins í dag er hugrekki. Hugrekki Jesú, sem tekst á við ríkjandi og hefðbundin gildi og rótgrónar hugmyndir í samtíð sinni. Það er á margan hátt gott að eiga hefðbundin gildi og grónar hugmyndir, en að sama skapi ómögulegt ef slíkt er farið að vinna gegn velferð manneskjunnar.
Halda skaltu hvíldardaginn heilagan sagði Guð í boðorði sínu og lögmálstrúaðir litu svo á að á slíkum degi mætti alls ekkert aðhafast, meira að segja kærleikur og umhyggja urðu undir í þeirri túlkun. Við það gat Jesús ekki unað og tók til sinna ráða. Hann læknaði sjúkan mann á hvíldardegi frammi fyrir lögmálstúlkendum, fulltrúum hinna hefðbundnu gilda í samfélaginu og vakti þá um leið til umhugsunar. Þeir gátu víst engu svarað þegar Jesús sýndi þeim fram á að ekkert fær stöðvað kærleikann, hvorki lög og reglur í tengslum við hvíldardag né nokkuð annað, kærleikurinn er sígildur.
Jesús fékk sem fyrr viðstadda, farísea og lögvitringa, til þess að hugsa þetta út frá sjálfum sér, ekki síst vegna þess að þeir voru gjarnan í sjálfum sér, og þegar Jesús mætti þeim á þann hátt og gerði þeim fulla grein fyrir því að þeir myndu áreiðanlega ekki geta horft á búpening sinn bjargalausan í brunni, að þá gátu þeir engu svarað. Þeir urðu sem fyrr orðlausir.
Þessi aðgerð Jesú að lækna sjúkan mann á hvíldardegi í óþökk þeirra, sem voru ráðandi eða töldu sig vera það, leiðir hugann að ákveðnum einstaklingum þ.e.a.s. andlegum leiðtogum í sögunni, sem létu ráðandi öfl ekki stoppa sig, voru sannarlega fullir af kjarki og eldmóð. Þeir gengu fram af hreinni auðmýkt, en með kjarnyrt mál og sterkar hugsjónir að vopni, sverð voru ekki inn í myndinni.
Það var ekkert, sem gat þaggað niður í þeim nema vopn yfirvalda og þeir fengu að kenna á þeim. Þó er það nú svo að andi þeirra hefur lifað áfram og hefur enn áhrif á fólk, fjölmargir minnast þessara stóru persóna sögunnar í ljóma. Lífssaga þeirra var ekki ólík sögu Krists.
* * *
Virtur félagsfræðingur Meredith Mcguire hefur skrifað bók, sem tekur á trúarlífi í félagsfræðilegu ljósi. Þar fjallar hún einmitt um þessa gerð trúarlegra og andlegra leiðtoga, sem hún flokkar undir svokallaða “missonary prophets”, boðunarspámenn. Þeir ögruðu óbreyttu ástandi með því að útskýra mismunandi merkingar og gildi, þeir ögruðu t.a.m. hefðbundnum leiðum, ekki bara með gagnrýnisboðum, heldur einnig með að krefjast valds utan stofnsetts valds.
Martin Luther King var bandarískur prestur. Hann var svartur og barðist fyrir réttindum blökkumanna, sem máttu þola gríðarlegt óréttlæti, er átti rætur að rekja til þrælastríðs Bandaríkjanna og gríðarlegir kynþáttafordómar óðu uppi þess vegna. King talaði gegn þessum fordómum og það gerði hann með hið kristna viðhorf að leiðarljósi, það að allar manneskjur eru dýrmætar frammi fyrir almáttugum Guði.
Hann hélt ófáar ræðurnar á opinberum vettvangi og ein sú frægasta ber titilinn “ég á mér draum”, “I have a dream” á frummálinu. Ræðan sú fjallaði um þann draum Kings að einn dag myndu allir njóta sömu réttinda burtséð frá því hvaða hörundslit þeir hafa. Mótmælaganga var þá farin um Washingtonborg, þar sem King flutti umrædda ræðu við minnismerki Lincholns.
Í þeirri göngu var þess krafist að endir yrði bundinn á aðskilnað svartra og hvítra. Hins vegar var það ávallt þannig að Martin Luther King hvatti til þess að frelsisbarátta svartra yrði háð án ofbeldis. Hann var ráðinn af dögum í Memphis í Tennessee-ríki.
Mahatma Gandhi var indverskur lögfræðingur. Hann barðist fyrir sjálfstæði Indlands, sem var bresk nýlenda. Hann varð sjálfstæðishetja og andlegur leiðtogi indversku þjóðarinnar. Gandhi lýsti sjálfum sér framar öðru sem manni í leit að sannleikanum, sem ekki var hægt að ná með neinum öðrum hætti en kærleika og samfélagi við Guð. Sjálfur ætlaði Gandhi sér að gera tilraunir í lífinu með því að ryðja fram notkun á sannleikanum á þann hátt að láta kúgarann og fórnarlambið þekkja sameiginleg tengsl sín og manngæsku eða eins og hann orðaði það sjálfur: “Frelsi er aðeins frelsi þegar það er ódeilanlegt”.
Gandhi var myrtur þegar hann var á leið heim til sín til bænaiðkunar. Áður en Gandhi lést náði hann að blessa banamann sinn. Báðir þessir menn King og Gandhi eru heimsþekktir leiðtogar úr veraldarsögunni og margar mannréttindahreyfingar í heiminum hafa sótt barráttuaðferðir og hugmyndir í smiðju þeirra.
Slíkar hreyfingar beita alls ekki valdi eða ofbeldi í barráttu sinni, en hafa engu að síður oft náð umtalsverðum árangri. Líf Kings og Gandhi einkenndist af trú, hugrekki og löngun til að tala máli sannleikans og réttlætisins.
Þá rifjaði ég hér upp í Seljakirkju um daginn með eldri borgurum sögu danska prestsins Kaj Munk, sem reis upp gegn nasisma í seinni heimstyrjöldinni. Kaj Munk var í hópi þessara manna, sem gleymast seint fyrir trú og kjark og fyrir að tala máli sannleika og réttlætis. Hann talaði hvatvíslega gegn óréttlæti heimsins bæði úr prédikunarstól í litlu prestakalli og á leiksviði í konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn, en nokkur leikrita hans voru sett þar upp.
Nasistar fylgdust með Kaj Munk, rödd hans hafði sterk áhrif og snerti við svo mörgum rétt eins og raddir Kings og Gandhi. Valdsmönnum stóð ógn af honum og sem fyrr var ofbeldi beitt, Kaj Munk var skotinn í höfuðið og skilinn eftir í vegkanti.
Þessir þrír menn, sem ég hef aðeins tæpt á hér áttu það sameiginlegt að tala gegn vá og ógn veraldarinnar, þeir létu hana alls ekki kúga sig, þeir höfðu skoðanir og þorðu virkilega að heyja barráttu gegn ráðandi öflum og viðhorfum þeirra, sem stóðu heilbrigðum þjóðfélögum fyrir þrifum.
King, Gandhi og Munk voru það trúir köllun sinni, að það átti sér engin takmörk, að ógleymdri þeirri staðreynd að Guðs heilagur andi var sannarlega innra með þeim, kjarkur þeirra, myndugleiki og mögnuð skrif eru aðeins brot af því sem ber þess vitni. Að sjálfsögðu eru fleiri einstaklingar sögunnar, sem falla undir þennan sama hatt og umræddir þremenningar, en tökum eftir því að þeir heyra fortíðinni til, það eru því miður fáir nú til dags, sem eru tilbúnir að ganga jafn langt.
Er það vegna þess að öll hugsjón er dauð? Er það vegna þess að samkennd hefur fölnað? Eða er það vegna þess að við lifum í svo gríðarlegum ótta við heimsins ógn, í því tilliti þá ógn sem nefndir þremenningar kynntust aldrei þ.e. hryðjuverkaógninni? Það má víst ekkert segja og ekkert gera, Páfinn er jafnvel ekki undanþeginn.
Mín skoðun er sú að vandinn liggur að mörgu leyti í því að ófáir líta á sig sem kónga, vaxandi samkeppni og græðgi samhliða henni eru þar orsakavaldar og það er fátt annað en það sem drepur hugsjónir.
* * *
Því miður ganga helstu leiðtogar og áhrifamenn þessa heims vestrænir sem austrænir alltof sjaldan fram með góðu fordæmi í þessu tilliti, þeir ganga hins vegar oftar að hefðarsætunum vísum. Þá spyrjum við okkur: Er ekki heimurinn í virkilegri þörf fyrir sterka mannréttindafrömuði og hugsjónamenn eins og King, Gandhi og Munk?
Enginn vill feta í fótspor þeirra, hver vill svo sem fórna lífi sínu? Er það annars heilbrigð veröld, þar sem fórnarkostnaður sannleikans er lífið sjálft, hvers konar veröld er það? Það er veröld, sem óttast sannleikann.
Í bréfi Jakobs bróður Jesú segir:
Nú kemur maður inn í samkundu yðar með gullhring á hendi og í skartlegum klæðum, og jafnframt kemur inn fátækur maður í óhreinum fötum, ef öll athygli yðar beinist að þeim, sem skartklæðin ber, og þér segið: Settu þig hérna í gott sæti! En segið við fátæka manninn: Stattu þarna eða settu þig á gólfið við fótskör mína, hafið þér þá ekki mismunað mönnum og orðið dómarar með vondum hugsunum?
Orð bræðranna Jesú og Jakobs hér í dag benda unga fólkinu okkar, sem hér situr og lítur til framtíðar, á það að hugsjón er stórt ríkidæmi, hefðarsæti og peningar eru þegar upp er staðið alls ekki táknmyndir auðs. Í því ljósi gegnir kirkjan okkar svo stóru og miklu hlutverki í nútímanum, hún minnir okkur sífellt á hrópandann í eyðimörkinni, því það er alltaf maðurinn sjálfur, sem skapar sér eyðimörk lygi og ofbeldis, hvort sem um er að ræða í smærra eða stærra samhengi.
Boðskapur Jesú dregur alls ekki úr þeirri eðlishvöt manneskjunnar að hafa skoðanir, hann hvetur fremur til þess, það er aðeins okkar eigin vanmáttur, sem dregur úr þeirri hvöt. Í kirkjunni kemur fólk saman á jafningjagrundvelli, þar erum við öll þiggjendur frammi fyrir Guði er veldur auðmýktinni, þar erum við öll í sama sæti og því fær ekkert breytt, hvorki staða okkar, kyn eða kynþáttur.
Jafningjasamfélag kirkjunnar er samfélag kærleikans, það er samfélag hugsjóna, sem kennir okkur að greina rétt frá röngu. Á þeim vettvangi lærum við þá kúnst að sjá lífið í nýju og réttu ljósi. Martin Luther King lærði að sjá manneskjur sem manneskjur en ekki þræla, Gandhi lærði fyrir Guðs náð og miskunn að sjá það réttlæti, sem felst í sjálfstæði stórrar þjóðar, Kaj Munk varð vitni að þeim sannleika, sem afhjúpar misnotkun valds og þeirrar mannfyrirlitningar, sem slíku fylgir.
Þremenningarnir brugðust við tilfinningum sínum og sönnum kenndum þrátt fyrir að það hafi kostað þá lífið. Búum til betri heim segir líf þeirra þriggja, lærið af reynslu okkar, þið eigið ekki að þurfa að deyja fyrir málstað, þið eigið ekki að þurfa að deyja fyrir sannan málstað. Kristur er búinn að deyja fyrir okkur og líf hans hvetur okkur og í raun knýr okkur til þess að takast á við vald á allt annan hátt, en saga mannkyns hefur gert. Jesús Kristur hefur nefnilega gefið okkur nýtt boðorð, sem er öllum boðum æðra, hann segir.
Nýtt boðorð gef ég yður að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.
Það er fyrir þessi orð að hvíldardagsboðið öðlast nýja merkingu í huga okkar, það er fyrir þessi orð að líf þeirra hugsjónarmanna, sem ég hef nefnt hér verður virkt í huga okkar, það er fyrir þessi orð að hin knýjandi spurning um tilvist Guðs má ígrunda á jákvæðari hátt en annars.