„... með einum huga stöðug í bæninni“

„... með einum huga stöðug í bæninni“

Það að þú ert kölluð til Fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík en vígð hér af biskupi Íslands í dómkirkju landsins, minnir á það sérstæða samband sem er milli þessara tveggja safnaða.

Einn texta þessa Drottinsdags, 6. sd. eftir páska, er úr Postulasögunni, (1. kafla, 12-14):

Þá sneru þeir aftur til Jerúsalem frá Olíufjallinu, sem svo er nefnt og er í nánd við Jerúsalem, hvíldardagsleið þaðan. Er þeir komu þangað fóru þeir upp í loftstofuna þar sem þeir dvöldust: Það voru þeir Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus, Tómas, Bartólómeus, Matteus, Jakob Alfeusson, Símon vandlætari og Júdas Jakobsson. Konurnar voru einnig með þeim og María móðir Jesú og bræður hans. Öll voru þau með einum huga stöðug í bæninni.

Og síðar segir í næsta kafla:

Þau ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar.

Þetta var þegar uppstigningardagur var að baki og hvítasunnan framundan. Að baki voru 40 dagar þar sem hver stund, sérhver dagur var borinn uppi af návist hins upprisna Jesú. Nú hafði ský numið hann frá sjónum þeirra, og óvissan og efinn lágu á næsta leiti er þeir fetuðu veginn ofan hlíðar Olíufjallsins í átt til Jerúsalem.

Ætli nokkur mynd Nýja testamentisins eigi betur við okkur en einmitt þessi? Ætli nokkur sunnudagur kirkjuársins lýsi betur stöðu okkar en dagurinn í dag, þegar uppstigningardagurinn er að baki og hvítasunnan framundan? Dagurinn sem lýsir því þegar páskarnir eru minning ein, Kristur horfinn sjónum og trúin hefur ekkert við að styðjast nema minninguna og fyrirheitin. Og þessi minning, fyrirheiti, þetta orð leiddi lærisveinahópinn smáa ofan af Olíufjallinu og inn í loftsalinn, að borðinu þar sem þeir höfðu verið með honum forðum, nóttina, sem hann svikinn var. Nú safnast þau saman við þetta borð, um þessa minningu.

Þarna eru nöfn helgra postula, sem sum eru okkur kunn, önnur hreint ekki. Um flesta postulanna fer reyndar fáum sögum. Samvera okkar hér er framhald þess samfélags sem þeir áttu, nöfnin okkar hafa bæst við þessa nafnarunu og þrátt fyrir allt sem aðskilur okkur og þau, er það eitt og hið sama sem tengir okkur: hinn krossfesti og upprisni Kristur, uppfræðsla postulanna, brotning brauðsins og bænirnar. Postulasagan bendir á að þau eru með einum huga stöðug í bæninni, þeirri bæn, þar sem trúin spennir greipar um minninguna og fyrirheit þess Drottins sem birti sjálfan sig í Jesú Kristi og mun aftur birtast í dýrð. Það er ekki bara að vænta og halda krampataki í eitthvað andlegt og óhlutbundið og upphafið. NEI, Það er að brjóta brauðið og hefja upp bikar minninganna og fyrirheitanna. Og bænirnar, að biðja fyrir heiminum með fagnaðarerindið fyrir augum, fagnaðarerindið um réttlætið, fyrirgefninguna og miskunnsemina í lausnaranum krossfesta og upprisna, Jesú Kristi. Þau fengu að sjá fyrirheitin rætast, fyrirheitin sem líf Jesú, orð og verk, dauði og upprisa og uppstigning birta. Þau fengu að reyna og sjá undur og stórmerki Hvítasunnunnar. Það er okkur líka lofað. Þessvegna erum við hér. Þessvegna er kristin kirkja til og horfir fram til þess dags, þeirrar hátíðar þegar allt þetta verður augljóst og opinbert, þetta, sem trúin skynjar innri augum: Jesús Kristur og kærleikur hans, fyrirgefning syndanna og lífið eilífa. Við höfum lifað svo yndislega vordaga, á baksviði hruns og hamfara náttúrunnar höfum við horft á laufin springa út, fíflana opna glókolla sína og páskaliljur brosa við sól, þetta undur sem í vetur huldist í moldu og undir snjó, og lifði þá aðeins í endurminningunni um sumar sem einu sinni var, en lifði þó, þrátt fyrir það að ekkert benti til þess þá. Slík eru lífsskilyrði kristinnar kirkju. Hún er hulin, en væntir sín. Við söfnumst saman um orðið og borðið til að hefja á loft minninguna um lífið sem sigrar, um mátt fyrirgefningarinnar, og til að lyfta fram táknum vonarinnar. Á meðan heimurinn heldur því fram að það sé ekkert annað en þessi gráa vetrarauðn, öskusorti og ömurleiki, þessi alsnjóa einsemd og grátlega tilviljun, þessi kalda gröf og gleymskunnar gráa djúp - og hugsun manns og hjarta verði að venjast tilhugsuninni um vonlausa veröld, guðlausan himinn og tilgangslaust líf, þá vinnur trúin sinn stærsta sigur. Það er EKKI þegar hún horfir til himins á uppstigningardag eða brennur í gný og andans krafti hvítasunnunnar! Heldur þegar hún er einhuga og stöðug í bæninni og samfélaginu, heldur fast í minningarnar og fyrirheitin, þegar ekkert er til að staðfesta það nema Orðið á bókinni góðu, brauð og vín á altari, vatn í skírnarsá, bænin Faðir vor, og veikburða viðleitni til að lifa í samræmi við kærleiksboð Krists.

Án þessa hefði undur hvítasunnunnar tæpast orðið, án þess samfélags, þess þolgæðis og hlýðni, sem fyrir hendi var dagana döpru og daufu eftir uppstigningardag. Og við skulum minnast þess að það verður engin endurnýjun, ekkert vor í lífi þjóðar og kirkju og kristni, án þeirrar trúar, sem heldur sér fast við Krist, minninguna og fyrirheitið, þolinmóð í voninni, trygg við samneytið, staðföst í bæninni.

Þú, kæra systir, þiggur nú vígslu til hins heilaga prests og predikunarembættis. Það að þú ert kölluð til Fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík en vígð hér af biskupi Íslands í dómkirkju landsins, minnir á það sérstæða samband sem er milli þessara tveggja safnaða. Og það er ekkert hégómamál, heldur dýrmæt auðlind í kirkjunni, sem ég vil þakka hér heilshugar. Prestar Fríkirkjunnar hafa ætíð verið innan biskupsdæmis Íslands, menntaðir og vígðir innan vébanda þess. Fríkirkjan hefur sótt presta sína til þjóðkirkjunnar og þjóðkirkjuprestar hafa einatt þjónað Fríkirkjunni í afleysingum. Til dæmis faðir minn um miðja öldina, og eitt sinn var biskupsritari jafnframt prestur Fríkirkjusafnaðarins í Hafnarfirði, og fjölmiðlafulltrúi biskups sömuleiðis um árabil. Prestar hafa oftar en einu sinni horfið frá þjónustu í Fríkirkjunni og til þjóðkirkjusafnaða með embættisgengi sitt óskorað. Þetta hefur verið sérstaða hinna þriggja evangelísk-lútersku fríkirkjusafnaða, þeir eru systur, sem kannski má orða svo að fluttar séu að heiman af þjóðkirkjuheimilinu, en vitandi að ræturnar og sjálfsmyndin er á sama grunni. Og ég bið þess að svo verði áfram. Og ég vona og ég bið að við mættum taka höndum saman í vitnisburðinum, og sækja sameiginlega fram í boðun og þjónustu fagnaðarerindisins meðal þjóðarinnar.

Nú ert þú vígð til prestsembættis. Þú munt krjúpa hér við altarið og finna hendur lagðar á höfuð þér. Við sem þannig leggjum nú hendur yfir þig vorum öll eitt sinn í sömu sporum og þú og hendur biskups og presta voru yfir okkur lagðar. Hún er löng og órofin keðja hinna vígðu þjóna á Íslandi, og þar á undan í þúsund ár í Evrópu allt aftur til þeirra sem nefnd eru í texta Postulasögunnar. Nú bætist nafnið þitt við þá nafnarunu. Það er áminning um að enginn er vígður til þjónustu á eigin vegum. Þó að vígslan sé persónuleg þá er hún kirkjunnar vegna, í umboði hennar. Það er kirkjan, almenn kirkja sem ber þig uppi og biður fyrir þér og sendir þig að þjóna í umboði sínu á grundvelli postullegrar trúar. Kirkjan, hvar sem hún safnast til þjónustu, og hvaða skipulagi og lögum hún lýtur í heiminum, er meira en við, víðari, stærri, dýpri raunveruleiki, hún tók við okkur þegar við komum inn í þennan heim, um það vitnar skírnin þín, og hún mun bera okkur út þegar ævinni lýkur hér. Og hið sanna nafn hennar er geymt í hjarta Guðs – eins og nafnið þitt -.

Guð einn veit hvaða dagur er mestur, hvaða hátíð er hæst, en núna, á þessum kyrrláta sunnudagsmorgni er okkur gefið fyrirheiti um hátíð og sigur og eilífa blessun. Það felst í þessu látleysi og einfaldleika, hlýðni og þolgæði, sem svo er lýst: „Þau öll voru með einum huga stöðug í bæninni....Þau ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar.“ Mætti þessi verða lýsing á lífi okkar og Guðs kristni á Íslandi í frelsararns Jesú nafni. Amen.