Bjarga þú, vér förumst

Bjarga þú, vér förumst

Líklega hefur engin þjóð í Evrópu orðið að gjalda fyrir búsetu í landinu sínu með meiri mannfelli en Íslendingar

Grímur Thomsen var á meðal ástsælustu þjóðskálda okkar. Hann andaðist í lok 19. aldar, orti mörg kvæði, m.a. Á Sprengisandi og Skúlaskeið sem grunnskólabörnin forðum voru látin læra utanbókar. Minna fór fyrir öðru kvæði í Skólaljóðunum eftir Grím og heitir Þorbjörn Kólka. Honum lýsti Grímur í upphafi kvæðisins svona: 

„Á áttræringi einn hann réri, ávallt sat á dýpstu miðum. Seggur hafði ei segl á knerri, seigum treysti hann axlarliðum. Enginn fleytu ýtti úr sandi, ef að Þorbjörn sat í landi.

Vissu þeir að veðurglöggur var hann eins og gamall skarfur, hjálparþurfum hjálparsnöggur, í hættum kaldur bæði og djarfur. Forystu garpsins fylgdu allir, en – flestir reru skemmra en kallinn.

Svo segir skáldið frá afdrifaríkri sjóferð, sem Þorbjörn fór í, og er lýsingin eins og spennusaga þar sem sagt er frá hetjudáðum Þorbjörns Kólka í ofsaveðri. Svona hljóðar fráasögnin:

Spölur er út að Sporðagrunni. Spákonufell til hálfs þar vatnar, og hverfur sveit í svalar unnir, - sækja færri þangað skatnar. Einn þar færi um gildar greipar í góðu veðri Þorbjörn keipar.

Sér hann, upp að sortna dregur suður yfir Kaldbakstindi, hankar uppi, heim er vegur helzt til langur móti vindi. Tekur Þorbjörn þá til ára. Þykknar loft og ýfirst bára.

Á Olnbogamið er inn hann kemur, ofsarok af landsynningi, sópar loft og sjóinn lemur saman upp í skaflabingi. Ein þar hrökklast ferðalaus ferja, fyrðar uppgefnir að berja.

Tók hann skipið í tog á ettir. Tveimur árum hlýddu bæði. Fótinn annan fram hann réttir. Fleyin óðu á bægslum græði. Bólgnar skafl til beggja handa. Bognir menn í austri standa. 

Annað skip með ýta þjáða upp hann tók á Bjargamiði. Fram þá rétti hann fætur báða. Flutu þrjú með sama sniði. Öll þau lentu heil á hófi, en - heldur sár var Þorbjörns lófi.

Margar fórust fiskisnekkjur fyrir Skaga sama daginn. Margar konur urðu ekkjur, yndi og stoð þær misstu í sæinn. En -  þar var eigi Þorbjörn nærri, þær hefðu annars verið færri.

Þessi saga minnir á aðra sögu og var flutt hér í guðsþjónustunni. Þegar Jesús svaf í bátnum á vatninu og skyndilega gerði ofsaveður, lærisveinarnir urðu skelfingu lostnir og hrópuðu á Jesú: „Herra, bjarga þú. Vér förumst“. En Jesús sagði við þá: „Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir“. Síðan reis hann upp og hastaði á vindinn og vatnið, og varð stillilogn. Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta. Jafnvel vindar og vatn hlýða honum“.

Eru ekki augljós líkindi með þessum tveimur sögum, sögunni af Þorbirni Kólka og Jesú Kristi? Sögurnar segja frá baráttu sjómanna við bylgjur hafsins og náttúröflin og uppgjöf mannsins máttar,- nema hjá einum manni sem lætur ekki bugast og bjargar mörgum frá dauða til lífs. Svo er það lof-og þakkargjörðin í lokin og eru af sama meiði.

Ég var staddur í London á í byrjun vetrar á síðasta ári á minningardegi um fallna breska hermenn í stríðum aldanna. Það var minning sem snart breska þjóðarsál djúpt, ekkert annað komst að í fjölmiðlum og beinar útsendingar af fjölmennum og virðulegum samkomum allan daginn. Mér varð hugsað til þess, að svona dag geta Íslendingar ekki átt af því að við eigum engan her og þaðan af síður nokkurn tíma tekið þátt í stríði með hermönnum og mannfalli í slíkum hildarleikjum.

En þó, ekki alveg rétt. Við áttum her manna sem barðist fyrir lífi þjóðar og með miklu mannfalli. Það voru sjómenn aldanna. Enginn hefur tölu yfir það mannfall og þar var miklu fórnað fyrir lífsbjörg og búsetu þjóðar í landinu. Sjómannadagurinn okkar er ekki síst minning um það og auðsýnum föllnum sjómönnum aldanna virðingu og þökk.

Kvæðið um Þorbjörn Kólka eftir Grím Thomsen er baráttusaga, þar sem hetjudáðir gátu bjargað lífi, en líka um trú með Guðs hjálp, gefast ekki upp og rétta náunga sínum hjálparhönd. Kjarninn í sögunni um Þorbjörn er ekki aðeins að bjarga sjálfum sér, heldur öllum sem á leið hans urðu, samtals þremur skipum með áhöfnum. 

Og minnir á aðra sögu úr Biblíunni um slasaða manninn í vegkantinum, en fram hjá gengu tveir menn án þess að líta til með honum og bjarga. Þá bar að miskunnsaman Samverja sem hlúði að hinum særða manni. Og eftir að Jesús hafði sagt þá sögu, þá sagði hann: „Far þú og gjör slíkt hið sama“.

Það er af þessum kristna mannskilningi sem Grímur Thomsen yrkir kvæðið um Þorbjörn Kólka. Engu máli skiptir í þeirri frásögn sannleiksgildið um hvort Þorbjörn bjó yfir svo ofurmannlegum mætti að geta dregið einn með tveimur árum tvo fullmannaða báta á átteyringi sínum gegnum brimskaflana og skilað hólpnum í land. 

Það sem skiptir máli eru skilaboðin og boðskapurinn: „Björgum lífi, fórnum til að elska náungann eins og sjálfan sig, treystum á vonina með Guði og leggjum okkur fram eins og við frekast megnum. 

Þetta var kjölfestan í voninni sem bar íslenska þjóð úr sárri örbirgð inn í nútímann. Þetta er bjargráðið sem nærist af kristinni trú.

Líklega hefur engin þjóð í Evrópu orðið að gjalda fyrir búsetu í landinu sínu með meiri mannfelli en Íslendingar. 

Ekki aðeins til sjós, heldur líka á landi í lífsbaráttu sinni við náttúröflin og fátæktina. Í móðurharðindunum 1783-1785 er talið að 10 þúsund Íslendingar hafi farist eða fimmti hver maður og 75% alls búfjár. Og enn átti mannfalið eftir að halda áfram vegna hungurs, sjúkdóma og fátæktar. Sjómaðurinn gat ekki einu sinni róið til fiskjar, því ekki var til snæri í landinu, og Jón Hreggviðsson í Íslandsklukku Halldórs Laxnes var dæmdur þjófur í tugthús fyrir að hafa snæsrisspotta um mittið. 

Talið var að innan við 50 þúsund manns hafi búið í landinu í upphafi 19. aldar. Um tíma var rætt að flytja landsmenn á Jótlandsheiðar í Danmörku og gefast upp á búsetu í þessu landi. En fólkið þrjóskaðist við, hélt áfram að vona, gafst ekki upp andspænis hörmungum. En fólk flutti líka af landi brott í von um betra líf og fimmtungur þjóðar fór til Ameríku og Kanada á seinni hluta 19. aldar og hlutfallslega langflestir héðan frá Austurlandi.

Íslensk saga er þyrnum stráð lífsbaráttusaga, en líka saga af hetjudáðum, einnig saga af fegurð manns og lands, saga af litrófi mannlífsins og þar var ekkert sjálfgefið. 

Dýrmætt er að kannast við þessa sögu, ekki síst á sjómannadegi, þegar við komum saman, þökkum fyrir lífið og allt sem sjómenn leggja að mörkum og auðlindir hafsins næra. Og allar framfarir í landinu til farsældar.

Staðan í öryggismálum sjómanna er í raun táknræn fyrir þær lífsháttabyltingar sem Íslendingar hafa notið og aðeins á rúmum einum mannsaldri. Nú heyrir það til algjörra undantekninga að sjómaður farist af slysförum við skyldustörfin sín á hafi úti, sem áður var svo algengt. 

Sú minning gleymist mér ekki sex ára gömlum í Hafnarfirði, þegar togarinn Júlí fórst í fárviðri 18. febrúar 1959. Þar fórust 30 sjómenn á aldrinum 16- 48 ára og 39 börn urðu föðurlaus. Minningarathöfnin í Hafnarfjarðarkirkju var svo fjölmenn, að hátölurum var komið upp svo athöfnin ómaði um allan bæinn. Hún geymist mér í hjarta þessi helga kyrrð sem yfir bænum var þennan dag og verður ekki lýst með orðum.

Við eigum mikið að þakka gengnum kynslóðum og framförum til lífsþæginda á öllum sviðum,- og meiri en nokkurn mann gat látið sér til hugar koma. Sá hefði líklega talist galinn sem hefði fyrir 100 árum spáð fyrir um allt sem við eigum og njótum í tækjum og tólum nútímans. Svo halda sumir,- og framganga þannig, að þetta allt sé sjálfgefið eins og það hafi alltaf verið svona. Öðru nær. 

Hvernig myndi nútíminn bregðast við náttúrhamförum í líkingu við þær sem gengu yfir landið á seinni hluta 18. aldar og gerðu landið nánast óbyggilegt um tíma? Flýja á náðir annarra landa? Hverjir myndu bjarga, taka á móti þjóðinni og veita griðarskjól í sínu landi? 

Er einhver þörf á boðskap í kvæði um Þorbjörn Kólka eða Jesú Krist í nútímasamfélagi, þar sem margir þykjast vita allt, geta allt og kunna allt, að vera jafn vel sjálfum sér Guð? Horfum í eign barm og finnum hvar þörfin hrópar. Eftir vináttu, trausti, ást, virðingu, von, tilgangi lífs og gæða, samfélagi þar sem bjargandi samstarfshönd spyr ekki fyrst: „Hvað fæ ég fyrir mig“. Þrátt fyrir alla auðlegð, þá er svo víða hrópað: „Bjarga þú, vér förumst“. 

Á hverjum degi birtast fréttir í fjölmiðlum af hamfara og heimsendaspám vegna loftslagsbreytinga og margir kvarta yfir einangrun og tilgangsleysi, fólk missir og syrgir og enn berst fólk fyrir lífinu andspænis sjúkdómum þrátt fyrir stórstígar og þakklátar framfarir á sviði heilbrigðismála. 

Enn er Guð sem kallar: „Fylg þú mér, elska náungann eins og sjálfan þig“, enn er Þorbjörn Kólka að verki sem er reiðubúinn að bjarga af öllum mætti. Slyasavarna-og björgunarsveitir landsins eru lifandi vitnisburður um það. Og enn er Jesús Kristur kjölfesta í lífi þjóðar og segir: „Því að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf sinn einkason svo hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf“. Í Jesú nafni Amen.

Predikun í sjómannamessu í Djúpavogskirkju 2. júní 2019