Hvað á ég að gera til að öðlast eilíft líf?
Svona hljóðar spurning dagsins hér í kirkjunni og ég geri ráð fyrir því að hún hljómi víðar. Líklega er hún í einni eða annarri mynd sígilt viðfangsefni fólks. Við erum jú dauðleg eins og aðrar lífverur en margt bendir til þess að við ein, njótum þess vafasama heiðurs að vita af þessu hlutskipti.
Heill alheimur Því verjum við nokkrum tíma af ævidögum okkar í að brjóta heilann um lífið og tilgang þess og að spyrja hvort þetta allt taki virkilega enda um síðir. Hvert okkar er í raun heill alheimur - í það minnsta sleppa engar óravíddir við hugleiðingar okkar og vangaveltur, síst af öllu sjálf eilífðin. Því er það vafalítið fylgifiskur þess að hugsa og lifa, að eiga erfitt með að ímynda sér að þessi magnaða meðvitund okkar eigi eftir að hverfa einn dagin.
Þetta er ekkert nýtt af nálinni. Þegar fornleifafræðingar leita að menjum um viti borna forfeður okkar þá er það skýr vísbending ef þeir hafa skapað listaverk eða búið svo um hina látnu að það bendi til vitundar um eitthvað annað og meira en allt það sem hrörnar og deyr.
Við sjáum mörg merki þessa og spurning hins ríka ungmennis ómar víða í samfélagi okkar. Netmiðlar hafa fyrir löngu fundið að smellum fjölgar ef fréttin tengist langlífi - ekki síst ef lykillinn að því er tengdur einhverju ánægjulegu, eins og rauðvínsdrykkju eða beikonáti. Á tónleikum Kórs Neskirkju nú í vikunni talaði Svavar Knútur, söngvarinn góði, um þetta fyrirbæri og sagði að eilífa lífið væri svolítið tengt karlmönnum sem færu að fjárfesta í sportbílum og klæða sig eins og ungir menn, eftir að komið væri fram yfir miðjan aldur. Hann kvaðst ekki sjálfur óttast ellikellingu og endalokin en í þeim orðum býr jú sú viðurkenning að þessi landamæri lífs og dauða eru síður en svo ánægjuleg.
Við þurfum eitthvað sem fær okkur til að sættast við þau. Hann talaði um börnin sín en tilganginn finnum við víða. Stundum verður þessi leit fólk að hreinum harmleik. Angistin við dauðann getur rænt okkur lífsgleði og öðrum verðmætum. Ódæðisverk hafa verið unnin í von um verðlaun handan þessa heims.
Niðurbrotinn viðmælandi Spyrjandinn í guðspjalli dagsins var í það minnsta niðurbrotinn maður eftir samskiptin við Jesú. Þessi samræða dregur þó engu að síður saman í hnotskurn eðli og tilgang fagnaðarerindisins. Það fjallar ekki um fullkomna einstaklinga sem lifa fullkomnu lífi. Sú er ekki köllun þeirra sem fylgja Kristi að máli. Eilíft líf, eru ekki makleg laun fyrir hnökralausa tilveru og óaðfinnanlegar gjörðir. Þess vegna verður spurningin í upphafi eins og markleysa í því stóra samhengi.
Kjarni málsins er jú sá að enginn gerir neitt til að öðlast eilíft líf. Hversu sem á okkur dynja boð um að við eigum að uppfylla hitt og þetta til að öðlast þann sess þá stendur það eftir sem boðskapur frásagnarinnar og allrar ritningarinnar að þegar kemur að hinum æðstu gildum þá erum við eingöngu þiggjendur. Já við mætum Guði okkar ekki eins og samningamenn myndu gera í hinu veraldlega samhengi. Við sækjum ekki okkar rétt, hafa uppfyllt hinar ýmsu kröfur.
Þess vegna hrekkur það svo skammt, hinum unga og auðuga manni þótt boðorðin skyldu hafa verið uppfyllt. Jesús sýnir fram á það hvernig sá sem ætlar að lifa eftir lögmálinu til fullnustu, að endingu steypir sér ofan í botnalausa hít sjálfsréttlætingar. Þarna talar hann í raun máli samviskunnar en að endingu kemur hann að þeirri kröfu sem hann mun ekki geta uppfyllt. Verður það ekki alltaf svo þegar við tökumst á við eilífðina með okkar tímanlegu aðferðum? Svarið sem hann gaf ríka unglingnum kom ekki aðeins við kauninn í honum. Það snertir líka illa á okkur, hverju og einu sem á þetta kann að hlýða. Erum við, frekar en hann, tilbúin að afhenda fátækum allar okkar eignir, varpa frá okkur öryggi, þægindum og velsæld til að höndla hið eilífa hnoss? Er þá eins með okkur farið - eigum við meiri möguleika á að komast inn í himnaríki en úlfaldi í gegnum nálarauga?
Mögulega eigum við reynslu af því að sökkva okkur niður í kviksyndi sjálfsréttlætingar og finna þar aðeins meira dýpi og meira hrun þeim mun meira sem við spriklum.
Innantóm gæska Í raun verður sú gæska innantóm og ósönn sem hefur þann tilgang einan að bæta hlut þess sem henni miðlar áfram. Er það í grunninn eftirsóknarvert að hjálpa og líkna ef það er aðeins gert með það í huga að fá einhver laun um síðir? Gegn þessu talar Kristur. Hann dregur sannarlega skil á milli góðs og ills. Hann tíundar boðorðin og hann bendir á það hversu lofsvert það er að koma vel fram við okkar minnstu systkin. En slíkt gerum við af einberum kærleika. Þetta er ekki gjaldmiðill eða útgreidd fjárhæð til að geta svo öðlast það sem við girnumst síðar.
Guði er ekkert um megn - segir Kristur og um sig sagði hann jú að ekki væri hann sendur til að lækna heilbrigða heldur hina sjúku. Og þar er ekki aðeins átt við skækjur og tollheimtumenn, svo notað sé orðalag guðspjallanna. Nei sjúkdómurinn getur líka falist í skeytingarleysi fyrir neyð náungans og einnig á hinn bóginn - gengdarlaus byrði sem við leggjum á okkar eigin herðar um að uppfylla sífellt strangari kröfur um fullkomnun. Jesús bæði raskar ró okkar þar sem við siglum áfram örugg í sjálfskipuðu réttlæti og huggar okkur af ástúð þegar við finnum að kröfurnar eru okkur um megn.
Kærleikurinn er ekki gjaldmiðill Kærleikurinn er ekki einkamál kristinna manna, sem betur fer. Allir menn hafa í sér viljann og þörfina til að gera gott. Það er náttúruleg löngun sem við þurfum aðeins að geta virkjað. Í dæmisögunni af Miskunnsama Samverjanum var það meira að segja heiðinginn sem vann kærleiksverkið en presturinn og levítinn brugðust á ögurstundu. Þar talar Kristur aftur til okkar úr óvæntri átt og vegur enn að sjálfsréttlætingu og hræsni þeirra sem þykjast hafa sannleikann sín megin í lífinu.
,,Hvað á ég að gera til að öðlast eilíft líf?” Við þessari spurningu er ekkert svar því hún er ekki gild. Guð einn getur ráðið því sem lýtur lögmálum eilífðarinnar. Í þeim viðskiptum erum við aðeins þiggjendur. Við þiggjum fyrirgefningu og náð og kærleika.
En um leið eigum við leiðsögn og leiðarljós um það líf sem verðugt er og hefur svo ríkulegt gildi í sjálfu sér. Líf sem lætur stjórnast af ríkri löngun til að bæta hag náungans og efla veg kærleikans í hrelldum heimi. Og nú þegar við stöndum frammi fyrir neyð og þungri þörf í umhverfi okkar þá talar þessi boðskapur til okkar. Hann talar til okkar, ávarpar í okkur mennskuna og spyr hvað við ætlum að aðhafast til að geta bætt líf þeirra sem búa við hörmungar og skort. Þau verk vinnum við af ást til náungans sem er að endingu það sem mestu varðar í því lífi sem við lifum hér og nú.